Leikrit í beinni.

Leikritið búið og klappi klapp.  En eftir sitja áhorfendur og vita ekki hvaðan á sig stendur veðrið.  Hver var tilgangurinn með gerð leikritsins, hvað lá að baki og hverjir voru í raun aðalleikararnir?

En sjálfstæðismenn fagna, telja að nú sé þetta búið og fylgið fari í sitt upprunalega horf.  En er það svo víst?

Ég er ein af þeim sem vorkenndi Bjarna Benediktssyni eftir viðtalið, sem sannarlega var einlægt frá hans hendi og eftirtektarvert. En var það tilviljun að spyrjendur fóru að eins og þeir gerðu?  Það sem virtist algjör ósvífni, var það ef til vill bara einn liður í fléttu sem verið var að hanna inn í Valhöll.  Það hvarflar að manni, en það getur enginn fullyrt neitt um það.

Eða var þetta leikflétta unnin af varaformanninum og hennar stuðningsmönnum?  Það getur líka alveg verið, og þó það hafi sprungið í andlit þeirra sjálfra, þá getur enginn sagt með vissu að þetta hafi verið svona.

Það sem er alveg ljóst er, að sjálfstæðisflokkurinn var í frjálsu falli, komin niður í rúm 18% sem er algjör rústun á þeim flokki.  Það hafa heyrst hurðaskellir og öskur úr Valhöll út af þessu, svo það er ljóst að eitthvað varð að gera.

Við munum aldrei fá að vita sannleikann, eða allavega ekki í mörg ár.  Málið er bara þannig fyrir mér, að þetta eru ekki vinnubrögð sem þjóðin er að kalla eftir.  Ég vil fyrir mína parta að svart sé svart og hvítt sé hvítt, og að menn taki bara því sem að höndum ber eins og menn.  En plott og svikráð er einmitt eitthvað sem þjóðin er að hafna í dag.  Ég er þess vegna ekkert svo sannfærð um að Sjálfstæðisflokkurinn muni ná vopnum sínum eftir þessa uppákomu.  Hún lýsir nefnilega óheiðarleika, svikráðum og óheilindum.  Við fengum að fylgjast með í beinni útsendingu með leikritinu, en það var ekki getið um höfundinn. 


mbl.is Bjarni heldur áfram sem formaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Samstaða þjóðar

Ennþá eru tvær vikur til kosninga og því von á fleirri "drama" leikverkum:

Sjálfstæðisflokkur býður upp á »dramatískt« leikverk í aðdraganda kosninga

Loftur Altice Þorsteinsson. 

Samstaða þjóðar, 13.4.2013 kl. 17:22

2 Smámynd: Erla Magna Alexandersdóttir

Það er margt sem þessi nyja Sjálfstæðismanna klika virðist ekki átta sig á.

 Þeir taka því sem gefnu vegna góðra verka þeirra sem unnu með heilum hug fyrir þennann flokk og fólkið í Landinu- en þessir gæjar þurfa ekki einusinni að tala um hvað þeir ætli að gera fyrir þjóðina- þeir eru í endalausri  persónudírkun og eginhagsmunum. 

Erla Magna Alexandersdóttir, 13.4.2013 kl. 18:10

3 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Loftur ég hugsa að þú hafir alveg rétt fyrir þér í þessu. 

Erla já það er víst bara svona og sorglegt hvernig þessi flokkur hefur farið. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 13.4.2013 kl. 18:28

4 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Sjálfstæðisflokkurinn, ásamt öðrum felulita-flokkum, (ESB-keyptum á Íslandi), setja daglega upp leiksýningar á kostnað atvinnulausra, fátækra, bankarændra, lífeyrissjóðsrændra, öryrkja og fátækra eldri borgara.

Eigendur flokksins (flokkanna) bíða spenntir eftir að verða klappaðir upp!

Almættið algóða og óflokkaða hjálpi fólki við að sjá í gegnum blekkinguna, og skilja raunveruleikann.

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 13.4.2013 kl. 19:59

5 identicon

Já Ásthildur, það er líklega hægt að sjá þetta í þessu ljósi ef maður er sjálfur í framboði fyrir annan flokk.

Ég hef aftur á móti það mikla trú á samferðafólki okkar að sjá að m.a.s. Sjálfstæðismenn eru mannlegir.

Það er allt búið að loga í væringum og óánægju í öðrum flokkum allt síðasta kjörtímabil og í undirbúningi kosninga, m.a. í þínum flokki. Að maður tali nú ekki um baráttu Árna Páls ræfilsins í sínum. Eigum við að tala um það?

Í ljósi skoðanakannana síðustu vikna og þeirrar sem birtist í Viðskiptablaðinu sama dag og þátturinn var með Bjarna þá var viðtalið einlægt frá hans hendi og fáránlegt að halda því fram að þáttastjórnendur séu með í einhverju "plotti".

Þessi atburðarás var bara svona og Bjarni sýndi loksins sanna leiðtogahæfileika alla leið með þessum viðbrögðum.

Sættið ykkur við það þið góða en bitra fólk sem tjáið ykkur hér fyrir ofan - það er kominn tími til að láta af þessu hatri, tortyggni og dramatík og stefna frekar að reyna að vinna saman.

Sigrún Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 13.4.2013 kl. 20:54

6 identicon

Sæl og blessuð Ásthildur mín.

Þakka þér allar fallegu myndirnar sem þú setur hér inn svo við megum njóta. Það er gott að fá að sjá fjörðinn sinn fallega, skýjafar, fjöll og mannlíf svona nánast í beinni !

Mig langar að taka undir með Sigrúnu Guðmundsdóttur. 

Það er nefnilega alveg frábært að sjá og heyra sannan leiðtoga taka á erfiðleikum og deila þeirri reynslu með okkur öllum. Menn geta dregið lærdóm af því.  Ég var á fundinum í Garðabæ í morgun.  Þar kom fram heiðarlegur og góður maður sem sagði okkur frá sínu sálarstríði.  Mér ofbýður hve ofboðslega ráðist er á þær manneskjur sem vilja leggja sitt af mörkum til að vinna landi og þjóð gagn.  Held að nú sé tími til að snúa við.  Ekki veitir af góðu fólki í þeirri vinnu sem liggur fyrir.

Þá vil ég benda á að Árni Páll er síður en svo ræfill.  Hann er flottur og góður maður þó ekki deili ég sömu skoðunum í öllum málum með honum.  Engu að síður ber ég virðingu fyrir honum og hans vilja til að vera til góðs í þjóðfélaginu.

Góð kveðja til þín og ykkar allra sem njótið þess að búa í faðmi fjalla blárra !

Auður

Auður Matthíasdóttir (IP-tala skráð) 13.4.2013 kl. 22:28

7 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Sigrún þó ég sé á lista hjá Dögun í fjórða sæti, þá þýðir það ekki að ég hafi ekki málfrelsi eða skoðanir.  Það hefur einfaldlega ekkert með þessi skrif mín að gera. Og það er alltaf hægt að benda á eitthvað annað þegar rætt um um ávirðingar.

Ég minnist þess ekki að hafa rætt um Árna Pál í þessari færslu minni, svo ég veit ekki hvað hann hefur með hana að gera. Og ég vil benda þér á að ég var að meina það þegar ég talaði um einlægni Bjarna í viðtalinu. 

Bara svona til að árétta, þá er ég hvorki "bitur" "hatursfull" né "dramaqueen".  Tortryggni skal ég viðurkenna að ég sé haldinn, en það er nákvæmlega að gefnu tilefni.  Líttu í eigin barn með þessa síðustu setningu.

Mín elskulega Auður. Ég tel mig ekki hafa verið að lasta Bjarna, er aðeins að fabúlega um hvar þessi vitleysa byrjaði eiginlega, og ég er sammála um að samtalið var ekta og einlægt, bara spurning um hvað var í gangi.  Eins og ég sagði hvar kemur Árni Páll inn í þessa umræðu?

Ég hef reyndar afskaplega lítið álit á þeim manni, en hann var einfaldlega ekki til umræðu í þessari færslu minni.  Ég get ekki borið virðingu fyrir manni sem sér ekkert okkur til bjargar annað en að koma okkur inn í ESB. 

En takk fyrir öll hlýju orðin þín gegnum tíðina, ég met þig afar mikils og finnst þú frábær manneskja, kveðjan þar með móttekinn og endursend til þín mín kæra.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 13.4.2013 kl. 23:48

8 Smámynd: Jón Bragi Sigurðsson

Ætlið þið í Dögun virkilega að ganga til kosninga með mann í framboði (Benedikt Sigurðarson) sem var einn af gerendunum í því að stela peningum Samvinnutrygginga?

Jón Bragi Sigurðsson, 14.4.2013 kl. 05:10

9 Smámynd: Samstaða þjóðar

Þær stöllur Sigrún og Auður, eru illilega veruleika-firrtar. Aðalleikarinn í dramanu gerðist hugsanlega landráðamaður með samþykki á Icesave-III-samningum ríkisstjórnarinnar. Hann sjálfur fullyrti líklega hundrað sinnum, að Icesave-kröfurnar væru ólöglegar! Erlendar heimildir fullyrða samt, að hann hafi samþykkt samningana áður en þeir voru gerðir! Þessu hefur Bjarni að vísu mótmælt harðlega, en erlendu heimildirnar eru mjög trúverðugar, vegna þess að þær eru fengnar úr Hollendskum leyniskjölum.

 

Bjarni og ættingjar hans áttu eitt stærsta fyrirtæki landsins og eiga það líklega ennþá, eftir að hrægammarnir eru búnir að afskrifa milljarða af skuldum þess. Ef fer sem horfir, á sami maður hugsanlega eftir að verða ráðherra í ríkisstjórn sem mun verða að bræða Snjóhengjuna sem núna er í höndum hrægammanna. Ef það er ekki gert mun þjóðin verða gjaldþrota. Er ekki skynsamlegt að setja þennan mann í uppvaskið, fremur en í matreiðsluna?

 

Viðskiptasaga Bjarna Benediktssonar.

 

Loftur Altice Þorsteinsson.

 

  

Samstaða þjóðar, 14.4.2013 kl. 09:34

10 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk fyrir þitt innlegg Loftur.  Það þarf að muna vel hverjir það voru sem studdu Icesave. 

Jón Bragi ég þekki ekki til þessa máls sem þú talar um.  Ef þetta er svona þá er það ekki gott mál.  En ég hef ekki séð neitt sem bendir til þess. 

Þekki annars Benedikt að góðu einu, hann hefur unnið af heilindum að stefnumálum Dögunar og heitið að vinna samkvæmt þeim ákvörðunum.  Hann ætlaði reyndar ekki að vera á listanum, en féllst á að vera í fimmta sæti vegna áskorana félaga sinna. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 14.4.2013 kl. 12:26

11 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Hér er svo yfirlýsing frá Benedikt sjálfum:

Benedikt Sigurðarson Yfirlýsing Benedikt Sigurðarson
Einhver misskilningur hefur komið upp varðandi stöðu undirritaðs í stjórn Samvinnutrygginga og ákvörðun um slit þess félags með stofnun Gift ehf sem meiningin var að gengi beint til rétthafa tryggingastofn hins gamla móðurfélags.
Undirritaður var formaður í Akureyrardeild KEA frá 1998-2004 og stjórnarformaður KEA 2002-2006. Þar með átti ég virka aðild að umbreytingarferli KEA árin 1998-2003 - þar sem félaginu var skipt upp, bændum afhentur virkur eignarhlutur í Mjólkursamlagi KEA og félagsmönnum greitt út mismunandi stór eign sem safnast hafði í stofnsjóð - - með hlutabréfum í Kaldbaki hf. Kaldbakur var stofnaður um eignir KEA í samstarfi við Samherja og Lífeyrissjóð Norðurlands (Stapa).
Kaldbakur var skráður á markað og verðmæti félagsins spannst upp í bólunni – og fjöldi félagsmanna KEA innleysti umtalsverðan hagnað með sölu á hlutabréfum sínum þar til félagið var yfirtekið af Burðarás(Björgólfunum) – með viðskiptafléttu Samherja og Baugs – sem forsvarsmenn KEA áttu enga aðild að, en sátu uppi með (þó í fyrstu liti út fyrir að félagsmenn KEA hefðu hagnast á öllum saman).
Við þessa umbreytingu KEA varð það yfirlýst og staðfest markmið að félagið stefndi á að leysa út eignarréttindi félagsins í Samvinnutryggingum með slitum þess félags og koma jafnframt hinum beinu eignarréttindum fyrrum viðskiptavina Samvinnutrygginga GT beint til þeirra.
Við einkavæðingu Landsbanka og Búnaðarbanka staðfestist að KEA var ekki hluti af viðskiptablokkinni sem kennd hefur verið við S-Hópinn - þar sem KEA/Kaldbakur og Samherji voru samkeppnisaðilar við Ólaf Ólafsson og Samskip, Kaupfélag Skagfirðinga/Skinney Þinganes sem hefur verið kjölfestan í því sem kallað var S-Hópur og „fékk að kaupa Búnaðarbanka Íslands“ með þekktum afleiðingum. KEA/Kaldbakur-Samherji áttu einu tilboðin í ríkisbankana sem augljóslega voru gerð á beinum viðskiptalegum forsendum - með samstarfi við erlenda aðila (Svenska Enskilda), en fengu ekki málefnalega vinnslu hjá ríkisstjórninni á þeim tíma - illu heilli.
Á þessu tíma eimdi verulega eftir af þeim ágreiningi milli valdahópa kaupfélaganna sem átt sinn þátt í falli SÍS á sínum tíma (Valur Arnþórsson/Guðjón B Ólafsson). KEA var útilokað frá nánasta viðskiptabandalaginu sem nefnt hefur verið S-Hópurinn og tilheyrði á engum tíma þeirri pólitísku blokk sem studdi valdakjarna Halldórs Ásgrímssonar. Undirritaður átti aldrei pólitískt heimaland í Framsóknarflokknum - - og líklega eini stjórnarformaður KEA frá 1931 sem ekki var flokksbundinn Framsóknarmaður.
Árið 2003 var undirritaður kjörinn í stjórn EHF Samvinnutrygginga. Markmið okkar í KEA var að Samvinnutryggingar skyldu leystar upp og skipt milli eigenda sinna. Stjórnarstörf mín helguðust því markmiði, með endurteknum kröfum um að fundir félagsins yrðu opnaðir, að rétthöfum og fyrri viðskiptamönnum yrði gert aðvart um mögulegan eignarrétt sinn og að félagið mundi setja í gang skipulagt slitaferli. Jafnframt lagði ég áherslu á að Aðalfundur SÍS sem kaus Fulltrúaráð fyrir Samvinnutryggingar mundi sinna því ábyrgðarhlutverki að hlutast til að þessi slit færu fram með gagnsæu ferli. Ég lagði áherslu á að stjórn setti sér formlega fjárfestingarstefnu og siðareglur eins og eðlilegt er með stjórnir sem vinna í almannaþágu.
Þegar ný ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks tók við völdum í maí 2007 urðu þær breytingar í viðskiptaráðuneytinu sem gáfu vissulega vonir um að Björgvin G Sigurðsson viðskiptaráðherra mundi beita sér fyrir því að félög eins og Samvinnutryggingar kæmust beint til rétthafa, þar sem þau höfðu hætt tryggingastarfsemi en starfsleyfi þeirra byggðist á slíkri starfsemi.
Í júní 2007 var ákveðið á aðalfundi EHF Samvinnutrygginga að slíta félaginu og stofna ehf Gift um allar eignir félagsins. Þarna töldum við sem höfðum barist fyrir því markmiði að slíta Samvinnutryggingum að við værum að nálgast mikilvæga niðurstöðu. Skilanefnd var skipuð og var henni falið að láta vinna frumvarp að skiptingu eigna Samvinnutrygginga þar sem hverjum og einum aðila yrði síðan afhent tilsvarandi verðmæti í hlutabréfum í Gift.
Eigið fé Giftar – í hámarki hlutabréfabólunnar 2007 - var metið á nálega 30 milljarða. Mest af eignnum var í formi hlutabréfa í bönkunum og í Exista.
Því miður dróst allt starf skilanefndarinnar – og á sama tíma virðast stóru bankarnir hafa verið á fullu í að manípúlera verðmæti eigin bréfa með aðferðum sem hafa sætt rannsóknum Sérstaks Saksóknara. Stjórnarmenn Samvinnutrygginga/Giftar á árinu 2007-2008 höfðu nýtt sér ráðgjöf fagaðila og banka varðandi fjárstýringu og megnið af eignum félagsins var í skráðum hlutabréfum í fjármálafyrirtækjum.
Það var ekki ljóst fyrr en kom fram á árið 2008 að hrun væri í aðsigi – og svigrúm Samvinnutrygginga/Giftar til að selja frá sér hlutabréf í fallandi bönkum og fjárfestingarfélögum var ekki lengur til staðar.
Undirritaður hefur margsinnis gert opinberlega grein fyrir þátttöku sinni í stjórn Samvinnutrygginga/Giftar og þeirri skyldu að freista þess að innleysa eignarhlut KEA og félagsmanna KEA og allra annarra viðskiptamanna Samvinnutrygginga.
Stjórnarseta mín í Samvinnutryggingum frá 2003-2008 og í Gift frá 2007-2008 hefur hvorki verið leyndarmál - né feimnismál.
Í Kastljóssþætti hjá Helga Seljan 2.desember 2008 gerði ég ítarlega grein fyrir þessum málum (og má nálgast þá upptöku á síðu Láru Hönnu Einarsdóttur).
Einnig hef ég gert ítarlega grein fyrir þessum störfum á opinberum fundum hjá KEA og í bloggpistlum á heimasíðu minni (www.bensi.is). http://bensi.is/?m=news&f=viewItem&id=87 (1.des.2009).
Því miður hefur Rannsóknarnefnd Alþingis ruglað nafni mínu saman við nafn Benedikts Sigurðssonar lögmanns sem var framkvæmdastjóri Samvinnutrygginga árin 2004-2008 og prókúruhafi.
Ég var óbreyttur stjórnarmaður Samvinnutrygginga/Gift 2003-2008 allan tímann.
KEA var ekki hluti af viðskiptablokk Kaupfélags Skagfirðinga og Skinneyjar Þinganess – og Benedikt Sigurðarson ekki heldur.
Benedikt Sigurðarson stjórnarformaður KEA var ekki hluti af valdakjarna Framsóknarflokksins og á engum tíma handgenginn Halldóri Ásgrímssyni (og ekki flokksbundinn Framsóknarmaður).
Benedikt Sigurðarson á Akureyri er ekki þátttakandi í viðskiptum með neinum af þeim sem kenndir hafa verið við S-Hópinn. Hefur hins vegar lagt að mörkum til að ljúka því verki sem hófst með ákvörðun um slit Samvinnutrygginga 2007 - og hefur unnið að því að ljúka slitum EHF Andvöku sem er um það bil að ljúka um þessar mundir með því að rétthöfum verður afhent sú eign sem þeim ber skv. skipulagsskrá og slitafrumvarpi.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 14.4.2013 kl. 13:13

12 Smámynd: Jón Bragi Sigurðsson

Benedikt Sigurðarson hefur skrifað mikla langloku hér http://www.facebook.com/permalink.php?story_fbid=10151425638662800&id=617967799&comment_id=25518235&offset=0&total_comments=11&notif_t=feed_comment_reply um einhvern meintana misskilning. Hér er hins vegar enginn misskilningur á ferðinni nema sá undanflæmingur, hálfsannleikur og hreinar lygar sem Benedikt og þið fleiri hafið borið á borð undanfarna daga:

Ég spurði hreint út á FB-síði Dögunar á föstudaginn: „Langar til að vita hvort Benedikt Sigurðarson sem er í framboði fyrir Dögun sé sá hinn sami og var stjórnarformaður KEA og framkvæmdastjóri/stjórnarformaður Giftar?“
TAKIÐ EFTIR! Ég spyr hvort hann hafi verið í stjórn Giftar og hvort hann hafi verið stjórnarformaður KEA.

Þessu svarar Dögun - samtök um réttlæti, sanngirni og lýðræði: „nei, Benedikt Sigurðsson frambjóðandi er nafni hans og vinnur hjá Búseta á Akureyri“
Hér er því neitað að hann hafi verið í stjórn Giftar og stjórnarformaður KEA.
Hvort tveggja er ósannindi.

Sjálfur svarar Benedikt Sigurðarson: „Framkvæmdastjóri Samvinnutrygginga/Giftar um nokkurt skeið heitir Benedikt Sigurðsson lögfræðingur á Seltjarnarnesi - og sá er ekki Sigurðarson - og alls óskyldur fyrrv. formani stjórnar KEA á Akureyri - því miður hafa ýmsir lent í því að rugla okkur saman fyrir misskilning. Gott að geta eytt þeim misskilningi fyrirspyrjanda.“

Hann talar bara um framkvæmdastjóran en ekki stjórnina sem líka var spurt um.
Opinskátt og heiðarlegt?

Og svona svarar Dögun - samtök um réttlæti, sanngirni og lýðræði aftur: Sæll Jón Bragi. Við erum búin að svara því nokkrum sinnum að Benedikt Sigurðarson sem er á lista Dögunar hefur aldrei haft neitt með Gift að gera. Nafni hans sem er SigurðSson en ekki SigurðARson var framkvæmdastjóti Giftar.

ALDREI NEITT MEÐ GIFT AÐ GERA. Þetta er klár lygi einsog þegar komið er fram.
Nú segist hann hafa verið „óbreyttur stjórnarmaður“ og „Hefur hins vegar lagt að mörkum til að ljúka því verki sem hófst með ákvörðun um slit Samvinnutrygginga 2007“.
Allir vita hvernig því verki lauk…

Nú spyr ég: Ef dögun kemst til valda og með krumlurnar í peninga annarra þ.e. lífeyrissjóðanna, einsog hugur stendur til, ætlar þá kannske nefndur Benedikt að dingla sér þar einhver staðar sem „óbreyttur stjórnarmaður“ án allrar ábyrgða og „leggja sitt af mörkum“ með sama hætti og með sama árangri og þegar hann sat í stjórn Giftar og Samvinnutrygginga og skrifa svo einhverja langsótta langloku einhverjum árum síðar þegar búið er að stela öllu steini léttara.
Benedikt minnist líka á í langloku sinni að Rannsóknarnefndin hafi ruglað sér og framkvæmdastjóranum saman. Þetta er ekki heldur rétt. Rannsóknarnefndin heldur þessu öllu til haga rétt einsog kemur fram hér á myndinni sem þið fáið bráðum.

Ég held að ykkur sé ekki sjálfrátt að ætla að ganga til kosninga með þessi ósköp á bakinu. Ég efast um að þetta sé það sem fólk upplifir sem „Réttlæti, sanngirni og lýðræði“
Ég sé enga dögun í þessu, bara svartnætti

Jón Bragi Sigurðsson, 14.4.2013 kl. 14:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Höfundur

Ásthildur Cesil Þórðardóttir
Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Tónlistarspilari

Ásthildur Cesil - Dagdraumar
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • 2f19c636fb68b249555c5fa250d3e103--russian-image-jellyfish
  • engill-angel
  • jolatre
  • 20171002 121526
  • gasometers-vienna-7[5]

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 28
  • Sl. sólarhring: 28
  • Sl. viku: 60
  • Frá upphafi: 2020841

Annað

  • Innlit í dag: 9
  • Innlit sl. viku: 40
  • Gestir í dag: 9
  • IP-tölur í dag: 9

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband