Að leika sé með líf heilla byggðalaga er vond pólitík og óréttlæti sem ekki á að viðgangast.

Auðvitað er útgerð grafalvarlegt mál Guðmundur, það alvarlegasta er það óréttlæti að útgerðarmönnum skuli vera færður veiðirétturinn á silfurfati.  Auðvitað eigið þið að geta samið um aflaheimildir við ríkið, sem á að halda utan um eign landsmanna, auðlindina í sjónum.  Það er óréttlæti að þið getið sankað að ykkur kvóta, án þess að þurfa endilega að veiða hann og nota hann til að halda uppi kvótaverði, og fyrirbyggja að nokkur komist inn í kerfið, þar deilið þið og drottnið í krafti stjórnvalda. Veit að það er ákveðin veiðiskylda, en það er farið í kring um hana á allan hátt og það bara á ekki að vera þannig að menn geti "átt" kvóta sem þeir nýta ekki og nota til að leigja öðrum sem þess vegna berjast í bökkum, meðan kvótahafar vaða í peningum. 

Ríkið á að taka kvótann eignarnámi, það á að afskrifa skuldir á móti, og greiða þeim sem SANNANLEGA hafa keypt kvóta, svo sem eins og smábátaútgerðarmenn.  En allar heimildir eiga að vera í höndum ríkisins.

Svo getið þið leigt kvóta fyrir sanngjarnt verð til 20 ára eða hvað sem er, og veitt þær heimildir sem þið hafið fengið.  

Ég veit ekki hvað þarf til að fá réttlætinu fullnægt hér, en sennilega þarf ríkisstjórn fólksins, með bein í nefinu til að taka á þessum málum af festu og styrk.   


mbl.is „Það halda allir að útgerð sé djók“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þegar veiðirétturinn kostar svo mikið að reksturinn skilar ekki ásættanlegum arði þá er bara að snúa sér að einhverju öðru. Útgerðir eru ekki reknar af hugsjón sem einhver góðgerðarfélög og félagsmálapakkar fyrir byggðir landsins eins og þjóðin virðist halda. Þjóðin heimtar arðinn og þá er best að þjóðin borgi fjárfestingarnar og reksturinn.

Og ekki er hatursfullt viðhorf almennings og rakalausar ásakanir um svik og pretti til að réttlæta auknar gjaldtökur hvetjandi fyrir menn að stunda þennan rekstur. Sú yfirlýsta stefna almennings að láta útgerðum blæða umfram aðra starfsemi í landinu er farin að skila sér í flótta úr greininni, fækkun skipa og uppsögnum sjómanna. Á Þriðja hundrað sjómönnum hefur verið sagt upp undanfarið vegna veiðigjaldsins og þeim á eftir að fjölga. Nýjustu skipin fara úr landi og engin endurnýjun er fyrirsjáanleg næstu ár eða áratugi. Á meðan biðraðir eru í kennaranám þurfti Sjómannaskólinn að sameinast Tækniskólanum vegna dræmrar aðsóknar.

Það þykir vænlegt til vinsælda að hallmæla útgerðarmönnum og lofa háum sköttum á þá í nafni réttlætis. En "réttlæti" sem byggt er á skammsýni, fáfræði, öfund og græðgi er að gera útaf við Íslenskar útgerðir.

Ufsi (IP-tala skráð) 5.2.2014 kl. 19:15

2 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Vísa athugasemdum um fáfræði á útgerð til föðurhúsanna. Það er enginn að tala um að útvegsmenn megi ekki græða. Þeir eiga að gera það á eigin forsendum en ekki með því að við almenningur gefum þeim eignir sem er almenningseign.

Til að vinda ofan af þessu, þarf ríkið að kaupa kvótann, taka hann eignarnámi ef ekki vill betur til, það er hægt að afskrifa skuldir á móti, og greiða þeim sem sannanlega hafa greitt fyrir hann. En kvótinn á fyrst og fremst að vera í höndum ríkisins og þaðan geta útgerðarmenn leigt hann fyrir sanngjarnt verð. Það er eina réttlætið.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 5.2.2014 kl. 19:23

3 identicon

Hvers vegna heimtar þú ekki að bændur greiði fyrir notin sem þeir hafa af landinu okkar? Fyrirtæki borgi fyrir auðlindina sem við skópum með því að mennta starfsfólk þeirra fyrir skattfé okkar? Að innheimt sé sérstakt auðlindagjald af öllum sem nota rafmagn og vatn? Það eru einnig auðlindir okkar. Hvers vegna að einangra eina auðlind þegar ekkert auðlindagjald er á öllum hinum? Er það ekki sprottið úr öfund og illvilja? Það virðist aflavega algerlega skorta jafnræði, réttlæti og sanngirni.

Hver á að veiða fiskinn ef enginn vill leigja kvóta ríkisins? Ef aðeins örfáir trillukallar stunda fiskveiðar við Ísland? Það er augljóst að almenningur vill meira en veiðigjaldið gefur en aðeins stærstu og best reknu útgerðirnar geta mögulega borgað það gjald. Það sem almenningur heimtar fyrir auðlindina gæti auðveldlega orðið til þess að enginn hefði áhuga á að nýta hana. Þeim hefur þegar fækkað nokkuð og ekki langt í það að hér verði hvorki skip né sjómenn til að sækja allt það sem sækja má. Og það fæst enginn gjaldeyrir fyrir fisk sem ekki er veiddur. Hvers vegna er útgerðum refsað fyrir að skaffa helming gjaldeyris okkar og að standa undir 25.000 störfum beint og afleitt? Hvers vegna ert þú ekki að borga þeim fyrir þau lífsgæði sem þeir færa þér? Hvers vegna ert þú full af heift og græn af öfund?

Ufsi (IP-tala skráð) 5.2.2014 kl. 20:48

4 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Hvorki er ég full heiftar né græn af öfund. Sem betur fer hef ég þjálfað sjálfa mig upp í að losna við öfund að svo miklu leyti sem það er hægt. Ég öfunda engann, en ég vil réttlæti.

Bændur fara ekki burtu með bú sín og tún, þeir geta selt kvótan, en svo er það líka eitthvað sem ekki á að vera. Þeir eiga ekki að geta selt kvóta sinn, mikið rétt. Og í landbúnaðarmálum er sama óréttlætið og í sjávarútvegi, þar sem sláturleyfishafar geta deilt og drottnað yfir afurðum bænda, vegna þess að þeir "eiga" sláturhúsin og allt gert til þess að fyrirbyggja heimaslátrun.

Hver á að veiða fiskinn? það geta margir veitt fiskinn, og oft með meiri hagkvæmni en stórútgerðin. Það á til dæmis að gera eins og norðmenn eru að gera núna að leyfa frjálsar kvótaveiðar. Hvað varðar að fáir séu í strandveiði, er nefnilega af því að strandveiðibátum er ekki gert að vinna allt árið, þeir þurfa að sæta því að mega aðeins veiða nokkra mánuði á ári, og geta þess vegna ekki lifað af því. Ef smáútgerðin fengi að veiða án takmarkana myndu byggðirnar blómstra og þær væru ekki háðar því að stórútgerðarmaðurinn skyndilega vilji fara úr byggðarlaginu og skilja það eftir í rúst. Eiga sjómenn og landverkafólk ekki líka rétt á atvinnuöryggi?

Nei Alli minn, þú þarft aðeins að koma því inn í kollinn á þér að þetta er mesta óréttlæti landsins og dreyfbýlisins.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 5.2.2014 kl. 21:35

5 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Frjálsar handfæraveiðar meinti ég.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 5.2.2014 kl. 21:36

6 identicon

Bændur fara ekki burtu með bú sín og tún. En þeir fara í burtu og láta aðra um að borga fyrir að hirða jarðir sem upprunalega voru ókeypis. Sé það ekki nothæft sem tún, eða bóndi hættur að nenna að elta kindur og kýr, þá selja þeir eða leigja það undir sumarhús. Bændur, eins og útgerðarmenn, vaða í peningum á afrakstri auðlindar okkar. Halda uppi jarðarverði og fyrirbyggja að nokkur komist inn í kerfið. Sendum þeim feitan reikning, gerum jarðirnar upptækar og sjáum hvort mjólk og kjöt hverfi nokkuð úr kælum verslana. það geta flestir alið kindur og mjólkað, og oft með meiri hagkvæmni en bændur.

Þú svaraðir ekki:"- Fyrirtæki borgi fyrir auðlindina sem við skópum með því að mennta starfsfólk þeirra fyrir skattfé okkar? Að innheimt sé sérstakt auðlindagjald af öllum sem nota rafmagn og vatn? Það eru einnig auðlindir okkar. Hvers vegna að einangra eina auðlind þegar ekkert auðlindagjald er á öllum hinum?-"   Sennilega vegna þess að þú finnur enga réttlætingu fyrir þessari mismunun. Sem er til vitnis um að óréttlæti sé ekki eitthvað sem angrar þig. Þú vilt að það sem þú kallar "réttlæti" (vegna þess að þú veist ekki hvað það raunverulega heitir) nái bara yfir þá sem þér er augljóslega mjög illa við.

Það hefur verið sannað á undanförnum mánuðum með veiðigjaldinu að margir geta veitt fiskinn en enginn með meiri hagkvæmni en stórútgerðin. Það er ástæðan fyrir því að litlar og meðalstórar útgerðir eru að leggja skipum, segja upp fólki og jafnvel hætta útgerð. 

Frjálsar veiðar smábáta voru hér fyrstu ca. 10 ár kvótakerfisins og smábátar koma aldrei til með að ná að afkasta nema litlu broti af þörfinni. Smábátarnir voru ekki bundnir við byggðirnar en eltu aflabrögð. Byggðirnar gátu ekki treyst á smábátana sem voru 30 eina vikuna og farnir þá næstu. Hér á suðurnesjum var algengt að trillur væru að landa frá Arnarstapa á Snæfellsnesi austur í Vík í Mýrdal. Atvinnuöryggi sjómanna og landverkafólks er ekki tryggt með stopulum veiðum smábáta sem færa sig milli landshluta og komast stundum ekki á sjó svo vikum skiptir.

Óhagkvæmni reksturs lítilla eininga án ríkisstyrkja og ríkisstjórnuðu hráefnisverði er það sem setti flest frystihús á landsbyggðinni á hausinn ekki kvótakerfið. Kvótakerfið hafði engin áhrif á byggðirnar. Frystihúsin hefðu samt farið á hausinn og bátarnir farið þangað sem hagstæðara var að reka þá. Eins og hafði verið að ske mörg ár áður en kvótakerfið kom til. Hnignunin og flutningur frá landsbyggðinni hófst löngu fyrir tíð kvótakerfisins. Fiskmarkaðir og frjáls verðlagning kemur ein í veg fyrir að lítil fiskvinnslufyrirtæki geti þrifist á smærri stöðunum. Og þó kvótakerfið væri afnumið og veiðar gefnar frjálsar þá væri samt ekki rekstrargrundvöllur fyrir frystihúsi í hverju þorpi eins og var.

 Bless og góða nótt.

Ufsi (IP-tala skráð) 5.2.2014 kl. 23:04

7 Smámynd: Theódór Norðkvist

Ufsi, þú stendur mjög vel undir dulnefni þínu, meiri ufsinn. Fyrst vil ég benda þér á að faðir Ásthildar var einn af stærstu útgerðaraðilum í þeim mikla útgerðarbæ Ísafirði (sem er ekki lengur mikill útgerðarbær, kvótakerfið lagði hann í rúst.) Tek fram að ég er ekki þeirrar skoðunar að það eigi að heimta eitthvað vottorð frá fólki um að það sé tengt inn í sjávarútveginn eða geti framvísað einhverjum skilríkjum um að það "hafi vit á útgerð" til að mega taka þátt í umræðunni. En af því að þú eins og svo margir talsmenn gjafakvótakerfisins, eruð alltaf að halda því fram að þeir sem leyfa sér að gagnrýna kerfið, geri það bara af því að þeir vita ekkert um sjávarútveg, taldi ég rétt að benda á þetta.

Síðan vil ég benda á (eins og kemur fram á bloggi Ómars um þetta mál) að forstjóri Brims fékk afskrifaða níu milljarða vegna félags síns Hafnarhóls, skömmu eftir hrun. Hvers vegna? Jú, hann var að nota kvótagróðann til að braska með hlutabréf í bönkunum. Síðan segir hann að þetta hafi bara verið froða. Getur hann þá ekki látið skuldir Brims, sem safnast upp vegna meintrar ofurskattlagningar, líka hverfa, eru þær þá ekki bara líka "froða"?

Þetta er bara væl í þessum körlum, um ofurskattlagningu, þeir eru bara hræddir um að þurfa að minnka villurnar sínar úr 800 fermetrum í 600.

Theódór Norðkvist, 6.2.2014 kl. 04:23

8 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk fyrir innleggið Theódór, eins og út úr mínu hjarta talað. Milljónirnar eru margar, en þeim finnst þeir ekki græða nóg.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 6.2.2014 kl. 11:49

9 identicon

Auðvitað Theodór, pabbi Ásthildar var útgerðarmaður og þess vegna veit hún allt um sjávarútveg. En þeir sem í dag eru útgerðarmenn vita ekkert um sjávarútveg og rekstur útgerða og búa allir í 800 fermetra villum. Þeir einu sem vita eitthvað um útgerð í dag hafa ekki persónulega staðið í útgerð en tengjast einhverjum sem stundaði útgerð hér áður fyrr. Þar finnur þú sérfræðinga sem horfa hlutlaust á málin....not--  Forstjóri Brims var hluthafi í eignarhaldsfélagi sem tók lán og gat ekki borgað, hefði hann verið að spila með þennan ímyndaða kvótagróða hefði varla þurft að afskrifa lán. En það er greinilega samt næg ástæða til að leggja feitt veiðigjald á allar útgerðir og leggja svo niður kvótakerfið. Típísk rök fólks sem sér ekki út úr augum fyrir illvilja og öfund.

"Milljónirnar eru margar" sagði hún svo græn af öfund að hún hvarf nærri í grasið.

Fækkun fólks á Ísafirði og Vestfjörðum hófst ekki að ráði fyrr en um 12-15 árum eftir að kvótakerfinu var komið á. Frá miðri síðustu öld og fram að miðjum síðasta áratug þeirrar aldar hélst fólksfjöldinn þar nærri stöðugur þó Íslendingum fjölgaði um helming. Í nærri mannsaldur hefur ekki fæðst barn á Vestfjörðum og Ísafirði öðruvísi en að einhver flutti þaðan í burtu. Skoði maður bara tölurnar mætti halda að Vestfirskir karlmenn tækju til fótanna og stoppuðu ekki fyrr en komið væri suður þegar þeir hafa barnað einhverja stelpuna. En auðvitað er það kvótakerfinu að kenna þó það væri ekki til fyrstu 30-40 ár þessa stöðuga flótta.

Ufsi (IP-tala skráð) 6.2.2014 kl. 21:30

10 Smámynd: Theódór Norðkvist

Ufsi minn, lestu fyrst það sem ég skrifa áður en þú svarar. Ég sagði einmitt að ég teldi að fólk þyrfti EKKI að vera tengt inn í sjávarútveg, eða eiga foreldra sem voru í útgerð, til að hafa leyfi til að tjá sig um sjávarútveg.

Ég botna reyndar ekkert í síðustu málsgreininni hjá sér. Fyrst segirðu að fólksfækkun á Vestfjörðum hafi ekki hafist að ráði fyrr en 12-15 árum EFTIR tilkomu kvótakerfisins, sem væri þá 1995-1998, en í lokin segirðu að það hafi verið stöðugur flótti 30-40 árum áður en kvótakerfið kom, sem væri þá 1943-1953. Það munar ekki nema hálfri öld, hvort er það?

Enginn hefur kennt kvótakerfinu einu um fólksfækkun fyrir vestan, auðvitað kemur fleira til, einhæft atvinnulíf, lakari lífskjör, hár húshitunarkostnaður, hærra vöruverð o.fl. Samt á kvótakerfið sína sök, það sem hefur gerst á Flateyri og víðar hefur ekki farið framhjá neinum, nema einhverjum ufsum kannski.

Theódór Norðkvist, 7.2.2014 kl. 01:11

11 identicon

Þetta er mjög einfalt fyrir alla þá sem náð hafa lestrarþroska fermingarbarns. Þegar Íslendingum fjölgar um 50% en engin fjölgun verður á Vestfjörðum er það vegna þess að þaðan hefur verið stöðugur straumur í nærri mannsaldur. Það getur nefnilega verið stöðugur flótti án fækkunar. Og gaman að þú skulir nefna Flateyri. Því fólksfækkunin á Vestfjörðum hófst ekki að ráði fyrr en eftir snjóflóðin á Súðavík og Flateyri. Einnig má nefna að á sama tíma opnuðu Vestfjarðagöngin sem gerðu brottflutning svo miklu auðveldari árið um kring. Fiskflutningar til annarra landshluta jukust mikið við bættar samgöngur. Og barátta sjómanna fyrir bættum kjörum skilaði þeim öllum fiski á markað eða markaðsverði og tvöfaldaði hráefnisverð til frystihúsanna.

Það er ekki hægt að kenna kvótakerfinu um það að Vestfirðir hafa ekki verið vinsælir til búsetu og að stór hluti íbúanna sé ávalt tilbúinn til að flytja burt ef tækifæri gefst. Gott dæmi eru Hornstrandir sem lögðust í eyði og nær allir íbúarnir fluttu suður frekar en á Ísafjörð. Og ekki hjálpar það við að halda í útgerðir að úthúða útgerðarmönnum sem svindlurum, þjófum og glæpamönnum. Við þannig viðhorf sveitunga sinna og nágranna er ekki að undra að menn komi sér burt eða hætti baslinu. Þannig hafa sleggjudómar og illmælgi sennilega haft meiri áhrif á sjávarútveg og atvinnu á Vestfjörðum en nokkurntíman kvótakerfið.

Ufsi (IP-tala skráð) 7.2.2014 kl. 02:30

12 Smámynd: Theódór Norðkvist

Kvótinn var seldur burt frá Flateyri fyrir fáeinum árum, það var það sem ég var að tala um, ekki almennt um fólksfjöldaþróun þar. Lesskilningur þinn er lítið betri, karlinn minn. Við það misstu tugir vinnuna og þetta er bara eitt dæmi af mörgum. Ef kvótinn er bundinn við byggðarlagið er ekki hægt að selja lífsafkomuna undan heilu og hálfu þorpunum.

Theódór Norðkvist, 7.2.2014 kl. 02:52

13 identicon

Kvóti sem keyptur var til Flateyrar 1999 frá Hafnarfirði var seldur burtu , helmingurinn til Ísafjarðar. Þannig að sú atvinna sem tapaðist á Flateyri var upprunalega sköpunarverk kvótakerfisins. Hefði kvótinn verið bundinn við byggðarlagið hefði hann aldrei komið til Flateyrar og væri ekki á Ísafirði núna.

Ufsi (IP-tala skráð) 7.2.2014 kl. 08:52

14 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Það er einfaldlega rangt að hluti kvótans frá Flateyri hefði komið til Ísafjarðar, ég veit að útgerðarmenn á Ísafirði reyndu að fá kvótan keyptan en var neitað, hann var svo seldur til Dalvíkur eða eitthvað norður. Eitthvað smávegis fór til Bolungarvíkur.

Þetta bull þitt um að kvótinn hefði komið að til Flateyrar vísa ég til föðurhúsanna, Flateyri og önnur byggðalög hér fyrir vestan byggðust upp vegna nálægðar við fiskimið, meðan allir máttu fara út og veiða.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 7.2.2014 kl. 11:25

15 identicon

Hraðfrystihús-Gunnvarar hf. á Ísafirði og að litlu leiti Jakobs Valgeirs ehf. í Bolungarvík keyptu helming kvótans frá Flateyri. Og þetta var kvóti sem keyptur hafði verið 1999 að mestu leiti frá Hafnarfirði. Þetta er allt skjalfest og hefur verið birt í fjölmiðlum.

Tímarnir breytast og þau eru mörg byggðarlögin sem byggðust upp vegna nálægðar við fiskimið og lögðust svo í eyði löngu fyrir tilkomu kvótakerfisins. Löngu fyrir daga kvótakerfisins var nálægð við fiskimið hætt að gefa eitthvað forskot. Í dag eru fiskvinnslur í bæjarfélögum sem hafa enga löndunarhöfn og eru jafnvel ekki við sjó.

Ufsi (IP-tala skráð) 7.2.2014 kl. 12:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Höfundur

Ásthildur Cesil Þórðardóttir
Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Tónlistarspilari

Ásthildur Cesil - Dagdraumar
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • 2f19c636fb68b249555c5fa250d3e103--russian-image-jellyfish
  • engill-angel
  • jolatre
  • 20171002 121526
  • gasometers-vienna-7[5]

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 20
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 18
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband