Herra Páll Magnússon, útvarpsstjóri "allra landsmanna"

Eitt er að komast ekki hjá uppsögnum annað er að reka fólk út og leyfa því ekki að vinna uppsagnarfrestinn og loka á öll netsambönd þeirra. 

Samanber þetta hér:  "Kæru vinir. Fólki sem ég hef unnið með í meir en tvo áratugi var sagt upp í dag. Þessum starfsmönnum var bannað að vinna út uppsagnarfrest sinn og ljúka við þá þætti sem þeir voru með í vinnslu. Þeim var gefið ótvírætt til kynna að nærveru þeirra væri ekki óskað framar. Tölvupósti þeirra var lokað. Eftir margra ára ósérhlífið starf við Ríkisútvarpið var komið fram við þetta fólk eins og glæpamenn. Ég hugsa: Hvar er ég stödd? Er þetta útvarpið sem ég hef unnið fyrir í 23 ár? Víkingur Heiðar talar um það á dv.is í dag að hann óttist að Rás 1 verði eins og rjúkandi rúst. Það er einmitt það sem er að gerast. Ég er stödd í rjúkandi rúst. Boðað er til mótmælafundar fyrir utan Útvarpshúsið, Efstaleiti, á morgun kl. 12.30. Ykkar Una Margrét."

Eru þetta vinnubrögð sem eru sæmandi? Nei Páll Magnússon, og við þessar aðgerðir vakna ýmsar spurningar.

Til dæmis vissir þú um þennan niðurskurð þegar þú ákvaðst að falast eftir Gísla Marteini til að stjórna þætti á sunnudagsmorgnum?

Hvað kostar bruðlið kring um afmælishátíð Rásar2?  Til dæmis að fá gamla þáttastjórendur til að vera með þætti í anda þess sem var?  Ég slökkti á útvarpinu þegar Hvítir mávar byrjuðu, Ekki vegna þess að ég hafi neitt á móti okkar manni að norðan heldur vegna þess að ég fékk óbragð í munninn að hugsa um allt fólkið sem verið er að reka út, rétt fyrir jólin, fólk sem fær ekki einu sinni að klára það sem það var að vinna að, fær ekki að vinna uppsagnarfrestin.  Felst einhver sparnaður í því?  þarf ekki að greiða þeim laun hvort sem er?

Það læðis að manni sá grunur að þarna hafi verið makkað eitthvað til að losna við óþægilega ljái í þúfu.

Sá að einum elsta íþróttafréttamanninum var sagt upp.  Og þá kemur upp í hugann dóttir þín, það getur vel verið að henni hafi verið sagt upp líka, en ég hef ekki séð það.  Og þá kemur sú spurning:

Hver ákveður hverjir eru reknir og hverjir fá að halda starfinu, ef ekki er farið eftir starfsaldri?  Og ef þú kemur að þeirri ákvörðun, ertu þá ekki vanhæfur vegna innbyrðisskyldleika?

Nýr þáttur leit líka dagsins ljós fyrir skömmu, minnir að hann heitir "Veistu svarið".  Var á þínu vitorði niðurskurður þegar þú ákvaðst að taka þennan þátt til sýningar og hvað kostar hann?

Útsvar er orðið frekar úreltur þáttur og hefur misst sinn sjarma, verður hætt með þann þátt til sparnaðar?

Nýlega var ráðist í allsherjar uppstokkun á stundinni okkar, þar sem kostað er meira til að því er virðist, hefði ekki verið upplagt að minnka glimmerið þar? Sýnist börn í kring um mig ekkert horfa frekar á nýju útgáfuna en það gerði áður.

Kastljós hefur verið einn af þeim þáttum sem hvað mest hefur verið sem skrautfjöður sjónvarpsins, þar hafa menn staðið sig einkar vel, ekki síst Jóhannes Kristjánsson sem hefur komi á framfæri svo eftir hefur verið tekið umræðum um fíkniefnavandann og það böl sem því fylgir.  Hefði ekki verið nær að skera eitthvað annað niður en að reka þann mann?  Til dæmis mega Hraðfréttir algjörlega missa sig, en það er mitt mat. 

Svo vil ég lýsa samúð minni til þess starfsfólks sem hefur fengið reisupassann sinn svona rétt fyrir jólin, og að því virðist með offorsi.  Ef það er rétt sem hér kemur fram að ofan, um að starfsfólki hafi hreinlegal verið fleygt út í bókstaflegri merkingu og ekki óskað eftir vinnuframlegi þeirra frá þessari stundu, þá er það ekkert annað en glæpsamleg aðför að virðingu fólks og öryggi.  Nóg var nú samt að  missa vinnuna þó ekki væri bætt um betur með slíkri framkomu. 

Fram yfir þessa helgi ætla ég ekki að hlusta né horfa á Rúv,  ekki fylgjast með ´"hátíðarhöldunum" sem þið kallið svo ósmekklega eftir þessa aðför að starfsfólki ykkar.

Svo væri fróðlegt að fylgjast með andrúmslofti á vinnustað þar sem slíkt ofbeldi hefur farið fram.  Ætli þetta sé eitt af tilraunum til að þagga niður óþægilega umfjöllun eða þagga niður í fólki sem ekki eru stjórnvöldum sammála?  Og er þá einhver "kaupmáli" innifalin í því fyrir þig?  Spyr sú sem ekki veit.

Ég var slegin fyrir þessum uppsögnum, en ég er ofsalega reið að heyra hvernig farið hefur verið með fólkið. 

Þú skuldar ekki bara starfsfólki þínu útskýringum, heldur landsmönnum öllum því það hefur jú verið staglast á því að rúv væri útvarp allrar þjóðarinnar. 

Ég vonast til að fá svör, ég er nefnilega frekar skynsöm manneskja og praktísk, og ef ég fæ útskýringar sem ég get sætt mig við þá er það ágætt, þangað til segi ég bara skammist þið ykkar.


mbl.is Ekki komist hjá uppsögnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mikið er ég hjartanlega sammála hverju einasta orði hjá þér Ásthildur mín. Einkennilegt að ég var að reyna að "líka þetta" hérna á síðunni þinni en meinað um það...kannski er það komið 55 sinnum á fb-ið hjá mér hehehe :)

Geturðu ekki sent þetta bréf beint til Páls Magnússonar ? Eða ráðherra - alþingi ?

Ertu búin að skrifa undir "mótmælin - áskorunina til ráðherra ?

Veistu það að mér er allri lokið, ég veit ekki hvað er í gangi hérna og hvernig þetta endar !

Ég þekki mann sem vann hjá RÚV sem var sagt upp, nánast á sömu stundu varð hann að útvega sér USB lykil... eins og skot, taka út myndir eða eitthvað persónulegt sem hann var með á tölvunni og á meðan var nánast staðið yfir honum OG SVO BLESS BLESS ! Ég átti ekki orð, mér var nú bara hreinlega mikið brugðið ! Þetta er mjög góður starfskraftur og stendur mér nálægt þannig að ég er ekki að vitna í eitthvað frá þriðja aðila.

Já við viljum SVÖR, við landsmenn viljum svör !! Takk fyrir vel skrifað og hnitmiðað bréf Ásthildur mín, vona að það skili sér á réttan stað !!

Ingunn Björgvinsdóttir (IP-tala skráð) 28.11.2013 kl. 13:53

2 identicon

Mjög góður pistill og málefnalegur.

Þessar aðferðir á RÚV við uppsagnir eru sko ekkert nýmæli.  Ég þekki tvo einsaklinga sem fengu slíkar trakteringar á undanförnum misserum.  Hennt út í miðjum verkefnum, á miðjum dögum, fyrir framan alla.  Engin boð um áfallahjálp á kostnað RÚV fylgdu með.

Eitthvað er einnig málum blandið við starfsmannafjöldann á RÚV.  Nú er sagt rúmlega 300.  Þegar ég skoðaði starfsmannalistann fyrr á þessu ári taldi ég 425.   Nú er starfsmannalistinn lokaður.  Ætli skýringin sé ekki fjöldi þeirra sem eru á verktakasamningum, til að fegra starfsmannatöluna og vera betur í stakk búnir til að reka fólk með engum fyrirvara.....

Ólafur Guðmundsson (IP-tala skráð) 28.11.2013 kl. 14:51

3 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Tek undir sjónarmið þín. Að grafa undan þjóðmálaumræðunni og hrekja burt mjög góða starfsmenn t.d. í Kastljósi og Speglinum en láta fíflaþáttinn Hraðfréttir fá að þrauka.

Bestu kveðjur!

Guðjón Sigþór Jensson, 28.11.2013 kl. 15:26

4 identicon

 Þakka þér góðan pistil, Ásthildur. Þetta er hverju orði sannara. Ég er sammála þér um Hraðfréttirnar, og svo mætti Gunnar á Völlum hætta líka, eins vitlaus og leiðinlegur og hann er. Ég loka nú yfirleitt fyrir hljóðið þegar þetta kemur. Svo mætti fara að setja tímamörk á útvarpsstjórann sjálfan, enda er það ekki lenska lengur að æviráða fólk í yfirmannastöður, og það ætti að gilda um útvarpsstjóra eins og aðra stjóra, og þeir sitji ekki lengur en í mesta lagi fimm til tíu ár. Ég skil heldur ekki, hvers vegna kona er ekki ráðin útvarpsstjóri. Mér finnst meira en kominn tími til þess og að jafnréttisreglan gildi í þessu embætti eins og öðrum, og myndi verða tímanna tákn. Útvarpið yrði kannske betur rekin stofnun undir forustu konu, eða ég leyfi mér að vona það.

Guðbjörg Snót Jónsdóttir (IP-tala skráð) 28.11.2013 kl. 15:42

5 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Það vantaði líklega Ástþór Magnússon við mótmælin í dag? Hann hefði mótmælt því sem fyrst og fremst, og raunverulega þarf að mótmæla: útvarpsstjóranum Páli Magnússyni sjálfum!

Alkamafían er klikkuð!

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 28.11.2013 kl. 18:05

6 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk öll fyrir góð komment, eftir að hafa horft á kastljósþáttinn í kvöld krefst ég þess að útvarpsstjórinn Páll Magnússon verði rekinn með skömm, gert að fara án þess að vinna uppsagnarfrestinn og lokað á öll hans tölvusamskipti. Ég er vægast sagt brjáluð yfir þessari meðferð og svo skammast hann sín ekki fyrir að fara svona með starfsfólkið sitt, jú af því að einhverjir andskotans lögfræðingar sögðu honum að svona ætti þetta að vera.  Já nú á að mótmæla af öllum kröftum.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 28.11.2013 kl. 20:52

7 Smámynd: Jens Guð

  Flottur pistill hjá þér. 

Jens Guð, 29.11.2013 kl. 00:10

8 Smámynd: Kjartan Sigurgeirsson

Þetta er til umhugsunar að þetta sjálfhverfa lið sem vinnur á fjölmiðlum geti fengi jafn stóran hóp fólks sem að öllu jöfnu verður að teljast með fullu viti og jafnvel margt mjög vel gefið til að sleppa allri gagnrýnni hugsun ef á þau telja að á hlut sinn sé gert.  Mér fannst frekar sorglegt að sjá í fréttum RÚV hóp fólks með kröfuspjöld mótmæla því að örfáir starfsmenn báknsins voru reknir, hefði eflaust mátt gerast mikið fyrr.  Þetta fólk hefur ekki sést fyrir framan Landspítalann, þar sem búið er að segja upp nokkur hundruð starfsmönnum, heldur ekki fyrir framan lögreglustöðina en þaðan hafa fokið nokkrir tugir eða hundruð. Og ef ég skoða grannt hug minn tel ég mun mikilvægara að hlúð verði að mér ef ég veikist eða mín og gætt og öryggis míns, heldur en að mér verði sýnt Dallas eða eitthvað ámóta í sjónvarpinu.  Það er eins og Páll sagði réttilega erfitt að segja upp fólki, en ég held eftir því sem mér hefur sýnst  að rétt hafi verið að því staðið.  Það er engum til góðs að fólki sé haldið í vinnu á stað sem hefur þurt að segja því upp í 3 eða 6 mánuði þegar það er í atvinnuleit og alls ekki með hugann við það að vinna þeim atvinnuveitanda sem búinn er að hafna því gagn.  Þetta var fyrir nokkrum árum gert við u.þ.b. 1500 bankamenn og þá sagði enginn orð, enda hafa bankamenn ekki beinan aðgang inn í stofur allra landsmann.  Ég held að við ættum að fara okkur hægt, það eina sem hægt er að ásaka Pál fyrir er framkoma hans við Helga Hjörvar, en það hefur hann skýrt og beðist afsökunar fyrir og finnst mér þrátt fyrir að svona framkoma sé óafsakanleg að manni sem stýrir stofnun af þessari stærðargráðu að hún sé ef til vill skiljanleg þar sem það hefur örugglega tekið á hann allt þetta ferli og hann verið í ójafnvægi út af því.  Ég hef reyndar beðið eftir að Helgi fengi svona tiltal, talið að það væri ekki spurning um hvort heldur hvenær.

Kjartan Sigurgeirsson, 29.11.2013 kl. 01:35

9 Smámynd: Jens Guð

  Kjartan,  þú kemur inn á punkt sem skiptir miklu máli:  Að útvarpsstjórinn var í ójafnvægi.  Hann missti stjórn á skapi sínu og galaði á undirmann sinn af fádæma ruddaskap.  Kallaði hann skíthæl og óþverra.  Með þessari framgöngu gerði útvarpsstjórinn sig umsvifalaust óhæfan.  Svona gera menn ekki.  Svona hagar forstjóri sér ekki.  Þetta er gargandi óhæfur forstjóri hvaða fyrirtækis sem er.  Og jafnvel þó að þessi hróp forstjóra á undirmann væri ekki að ræða.  Svona dónaskap og hroka á enginn að sýna vinnufélaga óháð því hvar þeir standa í stiga goggunaraðar þess sem ræður miklu eða litlu á vinnustað. 

Jens Guð, 29.11.2013 kl. 02:14

10 Smámynd: Kjartan Sigurgeirsson

Sammála Jens

Kjartan Sigurgeirsson, 29.11.2013 kl. 02:17

11 Smámynd: Kjartan Sigurgeirsson

Ég verð að biðja alla sem málið snertir afsökunar á að hafa farið ranglega með nafn fréttamannsins, sá við yfirlestur kommentsins að ég hafði rangfeðrað hann og bið því bæði hann og alla þá sem heita Helgi Hjörvar afsökunar. Ég veit ekki hvers vegna þessi samsláttur hefur átt sér stað, en líklega hef ég ekki hugsað vegna ójafnvægis sem ég hef komist í út af þessu máli.

Kjartan Sigurgeirsson, 29.11.2013 kl. 07:45

12 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Kjartan minn ég er viss um að þér er fyrirgefið vegna nafnaruglings.  Ætli við séum ekki öll í uppnámi út af þessu máli.  Margt af því fólki sem sagt var upp, eru einskonar heimilisgestir hjá okkur. 

Það sem ég er aðallega að gagnrýna er hvernig staðið var að þessari uppsögn og ég  er viss um að það er miklu erfiðara fyrir fólk að vera rekið á staðnum en fá ekki að vinna uppsagnarfrestinn, eða allavega þangað til þau eru tilbúin að fara annað.  Ég hef þá trú á fólki að það vinni vinnuna sína af heilindum bæði fyrir og eftir brottrekstur. 

Einnig fer í mig að þættir sem eru afar léttvægir og jafnvel leiðinlegir að mínu mati eins og hraðfréttir, skuli halda áfram meðan hróflað er svona afgerandi við Kastljósinu.  Ætli sá þáttur fari ekki langt með að greiða laun Jóhannesar?

tíu milljónakróna þátturinn og svo Sunnudagsmorgun eru þættir sem ég held að hefðu mátt bíða betri tíma.  Og fróðlegt að vita hvort útvarpsstjóri hafi ekki vitað af þessum niðurskurði þegar hann ákvað að setja þá á laggirnar.  Jafnvel Útsvar er alveg komin á mörk þess að vera skemmtilegur þáttur. 

Ég er ein af þeim sem er að berjast fyrir málefnum fíkla, og því svíður mig að aðaltalsmaður þeirra skuli vera einn af þeim fyrstu sem látinn er fjúka á RUV. 

Það er svo margt sem hægt er að gera áður en fólki er sagt upp.   

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 29.11.2013 kl. 11:51

13 Smámynd: Kjartan Sigurgeirsson

Ég ætla ekki að deila við þig Ásthildur um rekstur RÚV, ég er svo hjartanlega sammála um að bullið veður þar uppi og einhvernvegin læðist að mér sá grunum að Páll hafi reiknað dæmið þannig að það snerti ekki ráðamenn þjóðarinnar hvort hann segir upp þessum bull verktökum eins og þú nefnir Hraðfréttir, maður í bak og milljóna spurningarnar o.s.frv., það kemur hinsvegar við kaunin á þeim eins og raunar allri þjóðinni það sem skorið er niður núna.  Þetta með að láta fólk hætta strax er ég hinsvegar ekki sammála þér, ég hef orðið vitni að mörgum tilvikum þar sem fólk sem hefur sagt upp eða verið sagt upp hefur verið neitt til að vinna uppsagnarfrestinn og því hefur liðið alveg hörmulega.  Ég er ekki í vafa um að ef mér hefði verið sagt upp störfum og staðið til boða val um að vinna í 3 til 6 mánuði eftir uppsögn eða fengið að hætta strax til að leita mér að vinnu hefði ég valið að hætta strax til að geta byrjað að leita að vinnu allan daginn, ekki bundinn af vinnuskyldu 8 klst á dag.  Við verðum að gera okkur grein fyrir því að Ríkisútvarpið verður að greiða laun út umsaminn uppsagnarfrest.

Kjartan Sigurgeirsson, 29.11.2013 kl. 14:10

14 Smámynd: Kjartan Sigurgeirsson

Ég vil Ásthildur taka það fram varðandi síðustu málsgreinina að þar áttu alla mína samúð og allir þeir sem eiga við þennan djöful að glíma, ég vona að útvarpið okkar sem við stöndum undir og eigum komi  ekki til með að slá slöku við í baráttu sinni við fíkniefnavandann og annað sem honum fylgir, eins og ofbeldi á heimilum.  Verði svo er fátt sem réttlætir tilvist þess fyrirtækis. 

Kjartan Sigurgeirsson, 29.11.2013 kl. 14:21

15 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk fyrir þessa síðustu málsgrein Kjartan, já eg vona svo sannarlega að það verði ekki.  Málið er að Jóhannes sem sjálfur hefur þekkt þennan vanda, kom þessu á kortið, og ég meðal annars batt vonir við að það myndi halda áfram. 

Hvað varðar að vinna uppsagnarfrest þá finnst mér að starfsfólkið ætti að fá að ráða því sjálft hvort þau ynnu út uppsagnarfrestinn eða ekki.  Mér finnst það algjörlega sanngirniskrafa og spurning um sjálfsvirðingu fólksins.   

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 29.11.2013 kl. 16:54

16 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Eg held að Páll útvarpsstjóri hafi brugðist starfsmönnum sínum. Hvers vegna stóð hann ekki með starfsliðinu og varið hagsmuni þess og þeirrar stofnunar sem hann ber ábyrgð á?

Nú á að reka 40 starfsmenn RÚV. Á sama tíma er búið að ráða nálægt 20 aðstoðarmenn ráðherra sem virðast ekkert vera of klárir að stjórna landinu. Því miður virðist ríkisstjórnin bæði vera reikul og ráðvillt. Og þá þykir þessum mönnum sjálfsagt að fækka og stytta fréttatíma sem og fréttaskýringaþætti eins og Spegilinn og aðra fróðlega þætti. Á meðan eiga „fíflaþátturinn“ Hraðfréttir að halda áfram sem er einskis virði fyrir þá sem vilja kryfja þjóðmálin.

Guðjón Sigþór Jensson, 29.11.2013 kl. 18:10

17 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Einmitt Guðjón það að klippa á fréttatengt efni en leggja áherslu á fíflagang eins og Hraðfréttir og slíka afþreyingu.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 29.11.2013 kl. 18:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Höfundur

Ásthildur Cesil Þórðardóttir
Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Tónlistarspilari

Ásthildur Cesil - Dagdraumar
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • 2f19c636fb68b249555c5fa250d3e103--russian-image-jellyfish
  • engill-angel
  • jolatre
  • 20171002 121526
  • gasometers-vienna-7[5]

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 46
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 40
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband