Það er gaman að vinna að nýju framboði.

Ég var á afskaplega skemmtilegum málefnafundi með Dögun á dögunum.  Við hittumst upp í Kjósinni til að vinna saman að því að leggja lokahönd á málefnin sem við ætlum að leggja fram í kosningabaráttunni.

IMG_8141

Fyrst var rifjað upp það sem gert hafði verið undanfarið ár, en mikil vinna hefur verið lögð í hin ýmsu málefni, og mikið lagt í að unnið sé sem best að þeim málum sem skipta fólkið í landinu máli. Ein þjóð í einu landi.

Svo sem eins og atvinnumál, umhverfismál og velferðarmál, unnið hefur verið að þessum málaflokkum nú í heilt ár, og vandað vel til verka. Sum mál hafa fengið betri umfjöllun en önnur og til dæmis hefur sjávarútvegsstefna Dögunar verið samþykkt.

En það var virkilega gaman að hitta allt þetta frábæra fólk og heyra hve ákveðin þau eru í að vinna vel að helstu þjóðþrifamálum þjóðarinnar.

IMG_8150

Gaman var að sjá að innan um gráhærða reynslubolta var ungt fólk með brennandi áhuga og svo allt þar á milli.  Fundinum stjórnaði Andrea Ólafs og Benedikt Sigurðsson, einnig af skörungskap, þau voru líka með erindi um vinnuna sem fram hafði farið.

IMG_8151

Þær línur fara nú að skýrast og málefnasamningur Dögunar að líta dagsins ljós.

IMG_8152

Ótrúlegt hvað maður verður svangur að vinna svona með heilanum hehehe... en þetta vissu menn og það var nóg til af öllu.

IMG_8153

Það sem mér þótti reyndar vænst um var sú vinátta og samyggð sem sveif yfir vötnum, við unnum þarna allan daginn og það bar engan skugga á. Þó var tekist málefnalega á því sem var einhver ágreiningur um eins og gengur.

IMG_8154

Svandís Nína sú flotta kona flutti svo fróðlegt erindi um skoðanakannanir og kosningar nýrra framboða undanfarin mörg ár, þetta var afar fróðlegt erindi og sagði meira en þúsund orð.

IMG_8157

Það er gott að áhugasamt fólk er að vinna á mörgum stöðum að því að breyta pólitíkinni, umræðunni, áherslunni og ég er einhvernveginn sannfærðari en ég var um að það eru betri tímar í vændum. Og þá er ég að tala um öll þessi nýju framboð, við þurfum að gefa þeim gaum og láta ekki fjölmiðla kæfa þau niður til að tryggja fjórflokkinn. Þessi nýju framboð verða að njóta sannmælis og þar þurfa fjölmiðlar að standa sína plikt og upplýsa almenning um þeirra viðhorf, málefni og frambjóðendur, þ.e.a. segja þegar það er orðið fullbúið.

Þá óttast ég ekki að fólk taki við sér og geri breytingar á sinni forgangsröðun.

IMG_8159

Svo varð auðvitað að standa upp og syngja smá, svona til að lyfta andanum upp úr öllum pælingunum.

IMG_8164

Þau eru frábær þessi systkini sem svo sannarlega hafa unnið vel í þágu grasrótarinnar bæði í Búsáhaldabyltingunni, borgarafundunum og öðru grasrótarstarfi.

IMG_8166

Hér höfum við einn af hinum nýju frambjóðendum okkar Jón Jósef Bjarnson sem svo sannarlega hefur hrært í fólki með sínum upplýsingum um spillingu.  Og með okkur kemur líka mér til mikillar ánægju Jóhannes Björn sá frábæri maður.  Þessir tveir ásamt þeim sem áður hafa gefið kost á sér og þeir sem eru á leiðinni vekja svo sannarlega von um nýja starfshætti.

Ég fór síðan inn í nefndarstarf á vegum Utanríkis og innanríkismálefna.  Ég tók þar að mér að setja fram stefnu í byggðamálum, er er að vinna í því, þar ætla ég að taka á málum eins og að gefa eigi krókaveiðar frjálsar, skoða flutningskostnað landsbyggðarinnar, jafnvel skoða skattaívilnanir, koma á háhraðatengingum og fleira slíkt. Ef einhver er með góðar hugmyndir sem gætu fallið að byggðarmálum og betri aðstöðu landsbyggðafólks þá er það vel þegið, og þá er best að hafa beint samband við mig asthildurcesil@gmail.is.  Þetta er allt saman í vinnslu og þarf síðan að samþykkjast.  En eins og allir vita eru orð til alls fyrst.  Og í okkar nýja framboði er allt opið til skoðunar.

Ef við viljum breyta, þurfum við fyrst og fremst að breyta okkar hugsanagangi og þora að takast á við nýar hugsanir, nýja sýn og öðruvísi stjórnmál.


mbl.is Jón og Jóhannes til liðs við Dögun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vilhjálmur Stefánsson

Ég trúi vart ennþá að þú ætlir að kasta atkvæði þínu á glæ Ásthildur með því að styðja Dögun flokk tómleikans????????

Vilhjálmur Stefánsson, 30.1.2013 kl. 15:55

2 identicon

Heil og sæl Ásthildur Cesil æfinlega; sem og aðrir gestir, þínir !

Um leið; og ég vil árna þér - sem öðrum samherjum mínum heilla góðra, í tilefni niðurstöðu Ginningargaps mála Breta - Hollendinga, og ESB, á höndur okkur, vil ég eindregið vara þig, við Dögunar fyrirbrigðinu, Ásthildur mín.

Kann ekki; góðri lukku að stýra - að vera með fólk, eins og Þór Saari og Margréti Tryggvadóttur, ein dyggustu hjúa Jóhönnu og Steingríms í ýmsum mála innanborðs, eins og Stjórnarskrár nefnuna nýjustu,, 25 menninganna, sem átta sig ekki á, að þurfandi fólk borðar ekki - né drekkur, slík plögg sannar einungis, að Dögunin er, líkt ''Björtu'' framtíðinni hans Guðmundar Steingrímssonar, aukaútibú lítilfjörlegt, frá krötunum, fornvinkona góð.

Með eindrægum kveðjum; sem viðvörun vænni, vestur í fjörðu, sem víðar, úr Árnesþingi, sem jafnan /   

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 30.1.2013 kl. 16:59

3 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Mig skortir orð til að skilja hvað þið eruð að segja mínir ágætu vinir.  Ætlið þið að segja mér hvað þetta fólk vill eða er að hugsa, hafið þið unnið með þeim nú í nokkra mánuði?  Hafið þið verið með þeim í skoðanaskiptum og samræðum á neti og á fundum?

Hvurslags kjánaskapur er þetta?

Ég er að verða 69 ára gömul, hef unnið á annan áratug með stjórnmálaflokki, mest með Frjálslyndum, sem reyndar er ein af undirstöðum Dögunar.  Ætlið þið að bera það á borð fyrir skynsamt fólk að ég sé svo mikið fífl að hafa ekki vit á því fólki sem er í kring um mig?

Ætlið þið að væna mig um að vera svo mikill fáviti að ég þekki ekki kvistlinga frá bestu sonum og dætrum landsins?

Hverjir eruð þið að segja svona?  Eða hafið þið staðið mig að því að vera eins og trúgjarn asni í umræðum hér? Hefur ykkur sýnst það?

Ef svo er ættuð þið að lesa ykkur betur til um það sem ég hef verið að segja og blogga.

Ég frábið mér svona málflutning, en ég er ekki reið, bara afar undrandi á því hvernig fólk leyfir sér að ætla að kúga mig til að hafa aðrar skoðanir en ég hef, ætla mér að vita ekki hvað ég er að gera eða þá ályktanir sem ég hef dregið.

En þið segið mér þá ef til vill hvað þið hugsið ykkur að gera; hvernig þið ætlið ykkur að vinna að þeim lausnum sem þið greinilega viljið? Ef til vill með því að kjósa Sjálfstæðisflokk nú eða Framsóknarflokk, ef til vill Samfylkinguna, vinstri græna?

Ég hef tekið ákvörðun, ég hef tekið hana að vel athuguðu máli af þeirri reynslu sem ég hef upplifað af samskiptum mínum af því fólki sem ég ætla að vinna með. Sem betur fer hafa flestir þeir sem ekki vilja það lýðræði sem þarna er viðhaft yfirgefið framboðið. Þeir sem eru meira að mínu mati eiginhagsmunapotarar og eins máls menn. Það verður því skemmtilegri barátta og meiri sameining hér eftir í þeirri vinnu sem eftir er.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 30.1.2013 kl. 17:13

4 Smámynd: Rannveig H

Þessu verður ekki betur svarað, Ásthildur.

Rannveig H, 30.1.2013 kl. 17:30

5 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Þetta eru fallegar myndir, en mér finnst að myndin af Eiríki Stefánssyni mætti vera skýrari.Og ég sá enga mynd af Kristni H.Var hann ekki á fundinum. 

Sigurgeir Jónsson, 30.1.2013 kl. 17:39

6 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk Rannveig mín.

Sigurgeir hvorki Eiríkur Stefánsson eða Kristinn H. voru á fundinum.  Mér vitanlega hefur sá ágæti maður Kristinn H. ekki mætt á neinn fund hjá Dögun, hvorki í málefnavinnu né grasrótarvinnu. 

Dögun eru stjórmálasamtök með fullt af fólki sem vill bretta upp ermar og vinna að málefnum.  Þar eru ekki neinar stjörnur sem eru þar bara til að skreyta.  Það er bara þannig. Ef fólk er að leita að slíkum er betra að leita einhversstaðar annarsstaðar. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 30.1.2013 kl. 18:14

7 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk samt fyrir hrósið

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 30.1.2013 kl. 18:15

8 Smámynd: Helga Þórðardóttir

Takk Ásthildur fyrir þennan pistil og allar þessar skemmtilegu myndir. Myndirnar segja meira en mörg orð. Ég var einmitt að benda á að BF birtir bara myndir af brosandi fólki á feisbókar síðu sinn en þar færi lítið fyrir málefnum. Nú hljótum við að fara að toppa þau :). Nóg af myndum af brosandi fólki og fullt af góðum málefnum.

Helga Þórðardóttir, 30.1.2013 kl. 18:28

9 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Já einmitt Helga mín, nú fara málin að skýrast og það verður gaman.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 30.1.2013 kl. 18:46

10 identicon

Komið þið sæl; á ný !

Ásthildur Cesil !

Glámskyggni ykkar nokkurra; hér að ofan, gagnvart vel meintum viðvörunum mínum, varðandi þau Þór og Margréti, verðið þið alfarið; að eiga við ykkur sjálf, Ásthildur mín.

Brottrekstur þeirra beggja; sem og Kristins H. Gunnarssonar, úr hreyfingu ykkar, gæti hjálpað til við, að styrkja drengilega innkomu; þeirra Jóns Jósefs og Jóhannesar Bjarnar, í ykkar raðir - en,............... þið verðið samt, að losa ykkur, við krata hækjurnar Þór og Margréti, vitaskuld.

Ekki síðri kveðjur; hinum fyrri - og áður / 

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 30.1.2013 kl. 20:37

11 identicon

Og; bæta vildi ég við - til fyrirbygggingar misskilnings Ásthildur Cesil, og til þess að draga úr gremju þinni, til mín, og ýmissa annarra, að ég geri að sjálfsögðu, ráð fyrir III. valkosti stjórnunar, sem kenndur er við utanþing, nógsamlega komið, af lygavefjum hvítflibba- og blúndukkerlinga, eða,,, er ekki svo, Ásthildur mín ?

Alþingi; mesta hryðjuverka bæli seinni tíma sögu, þarf að útrýma - eigi landsmönnum betur að farnazt, hér eftir.

ÓHH 

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 30.1.2013 kl. 21:13

12 identicon

Ég hef unnið að nýju framboði, sem hafði góðan sigur og hafði nokkra á þingi.

Ég ræð þér heilt - Gleymdu þessu og eyddu lífsorkunni í annað nytsamlegra og skynsamlegra. Þetta er mannskemmandi.

kv.

V.Jóhannsson (IP-tala skráð) 30.1.2013 kl. 21:19

13 identicon

Takk fyrir fundinn Ásthildur og skemmtilegar myndir. En líka góð svör við misvitrum kommentum hér.

Friðrik Þór (IP-tala skráð) 30.1.2013 kl. 22:00

14 identicon

Komið þið sæl; enn á ný !

Friðrik Þór Guðmundsson !

Hvað; er svo misviturt, þó ég,, Falangistinn, yst úti á Hægri nöfinni, sendi Andskotans vinstra packi - eins og Þór Saari og Margréti Tryggvadóttur þann tón, sem þeim hæfir bezt, ágæti drengur ?

Nógu smeðjuleg, voru þau hjú, þegar þau lugu sig inn á fjölda fólks, á ramm- fölskum forsendum, í Apríl 2009 - eða; nær skammtíma minni þitt ekki lengra, Friðrik Þór ?

Alls ekkert; síðri kveðjur - hinum fyrri, svo sem /  

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 30.1.2013 kl. 22:31

15 Smámynd: Hulda Þórey Garðarsdóttir

Mér finnst gaman að lesa pistilinn og gott að heyra þetta sem þú ert að segja, það er alltaf gott að vinna með góðu fólki í góðum hópi.  Það sem mér finnst samt varðandi stjórnmálaflokkana er að þeir virðast ekki vera að halda út kjörtímabilin nógu vel, þetta eru flokkar sem sammælast um stefnur og svo virðist sem það skvettist alltof oft upp á vinskapinn og i aðra röndina er það rétt að fólk helst innan flokksins en finnst það vera farið að vinna af málefnum sem það er ekki sammála (þ.e. það er sammála stefnu flokksins í upphafi en svo eru einstakir málaflokkar sem viðkomandi er óssamála) og þer þar af leiðandi bundið af stefnu flokksins án þess að vilja það í rauninni - en á hinn bóginn finnst mér eiginlega enn verra þegar fólk þá segir sig úr flokknum og er búið að yfirgefa þetta samstarf sem oftast í upphafi byrjar ósköp vel.  Pínulítið eins og hjónabönd nú til dags.  Það er bara of einfalt að skilja.

En þetta er nú bara mín skoðun, ég er komin inn á það að það er til svo mikið af góðu fólki sem ætti gjarna að vera á þingi, en stjórnmálaflokkar sem slíkir eru búnir að missa mína trú.  

Takk fyrir góða pistla annars. 

Hulda Þórey Garðarsdóttir, 30.1.2013 kl. 23:27

16 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Ágæti V. Jóhannsson, ég nefnilega vil sóa mínum tíma í þetta, geri það sjálfviljug og af ánægju.  Þannig er það bara, og ég hef mikla trú á framboðinu og það styrkist eftir því sem ég kynnist fleirum og ræði meira við þetta ágæta fólk.

Takk sömuleiðis Friðrik minn, já ég hef víst talandan í lagi oftast

Óskar minn víst máttu þenja þig alveg eins og þú vilt hér hjá mér.  Ég tel mig þekkja þau tvo orðið ágætlega til að dæma um hvernig manneskjur þau eru. 

Takk Hulda mín. Ég er sammála mörgu sem þú segir, sérstaklega því að fólk á það til að ramba út og suður eftir of skamman tíma í samstarfi. Málið er í þessu tilviki, að hér eru framboð sem hafa verið til áður og gengið í gegnum allskonar aðstæður eins og Frjálslyndi flokkurinn, fólkið þar er nánast orðið bólusett fyrir fólki sem vill einungis komast að til að vera þar á eigin forsendum en ekki í samstarfi. Vonandi tekst okkur að halda góðu samstarfi alla leið, ég er raunar viss um það. Vegna þess að það er búið að leggja traustan grunn að því samstarfi með kjarnastefnunni sem allir hafa gengist inn á og eru sáttir með. Það er grundvallaratriði í því sem lengi skal standa að grunnurinn sé pottþéttur.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 30.1.2013 kl. 23:51

17 identicon

Sæl Ásthildur. Mér hefur líkað við nokkur blogg þín en um önnur hef ég efast um sálarheill. Mikið er ég fegin að þú finnur þig í þessum Dögunar-hópi, þá veit maður að atkvæði þitt hefur ekkert að segja í næstu kosningum. Gengtu veginn með Jóni Jósef og þá muntu fatta hvað ég á við. Með kveðju úr Mos.

Örn Johnson ´43 (IP-tala skráð) 30.1.2013 kl. 23:59

18 identicon

Ásthildur - hlustaðu á reynslulausu Huldu sem vill vel. Ég þekki tilfynninguna. Treystir þú orðum Steingríms J. eða Jóhönnu , talaðu ekki um Imama Össur eða BB. Þú verður að vera MJÖG innarlega í flokknum til að hafa áhrif. Sorry, þetta er pack.

Þínir félagar eru einskis virði, þegar pólutík er annars vegar- láttu mig þekkja það. Ekki eyðileggja þitt líf með "gervi" vinum.

Þegar ráðherrar hringja á miðri nóttu, til að hafa áhrif og breytta skoðunn viðkomandi, þá er ekki allt í lagi.

Ég vill þér vel- hættu í pólutík NÚ ÞEGAR

Þú nærð engum árangri um velferð þjóarinnar ef packið vill það ekki.

Mundu mín orð.

Kveðja.

V.Jóhannsson (IP-tala skráð) 31.1.2013 kl. 00:51

19 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Örn gott að þú hefur ekki áhyggjur af atkvæði mínu.  Segðu mér þá hvað þú vilt að ég kjósi til að breyta þessu ástandi sem við viljum jú flest bæta og laga?  Ég var á fundi með Jóni Jósef einmitt í gærkvöldi og svo á málefnafundi í Kjósinni á laugardaginn og leist bara vel á karlinn.  Hann býður af sér góðan þokka, svo kemur bara í ljós hvort það stenst.  Ég gef mér aldrei fyrirfram að einhver sé svona eða hinsegin.  Ég tek fólki eins og það er.  Svo mun tíminn leiða í ljós hvort það stenst eða ekki.

V. Jóhannsson mikið er gott að vita að fólk hefur áhyggjur af sálarheill minni, það er alltaf gott að vita að fólk hugsar til manns.  Ég er sammála þér með að það er ekkert sniðugt að ráðherra hringi í mann um miðja nótt til að hafa áhrif og breyta skoðunum.  Ég hef aldrei upplifað slíkt sem betur fer, og ef einhver slíkur myndi reyna það, þá fengi hann bara goodmorgen frá mér.  Ég læt engan vaða svoleiðis yfir mig, hvað svo sem hann heitir eða er titlaður.

Ég er hvorki að fara að vinna með Samfylkingunni og Jóhönnu- Össuri, né VG Steingrími, og því síður Sjálfstæðisflokknum og BB.  Ég hélt að ég hefði tekið það fram í upphafi að ég hef valið mér Dögun stjórnmálaafl til að fylgja.  Þú veist eitt af þessum nýju framboðum sem vilja breyta stjórnmálum í dag og færa þau nær fólkinu í landinu. 

En sem sagt mótmæli ykkar eru meðtekin og geymd.  Og ég þakka bara umhyggju ykkar og áhyggjur af framtíð minni, sem reyndar er verulega farin að styttast í annan endann... eða þannig.  

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 31.1.2013 kl. 08:39

20 identicon

Ég hef nú mun meir trú á Dögun en strokupiltunum í Skuggaleg fortíð

Margrét er vel sjóuð úr CISV starfinu og veit vel hvað þarf í svona vinnubúðum

Grimur (IP-tala skráð) 31.1.2013 kl. 14:02

21 identicon

átti að vera þarf af mat í svona vinnubúðum

Grimur (IP-tala skráð) 31.1.2013 kl. 14:04

22 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk fyrir það Grímur.  Skuggaleg fortíð er ágætis nafn, bróðir minn kallar flokkinn skínandi stíg.  En það er svona af því að hann man aldrei hvað hann heitir

Dögun á eftir að sanna sig, ég er þess fullviss.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 31.1.2013 kl. 14:34

23 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Dögun er mitt val og gott að þú ert farin að síja ummæli Ásthildur! Þú hefur langa teygju en nú fer baráttan af stað! Áfram Dögun!!!

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 31.1.2013 kl. 19:57

24 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Já Anna mín áfram Dögun.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 31.1.2013 kl. 20:13

25 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Frábært, ég vild að ég hefði tíma í pólitík.  Ég ætla að draga mig í hlé eftir kosningarnar, ég styð þó Dögun. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 1.2.2013 kl. 01:09

26 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Gott að vita Jóna Kolbrún mín.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 1.2.2013 kl. 01:58

27 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Lesið orð eftir manninn sem varaði við hruninu langt á undan öðrum....    http://vald.org/greinar/130125/

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 1.2.2013 kl. 18:05

28 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Frábært Anna mín og nú verður þessi maður í framboði fyrir Dögun, það er gott mál.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 1.2.2013 kl. 21:23

29 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Það er ekkki einungis frábært heldur sögulegt! ekki spurning!....

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 1.2.2013 kl. 23:08

30 Smámynd: Jens Guð

  Ásthildur Cesil,  bestu þakkir fyrir skemmtilega færslu og ennfremur fyrir góða röksemdarfærslu í athugasemd #3.  Ég kvitta undir hvert orð.

  Óskar Helgi,  minn ágæti: Ég hef í áranna rás svo oft verið þér sammála varðandi eitt og annað.  Utanþingsstjórn er ekki raunhæfur valkostur - hversu ágætur sem sá kostur er.  Í raunhæfari stöðu:  Hvað leggur þú annað til að við gerum sem erum ósátt við 4-flokkinn?  Hvaða kostur er betri en stuðningur við framboð Dögunar?

Jens Guð, 2.2.2013 kl. 00:18

31 identicon

Komið þið sæl á ný; margfaldlega !

Jens Guð (legi); okkar ágæti fornvinur - og félagi !

Reyndist; utanþingsstjórn ekki möguleg, sem valkostur - til langs tíma, meira að segja, er þá einboðið, að Kanadamönnum og Rússum, verði boðið, land og mið og fólk og fénaður, til skipta, sín á milli; bróðurlega. Mín skoðun; í þó nokkuð langan tíma, svo sem.

Vitrænni lyktir mála þar; heldur en að láta innlendan glæpalýð, halda áfram, að murrka niður þjóðlífið, Jens minn.

Gef ekkert; fyrir Helvítis Dögunar kjaptæðið - fremur en annað áþekkt, fornvinur góður, með þetta líka lið : Þór / Margréti og Kristin H. innanborðs, Jens minn.

Brennum okkur ekki; margoft, á sama soðinu, fornvinur góður !

Kannski Íslendingar; innan við 3 Hundruð Þúsunda, séu ekki, á nokkurn handa máta, færir um að stjórna sínum högum sjálfir, sýnist mér, að minnsta kosti.

Síðan; ég hætti að fylgja þjóðernisstefnu - og tók að aðhyllast alþjóða hyggu  (ekki væðingu; til að fyrirbyggja misskilning), hafa augu mín upp lokist fyrir því, að Íslendingar, eru ekkert merkilegri, en annað fólk, víðs vegar - um veröldu alla, gott fólk.

Með; ekki síðri - né lakari kveðjum, en hinum fyrri, og öðrum  / 

 

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 2.2.2013 kl. 02:15

32 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Sammála þér Anna mín, ég er viss um að þetta verða sögulegar kosningar.

Takk Jens minn, já sumt fólk er algjörlega út úr kú þegar kemur að vitrænum umræðum. 

Óskar minn þú vilt auðvita telja upp allt þetta vonda sem Þór og Margrét hafa unnið?  Eða ef til vill bara tvö þrjú dæmi?

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 2.2.2013 kl. 15:28

33 identicon

Komið þið sæl; sem oftar !

Ásthildur Cesil !

Vil einungis; minna þig á ömurlegan blekkinga feril þessa fólks, síðan Vorið 2009, hafi fram hjá þér farið.

Fólk; sem ber sínar kápur, á báðum öxlum - og viðhefir skrum, sem smjaður fyrir valdhöfunum, á öngvrar virðingar að njóta, að minni hyggju.

Það; var mér allavegana kennt, í uppvextinum heima á Stokkseyri forðum, fornvinkona góð.

Sízt lakari kveðjur; öðrum - og fyrri / 

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 2.2.2013 kl. 15:48

34 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Elsku kallinn minn, ertu að meina þegar þau vörðu þessa ríkisstjórn falli? Þau töldu sig vinna ákveðið mál með því, sem þau töldu vera þjóðþrifamál. Það getur auðvitað kallast hrossakaup, en ef það er vegna þess að fólk telur sig með því vera að gera eitthvað annað sem máli skiptir þá er það skiljanlegt, þó svo ég leggi við það ákveðnar efasemdir. En það getur ekki flokkast undir illvilja á nokkurn hátt. Mér finnst sumt fólk dæma ansi hart, og oft setur það sig ekki inn í málin, og hugsað hvað myndi ég gera í svona dæmi. Skynsemin þarf alltaf að vera leiðarljós, og þó ef til vill við sjáum ekki alveg tilganginn, þá er hann þarna. Þannig að eftir að hafa kynnst þessu fólki og skilið hvað það er að hugsa, þá treysti ég þeim einfaldlega til góðra mála.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 2.2.2013 kl. 18:59

35 identicon

Sæl; á ný, gott fólk !

Ásthildur Cesil !

Öngvum; 63ja menninganna (alþingis sorpinu) , er treystandi - fyrir næsta húshorn, hvað þá, þarnæsta.

Í siðmenntuðum löndum; eins og Kína og Íran, væri búið að afgreiða þetta lið, á einkar snyrtilegan máta - FYRIR LÖNGU SÍÐAN, þar að auki.

Ekki lakari kveðjur; fremur en hinar fyrri, vitaskuld /

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 2.2.2013 kl. 20:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Höfundur

Ásthildur Cesil Þórðardóttir
Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Tónlistarspilari

Ásthildur Cesil - Dagdraumar
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • 2f19c636fb68b249555c5fa250d3e103--russian-image-jellyfish
  • engill-angel
  • jolatre
  • 20171002 121526
  • gasometers-vienna-7[5]

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 34
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 26
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband