Ég um mig frá mér til mín.... eða þannig.

Þið hafið eflaust tekið eftir því að ég hef ekki verið mikið hér undanfarið.  Það kemur ekki til af góðu, því ég er að takast á við rosalega erfið mál.  Það byrjaði allt með því að fyrrverandi ríkisstjórn kom hingað með fund og vildi gera vel.  Með bæjarstjórninni hér komust þau að þeirri mikilvægu ákvörðun að hér skyldi reisa snjóflóðavarnargarð, þó í raun og veru sé ekki neitt sem bendir til að hér sé hætta á slíku, reyndar kemur fram í skýrslu sem gerð var til að fullkomna ástæður til þessa varnargarðs að aldrei hefði komið snjóflóð frá Gleiðarhjallanun, sem er eins og einskonar náttúruvörn okka gegn slíku.  Því var bætt inn hættu á grjóthruni og aurskriðum.  Auðvitað hafa fallið skriður hér alla mína veru hér sem er komin nú vel yfir 60 ár undir þessari hlíð, en grjótin skvassast ofan í mýrina sem hér er fyrir ofan og fara því ekki lengra.  Þetta vitum við sem hér hafa alla tíð lifað með Eyrarhlíðinni. 

Í skýrslunni kemur svo líka fram að þetta sé gert til að skapa tímabundna vinnu verktaka.  Fyrir mér er það svona lokahnykkurinn á þessari skýrslu, og til að réttlæta að ofanflóðasjóður taki þátt og þið öll, þá er skýrslan unninn með þennan punkt að leiðarljósi.  Það er mín meining.

En það sem hangir á spýtunni gagnvart mér er að þrjátíu ára vinna okkar Ella míns við útplöntun á svæðinu fyrir ofan okkur verður öll meira og minna eyðilögð, það er sem sé ekki bara að það þurfi að rústa svæði til að koma fyrir vatnslögnum, heldur á að byggja "highway" gegnum allt útplöntunarsvæðið, og það á að "skera" sem kallað er þannig að það verður helst til lítið eftir af þessari útplöntun.  Það sem er sárast við þetta er að það gleymdist að ræða þetta við okkur, ég frétti þetta svona af skotspónum.  þau tré sem voru fyrir skurðinum við vatnleiðslurnar voru flutt á nýtt svæði, en sem sagt nú er að renna upp fyrir mer að það er bara smámál miðað við það sem er á teikniborðinu og ekki hefur verið rætt við mig.  Reyndar fór verktakinn yfir hluta svæðisins í vetur án þess að ræða við mig og eyðilagði mörg tré, þar á meðal 4ja metra þin og 6 metra greni fyrir utan nokkrar 4 metra seljur og ótal greni og birki sem var þarna og bara sópað burt.

Og nú hef ég sem sagt verið í sorg og sút, og hef ekki á heilli mér tekið, og kvíði hverjum degi sem líður, og veit ekkert hvernig málin þróast.  Er hægt að gera svona við fólk, bara strika yfir 30 ára útplöntun?

Ég hef verið að reyna að halda sönsum og reyna að koma mér framúr rúminu á morgnana, reyna að bara lifa og vera til.  En það er bara fjandans erfitt skal ég segja ykkur. 

Ég ætla mér að reyna að berjast gegn þessu gerræði, því ofan á allt þetta á samt að bola mér burt frá heimili mínu þ.e. yfir veturinn. Ég má sem sagt hafa húsið mitt sem sumarbústað, en þarf að fara burt yfir vetrartímann.  Þetta er bara meira en að segja það þegar maður er orðin 69 ára gamall, að fá svona kjaftshögg, þess vegna er ég miður mín.

Ég er ekki að kenna fólkinu hér um, þetta er bara eitthvað sem einhverjum datt í hug sem eitthvað trens til að sýnast vera að gera eitthvað gott til bæjarins í boði Jóhönnu og Steingríms. Og allt án tillits til þess að það er verið að kremja sál sem hefur lagt allt sitt í umhverfið.   Málið er að það er mikilvægaqra að verktakar hafi tímabundin verkefni, og þetta er þegar nær allir verktakar hér sem höfðu getu til að takast á við verkefnið eru farnir á hausinn.  Þetta bara svíður og er að gera mér afskaplega mikið illt. 

Vona að þið fyrirgefið mér að tala svona, en ég er að reyna að halda höfði og lifa þetta af, það er bara svo erfitt.

Ég er þakklát því fólki sem hefur sýnt mér umhyggju og kærleika og vill vera mér gott. 

Hluti af þeim, er fólkið sem hingað kemur og verslar blóm hjá mér.  Það er búið að hjálpa mér mikið að spjalla og finna ástúðina og umhyggjuna sem þið hafið sýnt mér, og ég hef vissulega þurft á því að halda.

Og til þeirra vil ég líka beina ósk minni.   Á morgun fæ ég í heimsókn litlu angana mína frá Austurríki, þau verða hér í viku, þannig að ég vil sinna þeim sem mest sem ég get.  En ég vil líka sinna mínum kúnnum, ég er með yndælan strák að aðstoða mig, en hann er líka í Morranum og þarf stundum að sinna honum fram á kvöld.  Ég ætla að hafa opið en ef enginn er við, þá er bara að hafa samband við mig því ef ég er ekki upp í sölunni, þá er ég niður í kúlu. 

Ég veit að þetta er klikkað, en ég er jú klikkuð kona, þannig að hér með kem ég þessu á framfæri.

Sendi ykkur öllum svo kveðjur og takk fyrir mig.  Heart 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Steinunn Helga Sigurðardóttir

Samúðarkveðja elsku kona. Hræðilegt þegar líf manns er ekki í manns eigin höndum, en einhverra sem hafa allt aðra lífssýn og verðmætamat en maður sjálfur. Þegar mannkyn verður komið lengra í þroskastiginu þá skilur það að líf er líf, í hvaða líkamlega formi sem það velur að lifa í, planta, dýr eða manneskja.  Megi englar allt um kring, vera með til að vernda ykkur og blessaða náttúruna í kringum þig. Ljós Steina

Steinunn Helga Sigurðardóttir, 19.6.2013 kl. 05:55

2 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takka elsku Steina mín.  Ég er kvíðin og hrædd um að heilsan mín verði ekki góð vegna þessa. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 19.6.2013 kl. 07:44

3 identicon

Minningin um það sem var gefur kraft en mikið vildi ég að þú fengir gróðurreit

á góðum stað i bænum að bæjaryfirvöld greiði götu þína.

Maður a bara góðar minningar úr hlíðinni.

Bestu kveðjur Erla

Erla (IP-tala skráð) 19.6.2013 kl. 08:57

4 identicon

Knús . Ég á eiginlega engin orð, en eins og Erla segir eigum við góðar minningar úr hlíðinni, en þaær duga lítið meðan á ósköpunum gengur.

Dísa (IP-tala skráð) 19.6.2013 kl. 10:07

5 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk elsku Erla mín.  Ég var búin að taka svæði í fóstur í fyrra haust, ætlaði reynar að planta það öðrum plöntum, en hann nýttist mér við að taka við þeim trjám sem hægt var að flytja, og vonandi lifa þau af.  En allt hitt er bara svo erfitt.  Öll þessi þúsund tré sem við höfum plantað út s.l. 30 ár og eru að vaxa og dafna hér fyrir ofan okkur.  Af hverju mega þau ekki standa og verja húsið?  Þeir viðurkenna að skógurinn í Stóruurð verndi byggðina þar.  Þetta er bara hræðilegt.  En ég ætla ekki að gefast upp með að reyna að bjarga þessum trjám.

Verst er hvernig þetta fer með mitt andlega geð, ég þarf að skreiðast fram úr rúminu á morgnana og þarf að beita mig hörðu bara til að sinna daglegum þörfum.  Það er eins og öll orka hafi verið soginn úr mér. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 19.6.2013 kl. 11:31

6 Smámynd: Kidda

Ég er svo reið fyrir ykkar hönd og vildi óska að ég gæti gert eitthvað til að koma í veg fyrir þetta fólskuverk. Ég var sannfærð um að þegar þið þurftuð að yfirgefa kúluna í vetur að það væri tilkomið vegna þessa fólskuverks, til að sýna fram á að það væri hætta á flóði.

Risaknús í kúluna <3

Kidda, 19.6.2013 kl. 11:53

7 Smámynd: Kidda

Já af hverju mega þau ekki vera og verja kúluna, alveg óskiljanlegt.

Kidda, 19.6.2013 kl. 11:55

8 identicon

Ég skil nákvæmlega allt þetta sem þú ert að segja Ía mín nú er mælirinn fullur hjá þér

en vonandi flæðir úr honum fljótt,élin birta upp en tíminn læknar svo sem ekkert en maður

réttir samt fljótlega úr sér oft á tíðum,eða þannig.......?

Kveðja Erla

Erla (IP-tala skráð) 19.6.2013 kl. 13:55

9 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Forræðishyggja! Passaðu uppa heilsuna hjá þér og fjölskyldunni kæra Ásthildur, þið eruð hvert öðru dýrðmætara.

Sigurður Þórðarson, 19.6.2013 kl. 14:52

10 identicon

Sæl og blessuð! Ég hef fengið smjörþef af hinu opinbera eða stjórnvöldum, svo ég kannast við það sem þú skrifar um! Eitt máttu vita að þú ert aldrei ein í baráttunni, við erum mörg víðsvegar um landið, éh sendi þér stuðningskveðjur og sendi einnig til þín góða orku frá góðum vættum sem fylgja okkur öllum! Haltu hnarreist áfram og gangi þér vel!!!!!kær veðja úr hálfbyggðu kúluhúsi á Kjalarnesinu í 116 Reykjavík..Ingibjörg og Jón Jóhann

Ingibjörg R Þengilsdóttir (IP-tala skráð) 19.6.2013 kl. 16:56

11 Smámynd: Gunnar Skúli Ármannsson

Ásthildur, þú ert ein best klikkaða konan sem ég þekki..gangi þér vel, við hugsum til ykkar!

Gunnar Skúli Ármannsson, 19.6.2013 kl. 18:29

12 identicon

Heil og sæl Ásthildur mín; sem æfinlegast - og aðrir gestir, þínir !

Þið Elías; eruð samfélagi ykkar það dýrmæt - og lengra í frá, að Bæjaryfirvöld hljóta / og verða; að taka fullt tillit, til allra aðstæðna, og mættu þau Daníel skömm mikla hafa, ef þau sýndu ykkur ekki þann skining, sem ykkur ber, fölskvalaust.

Tek undir; með öðrum gestum hér - ekki hvað sízt, fornvini okkar, Sigurði Þórðarsyni.

Með beztu kveðjum; úr Árnesþingi /

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 19.6.2013 kl. 20:13

13 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk öll kærlega fyrir innlitið og hlý orð.  Þau eru plástur á sárin.  Svo er ég með fullt hús af barnabörnum, öll börnin hennar Báru minnar og svo er Sigurjón Dagur hér líka.  Arnar Milos nýfarin heim með pabba sínum og á von á börnunum hans Skafta, svo það er glatt á hjalla í kúlunni þessa dagana.  Ég ætla að reyna að láta þau teyma mig upp úr veröldinni, enginn getur það betur en barnabörnin mín elskuleg

Já Erla mín ætla einmitt að láta flæða úr honum núna með ungunum mínum. 

Ingibjörg gaman að heyra frá þér takk fyrir kveðjurnar, þær skipta mig miklu máli, því ein af mínum áhyggjum er einmitt að þetta rask fari illa með það líf sem er í umhverfinu hjá mér.  Reyndar á ég góða að, sem hafa talað við verurnar og huggað þær. 

Gunnar Skúli, hehehe... góður.

Takk Óskar minn. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 20.6.2013 kl. 11:57

14 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Elskuleg, en ferlega ósanngjarnt!!!

Komdu í heimsókn á Patró (með Ella) og fáðu gott spjall og gistingu ef þið viljið? Ert alltaf velkomin og ég finn svo til með þér í þessum Hamförum. Væri ekki skynsamlegra að setja verktakana í að lappa úpp á skóla bæjarins? Og gera upp skolp og tengingar til gamla fólksins og yfirgefnu húsanna?

 knús

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 20.6.2013 kl. 18:52

15 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk Anna mín, þetta er sannarlega vel boðið, málið er bara að ég er föst hér, bæði með söluna og svo barnabörnin mín, fullt hús næstu vikuna.  Takk samt elskan mín  Á þetta inni hjá þér.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 20.6.2013 kl. 21:37

16 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Góðar óskir til þín, elsku Cesil mín, sendi þér kærleik og ósk um að þú njótir sanngirni og réttlætis í hvívetna.

kv.Guðrún María.

Guðrún María Óskarsdóttir., 22.6.2013 kl. 01:13

17 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk GMaría mín innilega.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 22.6.2013 kl. 01:35

18 identicon

Skelfilega er leiðinlegt að heyra - eiginlega að lesa - þetta. Yfirgangurinn og offorsið á athafnamönnum sem komast í stjórnaraðstöðu er oftast yfirgengilegt og vanhugsað. Enda eru venjulega auðfengnir peningar í illum athöfnum. Vona bara að þetta taki fljótt af svo að hægt sé að ganga frá og reyna að laga þetta aftur í það frumlega, frjálsa og fallega form sem geislaði allsstaðar í spildunni ykkar Ella. En líklega verður það samt ekki samt og áður og mun bera menjar eftir spellvirkjana. En byggjum aftur upp með björtum vonum og fyrirætlunum! ...

Hafsteinn Hafliðason (IP-tala skráð) 23.6.2013 kl. 22:17

19 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk Hafsteinn minn.  Málið er að ofan á þetta allt er meiningin að bola mér út úr húsinu mínu, vegna snjóflóða, skriðu og grjóthrunshættu.  En allt þetta brölt virðist vera fyrir tímabundna vinnu verktaka, um þetta snýst þessi svokallaði fundur fyrrverandi ríkisstjórnar til að auka atvinnu hér á svæðinu.  Og verktakarnir, það eru eiginlega engir eftir á þessu svæði.  Þeir eru flestir farnir á hausinn vegna niðurskurðar ríkisstjórnarinnar.

Og svo að þetta tímabundna verkefni megi eiga sér stað á að setja svöðusár í Alla Eyrarhlíðina.  Og sá trjágróður sem hér hefur verið plantað verður látinn víkja fyrir skrímsli sem nefnist snjóflóðavörn. Ég skil þetta bara ekki.

Ég hélt að heimili manns væri friðhelgt, og að við ættum óskoraðan rétt til að vera þar, nema ef brýna almannahagsmuna væri að ræða.  Þeir segja mér reyndar að ég geti haft þetta sem sumarbústað.  En hvar á ég þá að vera á veturna?

Ég ætla að neita þessu og ég fer ekki fet. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 23.6.2013 kl. 22:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Höfundur

Ásthildur Cesil Þórðardóttir
Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Tónlistarspilari

Ásthildur Cesil - Dagdraumar
Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • 2f19c636fb68b249555c5fa250d3e103--russian-image-jellyfish
  • engill-angel
  • jolatre
  • 20171002 121526
  • gasometers-vienna-7[5]

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 30
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 28
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband