Fíklar og meðferðarúrræði.

Ég frétti af viðtali við Þórarinn Tyrfingsson í morgunm missti því miður af því.  En þar talaði hann um að með ættu ekki að horfa of mikið á glæpi og refsingu, heldur skoða meðferðarúræði.  Það gleður mig að hér kveði við nýjan tón í þessum málum.  Ég hef s.l. 20 ár reynt að tala um það að það þurfi að gera greinarmun á glæpamönnum og fíklum.  Þetta er bara ekki sami hluturinn.  Árið 2003 skrifaði ég eftirfarandi bréf til fangelsismálayfirvalda.  Það sýnir vel hve vandasamt og vandmeðfarin þessi mál eru, og á hve röngu róli þau eru jafn vel enn þann dag í dag. 

Tillaga að stofnun lokaðrarar meðferðarstofnunar fyrir illa farna eiturlyfjaneytendur. 

Full þörf er fyrir lokaða meðferðastofnun á vegum ríkisins. Skilgreina þarf hvað menn ætla að fá úr úr fangelsun einstaklinga.  Er það til þess að koma fólki í geymslu og af götunni, eða er tilgangurinn að betrumbæta einstaklinginn?

Einnig þarf að samhæfa aðgerðir lögreglu, dómara, heilbrigðis stofnana og fangelsismálaftofnunnar.

 Hvers vegna lokuð meðferðarstofnun?

Hluti síbrotamanna eru langt leiddir fíklar, sem ráða í engu um fíkn sína. Þeir eru ekki sjálfráðir gerða sinna.  Oftast komnir með geðtruflanir og þurfa geðlyf.  Þetta fólk veldur oft miklu tjóni hjá almennum borgurum og í fyrirtækjum.  Fyrir þetta fólk er fangelsi enginn lausn.  Þau eru inn og út af fangelsum með tilheyrandi kostnaði fyrir landsmenn alla.  Það versta við þetta er að oftast enda þessir vesalingar með því viljandi eða óviljandi að svipta sig lífi.

 Ég mun hér stikla á stóru í lífi sonar míns, til að gera mönnum ljósa stöðuna í þessum málum i dag.  Raunar hefur að mínu áliti ekkert gerst í málefnum þessa hóps síðan fyrir 1997. 

Sonur minn var um 12 ára gamall þegar hann byrjaði í neyslu.  Við vorum alls óviðbúin þessu vandamáli, en þegar okkur varð ljóst hvert stefndi var honum komið inn á Vog.  Með fullri virðingu fyrir þeirri stofnun þá hafði hann einungis lært betur á allar pillur og efni þegar hann kom heim aftur.

Eftir það hrapaði hann æ lengra niður í neyslu.  Hann hvarf vikum saman og setti allt heimilislíf í uppnám, ekki bara hjá foreldrum og systkinum, heldur líka afa, ömmu og móðursyskinum.

Svo kom að því að hann var dæmdur í fangelsi.  Hann fór inná Litla Hraun 1992.  þaðan kom hann út fullur af hatri, kominn með allskonar sambönd.  Eftir það var þetta svona hjá honum, innhrot, yfirheyrslur hjá lögreglu, sleppt á götuna aftur, meðan beðið var eftir dómi, síðan fangelsi. Út aftur og í afbrot.  Í millitíðiinni milli dóms og afplánunar, þá var tímaspursmál hvenær hann þyrfti að brjótast næst inn til að ná í fíkniefni, eða fjármagna kaup. Þessi tími sem leið frá því að hann var handtekinn og þangað til hann fór inn var mjög erfiður.  Hvorki hægt að hafa hann heima eða á götunni, nema að reyna að loka augunum.  Sem er ekki hægt.

 

1997 eignaðist hann son, þá vildi hann fara að breyta um líferni og komast upp úr neyslunni. En þá voru honum allar dyr lokaðar.  Bæði hafði hann ekki styrk sjálfur til að vinna gegn vánni, og svo vantaði þarna inn aðila sem gæti gripið inn g aðstoðað.  Hann lenti því aftur í hringrás innbrota og neyslu og í fangelsi.  2001 um vorið ætlaði hann að reyna að hætta.  Hann gekk til lækna á Fjórðungssjúkrahúsinu  á Ísafirði og fékk þar lyf til að halda sér gangandi.  Þetta gekk um tíma, en svo kom í ljós að hann þurfti meira og fór að brjótast inn aftur.  Ég fór að reyna að koma honum í meðferð. Forstöðumenn meðferðastofnana sögðu að þeir þyrftu uppáskrift læknis til að koma honum inn.  En læknarnir vildu ekki skrifa upp á það. Sögðu að hann hefði ekkert í meðferð að gera.  Þetta stóð í ströggli, að lokum stækkuðu þeir lyfjaskammtinn þangað til sonur minn ranglaði um húsið, sprautandi sig í æð með þeim lyfjum sem hann fékk, og vissi hvorki í þennan heim né annann.  Loks fékk ég pláss fyrir hann í Krýsuvík, en skilyrði var að hann færi í afvötnun á Geðdeild Landspítalans háskólasjukrahúss.  Hann labbaði sig þaðan út eftir þrjá eða fjóra daga.  Átti að vera tíu daga, en fékk óvænt bæjarleyfi á fjórða degi.  Þá var útséð með Krýsuvíkina.  Hann lagðist þá í innbrot.  Daglega voru fréttir af honum í innbrotum.  Hann var tekinn af lögreglu á nóttunni, stungið inn og út aftur um hádegið.  Þetta gekk um tíma.  Ég og systir mín margreyndum að fá lækna til að mæla með innlögn, en þeir vildu ekki.  Að lokum var þrautarráð að við fórum fram á síbrotagæslu meðan mál hans væru í skoðun.  Í síbrotagæslunni á Skólavörðustígnum reyndi hann að stytta sér aldur.  Það skal tekið fram að sýslumaður hér og lögregla stóðu vel að  málum, en þau geta ekkert gert þegar málið er í þessum farvegi.  Að lokum var hann dæmdur í 10 mánaða fangelsi og þegar sá dómur var uppkveðinn, þá var honum einfaldlega sleppt.  Hann kom heim, og var hér aftur settur á sterk lyf, ráfandi um.  Að lokum kom ég honum inn á Vog og síðan fór hann á Staðarfell.  Meðan hann var þar kom fangelsisdómurinn, hann átti að byrja að afplána í byrjum janúar.  Ég reyndi að fá því breytt í meðferðarúrræði, en það var ekki hægt.  Ég reyndi að fá því frestað, en því var heldur ekki sinnt.  Hann fór svo í fangelsið, sem betur fór var tekið tillit til aðhann hafði verið í meðferð, og hann var settur inn í Kópavoginum.  Þar var hann í geymslu þangaði til 1. ágúst.  Kom þá heim fullur af bjartsýni og ætlaði að standa sig.   Það stóð í mánuð, þangaði til að það var alveg ljóst að hann var kominn í sama farið aftur. Hann byrjaði að brjótast inn í barnaskóla og einu sinni inn í heilbrigðisstofnun bæjarins.  Þá var hann settur í síbrotagæslu aftur til að forða honum frá fleiri innbrotum og bæjarbúum frá meiri hrellingum.

Sýslumaður setti inn ákvæði um að ef annað úrræði fengist yrði síbrotagæslunni aflétt.  Það varð úr að hægt var að koma honum inn í Krýsuvík.  Þar er hann, þegar þetta er skrifað, en bíður dóms fyrir þessi þrjú innbrot.  Ekki veit ég hvað verður, en ég veit að ef hann verður tekinn úr meðferðinni og settur inn í fangelsi þá byrjar sama ferlið upp aftur.  Þannig að það er alveg ljóst að þau úrræði sem við höfum nú þegar, þjóna ekki tilgangi sínum ef við viljum aðstoða einstaklinga við að ná sér á strik eftir neyslu.

Viljinn er fyrir hendi en getan ekki.  Ég mun styðja þetta bréf með bréfum og skjölum sem ég hef undir höndum.

 

Reynsla mín af ví að eiga dreng með fíkniefnavanda hefur í raun sannfært mig um eftirfarandi:

1a        Fangelsisvist sérstaklega í upphafi neyslu hefur meiri skaðleg áhrif heldur en bætandi.

1b        Leiðir þar að auki af sér meira tjón hjá fyrirtækjum og hinum almenna borgara með fjölgun innbrota.

2.                  Óviðunandi er að sá biðtími sem er frá því að menn eru handteknir fyrir afbrot og þangað til einhverskonar úrræði finnst (fangelsi).  Á þessum tíma eru neytendur komnir í mikla neyslu sem þeir þurfa stöðugt að fjármagna.

3.                  Fangelsi er ekki viðeigandi úrræði fyrir fíkniefnaneytendur.  Vegna þess að þau vinna frekar að því að taka þá úr venjulegu lífi(einangrun frá samfélaginu) og skerðir enn frekar hæfni þeirra til að takast á við lífið.

4.                  Í dag er enginn stofnun sem tekur viðmjög langt leiddum neytendum í afvötnun og meðferð.  Því er vonlaust fyrir aðstandendur að koma þeim í meðferð með þeirra samþykki og viljastyrk nákvæmlega á sama tíma og þetta er ekki fyrir hendi.

Meira að segja Geðdeild L.H. deild 33a hleypir sjúklingum út þrátt fyrir áhyggjur aðstandenda og vissu um að hann ræður ekki við neyslu.

Það  mun borga sig að takast á við fíkniefnavandann með því að byggja upp traust úrræði, því það sparast mjög mikið fjármagn fyrir utan að mannslíf er ekki hægt að meta til fjár.

 Það má benda á eftirfarandi kostnaðarliði:

Kostnað við heilsugæslu og lyfjagjöf.

             við löggæslu, handtökur og dvöl í fangelsum.

             vegna félagsþjónustu vegna styrkja og fjárhagsaðstoðar.

             tryggingafélaga vegna bóta.

             hins almenna borgara vegna þess að eigu hafa stundum persónulegt gildi.

              tilfinningalegan kostnað aðstandenda sem þurfa að horfa hjálparlaus upp á neyð ástvinar.

              mikil fíkniefnaneysla gerir fólk óvinnufært og þar tapast mannauður.

              kostnaður við allar meðferðarstofnanir sem eru opnar og hafa ekki nægilegt aðhald fyrir illa farna neytendur.

 

Verðugt væri að athuga hversu langur tími líður frá handtöku og fangelsunar og hversu miklu tjóni fíklar valda á því tímabili og hversu margir brjóta af sér eftir að afplánun lýkur.  Er fangelsisvist lausn á vanda fíkniefnaneytenda árið 2003. 

Með virðingu Ásthildur Cesil Þórðardóttir.

 

Þetta er skrifað árið 2003. Eins og fram kemur til Fangelsisyfirvalda.  Ráðalaus móðir kallandi út í tómið.  Í þessu ferli svipti ég hann sjálfræðinu af því að mér var sagt að þannig gæti ég best hjálpar.  En svo kom í ljós að enginn stofnun vildi taka við sviptum einstaklingi.  Ég varð aftur á móti gerð ábyrg fyrir honum þann tíma sem hann var sviptur. 

Sem betur fer náði þessi piltur sér á strik og er á góðum vegi í dag.  Og fær heilmikla hjálp frá félagsmálayfirvöldum hér og svo móður sinni auðvitað.  En meðan allt var í kalda koli var enga aðstoð að fá neinstaðar.  Og ég veit að þar er fullt af foreldrum, ömmum og öfum enn í dag.  Þetta á ekki að þurfa að vera svona.  Við getum alveg breytt þessu með því að dæma menn í meðferð en ekki fangelsi.  Ég veit til dæmis að Krýsuvík getur tekið inn fleiri einstaklinga ef þeir fá meiri fjárráð.  Húsnæði er fyrir hendi.  Það er góður staður og góður aðbúnaður.  Falleg náttúra og samgangur við dýr.  Stundum þurfa hlutirnir ekki að kosta svo mikið.  Heldur þarf vilja til að leysa þá.   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigríður Jósefsdóttir

Gott að heyra að gengur vel.  Hef oft hugsað til þín þegar ég heyrði leiðinlegar fréttir af honum.  Já, og til hamingju með ömmubarnið, sá að þetta var komið í moggann.  Vona að það verði til þess að eitthverjar úrbætur verði gerðar á lyftumálum þarna.  Bestu kveðjur,

Sigríður Jósefsdóttir, 21.2.2007 kl. 15:18

2 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk Hanna Birna mín.

Takk Sigríður mín.  Já mér er stórlega létt með drenginn minn.  Og takk fyrir góðar óskir.  Er þetta komið í Moggan ?? vissi það ekki.  Það er allavega komið í BB.  Svo nú er vonandi að menn taki sér tak og lagi þessi mál. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 21.2.2007 kl. 15:43

3 identicon

Kæra Ásthildur.

Það eru sko margir þarna úti í sömu sporum og þú.  Ég vann einu sinni á einni svona deild og maður sá marga foreldra koma og fara alveg hjálpalausa.  Krakkarnir orðnir kolruglaðir af neyslu og rugli af vondum félagsskap.  Ég þakka öllu því góða í heiminum fyrir þann hvern og einn sem nær að slíta sig frá þessum fjanda eða sjúkdómi, sem margir vilja kalla.  Ég er sammála þér að það er engin lausn að fylla fangelsin af fíkniefnaneytendum, það er miklu nær að finna aðra lausn.  En því miður þá vill ríkið ekki viðurkenna þennan vanda né setja penning í hann, nema þá kannski undir rós eins og í Byrgis málinu, væri ekki betra að gera þetta almennilega en ekki með hangnadi hendi enda er þetta fólk líka fólk sem hefur heilu fjölskuldurnar á baki sér, og það er ekki bara líf eins einstaklings sem fjarar út heldur líf heillrar fjölskyldu sem fer í vaskin þegar að einstaklingur fer út á þessa villubraut.  En það er bara þannig að það er oft talað fyrir daufum eyrum ráðamanna þessarar þjóðar og ég veit ekki hvað þarf að gerast til að breyta því. 

Gangi ykkur áfram vel á þeim vegi sem þið eruð komin á og ég vona að hann haldist sem beinastur hér eftir

Inga (IP-tala skráð) 21.2.2007 kl. 17:29

4 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk fyrir góðar óskir.  Ég er hrædd um að þetta sé barátta upp á lífstíð.  Vonin er samt til staðar, og með hverjum degi styrkist hann og þroskast.  Því eitt er það sem fylgir neyslu að menn hætta að þoskast eins og venjulegt fólk.  Og þarf tíma til að komast á rétt ról.  Þess vegna þarf stuðningurinn að vera ennþá meiri og markvissar.

Það er alveg hárrétt að stjórnvöld skella skollaeyrum við þessari neyð.  Ég skrifaði til dæmis öllum alþingismönnum bréf fyrir nokkrum árum, en fékk lítil svör.  Og engan árangur sá ég. Þó sendi ég þeim allskonar trúnaðarskjöl til að sanna mál mitt um hvernig brotið er á einstaklingum sem hafa misst allt sjálfstraust og manndóm.  Þetta er bara skelfilegt.  Og vonandi að núna loksins komist málin upp á yfirborðið og menn fari að skoða þau út frá öðru sjónarhorni en sem afbrotafólk.  Því það er ekki lausnin. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 21.2.2007 kl. 18:18

5 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk fyrir góðar óskir.  Það er alveg rétt að hér á við eins og annarsstaðar aðgát skal höfð í nærveru sálar. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 21.2.2007 kl. 20:34

6 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Þetta er greinargóð, þörf og skipuleg útekt á þessu.  Þarna sést svart á hvítu að það eru fleiri, sem verða fyrir barðinu á þessu skelfilega meini en fíkillinn sjálfur.  Ég tók mér það bessaleyfi að áframsenda þetta til títtnefnds manns í grein þinni í von um að það víkki sjónsvið hans og auðveldi rökfærslur fyrir úrbótum.

Jón Steinar Ragnarsson, 21.2.2007 kl. 22:21

7 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk fyrir það Jón Steinar. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 21.2.2007 kl. 22:26

8 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Er ekki bara augljóst að þegar settar eru á laggirnar nefndir til að finna úrlausnir eigi fólk eins og Cesil að vera þar. Fólkið sem frá fyrstu hendi er að reyna þennan djöful sem fíkniefnin eru og stendur í að reyna að bjraga sér og sínum og halda saman fjölskyldunni sem þjáist með þeim veika? Er þetta eitthvað flókið? Að útvega samastað og gott húsnæði og færa meðferðaraðila og horfa langt fram á veginn og vera tilbúinn með næsta skref í ferlinu? Þetta eru engin snúin geimvísindi. Maður á bara ekki orð yfir þessu getu og viljaleysi. Hvernig dettur fólki í hug að bjóða sig fram þegar það kann ekki betur en þetta. Rauði þráðurinn og tónninn í öllu á að vera fólk, fólk og aftur fólk. Um það eru samfélög. Fólkið sem þau byggir. Gott að þú ert í framboði Cesil..við þurfum fleiri sem hafa jarðtengingu við mannlífið í öllum sínum myndum. Endilega haltu áfram að fræða okkur um reynslu þína af þessu kerfi. Það vonandi veitir þessum sem með málin eiga að fara spark í óæðri endann Og gangi ykkur vel vel og aftur vel!

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 22.2.2007 kl. 11:03

9 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk fyrir það.  Þetta er alveg ótrúleg reynsla skal ég segja þér.  Maður kallar út í tómið og er alveg einn í þessu.  Svo er maður brotinn og hefur ekki þrek til að berjast nema takmarkað.  Verst er þó sjálfsásökunin, hvað gerði ég rangt, hvar fór ég út af sporinu.  Það var ekki fyrr en ég loks fór að ganga til sálfræðings bara í fyrra að ég sá hvað ég var rosalegur kóari og sjálfsfórnarlamb. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 22.2.2007 kl. 11:19

10 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Gott að þú fórst til að fá hjálp fyrir þig. það getur enginn staðið í svona erfiðleikum til lengdar án þess að eitthvað gefi sig. Óhjákvæmilega spyr maður sjálfan sig sem foreldri þegar börnin rata út af veginum....en ég trúi að þú sért alveg frábær móðir og amma...Stundum fer fólk bara sína leið. Alveg sama hvað.

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 22.2.2007 kl. 12:22

11 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Já það var sannarlega gott framtak.  Takk elsku Katrín mín.  Sektarkenndin er held ég til staðar hjá öllum foreldrum, eitthvað sem þau verða að takast á við.  Og um að gera að fá hjálp hjá fagaðilum það er mjög nauðsynlegt. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 22.2.2007 kl. 12:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Höfundur

Ásthildur Cesil Þórðardóttir
Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Tónlistarspilari

Ásthildur Cesil - Dagdraumar
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • 2f19c636fb68b249555c5fa250d3e103--russian-image-jellyfish
  • engill-angel
  • jolatre
  • 20171002 121526
  • gasometers-vienna-7[5]

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 6
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 26
  • Frá upphafi: 2022150

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 24
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband