Veður á Ísó í dag og smá-langloka um fiskiveiðar.

Veðrið í dag var svona;

 

Fyrst var dumbungur.

IMG_0407

Eins og sjá má. 

En svo leið að hádegi, og þá var veðrið svona,

IMG_0409

IMG_0410

IMG_0411

Bara hið besta veður eins og sjá má.

 

En ég setti hér inn um daginn langloku sem sennilega fáir nenntu að lesa nema bloggvinkona mín hún Jenný.  En ég ætla mér að setja hér inn aðra.  Þeir sem ekki nenna að lesa stoppi bara hér við fjöllin og lygnan fjörð.

 Hér kemur hún:

Ég skrifaði langloku um daginn um bændur og heimaslátrun, og lagði út af grein sem ég las í Bændablaðinu.   Málið er, að það sem ég ræddi þar, er voðalega líkt ástandinu sem er í sjávarútvegi.  Það eru tveir flöskuhálsar í þessu samfélagi, sem þyrfti að takmarka völdin hjá.  Það þarf að gerast með stjórnvaldsaðgerðum.  Alveg eins og sláturhúsaleyfishafar viðhalda einokun og halda uppi kjötverði hér á landi, með því að sitja einir að slátrun húsdýra, nema til heimabrúks, með allskyns ótrúlegum lagaflækjum og rugli, þá sitja stórútgerðarmenn að langstærstum hluta leyfa til að stjórna því hverjir mega veiða fiskinn í sjónum.  Þar er hvorki skeytt um heill sjávarbyggða, eða landsbyggðar yfirleitt, og heldur ekki verið að spá í skynsamlega nýtingu sjávarfangs.  Þar ríkir græðgin ein.  Og því miður alveg eins og í landbúnaðinum, hafa þeir stjórnvaldsboðin rétt til þessa arna.   Hér þarf að breyta um kúrs.  Ef menn vilja raunverulega halda landinu í byggð, en ekki bara stuðla að Borgríkinu Reykjavík.  Þetta var í huga Einar Odds áður en hann kvaddi þennan heim, í viðtali sem hann veitti Bæjarins Besta á Ísafirði, hafði hann einmitt áhyggjur af því að hér stefndi allt í þá átt að gera Ísland að Borgríki.  Mörgum stóreignamanninum hugnast það bara vel.  Þeir hugsa ekki um annað en útrás og gróða erlendis frá, þá flækist landsbyggðin bara fyrir þeim, í gróðabröltinu.   Hér verða örugglega einhverjir reiðir og segja að þetta sé bull og kjaftæði.  Sama er mér.  Hér áður fyrr byggðist landið upp í kring um sjávarútveginn, þeir bæjir voru sterkastir sem styst var á miðinn, eins og Ísafjörður til dæmis.  Hver sá maður sem eignaðist bát, gat farið út að veiða fisk og selja hann í frystihúsin, þurrkað hann, eða selja til Nigeríu sem skreið.  Faðir minn byrjaði einmitt svoleiðis með tvær hendur tómar, vann sig upp í góðar álnir með sínum dugnaði og útsjónarsemi.  Hann var einn af þessum forkólfum í sínu samfélagi, orð hans voru jafngild undirskrift, handsal hans á við löggiltan skjalapappír.  Þeir voru þannig þessir gömlu kappar, enda voru þeir burðarvirki sinnar sveitar.  Bóndi er bústólpi, var sagt um mektarbændur, gömlu sjávarútvegsbændurnir voru líka bústólpar.  Það var ekki sú uppákoma eða listaviðburður sem þeir styrktu ekki, eða ef einhver átti í örðugleikum, þá var í kyrrþey rétt hjálpandi hönd. Það er óravegur frá þessum veruleika í dag.  Nú verða þeir einir ríkir sem kunna á kerfið, kunna að hygla sjálfum sér og gefa skít í allt mannlegt samfélag.  Kemur þeim ekki við þó þeir rústi heilu byggðalögunum,  bara ef þeir græða nóg.   Enda hafa byggðirnar goldið fyrir þetta því miður.  Á æ fleiri stöðum á landsbyggðinni situr fólk eftir með sárt ennið.  Húsin verðlítil og ótrygg atvinna.  Veiðirétturinn var tekinn af þeim sem áttu að erfa landið.  Og settur í púkk til að gefa kvótagreifum, börnum þeirra og ættingjum.  Í dag getur enginn bleytt veiðarfæri í sjó, nema að spyrja um leyfi hjá fólki sem ef til vill aldrei hefur migið í saltan sjó.  Hvernig gat það gerst að þeir sem stunda sjóinn og verka aflann voru sviknir svo illa ?Jú, allt er þetta gert í nafni hagræðingar, og fiskverndar. En hvar er sú  hagræðing og fiskvernd?Satt að segja hafa skuldir sjávarútvegsins aldrei verið meiri, og fara síhækkandi.  Hvað varðar verndun fisksins, þá virkar kerfið sem menn fundu upp, þveröfugt, og afli fer síminnkanndi, og það má ekki einu sinni skoða það hvernig á því stendur.  Það má ekki ræða þessi mál, þau eru of viðkvæm fyrir þá sem fyrir þessu standa.  Það er vont að hafa slæma samvisku.   Það er að æra óstöðugan að tala um fiskveiðistjórnunarkerfið og hvað betur má fara og hvað þarf að gera, því svo oft hefur verið um það ritað langar greinar, góðar umræður og fagmenn, sem þekkja vel til, sagt sitt um þau mál.  En allt kemur fyrir ekki.  Þetta skal þagað í hel.  Okkur sagt að sjómennskan sé nú ekki lengur það afl sem hræri íslenskt samfélag ?Hvenær það geriðst veit ég ekki nákvæmlega, en ástandið eins og það er í dag, er einmitt vegna aðgerða stjórnvalda, sem færðu á sínum tíma nokkrum mönnum réttinn til að lifa og drottna, meðan aðrir sátu eftir .  Þeirra er skömmin.   Það alvarlega í þessu máli öllu, og það sem er hvað mest óþolandi í kerfinu, er hvernig menn eru gerðir að glæpamönnum, án þess að þeir geri nokkurn skapaðan hlut af sér, nema að reyna að bjarga sér.  Síðan kvótinn var settur á, verða menn að hafa slíkan til að róa til fiskjar.  En málið er að fiskurinn í sjónum kann ekki að lesa og veit ekki að þessi bátur er búinn með sinn kvóta,  og þó hann megi veiða ýsu, þá er bannað að koma með þorsk.  En segjum svo að við skulum segja 45 þorskar komi nú upp með ýsuaflanum.  Hvað gerir sjómaðurinn þá ? Hann má ekki koma með hann í land, hann má heldur ekki kasta honum útbyrðis.  Það er alveg sama hvað hann gerir, hann er orðin að glæpamanni.  Ég segi er þetta hægt ?Þetta er samt minnsta vandamálið, því þetta kvótakerfi býður einfaldlega upp á brottkast, því þegar menn eru með svona takmarkanir, þá vilja þeir koma með góðan afla að landi.  Sjómönnum er því oftar en ekki uppálagt af útgerðarmanninum að koma bara með stóra fiskinn að landi.  Honum er alveg sama hvernig það er gert.  Og það veiðir enginn bara stóran fisk.  Sá litli slæðist alltaf með, og hlýtur þau örlög að verða kastað dauðum útbyrðis.   Ef fólkið sem stjórnar veit þetta ekki, eða heldur að þetta sé öðruvísi, þá ætti það að fá sér aðra vinnu.  En ég er alveg viss um að ráðamaður,  segjum ráðherra,   tala nú ekki um ef hann  er alinn upp í litlu sjávarþorpi úti á landi og á auk þess sitt undir því að vera sonur útgerðarmanns, veit betur.  Sem þýðir að svoleiðis maður lokar augunum fyrir vandamálinu.  Vill ekki vita af því, eða finnst þægilegra að láta þetta bara danka.  Meðan öll þjóðin tapar gífurlegum verðmætum í formi brottkasts, gambls með veiðiréttindi og skipti á aflaverðmætum og sumarhöllum á Malibú, þá situr lítill karl og finnst hann vera beittur rosalega miklu þrýstingi.    Ég myndi vilja sá hve miklum fjármunum ríkissjóður og við öll höfum tapað á þjóðarvísu á þessu arfavitlausa kerfi og afleiðingum þess.  Og það er fyrir utan erfiðleika og persónulega harmleiki um allt land, þar sem fólk er að missa lifibrauðið, lífsstarfið gert að engu, meðan púkinn á fjósbitanum fitnar sem aldrei fyrr.  Og stendur ekki í stjórnarskránni eitthvað um að allir eigi sama rétt hér á landinu.  Eða á það bara við um suma en ekki aðra.   Er þetta ekki bara spurning um Litla Jón og Séra Jón ?

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Árni Gunnarsson

Það er mín skoðun að í jafn stóru pólitísku máli sem þessu þurfi stundum að taka til máls með meiri alvöruþunga en hægt er að gera í fáum setningum.

En sumum er auðmýktin til alþingismanna svo inngróin að þeir vilja láta þögnina gilda.

En þetta var skörp og mögnuð hugvekja. 

Árni Gunnarsson, 23.11.2007 kl. 20:17

2 Smámynd: Huld S. Ringsted

Frábær pistill hjá þér Ásthildur (ég hlýt að hafa misst af hinum). Ég verð alltaf svo reið yfir því hvernig komið er fyrir sjávarútveginum og að einhverjir örfáir skuli hagnast í það óendanlega á kostnað landsbyggðarinnar og litlu útgerðanna. Við finnum alltaf meira og meira fyrir þessu með hverjum deginum sem líður í okkar útgerð, sitjum föst í þessu, getum ekkert gert til að losna meðan skuldirnar aukast alltaf meira og meira. Það má eiginlega segja að við bíðum bara eftir dómsdeginum og ég veit að það eru óhugnanlega margar útgerðir, stórar og smáar sem eru í sömu sporum.

Þetta er óþolandi að þessi fyrirtæki sem eru kannski búin að vera við líði í mörg ár, eigendurnir vinna myrkranna á milli til að byggja þau upp skuli tapa öllu nánast með einni undirskrift á vitleysunni sem hefur verið við líði í mörg ár. Og svo er ekki hlustað á þá menn sem hafa hvað mesta vitið á því hvað er að gerast í sjónum - sjómenn. Það er eins og það sé litið á þá sem einherja rányrkjumenn sem vilja þurrausa sjóinn af öllum fisk, meðan staðreyndin er svo sannarlega algjörlega á hinn veginn. Fyrirgefðu langlokuna, ég bara verð svo reið þegar ég hugsa um þetta allt.  Takk fyrir góðan pistil Ásthildur mín, landkrabbarnir sem lítið spá í þessi mál þyrftu að lesa hann

Huld S. Ringsted, 23.11.2007 kl. 20:21

3 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Hm, nú las ég á hundavaði.  Utan áhugasviðs en ég er alltaf til í að læra.

Myndir geggjaðar.

Jenný Anna Baldursdóttir, 23.11.2007 kl. 20:33

4 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Fallegar myndir að vanda.  Ég las um heimaslátrunina og þetta núna og ég gæti ekki verið meira sammála þér. Því er verið að bugta sig og beygja fyrir alþingismönnum, þeir eiga ekkert inni hjá okkur og  eru hvort eð er ekkert að gera fyrir okkur heldur. Kær kveðja vestur.

Ásdís Sigurðardóttir, 23.11.2007 kl. 20:41

5 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk öll sömul.  Já Huld mín, ég verð líka alltaf svo reið þegar ég hugsa um þessi mál og allt óréttlætið sem því fylgir.  Ég þekki nokkra smábátasjómenn, (líka konur) sem hafa lagt allt í sölurnar harðduglegt fólk sem virkilega vill halda sínum hlut, en má sín enskis gegn endalausri niðurrifsstarfssemi frá stjórnvöldum, sem hreinlega vilja ekki vita um hvað málið snýst.  Ég verð til dæmis að benda á séra Karl V.  Matthíasson, þann góða og grandvara mann, sem ætlaði svo sannarlega að berjast fyrir sjávarútvegsplássum landsins.  Það heyrist ekki múkk í honum á alþingi í dag um þessi mál.  Nema hvað hann kvakaði í haust til að verja það að rannsókaraðilar voru að skarkast upp í harðalandi með troll.

Þeir einu sem einarðlega tala fyrir sjávarútvegsmálum eru Frjálslyndir.  Þeim virðist einum vera treystandi til að halda þessu máli til streytu.  Þar fara fremstir í flokki Guðjón Arnar og Kristinn H. Gunnarsson.  Magnús Þór og Sigurjón Þórðar eru líka skeleggir málssvarar og svo má nefna Kristinn Pétursson.  En hann fylgir ennþá Sjálfstæðismönnum, hvernig sem það er nú hægt. 

En hér þarf virkilega að taka til og ræða málin, og ekki láta það gleymast.  Eða eins og Einar Kristinn sagði, ég vorkenni ekki sjómönnum að fara í land, þeir geta bara farið að mála.  Svo mörg voru þau orð.   enda hef ég virkilega skömm á þeim manni.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 23.11.2007 kl. 22:05

6 Smámynd: Kristín Katla Árnadóttir

Fallegar myndir hjá þér að vanda ég er svo sammála þér elsku Ásthildur mín.

Kristín Katla Árnadóttir, 23.11.2007 kl. 22:34

7 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk ljúfust mín

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 23.11.2007 kl. 22:41

8 Smámynd: Jens Guð

Snilldar pistill og flottar myndir.

Jens Guð, 23.11.2007 kl. 23:20

9 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk Jens minn.

Góða helgi líka elsku Arna mín.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 23.11.2007 kl. 23:34

10 identicon

Takk fyrir góðan pistil.Ég get svo sannarlega tekið undir með þér og ég tala nú ekki um arðránið á sjálfsbjargar viðleitninni.Hendur bundnar.Málið í höfn???.

Þórarinn Þ Gíslason (IP-tala skráð) 24.11.2007 kl. 04:19

11 identicon

Í hvert sinn sem ég kem heim ,fer ég alltaf um bæinn og " REFLEXA "  (ENDURUPPLIFI) gamla góða bæinn minn.(og þinn.) Oft stend ég þar sem var Rækjuverksmiðja Guðmundar og Jóhanns við hliðina á  Edinborg.  þÁ endurupplifi ég bæinn,með mjórri eyrinni og á vinstri hönd í fjörunni þar hjá svona um 50 metrum frá var fólk að veiða SMOKKFISK á haustin, hann kom þarna bara svona eitt til tvö kvöld.. Og fólkið með vasaljós og föturnar til  að setja fiskinn í.   Sjá svo allt hafnarsvæðið verða til á nokkum áratugum. Betrumbætt aðalhöfnin og síðan allt það undur sem SUNDAHAFNARVÆÐIÐ ER  OG allur sá dugnaður sem var í Ísfirðingum og innfluttum Ísfirðingum, um að gera vel. EN  hvað og hvað nú árið 2007. Ásthildur,það er svo mikið til að pennafæru fólki þarna fyrir vestan. Það væri alls ekki svo vitlaust að setja þessa hörmungarsögu á blað. Ísafjörður er talandi dæmi um alla hina staðina,sem hafa fengið svipaða meðferð.Ég og svo margir sem fórum "SUÐUR" erum þarna samt sem áður. ÞARNA  eru RÆTUR OKKAR.

Þórarinn Þ Gíslason (IP-tala skráð) 24.11.2007 kl. 04:37

12 Smámynd: Huld S. Ringsted

Ásthildur, ég þyrfti svo að ná tali af þér, gætir þú sent  annaðhvort emailið þitt eða símanúmer á mig? emailið mitt er í höfundarboxi hjá mér.

Huld S. Ringsted, 24.11.2007 kl. 09:40

13 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Já það er alveg rétt hjá þér Þórarinn minn.  En það hafa komið út bindi mig minnir að þau heiti Saga Ísafjarðar, eftir Jón Pál Halldórsson. Þann góða dreng.  En það er alveg rétt, að það mætti draga meira saman þessa útgerðarsögu og sjálfsbjargarviðleitni bæjarbúa. 

Það er óþolandi að allt það unga fólk sem vill koma aftur heim og lifa og starfa skuli ekki fá til þess tækifæri.  En ég er einhvern veginn viss um að okkar tími mun koma aftur.  Ef við höfum gæfu til að breyta, og fá meiri kraft í bæjarstjórnina sjálfa.  Þar þarf að fá ungt og gamalt kraftmikið fólk, sem virkilega vill vinna að uppbyggingu bæjarins.  Þar vantar svolítið á að mínu mati. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 24.11.2007 kl. 11:00

14 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Búin að svara Huld mín.  Láttu mig vita ef þú færð ekki mailinn.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 24.11.2007 kl. 11:01

15 Smámynd: Huld S. Ringsted

Ásthildur það hefur ekkert mail komið.

Huld S. Ringsted, 24.11.2007 kl. 11:56

16 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Búin að senda aftur Huld mín.  Taka tvö.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 24.11.2007 kl. 12:46

17 Smámynd: Kristín Katla Árnadóttir

Ég las greinina þína núna  Ásthildur mín og ég er alveg sammála þér.Ég verð svo reið.

Kristín Katla Árnadóttir, 24.11.2007 kl. 13:05

18 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Þetta er svo mikið óréttlæti Katla mín, að maður verður reiður af tilhugsuninni um stöðu þess fólks sem vinnur hörðum höndum að að sækja björg í bú, úr hafsins djúpi.  Þeim er gert erfiðara sífellt að lifa af.  Og allt út af því að það er verið að hygla einhverjum öðrum, sem vilja bara græða meira.  Þetta er svo ljótt og andstyggilegt. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 24.11.2007 kl. 14:10

19 Smámynd: Steingrímur Helgason

Ein góð vísa þarna aldrei nógu oft kveðin & eins & þín er nú vísast, verulega vel framsett.

S.

Steingrímur Helgason, 24.11.2007 kl. 18:38

20 identicon

Hver hefði trúað því að ORÐ JÓHÖNNU ættu eftir að rætast.           Það sama segi ég um Ísfirðingana.              YKKAR( OKKAR) tími mun KOMA------------spurning um tíma.                 Og fyrir alla LANDSBYGGÐINA LÍKA.

Þórarinn Þ Gíslason (IP-tala skráð) 25.11.2007 kl. 05:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Höfundur

Ásthildur Cesil Þórðardóttir
Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Tónlistarspilari

Ásthildur Cesil - Dagdraumar
Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • 2f19c636fb68b249555c5fa250d3e103--russian-image-jellyfish
  • engill-angel
  • jolatre
  • 20171002 121526
  • gasometers-vienna-7[5]

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 32
  • Frá upphafi: 2022942

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 29
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband