"Útistöður" Bókin hennar Margrétar Tryggvadóttur.

Ég var að lesa bókina hennar Margrétar Tryggvadóttur, sagði henni að ég ætlaði að lesa hana yfir jólin og svo aftur og aftur.  En ég sem sagt gat ekki lokið við lesturinn fyrr en núna.  Þessi bók er algjörlega frábær og einstök, hún gengur svo á mann að það þarf að taka sér pásu og byrja svo aftur.  Þetta er í senn sorgarsaga, reynslusaga, glæpasaga og svo skemmtilestur allt í senn.  

Margrét skrifar lipurlegan texta og er alveg heiðarleg í sinni úttekt á reynslu sinni sem þingmaður og svo aðdraganda að því að hún gerðist slíkur.  

Hún sýnir okkur almenningi í landinu hverslags ormagryfja alþingi er í raun og veru, opnaði gluggann út í samfélagið ef svo má segja.  Sýnir hversu brothætt lýðræðið er og hve vanbúið sumt fólk er til að gegna þeim störfum að vera þjónar almennings.  Stundum varð ég svo reið að mig langaði til að kasta bókinni frá mér, þegar þessir svokölluðu reyndu alþingismenn hreinlega léku sér að þingi og þjóð. Bæði með því að setja óþægileg mál í nefnd til að drepa þau niður, eða beygja sannleikann til að olnboga sig áfram.  

Það er til dæmis svakalegt að lesa um Icesavemálið og hvernig Steingrímur og hans nánustu höndluðu það mál allt saman.  Það átti að þvinga samninginn í gegn án þess að þingmenn og jafnvel ráðherrar fengju að lesa hann nema í aflæstum herbergjum.  Undirferlið í öllu því máli, vegna þess að það átti að koma okkur inn í ESB með illu eða góðu, og Icesave var partur af þeim samningi. 

Ég er Ólafi Ragnari endalaust þakklát fyrir að hafa stöðvað þetta mál og það í tvígang. 

Einnig er ljóst að Ásta Ragnheiður forseti þingsins notaði sér aðstöðu sína til að tefja mál eða hreinlega kála þeim.  M.a. var rætt um það á göngum þingsins að henni hefði verið lofað góðu embætti fyrir vel unnin störf, Þar segir svo:

"Orðið á göngum þingsins var að Ástu Ragnheiði forseta þingsins, hefði verið lofað góðu starfi að loknum kosningum og biðlaunatímanum sínum við að undirbúa og halda upp á afmæli 100 ára kosningaréttar kvenna - ef stjórnarskrármálið færi í súginn.  Starfið átti að standa út árið 2015 en eftir það átti hún rétt á eftirlaunum.  Hún hafði reyndar sjðálf lagt fram þingsályktunartillögu, var komin af stað með vinnuhóp um málið og þegar var ljóst að haldið yrði upp á þennan áfanga - en þessu þessu var ég samt ekki tilbúin að trúa.  

Starfið var hinsvegar auglýst og átti að standa út árið 2015, 81 umsókn barst, Ásta Ragnheiður var ráðin og hóf störf ufm það bil sem biðlaunarétturinn rann út. Um launakjör veit ég ekki".  Þó þetta verði aldrei sannað, þá leggur fnykurinn af þessu máli langar leiðir. 

Og hverjir skyldu nú hafa unnið að því að drepa stjórnarskrármálið? jú fyrir utan sjálfstæðisflokkinn voru það Katrín Jakobsdóttir og Árni Páll Árnason.  

Margrét talar líka vel um fólk þarna, segir til dæmis að bæði Valgerður Bjarnadóttir og Oddný Harðardóttir séu afar vandaðar og duglegar konur, það er einmitt mín upplifun af því að hafa fylgst með störfum þeirra.  

Það er ekki hægt að ræða þessa bók í stuttu máli, ég ráðlegg öllum að lesa hana og kynna sér starfshætti og málarekstur á þessu sama alþingi sem ég get ekki hugsað mér að skrifa með stórum staf.  Auðvitað er margt gott fólk þarna innan um, en þar er líka fólk sem ætti ekki að koma nálægt því að stjórna landinu okkar.  Við verðum að fara að taka okkur tak og hætta að kjósa fólk sem hefur sýnt siðferðisblindu, svik og pretti.  Ef við virkilega viljum fá lýðræði, sannleika, jöfnuð og réttlæti þá er það skylda okkar að velja úr hæfasta fólkið í hverjum flokki og láta ekki forkólfana raða sjálfa upp á listana, með tilheyrandi spillingu.  

Margrét segir í lok bókar sinnar eftirfarandi: 

"Hagsmunir venjulegs fólks virðast því miður ekki vega eins þungt og það þykir ásættanlegur fórnarkostnaður við að viðhalda þessu gallaða kerfi okkar að hver fjölskylda greiði fyrir íbúðina sína margoft ef hún missir hana ekki einhversstaðar á leiðinni.

Þá er þannig búið um hnútana að stjórnmálamenn geti sýslað með auðlindir þjóðarinnar eftir eigin geðþótta.  Stjórnmálamenn og stjórnmálasamtök mega enn þiggja fé frá lögaðilum og Ríkisendurskoðun telur sig ekki geta gert neitt í málunum þótt farið sé á svig við lög í þeim efnum.  Stjórnvöld hafa hvorki sýnt neina alvöru tilburði til að breyta þessu né svo mörgu öðru.

 

Þegar allt hrundi, Geir bað guð að blessa Ísland, húsnæðislánið mitt stökkbreyttist og hluti af minni nánustu fjölskyldu flúði land varð augljóst að líf okkar hafði verið byggt á blekkingum. Undirstaðan var ekki aðeins fölsk heldur fúin.  Allar forsendur voru rangar. Þá lofaði ég sjálfri mér að gera allt sem ég mögulega gæti til að laga landið mitt. 

Það loforð stendur".

 

Svo mörg voru þau orð.  Og ég vil þakka Margréti Tryggvadóttur fyrir þessa bók, sem ætti að vera kennslubók í skólum landsins um hvernig ekki eigi að standa að stjórnsýslunni. 

Margrét Tryggvadóttir


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Kristján Hjaltested

Ekki spurning, ég ætla að lesa hana. Mesta furða að henni skildi

hafa tekist að gefa hana út miðað við klíkuskapinn á þingi.

Svo getur þetta hyski brosað framan í okkur almenning eins

og það sé einhverjir englar.

Ooj barasta.

Sigurður Kristján Hjaltested, 15.2.2015 kl. 14:21

2 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Nákvæmlega og halda virkilega að við séum algjörlega glær í gegn og hægt að telja okkur trú um hvað sem er. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 15.2.2015 kl. 14:55

3 Smámynd: Benedikt Helgason

Sammála. Ég er reyndar bara búinn með helminginn af bókinni en þetta er vel skrifað hjá henni. 

Benedikt Helgason, 15.2.2015 kl. 22:18

4 Smámynd: Jóhann Elíasson

Ég var búinn að lesa bókina um Ice(L)ave klúðrið eftir Sigurð M Jónsson og verð ég að segja að ég vissi að þarna hafði farið ansi margt úrskeiðis en klúðrið var enn ævintýralegra en ég hafði reiknað með.  Mér fannst Margrét og félagar í Hreyfingunni "missa svo rækilega niður um sig" með því að styðja "Ríkisstjórn Fólksins" á lokametrunum svo ekki sé nú framganga þeirra í stjórnarskrármálinu að ég kem ekki til með að lesa neitt eftir hana eða aðra sem voru á þingi fyrir Hreyfinguna.  Það er bara svo einfalt með stjórnarskrármálið að stjórnlagaráð fór langt framúr skipunarbréfi sínu, en samkvæmt því átti ráðið að gera tillögur um BREYTINGAR á núverandi stjórnarskrá en EKKI að koma með tillögur að nýrri og gera nýja stjórnarskrá. Það er kannski helsta ástæðan fyrir því að stjórnarskrármálið fór í þann farveg sem það fór???

Jóhann Elíasson, 15.2.2015 kl. 22:46

5 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Benedikt sammála, vel skrifuð og tekur á mann á köflum. 

Jóhann minn, ég er nú þannig að mér er sama hvaðan gott kemur ef það er í anda þess sem mér finnst vera rétt leið í lífnum.  En hver hefur sína afstöðu til þess.  Reyndar þekki ég vel bæði Margréti og Þór og Birgittu, og það kemur reyndar fram í bókinni að þessi frasi um að þau ætluðu að styðja ríkisstjórnina er bara það sem það er rugl og stóð aldrei til.  Það var tilbúningur til að sverta þau á sem mestan hátt og virðist hafa tekist. Margrét segir frá þessu öllu.  

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 16.2.2015 kl. 09:10

6 Smámynd: Jóhann Elíasson

Framkoma þeirra á "þinginu" benti ekki til þess að um neitt rugl væri að ræða og hversu holl þau voru undir ESB gerði útslagið hjá mér og þegar þau komu inn í Dögun þótti mér fokið í flest skjól og fannst mér heldur fara lítið fyrir mínum  gamla flokki (Frjálslynda flokknum) og er þar komin skýringin á hvers vegna Dögun fékk ekki mitt atkvæði í síðustu alþingiskosningum.

Jóhann Elíasson, 16.2.2015 kl. 10:47

7 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Í dögun eru skiptar skoðanir um ESB, þar eru harðir ESB andstæðingar eins og ég og Guðjón Arnar og margir margir fleiri, satt að segja eru bara örfáar hræður sem virkilega vilja inn i ESB. Flest þetta fólk vill bara fá að segja skoðun sína á málinu.  Ég held að það ekki ekki mikill áhugi á því að ganga í Evrópusambandið eins og staðan þar er í dag.  Og þetta fólk virðist ekki alveg gera sér grein fyrir því að allt strandaði þetta á fiskveiðistjórninni.  Ég held að enginn sé svo vitlaus að fara að sækjast eftir að gefa auðlindina eftir til Brussel.  Það væri þvílík heimska.  Og þetta fólk er ekki heimskt.  Og heldur ekki staurblint eins og Árni Páll, Guðmundur Steingríms og fleiri slíkir. Sem sennilega hafa aldrei migið í saltan sjó. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 16.2.2015 kl. 11:04

8 identicon

..."þegar þau komu inn í Dögun" segir Jóhann og virðist mega skilja hann þannig að Hreyfingar-fólkið hafi komið inn í Dögun og þá hafi farið lítið fyrir Frjálslyndaflokksfólkinu. Grunnur Dögunar var Borgarahreyfingin. Hún hafði klofnað og með Dögun tókst að sameina flokksbrotin tvö. Á sama tíma var unnið að myndun breiðfylkingar og meðal aðila sem við það komu inn var Frjálslyndi flokkurinn. Innkoma Hreyfingarinnar var nauðsynleg. Innkoma FF var eins og að bæta rúsínum við hrísgrjónagraut - bráðgott í augum ýmissa meðan ýmisir gátu ekki hugsað sér að borða rúsínur með grautnum.

Friðrik Þór Guðmundsson (IP-tala skráð) 16.2.2015 kl. 11:59

9 Smámynd: Jóhann Elíasson

Friðrik, af hverju var aðkoma Hreyfingarinnar nauðsynleg?????? Og reyndu ekki að koma með einhvern útúrsnúning, sem virðist vera þitt aðalsmerki.......

Jóhann Elíasson, 16.2.2015 kl. 12:50

10 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Margrét Tryggvadóttir vann mikið í því að sameina þessa flokka, Helga Þórðardóttir sem hefur verið virk í Frjálslyndaflokknum alla tíð á líka stóran þátt í þessari sameiningu eftir að Frjálslyndi flokkurinn kom að málinu.  Guðjón Arnar hefur líka verið afskaplega liðtækur, en í bókinni má lesa hverjir lögðu mesta vinnuna í byrjun á sameiningu Hreyfingarinnar og Borgarahreyfingarinnar.  Allt skilmerkilega tilgreint og líka skemmdu eplin í því ferli.  En það var strax tekin sú ákvörðun að ræða málefni en ekki hvaðan þú kemur í grasrót þessa framboðs. Og það hefur reynst sannarlega vel.  Því sá hópur sem nú hefur unnið skipulega og vel að málefnum Dögunar er þéttur og góður hópur sem virkilega vill vinna vel.  

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 16.2.2015 kl. 12:57

11 identicon

 Jóhann, ég vísa mestmegnis til svars Ásthildar. Hún er væntanlega ekki með útúrsnúning. Þú talar hins vegar eins og Frjálslyndir hafi komið að Dögun á undan Hreyfingunni. Svo var ekki. Aðalfundur Borgarahreyfingarinnar 2011 samþykkti að vinna að samstarfi afla sem ættu samleið og þar var Hreyfingin nefnd sérstaklega (en FF ekki). Um leið var samþykkt að koma að og styrkja Grasrótarmiðstöðina og það leiddi FF að borðinu. Innan þessarar stefnumótunar var alla tíð talið bráðnauðsynlegt að sameina á ný börn búsáhaldabyltingarinnar. Hjá mér sem formanni Borgó var það aðalatriðið og í samræmi við nær einróma niðurstöðu aðalfundar (er samþykkt aðalfundar útúrsnúningur? hmmm). Það voru aftur á móti fyrst og fremst einstaklingar sem unnu að myndun Breiðfylkingar, eins og Ásthildur nefnir. Og innkoman í hana var jöfn af hálfu viðkomandi aðildarfélaga - Frjálslyndir voru þar ekki fyrir á fleti þegar Hreyfingin mætti, eins og lesa mætti úr orðum Jóhanns. Ég er með öll gögn um þetta og gæti rætt þetta lengi, en vegna dónalegrar framkomu Jóhanns læt ég þett duga.

Friðrik Þór Guðmundsson (IP-tala skráð) 16.2.2015 kl. 16:18

12 Smámynd: Jóhann Elíasson

Þakka þér fyrir þetta Friðrik. Þú fræddir mig um það hvernig Dögun varð til en því miður, þrátt fyrir góðar útskýringar þínar, þá er ég enn á þeirri skoðun að lítið hafi farið fyrir mínum gamla flokki.  Hafi þér fundist ég vera með en hafi þér þótt ég vera með dónaskap bið ég afsökunar á því.  Mín afstaða til Dögunar er óbreytt og eins og ég sagði áður þá er yfirmáta þjónkun við ESB, þar aðalástæðan og ég þekki ekki lengur minn gamla flokk í því samkrulli og finnst hann bara engan vegin eiga heima í þessu........

Jóhann Elíasson, 16.2.2015 kl. 17:29

13 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Jóhann minn stundum þarf maður að kynna sér málin.  Það gæti gert mann víðsýnni.  

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 17.2.2015 kl. 09:10

14 Smámynd: Jóhann Elíasson

Reyndar var megnið af því sem Friðrik sagði ljóst áður en hann varpaði nýju ljósi á annað.  En enn stendur eftir Hreyfingarfólk hefur Ekki gert almennilega grein fyrir stuðningi sínum við "R´kisstjórn Fólksins" og ESB stuðning ásamt blindri ofuráherslu sinni á stjórnarskrármálið, sem flestir eru á að hafi verið klúður frá upphafi til enda.

Jóhann Elíasson, 17.2.2015 kl. 10:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Höfundur

Ásthildur Cesil Þórðardóttir
Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Tónlistarspilari

Ásthildur Cesil - Dagdraumar
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • 2f19c636fb68b249555c5fa250d3e103--russian-image-jellyfish
  • engill-angel
  • jolatre
  • 20171002 121526
  • gasometers-vienna-7[5]

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 5
  • Sl. sólarhring: 13
  • Sl. viku: 28
  • Frá upphafi: 2022157

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 24
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband