Stundum er ekki hægt annað en að segja hlutina hreint út.

Mínir ágætu vinir nær og fjær, eins og þið vitið hef ég verið blank page undanfarið.   Hef átt í sálarstríði, með þungavinnutæki að grafa hér fyrir ofan mig í svæði sem ég fékk úthlutað fyrir um 30 árum og við hjón höfum unnið að stundum myrkra á milli við að planta út og gróðursetja.  Höfum átt mörg yndisleg kvöld að ganga um ræktina og dást að hve vel plönturnar dafna og hve stórar þær eru orðnar.

Í vetur var byrjað á framkvæmdum í sambandi við nýja vatnslögn vegna snjóflóðavarnargarðsins sem á að rísa, en það gleymdist að tala við mig, og þar sem ég var stödd í útlöndum, þá var bara vaðið í svæðið, mörg tré bara rudd burtu og eyðilögð upp á hundruð þúsund króna, ég hef kært þetta og á eftir að leggja fram lista yfir trén sem eyðilögð voru.  Ég fæ þau bætt.

Það sem aftur á móti hefur "gleymst" að segja mér af þar til bærum yfirvöldum er að það á líka að leggja þungaflutningaveg þvert í gegnum landið, og einmitt þar sem stærstu trén eru og elstu.  Ég heyrði þetta útundan mér og hitti eftirlitsmann sem hér var á ferð, hann var undrandi á að ekki hefði verið rætt við mig um þetta.  'Eg sagði honum að ég vildi skoða að færa þennan veg ofar í landið, þar sem væru smærri tré sem auðveldara væri að flytja.  Hann ætlaði að ræða þetta við ofanflóðasjóð og koma á fundi.  Hef samt ekkert heyrt um þetta ennþá.  En vonast til að þeir komi og ræði málin við mig.

 

En svo í dag barst mér þetta bréf, sem er sent á lögfræðing minn en ég fékk afrit.

Ég ætla að birta það hér, mér þykir það leitt félagar í Ísafjarðarbæ, en þar sem ég hef lesið flest það sem yfir mig hefur komið í BB, þar sem "gleymdist" að ræða við mig persónulega, þá ætla ég að nota sömu aðferð núna og birta þetta bréf, ásamt mínum hugleiðingum um þessi mál, vona að þið fyrir gefið gamalli konu það, þar sem svo virðist sem að leggja eigi líf hennar í rúst.

                                                                                          Ísafjörður 3. Júlí 2013.

 

Efni; Seljalandsveg 100

Ísafirði

Vísað til bréfs Ísafjarðarbæjar dags. 6. maí s.l.

 

Í fyrrnefndu bréfi var umbj. Yðar gert tilboð um kaup á húseigninni Seljalandsvegi 100, Ísafirði í tengslum við fyrirhuguð uppkaup húseigna við Seljalandsveg vegna hættu á snjóflóðum og skriðuföllum.  Var tilboðið byggt á endurskoðuðu mati þeirra Tryggva Guðmundssonar og Níels Indriðasonar, sem unnið var fyrir Ísafjarðarbæ og ofanflóðasjóðs.  Þar sem ekki er fallist á tilboð Ísafjarðarbæjar er litið svo á að ekki hafi náðst samkomulag um kaup á húseigninni í skilningi 4. mgr. Laga nr. 49/1997 um varnir gegn snjóflóðum og og skriðuföllum.

 

Þar sem samningsumleitanir um kaup á húseigninni hafa staðið í allnokkurn tíma er rétt að taka fram eftirfarandi.  Hættumat fyrir Ísafjörð var samþykkt í apríl 2003 og endurskoðað á árunum 2008 og 2009. Í niðurstöðu hættumatsins var talin töluverð hætta á snjó og aurfóðum og grjóthruni undir Gleiðarhjalla.  Allnokkrar húseignir féllu skv. hættumatinu innan hættusvæðis C.  Ísafjarðarbær fól Verkfræðistofunni  Verkís að gera úttekt og skýrslu um varnarvirki á umræddu svæði og lá sú skýrsla fyrir í desember 2009, sbr. meðf. Skýrslu og gögn.  Upphaflega var gert ráð fyrir görðum til varnar húseignum á svæðinu, m.a. svonefndum garði  1 sem var um 14 metra hár og 260 m. Langur. Í 11. gr. laga nr. 49/1997 er kveðið á um að ef hagkvæmara er talið, til að tryggja öryggi fólks gagnvart ofanflóðum, sé sveitarstjórn heimilt að gera tillögu til ofanflóðanefndar um kaup á húseignum frekar en að reisa varnarvirki eða beita öðrum varnaraðgerðum.  Athugun Ísafjarðarbæjar á tillögum um gerð varnarvirkja leiddi í ljós að kostnaður við varnarvirki vegna tveggja húseigna við Seljalandsveg, nr. 100 og 1002, væri 60  - 80 milljarða króna meiri en kostanaður við uppkaup þeirra.  Að undangenginni samþykkt bæjarráðs Ísafjarðarbæjar hinn 14. febrúar 2011 og bæjarstjórnar 24. febrúar var sú tillaga lögð fyrir Ofanflóðanefnd að Ísafjarðarbæ yrði heimilað að leita eftir uppkaupum á grundv elli þá fyrirliggjandi matsgerðar um markaðsverð húseignanna, í  stað þess að ráðast í gerð varnarvirkja.  Með bréfi Ofanflóðanefndar, dags. 10 janúar 2012, var Ísafjarðarbæ heimilað að leita eftir samningum um uppkaup húseignarinnar Seljalandsvegar  100 og var tilboði þar að lútandi sent umbj. Yðar ásamt verðmatsskýrslu.  Með bréfi yðar dags. 22. apríl 2013 var kauptilboði Ísafjaraðrbæjar hafnað.  Í framhaldi af ofangreindu bréfi  yðar var ákveðið að leita eftir heimild Ofanflóðanefndar til að láta fara fram endurskoðun á mati á markaðsvirði, þar sem allnokkuð var umliðið frá upphaflegu mati.  Með bréfi til hyðar dags. 6. Maí s.l. flgdi endurskðað mat á markaðsvirði, sem ekki er fallist á af yðar hálfu, sbr. Og það sem kom fram hér að framan.

 

Í bréfi Ísafjarðarbæjar dags. 6. maí sl. Var gerð grein fyrir þeirri ráðagerð að ef ekki  næðist samkomulag um sölu umbj. yðar á húseigninni ætti Ísafjarðarbær þess kost a ðleita eignarnáms á grundvelli 4. Mgr. Laga nr. 49/1997 og var óskað eftir athugasemdum við þá ráðstöfun sérstaklega, en ekki hafa verið gerðar sérstakar athugasemdir þar að lútandi.

 

Með vísan til ofangreinds verður sú tillaga lögð fyrir bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar að neytt  verði heimildar 4. Mgr. 11 laga nr. 49/1997 og húseignin Seljalandsvegur 100 tekinn eignarnámi skv. Lögum nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms.

 

Af gefnu tilefni leyfir Ísafjarðarbær sér að taka fram að hann er tilbúin til þess, komi til eigendaskipta sbr. Hér að framan, og megi það vera til sátta í máli þessu,  að lýsa yfir tilja til að gera tímabundinn leigusamning við núverandi eiganda um afnot af húseigninni frá 15. Apríl til 15. Desember ár hvert, gegn hóflegri leigu, skilmálum um viðhald, sýmingu í háttuástandi o.fl.  samningurinn yrði t.d. til 10 ára, með framlengingarheimild, en væri ekki framseljanlegur.

 

Þetta  upplýsist hér með.

Svo mörg voru þau orð. 

Og nú vil ég biðja ykkur bæjarstjórnarmenn og bæjarráð að virða það sem ég hef gert fyrir þennan bæ og hafna því að bera mig út úr húsinu mínu.

 

Þetta hús er nefnilega ekkert venjulegt hús, þetta er líf mitt og Ella nú í 30 ár.  Hreiður sem við höfum skapað okkur og ætlum að dvelja þar það sem eftir er.  Það er ekki langur tími, því næsta ár verðum við 70 ára.

Þar sem lögfræðingur minn er erlendis og mun ekki koma heim fyrr en 15 júli, þá vil ég bara segja það hér og nú, að ég mótmæli því harðlega að þið takið húsið mitt eignarnámi, ég mun berjast fyrir því að halda því hvað sem þið segið.

Samkvæmt stjórnarskrá, þá er heimili manns heilagt og rétturinn til að dvelja þar ótvíræður, það er einungis hægt að gera svona kúnstir ef miklir almannahagsmunir liggja við.  Þið verðið að sýna fram á hvaða almannahagsmunir liggja fyrir því enginn byggð er fyrir neðan húsið mitt.

Auk þess hef ég búð hér undir Gleiðarhjallanum yfir nær 7o ár og hér hefur aldrei komið niður snjóflóð, nokkrir steinar hafa rúllað niður, en allir hafnað í mýrinni fyrir ofan, sem þið ætlið nú að þurrka upp.   Hér hefur heldur aldrei komið niður aurflóð, þó þau hafi komið annarsstaðar. 

 

Allt þetta mál hefur tekið sinn toll, og ég hef þurft að leita lækna fleiri en eins vegna þessa máls og þurft að fá róandi lyf, sem ég var reyndar hætt á eftir að ég jafnaði mig á dauða sonar míns. Það er einfaldlega ekki hægt að koma svona fram við manneskjur sem hafa alla tíð unnið bænum sínum það besta, ég gaf mín bestu ár til að fegra hann og gera allt sem mér var mögulegt til að koma honum upp úr því að vera sóðalegasti bær Íslands, í að vera kallaður túlípanabærinn.

Mér finnst því að ég eigi eitthvað inni annað en svona þurrar tilvitnanir í einhver lög, málsgreinar og lög sem virkilega eiga að vernda fólk, en í þessu tilfelli er ekki verið að vernda neinn, þessi lög voru örugglega hugsuð þannig að geta gert ráðstafanir ef hús voru í hættu vegna snjóflóða, en ekki til að spara ofanflóðasjóði nokkrar milljónir.  Enda segir í þessari skýrslu að aldrei hafi fallið snjóflóð neðan Gleiðarhjalla, en hætta sé á grjóthruni, sem hefur alltaf verið.

 

Ég ætla ekki að láta taka af mér húsið mitt, og ég ætla ekki að láta kasta mér út.  Þið skulið þurfa að bera mig út, helst með alla fjölmiðla viðstadda.  Ég tel mig vera í rétti til að eiga hér heima meðan ég get verið hér, og ætla ekki að gefa þann rétt minn eftir. 

Þannig er staðan í dag.  Mér þykir vænt um bæinn minn og fólkið sem hér býr.  Mér þykir líka vænt um það fólk sem telur sig vera að gera bæjarfélaginu eitthvað gott með þessari hrikalegu aðgerð, en ég vorkenni ykkur.  Það er nefnilega ekki fullrannsakað hvað áhrif svona veggir hafa á fjöllinn okkar, til dæmis eru Bolvíkingar að fara í mál, vegna síns garðs og mér skilst að Siglufjörður sé allur að skríða fram vegna þess að það er búið að klippa á rætur fjallsins.

Hvað veit ég.  En nú er bara komið nóg.

Skan.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: GróaH

Gott hjá þér að láta ekki ráðskast með þig og þína. Það er ótrúlegt hvað fólk (lesist: pólitíkusar) gleymir að vera mannlegt.

GróaH, 5.7.2013 kl. 23:22

2 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk Gróa mín, já stundum er maður bara númer á reikniblaði, því miður.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 6.7.2013 kl. 00:38

3 Smámynd: Jóhann Kristinsson

Óttalega er þetta illa skrifað bréf ættli sá/sú sem skrifaði bréfið hafi aldrei heyrt um að það er hægt að láta leiðrétta stafsettningar villur á tölvum eða að lesa það sem skrifað er yfir, áður en svona mikilvægt bréf er sent.

Ekki er við miklu að búast frá svona skussum, en vonandi sjá þeir villu sinnar aðgerða áður en það er of seint.

Ásthildur mín ég vona að þér gangi allt í haginn í baráttuni við yfirvöld og óska þér og þinni fjölskyldu góðs gengis og vonandi kemur eitthvað gott út úr þessu fyrir ykkur.

Kveðja frá London

Jóhann Kristinsson, 6.7.2013 kl. 07:47

4 Smámynd: Ingibjörg Guðrún Magnúsdóttir

Ásthildur mín, ég verð bara að segja þér að ég er sleginn yfir þessari framkomu bæjaryfirvalda til þín og þinna, það er gott hjá þér að birta þetta og um að gera að standa á rétti sínum. Ef ég er að skilja þetta rétt þá hefur aldrei fallið snjóflóð á húsið þitt, (ykkar hjóna) og ekki laust við að manni finnist að það sé aðeins farið út í öfgar hérna svo maður tali varlega.

Hvar flóðin koma og lenda er aldrei hægt að segja alveg fyrir um, ekkert frekar en með eldgos, og þó svo að það sé hægt að lesa í aðstæður og gera áætluð plön út frá þeim þá er til millivegur á öllu.

Annarsvegar má lesa út úr þessu að flóðvarnagarður sé á leiðinni sem væntanlega á að veita ykkur skjól fyrir hugsanlegri vá og framkvæmdir byrjaðar vegna vatnslagna fyrir flóðgarðinn, og svo er hinsvegar talað um að kostnaðurinn við hann sé of mikill og því sé betra að koma ykkur út og það þrátt fyrir að aðgerðir séu byrjaðar fyrir flóðvarnargarðinn sem greinilega á að koma þrátt fyrir allann kostnaðinn...

Hvað er í gangi hér er ég farin að velta fyrir mér...

Ingibjörg Guðrún Magnúsdóttir, 6.7.2013 kl. 08:10

5 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk Jóhann minn.

Ingibjörg takk fyrir þitt góða innlegg.  Já þetta er frekar snúið, ég hef búið á svipuðum stað núna tæp 70 ár og þekki marga sem hafa búið hér lengur en það, og enginn okkar óttast snjóflóð, það hefur ekki komið hér undir Gleiðarhjallanum, en fyrir innan hann er þekkt hættusvæði þar sem snjóflóð koma oft, og er ekki byggt á því svæði.

Hér falla stundum steinar niður, en þeir festast í mýrinni hér fyrir ofan, mýrinni sem menn ætla nú að þurrka upp.  Aurskriðurkoma á vissum stöðum, aðallega fyrir utan okkur, aldrei hér á þessum stað.

Aðalmálið er nefnilega að hér er verið að tala um "tímabundna vinnu verktaka"  og til að ofanflóðasjóður geti komið að því máli þarf sérstakar aðstæður, eftir því sem ég kemst næst.  Og þá er ekki spáð neitt í þó mitt líf sé lagt í rúst, þannig séð.  Skýrslan er því að mínu mati hönnuð til þess að svo sé.  En það er bara mín tilfinning.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 6.7.2013 kl. 09:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Höfundur

Ásthildur Cesil Þórðardóttir
Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Tónlistarspilari

Ásthildur Cesil - Dagdraumar
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • 2f19c636fb68b249555c5fa250d3e103--russian-image-jellyfish
  • engill-angel
  • jolatre
  • 20171002 121526
  • gasometers-vienna-7[5]

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 7
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 27
  • Frá upphafi: 2022151

Annað

  • Innlit í dag: 7
  • Innlit sl. viku: 25
  • Gestir í dag: 7
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband