Gerendur eineltis, og þeir sem fylgja á eftir.

Svo sannarlega þörf umræða og tímabær. Ég set hins vegar spurningamerki við það að slíkrar hegðunar verði vart strax í leikskóla.  Það tel ég að fólk verði virkilega að gera greinarmun á börnum sem eru hvatvís og jafnvel ganga svo langt að bíta og slá önnur börn og svo öðrum börnum.

Ég tel einfaldlega að það sé ekki hægt að ráða úr hegðun leikskólabarna hvort þar leynist framtíðar eineltis seggur eða ekki.

Ég þekki nokkur börn sem hafa verið aggressíf sem smábörn, sem eiga til að bíta og slá önnur börn, en hafa á síðari stigum ekki á nokkurn hátt sýnt af sér einkenni ofbeldis á borð við einelti til annara.  Þvert á móti hafa þessi börn sýnt af sér góða hegðun gagnvart öðrum þegar þau hafa þroska til.  Það eru ýmis ráð notuð í leikskólum á þau börn sem sýna af sér svona hegðun, m.a. með að bera á varir þeirra smyrsl sem þau finna fyrir, en aldrei nema í samráði við foreldra.

Einelti er hræðileg athöfn, en vei ef það á að fara að sortera smábörn strax í leikskóla hvort þau séu framtíðar eineltisbörn eða ekki.  Og þá auðvitað að láta það í hendur misviturra leikskólastjóra vítt um landið.

Það er hægt að rannsaka allan andskotann og komast að einhverjum niðurstöðum, en hvort það hjálpar við vandamálið er svo allt annað mál.

Ég kenndi í nokkur á leiklist við einn lítinn skóla í Hnífsdal, þar var hægt að sjá vel hvernig einelti byrjar, með afar einföldum hætti.  Og í svona leiklistartímum er hægt að vinna í málinu á einkar skilvirkan hátt, t.d. með því að koma í leik þar sem allir prófa að vera fórnarlömb og gerendur.  Og það skilar sér ótrúlega vel með því að þó þetta sé leikur, þá skilja krakkarnir um hvað það snýst.

Það væri því frekar að hafa leiklistarkennslu í grunnskólum strax frá 6 ára aldri.  Og þannig vinna málin strax í upphafi.

Ég hef séð afleiðingar eineltis á fólk sem ég þekki og er mér kært. Fyrir sumum sem eru viðkvæmir og með brotna sjálfsmynd fyrir, er það þannig að þau bíða þess aldrei bætur allt sitt líf. En svo er líka það að ég hef rætt við fólk sem hefur staðið að einelti og það hefur líka sett mark sitt á það fólk, skömmin sem fylgir þegar þau átta sig á því hvað þau hafa gert er stór og þau líða ekkert síður fyrir sinn þátt í slíku, og það sem verra er, þau geta ekki snúið tímanum við og gert gott úr öllu, eftir á.

En í guðsbænum ekki fara að skima eftir tilvonandi skemmdarvörgum í leikskóla, nóg er nú samt, og það er auðvelt að eyðileggja litlar sálir fyrirfram með slíku, og gæti haft afleiðingar sem við sjáum ekki fyrir endann á.  

Fólk sem leggur aðra í einelti má skipa í tvo flokka.  Annars vegar fólk sem geta haft áhrif á aðra, og líður illa í sálarlífinu, og svo hina sem vilja þóknast og elta slíka einstaklinga og taka þátt án ástæðu.

Búllíarnir eru gjarnan fólk, bæði fullorðnir og börn sem í fyrsta lagi hafa sjálf brotna sjálfsmynd og eru uppfullir af afbrýðisemi og illgirni til annara af einhverjum ástæðum.  Til dæmis vegna þess að þeim líður sjálfum illa og vilja þess vegna "ná sér niðri" á þeim sem þeir vita að þeir ráða við.  Þeir þurfa því að koma upp hóp í kring um sig, til að hafa áhrif.  Þeir sem fylgja með en eiga ekki í þeim krísum sem foringjarnir hafa, er ef til vill hópurinn sem hægt er að ná til, með það í huga að sýna fram á að svona framkoma gengur ekki. 

Foringjarnir þurfa hjálp, en hinir fræðslu.  Svo einfalt er þetta bara. 

Og sorglegasta er þegar það verður ljóst að kennarar og jafnvel skólastjórnendur taka fullan þátt í eineltinu.  Slíka sjórnendur og kennara þarf að fjarlægja strax með góðu eða illu. 


mbl.is Gerendur eineltis þurfa líka hjálp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Smábörn vaxa upp úr hegðun með leiðbeiningu, ég beit og klóraði ef ég tókst á við ofjarla mína. En þriggja- fjögurra ára var mér gerð grein fyrir að svona gerir maður ekki og það þyrfti að taka tennur úr fólki sem notaði tennur í að bíta annað en mat. Naglbíturinn sem nota átti ef þyrfti lá á borðinu í einhverja daga, ég get enn séð hann fyrir mér þar. En fólk sem þekkir veit hversu aggressíf ég hef verið síðustu 64-5 árin. En það þarf að fylgjast vel með eldri börnum og eins og þú segir, er skelfilegt þegar fullorðnir taka þátt. Þeir vita betur.

Dísa (IP-tala skráð) 28.10.2013 kl. 22:46

2 Smámynd: Jens Guð

  Þetta er flóknara.  Gerendur eineltis skiptast í marga flokka.  Ég veit ekki með leikskólabörn.  Ég var aldrei í leikskóla. 

  Það er eitthvað í eðli manna - og dýra sem lifa í hópum - að staðsetja hópinn í "goggunarröð".  Hjá fólki er röðinni stillt upp að mestu án líkamlegra átaka.  Í skóla takast strákar á.  Öll mín grunnskólaár slógumst við strákarnir daglega.  Sjaldnast í illu.  Við strákarnir reyndum okkur og fundum út styrkleikahlutfallið.  Oftast var það þannig að þeir sem voru áþekkir að styrk héldu áfram að slást við hvorn annan.  Það var skemmtilegast.  Kannski blandaðist inn í von um að komast að einhverjum mun.    

  Alltaf var það þannig að einhverjir áttu erfitt með að verja sig og aðrir notfærðu sér það.  Lögðu þá í einelti.  Það þótti frekar ómerkilegt en var skilgreint sem stríðni og lítið gert með það.  Í "gaggó" átti ég það til að vera fantalegur við einn skólabróðir minn.  Ég áttaði mig ekki á ástæðunni fyrr en mörgum árum síðar.  Þá áttaði ég mig á því að um var að ræða öfund.  Strákurinn var flinkari á gítar en ég og átti auðveldara með að setja saman vísur.  

  Þegar ég var í barnaskóla lagði einn strákur yngri dreng í einelti.  Fullorðinn bróðir yngri drengsins kallaði eldri drenginn á sinn fund.  Sagði honum að bróðir sinn ætti eitthvað erfitt í skólanum.  Það væru vandræði með að koma honum í skólann.  Bróðurnum liði illa í skóla út af því að einhverjir væru vondir við hann.  Fullorðni bróðirinn sagði við eineltispúkann:  "Bróðir minn vill ekki segja hverjir eru vondir við hann.  Þú ert sterkastur í skólanum og krakkarnir taka mark á þér.  Þess vegna vil ég biðja þig um að passa bróðir minn.  Verja hann fyrir þeim sem eru vondir við hann."

  Hrekkjusvínið skipti um gír.  Hann varð jafn áhugasamur um að passa yngri drenginn og hann hafði áður verið áhugasamur um að leggja hann í einelti.  Það mátti ekki anda á yngri drenginn eftir þetta öðru vísi en eineltispúkinn tæki í hnakkadrambið á viðkomandi.  Hann varð eiginlega öfgafullur við að taka verndarhlutverkið hátíðlegt.

  Minnugur þessa notaði ég sömu aðferð fyrir nokkrum árum þar sem ég kenndi grunnskólakrökkum skrautskrift.  Árásagjarn (bully) 12 ára drengur sat um annan dreng.  Hæddist að öllu sem hann sagði og var ókurteis í garð drengsins.  Fórnarlambið var mjög óöruggt,  leið illa,  svaraði ekki fyrir sig og átti erfitt með að tileinka sér skrautskriftina.  

  Ég tók eineltispúkann á eintal.  Sagði honum að drengurinn væri ekki að ná tökum á skrautskriftinni.  Ég sagði eitthvað á þessa leið:  "Þú ert rosalega fljótur að læra skrautskriftina.  Ert klárlega góður í teikningu og ert eiginlega að verða flinkari en ég í skrautskrift.  Það er verra með X.  Hann er í vandræðum með þetta.  Ertu til í að hjálpa mér að beina honum inn á rétta braut með þetta?  Vera aðstoðarkennari minn á námskeiðinu?  Þá læt ég ykkur sitja saman annað kvöld og þú leiðbeinir honum um leið og hann gerir eitthvað vitlaust."

  Strákurinn féllst á þetta.  Hann tók hlutverkið hátíðlega.  Af mikilli umhyggju og á vinalegan hátt leiðbeindi hann hinum drengnum samviskusamlega.  Þessir skólabræður höfðu ekki kynnst að ráði áður.  Þeir uppgötvuðu í leiðinni sameiginlegan músíksmekk.  Mér þótti vænt um það að á síðasta kvöldi námskeiðsins var eineltispúkinn búinn að "skrifa" geisladisk og gaf hinum með tónlist The Prodigy.      

  Annað dæmi:  Í grunnskóla voru tveir skólabræður mínir gormæltir.  Annar þeirra varð fyrir stríðni vegna þess.  Hann tók stríðni illa og brást hinn versti við allri stríðni.   Fór jafnvel að gráta og hafði í heitingum.  Hinn gormælti drengurinn gekk manna lengst í að hrekkja hinn.  Hermdi eftir hinum með ýktri útgáfu af gormælgi og sagði:  "Krunkaðu nú fyrir okkur:  Grú,  grú,  krunk, krunk!"  Einhverra hluta vegna komst þessi upp með að gera grín að gormælgi hins án þess að verða sjálfur fyrir stríðni vegna nákvæmlega sömu gormælgi.   

Jens Guð, 28.10.2013 kl. 22:48

3 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Dísa mín ljúfari manneskju er ekki hægt að finna, það þekki ég alveg mjög vel mín kæra

Jens takk fyrir þessa frábæru frásögn þína, og sammála, þér með það eins og reyndar Eddu Björgvins að grínið er versti óvinur eineltis. 

Það þarf að taka þessi mál föstum tökum og ekki með einhverri væmni og útúrdúrum heldur taka á þeim með föstum tökum og af skynsemi. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 29.10.2013 kl. 01:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Höfundur

Ásthildur Cesil Þórðardóttir
Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Tónlistarspilari

Ásthildur Cesil - Dagdraumar
Sept. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30          

Nýjustu myndir

  • 2f19c636fb68b249555c5fa250d3e103--russian-image-jellyfish
  • engill-angel
  • jolatre
  • 20171002 121526
  • gasometers-vienna-7[5]

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.9.): 7
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 45
  • Frá upphafi: 2021764

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 30
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband