20.12.2013 | 17:30
Bæjarstjórarnir mínir gegnum tíðina og aðrir yfirmenn.
Ég fór að hugsa um yfirmenn mína síðastliðin 30 ár hjá bænum, vegna bloggsins um núverandi bæjarstjóra. http://asthildurcesil.blog.is/blog/asthildurcesil/entry/1338723/
Ég byrjaði á bæjarskrifastofunni árið 1966, þá nýkomin frá Glasgow þar sem ég dvaldi í tvö ár. Þegar ég var unglingur datt mér í hug að fara á námskeið í vélritun og uppsetningu bréfa hjá tveim eldri konum í Reykjavík og hafði mikið gott af þeirri reynslu, því áður en ég sótti um stöðuna hjá bænum hafði ég einungis unnið í frysthúsum, eins og unglingum á landsbyggðinni er tamt, þá aðallega í Íshúsfélagi Ísfirðinga og Hraðfrystihúsinu í Hnífsdal, svo í rækju bæði hjá föður mínum og Böðvari Sveinbjarnar.
En sem sagt ég byrjaði að vinna á skrifstofu bæjarins í ágúst 1966 og þá var bæjarstjóri Jóhann Einvarðsson, traustur maður og góður drengur. Ég bar mikla virðingu fyrir honum. Þá unnu á skrifstofunni bæjarstjórinn Jóhann, gjaldkeri var ágætur vinur minn Kristinn D. Guðmundsson, rukkari var Stefán Stefánsson, Stebbi skó, eins og hann var alltaf kallaður, Guðmundur Karlsson bókari, skrifstofustjóri var Gylfi, mig minnir Gunnarsson, ungur maður, og svo Daníel Sigmundsson byggingafulltúi, Danival, eins og Stebbi gamli titlaði hann gjarnan, um leið og hann spýtti í hrákadallinn sinn, því jú, hann átti aktúalli hrákadall sem hann notaði mikið.
Ég var sem sagt skrifstofudaman, sem skrifaði öll bréf bæjarstjóra og annara, á gamla ritvél, og svo kom rafmagnsritvél, sem var aldeilis framför, svo þurfti ég að rita allar fundargerðir bæjarins, og skrifa þær á svokallaða "Stensla " sem voru síðan rúllaðir gegnum vél sem með bleki, þannig að hægt var að "prenta" út mörg eintök, sem síðan voru send út til bæjarfultrúa og annara áhrifamanna í bænum. Þetta var ærin vinna, enda varð það svo að það var aukið við starfskraft á skrifstofunni annar ritari í hálfu starfi.
Næsti bæjarstjóri var svo Jón Guðlaugur Magnússon, sem yngdi heldur betur upp á skrifstofunni, því hann var bara rúmlegal tvítugur, nokkrum árum eldri en ég. Á þessum árum var Björgvin Sighvatsson skólastjóri, forseti bæjarstjórnar og hann eyddi miklum tíma inn á skrifstofu bæjarstjóra bæði þegar Jóhann var bæjarstjóri og ekki síður eftir að hinn ungi Jón kom. Það þurfti jú að hafa eftirlit með þessum unglingum, þar sem nýjir tímar virtust í uppsiglingu.
Þegar þarna var komið sögu hætti ég að vinna á skrifstofunni, var að eiga börnin og byrjuð að búa og við vorum að byggja hús.
Það var svo Bolli "Kjartanson" minnir mig að hafi verið, sem hringdi í mig árið 1978 og spurði hvort ég vildi koma og vinna við að laga skrúðgarða bæjarins, sem þá voru kallaðir efri garður og neðri garður. Ég hafði þá verið að vinna í frystihúsi og rækjuverksmiðju föður míns í nokkur ár. Ég sló til og byrjaði, það var mikil vinna að koma görðunum í lag því þeir höfðu verið vanræktir í 10 ár, eða allt frá því að Jón klæðskeri hætti að geta sinnt þeim, áburðarsnauðir og aldrei klippt tré og ég þurfti að "finna beðin" sem áður höfðu prýtt þá. En það var gaman.+
Reyndar sagði ég Bolla að það dygði engan veginn að vera bara 3 mánuði á sumri við þessa vinnu, og hann framlengdi því vinnu minni upp í 6 mánuði og ég fékk að ráða fólk mér til aðstoðar.
Næsti bæjarstjóri var svo Haraldur Líndal. Hinn vænsti maður og traustur, frekar var hann samt njörvaður niður að mínu áliti. Ég man þegar ég hafði farið 500 krónur yfir fjárlög við kaup á sumarblómum, og hann kallaði mig inn til sín út af því tilefni. Ég sagði við hann að menn yrðu að átta sig á því að það skipti miklu málið að bærinn liti vel út. En það má ekki fara svona framyfir, sagði hann. Ókey sagði ég, komdu með mér út á Austurvöll og segðu mér hvaða blómum er ofaukið og ég skal taka þau upp og selja upp í kostnaðinn. Nei svaraði hann svoleiðis gerir maður ekki. Þá dró ég upp ávísanaheftið mitt, allt í lagi þá skal ég skrifa ávísun upp á 500 krónur sagði ég, og gerði mig líklega til að skrifa. Hann spratt upp sótrauður í framan og allreiður. Síðan var ekki minnst einu orði á þennan fimmhundruð kalla, né gert veður út af þó ég væri aðeins yfir.
Haraldur hugsaði vel um fólki sitt á bæjarskrifstofunni, og í hans tíð var afar góður mórall meðal fólksins og sáralitlar mannaskiptingar. Hann varði sitt fólk ef það fékk gagnrýni sem átti ekki rétt á sér.
Ég man ennþá kosningabaráttuna þegar Haraldur ákvað að taka slaginn og í þetta skipti leiða lista sjálfstæðisflokksins, þá voru vinstri menn með sameiginlegan lista. Sjálfstæðisflokkurinn tapaði þeim slag, og Smári Haraldsson varð bæjarstjóri.
Smári er einn af þeim yndislegustu mönnum sem ég þekki. Hann var ef til vill ekki besti bæjarstjóri í heimi, en hann vildi öllum vel. Hann bjargaði mér svo, þegar ég fór fram úr sjálfri mér (ekki í fyrsta skiptið) Þegar ég á 80 ára afmælis eftir garðsins, vildi gefa honum nafnið Jónsgarður tio heiðurs Jóni Jónssyni klæðskera. Ég fékk líka listamann Jón Sigurpálsson til að hanna og vinna að minnisvarða þeim til heiðurs, sem settur skyldi í garðinn. Þegar svo leið að því að það ætti að gera þetta opinbert, kom í ljós að það var ekki mikill vilji hjá stjórnvöldum að gera þetta. Í fyrsta lagi þá harðneitaði aðal verkalýðsforinginn Pétur Sigurðsson að láta garðinn heita Jónsgarð, hann vildi láta hann heita bæjarstjóragarðinn. Svo fannst þeim 100.000 kall allof dýrt fyrir listaverkið. Smári kom oft til mín í aðdragandanum að þessu, og vildi leysa málin. Mér datt ekki í hug að bakka með þetta, því ég hafði líka fengið börn Jóns og Karlinnu Grein til að koma og vera með í hátíðahöldunum, en þau áttu að fara fram 17. júní.
Til að gera langa sögu stutta þá heitir garðurinn í dag Jónsgarður, og listaverkið var afhjúpað 17. júní, og allir voru glaðir.
Eftir hinn mjúka Smára var ráðin hingað bæjarstjóri frá Akureyri, sá heitir Kristján Þór Júlíusson. Þvílík breyting sem varð á öllu, hann var glæsilegur maður og gat verið fyndinn og skemmtilegur, en einhvernveginn tókst honum ekki að laða að sér starfsfólkið, það sýnir meira en nokkur orð að þegar hann svo kvaddi og fór á miðju öðru kjörtímabili sínu, enda búin að fá Gugguna og kvótann norður, þá mættu einn eða tveir starsmenn af skrifstofunni á kveðjuhófið.
Á þessum tíma var ég búin að fá svo mikinn vinnuleiða að ég ákvað að taka árs frí án launa, meðan það varði hafði einn af okkar bestu yfirmönnum tæknideildar verið hrakinn burtu og ráðin nýr yfirmaður sem nefnist Ármann að mig minnir Jóhannsson. Ármann verð hinn besti maður, en við áttum ekki skap saman. Strákarnir á tæknideildinni voru búnir að hræða úr honum líftóruna í fjarveru minni, um hversu mikill vargur ég væri og hvernig ég myndi taka á honum.
Allavega þegar karl greyið kallaði mig svo fyrir áður en ég hóf vinnuna eftir fríið, þá hallaði ég mér fram á borðið hans og spurði bara, hve lengi ætlar þú að vera hér?
Það var á þessum tíma sem fræðslunefnd ákvað að gera Austurvöll að leiksvæði fyrir skólann. Ármann bað mig um að koma með sér út á Austurvöll og ákveða hvaða tré skyldi fjarlægja og hvað ætti að taka burt. Ég sagði honum bara að þetta kæmi ekki til greina.
Þú ræður engu um það, svaraði hann. Við skulum nú sjá til með það svaraði ég. Það mikið þekki ég til stjórnsýslumála að það þarf meira en ákvörðun fræðslunefndar til að breyta skipulagi. Þetta hefur verið samþykkt af bæjarstjórn, svaraði hann.
Það getur verið sagði ég, en ég veit að til að breyta skrúðgarði í leikvöll, þarf ákveðið ferli að eiga sér stað, m.a. ákvörðun skipulagsnefndar, grenndarkynningu og slíkt.
Ég tilkynnti svo yfirmönnum bæjarins að ef þetta kæmi til framkvæmda myndi ég kæra þau fyrir brot á stjórnsýslulögum. Austurvöllur er systurgarður Hallargarðsins í Reykjavík og teiknaður af sama arkitekt.
Á eftir Kristjáni voru fengnir tveir dánumenn og öðlingar (dugði ekki minna) til að sætta bálreiða atvinnurekendur og fleiri bæjarbúa sem töldu sig hafa farið halloka gagnvart stjórnsýslunni hér, ég veit fyrir víst að þeir áttu erfiða daga blessaðir frændi minn Kristinn Jón Jónsson og Jónas Ólafsson fyrrverandi sveitarstjóri á Þingeyri.
Halldór Halldórsson frá Ögri tók því við góðu búi á kærleiksheimilinu. Halldór er ljúfmenni og vill allt fyrir alla gera, það er bara þannig að það er ekki hægt að gera öllum til hæfis.
Það kom svo fljótlega í ljós að þeir vildu svona frekar losna við gamla skarfinn og skaðvaldinn garðyrkjustjórann. Ekki vegna þess hún ynni ekki heimavinnuna sína, heldur vegna þess að hún fór að brölta í pólitík sem var ekki þeim að skapi. (það er reyndar mín prívat og persónulega skoðun) En það eru margir sem geta vottað það að það var markvisst verið að reyna að bola mér burt, ég þraukaði þó frekar lengi, því ég hafði áhyggjur af grænu svæðunum mínum. Það var þó ekki þrautarlaust, því það kostaði mig læknisferðir og róandi lyf, enn og aftur. Það sem bjargaði geðheilsu minni var fólkið í bænum, og fólkið sem ég vann með.
Halldór gekk einhverju sinni upp að mér þar sem ég var að klippa rósarunna framan við Hótelið og spurði mig, ertu ennþá garðyrkjustjóri eða ertu verktaki?
Ég hef ekki fengið uppsagnarbréf, svaraði ég. Þá ertu ennþá garðyrkjustjóri svaraði hann.
Mér líkaði samt alltaf vel við Halldór, það er eiginlega ekki hægt annað. Þó var þarna farið að bera töluvert á klíkuskap og ráðningum með flokkskírteini, sem ekki má tala um, nema fá bágt fyrir.
Svo kom Daníel. Daníel ólst upp í Miðtúninu, í nágrenni við mig, bræður hans voru heimagangar heima hjá mér. Man samt alltaf að við vorum með hundinn Lubba sem var einn af fjölskyldunni, Daníel var eitthvað að stríða Skafta syni mínum, og hafði hann undir, Luppi stökk því á hann og greip hann í rassin með kjaftinum og skellti honum ofan af Skafta mínum. Það var samt ekkert gert í þessu máli af séra Jakobi og konu hans, sem ég var ákaflega fegin útaf.
Svo var þessi drengur komin heim aftur og núna sem bæjarstjóri. Hann ef afskaplega þægilegur drengur og vill vel. En þau mál sem nú eru að þróast með þennan snjóflóðagarð og uppkaup og læti eru að ganga ansi illa fram af mér.
Daníel var í bankageiranum áður en hann kom hingað, og einhvernveginn held ég að þeir sem þar vinna, ítem lögfræðingar og hagfræðingar og slíkir missi tengslinn við hjarta sitt og samvisku. Þess vegna leist honum svo vel á þegar Jóhanna og Steingrímur komu hingað færandi hendi, með að byggja snjóflóðavarnargarð, til að auka fjármagn inn í bæinn, sérstaklega með tímabundinni vinnu verktaka.
Ég held að Daníel hafi ekki gert sér grein fyrir því hvað þetta innibar. Að þetta yrði til þess að rústa sálarró minni og fleira fólks, því svo sannarlega hefur þetta haft gríðarleg áhrif á fullt af fólki. Þarna var bara horft á exelskjal þar sem stóð Peningar. Og peningar hjá bankamanni, og lögfræðingum andskotans þýðir bara eitt ÁHRIF.
Ég held að enginn sé alvondur, eða vil trúa því allavega, en sumt fólk er frekar hugsunarlaust og skilur ekki alveg þegar það er að traðka á sálarlífi annara. Ef okkur auðnaðist að skoða málin alla leið, og hugsa út í hvað er ég að fara, áður en tekinn er ákvörðun sem getur rústað heimilislífi og sálarlífi annarar manneskju, þá held ég að við gætum lifað í meiri sátt.
Um bloggið
Ásthildur Cesil Þórðardóttir
Tónlistarspilari
Bloggvinir
- prakkarinn
- katrinsnaeholm
- jensgud
- matthildurh
- jenfo
- kiddat
- hronnsig
- katlaa
- katagunn
- kolbrunb
- joiragnars
- birgitta
- holi
- rs1600
- ktomm
- heidathord
- vestfirdir
- steina
- laufeywaage
- maggadora
- lehamzdr
- icekeiko
- isdrottningin
- skaftie
- hneta
- hross
- amman
- johanneliasson
- helgamagg
- zeriaph
- olafia
- jogamagg
- tigercopper
- ellasprella
- zumann
- estro
- sjos
- gmaria
- gudr
- ktedd
- salvor
- bertha
- solisasta
- meistarinn
- baenamaer
- sirrycoach
- annalilja
- komediuleikhusid
- tildators
- hector
- bene
- skelfingmodur
- fifudalur
- xfakureyri
- madddy
- siggith
- antonia
- elina
- rosaadalsteinsdottir
- framtid
- annaragna
- sirri
- thjodarsalin
- bestalitla
- helgatho
- jyderupdrottningin
- hallaj
- ingistef
- gudruntora
- zunzilla
- sisvet
- aevark
- bostoninga
- ace
- drengur
- robbitomm
- faktor
- disag
- ffreykjavik
- ma
- rannveigh
- igg
- robertb
- sgisla
- rafng
- helgi-sigmunds
- lotta
- fullvalda
- heimssyn
- naflaskodun
- johannesthor
- jeg
- huxa
- sigrunzanz
- jodua
- tryggvigunnarhansen
- minos
- saemi7
- blossom
- ansigu
- skagstrendingur
- beggo3
- h2o
- westurfari
- ammadagny
- bjartsynisflokkurinn
- elfarlogi
- esig
- sunna2
- frjalslyndir
- gudlaugbjork
- gp
- hreinn23
- guki
- gustafskulason
- harhar33
- diva73
- huldagar
- kliddi
- axelma
- keli
- bassinn
- jonvalurjensson
- josefsmari
- kuldaboli
- kiddatomm
- ksh
- kristjan9
- mio
- omnivore
- sumri
- samstada-thjodar
- fullveldi
- nafar
- stjornlagathing
- sattekkisatt
- athena
- tikin
- vallyskulad
- vest1
- totibald
- tik
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 20
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 18
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Þetta er einstök uppryfjun og skemmtileg á köflum Ásthildur, og ég er þér alveg sammála um margt sérstaklega það er varðar pólitíkina og eins þetta með snjóflóðavarnirnar. Eg talaði við Örn Ingólfs frænda minn í haust þegar ég var fyrir vestan og féllst hann á að hér væri aðeins um eina af mörgum hugsanlegum útfærslum sem kynnt hefur verið. Hvað veldur veit ég ekki en hitt er alveg ljóst að það eru fleiri möguleikar í stöðunni ef menn aðeins vilja skoða málið betur og leyfa fólki að fylgjast með fremur en að þrögnva þessu inná íbúana eins og nú virðist gert.
Indriði A. Kristjánsson (IP-tala skráð) 21.12.2013 kl. 07:27
Fróðleg og athygliverð lesning Ásthildur. Takk fyrir þetta góða yfirlit.
Ég hneigist til að halda að þetta snjóflóðavarnagarðamál sé ekki gott mál og að það hljóti að vera hægt að leysa þetta á annan veg en fyrirhugað er. Ég óska þess að þér gangi sem allra best að ná þínum rétti fram og helst að þú fáir að vera áfram í kúluhúsinu þínu.
IGG , 21.12.2013 kl. 12:59
Takk Indriði. Já ég get tekið undir það að þetta snjóflóðadæmi er skelfilegt fyrir okkur sem erum undirorpin þessum tilskipunum. Ég vil þetta ekki, og ég vil fá að vera í friði þar sem ég er. Og finnst bara að ég eigi að fá að vera þannig.
Ingibjörg mín takk fyrir mig. Sammála og þakka þér góðar óskir.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 21.12.2013 kl. 14:10
Góð Grein Ásthildur og á örugglega við með mörg önnur bæjarfélög.
Gleðileg jól og hafðu gott.
Valdimar Samúelsson, 21.12.2013 kl. 15:29
Sömuleiðis Valdimar minn og takk fyrir innlitið.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 21.12.2013 kl. 15:49
Ásthildur vinkona það er gaman að lesa þín fræði þarna um Bæjarstjórana og að þú skuir bara segja frómt frá,enda góður penni og hreinskilin mjög,en við vonum að þetta fari bara vel .kær kveðja
Haraldur Haraldsson, 21.12.2013 kl. 17:07
Takk Haraldur minn, svo sannarlega vona ég það og gleðileg jól.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 21.12.2013 kl. 17:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.