Hver er afstaða þín í þessu máli ?

Nýlega svifti ungur maður sig lífi á Litla Hrauni.  Hann er ekki sá fyrsti, og verður heldur ekki sá síðasti, því miður. Þó hann hafi ekki verið í fíkniefnum, þá eru vandamálin þar svo sannarlega til staðar.

Ég hef fylgst með þessu tiltekna dæmi í ákveðinni nálægð. Og sjálf hef ég verið í nálægð við þessar aðstæður.  Ég tel mig þess vegna getað skilið þær nokkuð vel.

 Hver er afstaða þín ?

Ef til vill finnst sumum líf þess fólks sem hefur orðið eiturlyfjum að bráð ekki skipta miklu máli.  Maður hefur svo sem fundið fyrir þeim umræðum í samfélaginu.  En almenn mannréttindi sem tryggð eru í stjórnarskránni eiga nú samt sem áður við um þau líka.  Þau eru manneskjur eins og aðrir með sína drauma og óskir.  Auk þess á hver og einn fjölskyldu sem elskar þau, föður, móður, bræður, systur, börn og maka, afa og ömmur.  Það er stór hópur kring um hvern og einn.  Hópur sem líður illa vegna ástandsins.

Þrýstihópur.

Það er alveg ljóst að þetta er ekki þrýstihópur.  Fíklar kvarta ekki yfir illri meðferð, eða skilningsleysi samfélagsins, þeir hafa fengið skilaboð um að þau séu annars flokks og það þýði ekkert.  Aðstandendur eru heldur ekki þrýstihópur, bara það að þurfa að takast á við ástand kring um fíkil dregur allt baráttuþrek úr fólki, svo að það hefur enga orku til að berjast við kerfið. 

 Hvað er til ráða ?

En það þarf eitthvað að gera.  Sjálfsvíg fíkla er mein alls samfélagsins.  Við erum öll samábyrg fyrir því ástandi sem þvingar þá til að taka sitt eigið líf.  Ég er viss um að þeir gera það til að rjúfa þann vítahring sem þeir eru í, þegar þeir finna enga aðra leið út.

 Vítahringur.

Hver er sá vítahringur ? Jú, það kostar óhemju fé að útvega sér eitur.  Til að fjármagna neyslu neyðast þau út í innbrot og þjófnaði.  Þá er stutt í handtöku, dóm, síðan tekur við bið eftir fangelsisvist, sem getur orðið nokkuð löng, og er hræðilega sálarslítandi, loks innilokun, oft útskúfun.  Þegar komið er út aftur tekur ekkert við annað en gatan, oft hafa þeir komist í sambönd inni, sem gerir þeim kleyft að lifa fyrra lífi áfram.  Í sumum tilfellum bíður þeirra einhver sem er tilbúin að útvega þeim efni ef þeir sinna ákveðnum málum, svo sem eins og innbrotum, vændi eða jafnvel innflutningi á efnum.

Það er auðvitað hægt að fara í meðferð, og í byrjun er örugglega hægt að forða sumum frá því að fara lengra.  En eftir því sem vítahringurinn stækkar, því minni líkur eru á að hægt sé að rjúfa hann.  Í sumum tilfellum er alltaf í gangi bið eftir fangelsisvist, og því erfitt að fara í meðferð, meðan slíkt ferli er í gangi.  Og ég veit að menn hafa verið teknir úr meðferð til að vista í fangelsi. 

 

Málið snýst um að rjúfa vítahringinn.  Og það gerir fíkillinn ekki sjálfur af eigin rammleik, þegar hann er orðin forfallinn.  Það gera heldur ekki aðstandendur, því þeir hafa enginn úrræði.  Meðferðarstofnanir taka ekki inn fólk sem er í neyslu, og alls ekki ef fíkillinn neitar eða gefst upp.  Geðdeild Landspítala tekur ekki inn fólk, nema með ráðleggingum læknis, og ekki ef fíkillinn vill ekki eða gefst upp.  Í öllum tilfellum geta menn labbað sig út úr meðferð. 

 

Fíkill í neyslu hefur enga stjórn á lífi sínu, en þar sem ég þekki til, þá er viljinn til að hætta, en getan enginn. 

Lokaðar meðferðarstofnanir. Svo hvað er til ráða ?

Á hinum norðurlöndunum eru til lokaðar meðferðarstofnanir, þar sem fíklar eru dæmdir í meðferð.  Í Danmörku veit ég að er/eða var starfandi á vegum fangelsismálastofnunarinnar afbrotafræðingur/ félagsfræðingur, sem hefur það verk með höndum að yfirheyra viðkomandi og skoða hvort líkur séu á að hægt sé  að laga ástandið.  Þá er hann dæmdur í lokaða meðferðarstofnun.  Á þessar stofnanir er líka hægt að koma fólki, sem ekki á yfir höfði sér fangelsi.  En það er dýrt fyrir einstakling. Ég skoðaði það dæmi fyrir nokkrum árum og það voru nokkrar milljónir sem það kostaði.  Á þessum stofnunum er unnið eftir 12 sporakerfinu.  En menn þurfa ekki að vera “motiveraðir” eins og það er kallað.  Og ef þeir strjúka eru þeir leitaðir uppi og verða að byrja upp á nýtt.

 Hvað um Krýsuvík ?

Ég tel að hér á landi sé orðin nauðsyn á því að koma á legg svona stofnun.  Það væri til dæmis hægt að auka starfsemi Krýsuvíkursamtakanna,  auka þar við starfsfólk og jafnvel byggja nýtt húsnæði, sem hentaði.  Krýsuvík er góður staður, fallegur rólegur og hefur allt það góða að bjóða upp á sem hægt er að hugsa sér.

Þarna þyrfti að vera öll aðstaða til að takast á við fíknina,  fagfólk og eftirlit. 

 

Við getum ekki lengur beðið eftir því að eitthvað gerist.  Hér verður að grípa inn í og fara að vinna að málunum.  Hvert og eitt líf er ómetanlegt, og það er hægt að hjálpa flestum upp úr þessu víti.

 Ráðstefna um málefni fíkla og aðstandenda þeirra.

Svo vil ég koma á framfæri þeirri ósk minni, sem ég hef talað um lengi, að koma á ráðstefnu um málefni fíkla.  Ráðstefnu þar sem allir hlutaðeigandi tækju þátt. 

Þeir sem þurfa að koma að slíkri ráðstefnu eru; Dóms- og kirkju málaráðuneytið, og aðilar tilheyrandi þeim, lögreglan, fangelsisyfirvöld, dómarar.  Landlæknisembættið, og þar undir læknar og hjúkrunarfólk.  Meðferðarstofnanir.  Afbrotafræðingar, sálfræðingar og geðlæknar.  Lögmannafélagið.  Félgasmálaráðuneytið, þar undir félagsmálayfirvöld og barnaverndarsamtök.  Tryggingafélög.  Aðstandendur fíkla og fíklar.

Menn sjá á þessari upptalningu að vandamálið teygir sig mjög víða í samfélaginu.  En allir þessir aðilar hafa að einhverju leyti með vandamálið að gera. Hver og einn í þessum upptöldum aðilum kemur að málinu á einhvern hátt.  Saman geta þeir gert stórátak í því að skilgreina vandann, og athuga hvort ekki er hægt að vinna betur að þessum málefnum.  Hver í sínu horni með sína vitneskju er ekki nógu gott, því það vantar sjónarhorn hinna.  Það má gjarnan bæta sjoppu- og verslunareigendum og almenningi þarna inn, því ferill fíkla snertir alla mannlega þætti samfélagsins.

 

Það eru flestir sammála um að ástandið í okkar litla samfélagi sé orðið óþolandi.  Sífellt fleiri ánetjast, og alltaf yngist hópurinn.  Hvernig þetta má vera í ekki stærra samfélagi en hjá okkur er mér óskiljanlegt.  En við þessu þarf að bregðast.  Auðvitað er forvörnin nauðsynlegust af öllu.  En hún ein og sér er bara ekki nóg.  Það vantar svo mikið á að hitt sé í lagi.  Ég er foreldri sem hef kallað út í tómið.  Ég hef upplifað það varnarleysi sem maður fyllist, þegar allstaðar eru luktar dyr, og ekkert til ráða.  Það vantar eitthvað svo mikið upp á að við foreldrar getum einhversstaðar fengið aðstoð, þegar allt er gengið svo langt að vonin er varla til ennþá.  Verst er þó skeytingarleysið og undirtónninn sem gefinn er að fíklar bara megi eta það sem úti frýs, þau séu til óþurftar.  Einhvern tíma voru þetta börn með drauma um góða framtíð.  Einhversstaðar á þeirri leið gerðist eitthvað í þeirra lífi sem svipti þá þeim draumi.  Þau villtust af leið.  En þau eru fólk eins og við, og þau eiga sín réttindi eins og aðrir.  Þau eiga rétt á því að við setjumst niður og reynum að leysa úr þeirri flækju sem nú er.  Það verður ekki gert, nema vilji sé til þess, og að við áttum okkur á því að þau koma okkur öllum við. 

Meðan þau eru á götunni, eru þau gangandi hætta fyrir alla, og sjálfum sér verst.  En við sem samfélag eigum og verðum að fara að hugsa okkar gang.  Hvort við viljum óbreytt ástand, eða hvort við viljum gera eitthvað róttækt til að breyta ástandinu.

 

Mig langar til að biðja þá sem þetta lesa, og eiga í svipuðum sporum, eða þekkja vel til að leggja inn sitt álit á málinu.  Hér verða allir að leggjast á eitt að koma þessu ástandi á betri veg.  Hér má enginn skorast undan.  IMG_3810


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristín Katla Árnadóttir

Ég er alveg Sammála þér í þessu máli það verður að gera eitthvað í svona málum strax allir verða að hjálpa til svona gengur ekki til lengdar.

Kristín Katla Árnadóttir, 29.8.2007 kl. 11:25

2 Smámynd: Ragnheiður

Sendu mér e mail, ég finn ekki emailið þitt hérna

Ragnheiður , 29.8.2007 kl. 11:27

3 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Búin að senda þér það Ragnheiður mín.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 29.8.2007 kl. 11:48

4 Smámynd: Ester Júlía

Vá rosalega var þetta góð grein/pistill hjá þér Ásthildur mín.  Eins og skrifað frá mínu hjarta.  Ég er sammála hverju orði og hef engu við þetta að bæta.

  kv. Ester

Ester Júlía, 29.8.2007 kl. 12:35

5 Smámynd: Huld S. Ringsted

Ég er svo innilega sammála þér Ásthildur, það verður að fara að gera eitthvað til að breyta þessu.

Huld S. Ringsted, 29.8.2007 kl. 13:31

6 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Þetta er frábærlega vel skrifuð grein hjá þér Ásthildur. Vandamálið er svo hrikalegt að fólk kýs í stórum stíl að horfa fram hjá því og láta sem ekkert sé, þannig sé þetta ekki vandamál, allavega ekki þeirra sem eiga fíkil í fjölskyldu sinni. Þetta vandamál er orðið eins, eða jafnvel enn verra en aðbúnaður eldri borgara í landinu. Það hefur verið sagt undir rós, að gamalt fólk taki líf sitt með lyfjum því það er orðið útundan. Sem móðir fíkils þekki ég þetta örlítið, ekki mikið en samt. Sonur minn var búinn að vera í alls kyns efnum í marga mánuði áður en við vissum af því, hann bjó þá í bænum ekki hjá okkur. Þegar við komumst að vandanum gerðum við nokkuð sem enginn á að þurfa að lenda í að gera. Við hentum barninu okkar út. Sögðum öllum í fjölskyldunni hver staðan væri og báðum fólk um að hjálpa honum ekki. Eftir 12 daga á götunni fékk hann aðstoð sem hann þurfti að útvega sér sjálfur, Vogur, geðdeild ofl. tók við og hann ætlaði sko aldrei að tala við okkur aftur. 2 mán. liðu og hann féll aftur og svo komst hann á botninn aftur og varð að bjarga sér, geðdeild, Vogur, Staðarfell og svo kom hann út. Þá kom drengurinn minn aftur.  Síðan þá hefur leiðin legið upp á við og við tökum einn dag í einu. Hann vinnur, leigir sér og sér algjörlega um sig peningalega, hann á okkur að og við heyrumst á hverjum degi og hittumst þegar við getum. Miklir kærleika eru á milli okkar allra í fjölskyldunni í dag og við notum hvert tækifæri til að hrósa honum. Er á meðan er og við gleðjmst yfir því góða.   EN að henda barninu sínu út er hryllingur, ég grét í viku og hann hataði mig í marga mánuði. Við völdum þessa leið, hún virkaði fyrir okkur en örugglega virkar hún ekki fyrir alla aðra, mig langaði bara að deila þessu og ef væru til samtök foreldra fíkla, þar sem fólk gæti komið og leitað í reynslubanka okkar sem höfum prófað þetta á mismunandi hátt, þá væri það frábært, ég væri til í að taka þátt í slíku.

Ásdís Sigurðardóttir, 29.8.2007 kl. 14:03

7 Smámynd: Laufey B Waage

Ég er svo lánsöm, að enginn af mínum nánustu hefur orðið eiturlyfjum að bráð. Samt tek ég heils hugar undir orð þín - og finnst pistillinn þarfur. Vonandi lesa hann sem flestir, og vonandi verður eitthvað GERT til úrbóta. Ég skil ekkert í ráðamönnum, að það skuli ekki vera búið að - eða í bígerð að koma á fót lokuðu meðferðarúrræði eins og þú lýstir. Auðvitað er betra að fólk sé mótiverað, en hitt á líka að virka, tekur kannski bara aðeins lengri tíma. Svo veit ég líka um alkoholista sem fóru í meðferð vegna þrýstings, en uppgötvuðu svo í meðferðinni að þeir væru fíklar (höfðu ekki viðurkennt það fyrir sjálfum sér áður).

Það er nóg til af fjármagni í þessu landi. Við hljótum að geta verið sammála um, að þetta er eitt af því sem við viljum setja peninga í. Og af hverju í ósköpunum er ekki hægt að hlusta á vilja meirihluta skattgreiðenda, þegar skattpeningum er ráðstafað?

Laufey B Waage, 29.8.2007 kl. 14:40

8 Smámynd: Laufey B Waage

Vil bara bæta við þökkum fyrir þennan frábæra pistil. Það er svo margt gott í honum. Kærleikur og virðing fyrir öllum manneskjum. Mikið væri heimurinn góður ef fleiri hugsuðu þannig. 

Ég á bara ekki orð yfir þeim ósköpum - að taka fíkil úr meðferð til að fara á Hraunið. 

Laufey B Waage, 29.8.2007 kl. 14:44

9 Smámynd: Garpur76

Ég er alveg sammála þér.

Ég tek undir einni hér að ég er svo lánsöm að engin af mínum nánustu er eiturlyfjafíkill.

En jú það þurfa að vera til önnur úrræði en það sem er í boði í dag, ÞAð er bara skammtímalausn að setja einstaklinginn í fangelsi en ekki að vinna úr sínum málum, því það er jú hætt við því að falla í sama farið þegar út er komið aftur.

Svo held ég líka ef eiturlyfjafíkill nær að snúa við blaðinu, þá er samt sem áður alveg rosalega erfitt að losa sig við stimpilinn sem hann er búin að fá.

Garpur76, 29.8.2007 kl. 15:06

10 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk fyrir svörin, og Ásdís takk fyrir þína reynslusögu.  Það verður einhvern veginn að koma fólki í skilning um að hér eru manneskjur bæði fíklarnir og svo aðstandendur sem þurfa hjálp.  Það eru örugglega fullt af foreldrum sem þurfa á róandi eða einhverjum lyfjum að halda við þessar aðstæður.  Og allt kostar þetta peninga, svo sannarlega, ef fólk er að spá í aurana.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 29.8.2007 kl. 15:24

11 Smámynd: Gunnar Skúli Ármannsson

Þakka þér Ásthildur fyrir frábæran pistil. Greinilegt að hér fer þroskað hjarta. Sem huggun í langri baráttu þá eru orð til alls fyrst.

Þegar rætt er um fjármuni þá eru þeir oft nýttir fyrir einstaklinga sem eiga sér mun minni lífslíkur en fíklar. Út frá þeim forsendum ætti að verja mun meiri fjármunum til að endurheimta börnin okkar til baka til lífsins.

Ég var að velta því fyrir mér að mál fíkla eru flókin mál. Þau teygja anga sína víða eins og þú bendir réttilega á. Og nú segi ég í fullri alvöru, er ekki þörf á "Fíklaráðuneyti", þar sem allar aðgerðir væru samhæfðar. Ef fiskarnir hafa eigið ráðuneytið hljóta börn sem hafa lent í neti fíknarinnar að hafa það einnig.

Gunnar Skúli Ármannsson, 29.8.2007 kl. 20:32

12 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Athyglisverð hugmynd.  Auðvitað þarf að samhæfa og samræma aðgerðir allra þessara ólíku aðila, sem þó koma allir að þessu viðamikla máli.  Já hvers vegna ekki. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 29.8.2007 kl. 22:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Höfundur

Ásthildur Cesil Þórðardóttir
Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Tónlistarspilari

Ásthildur Cesil - Dagdraumar
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • 2f19c636fb68b249555c5fa250d3e103--russian-image-jellyfish
  • engill-angel
  • jolatre
  • 20171002 121526
  • gasometers-vienna-7[5]

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 20
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 18
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband