Ferðasagan ferðalok.

Þar sem rokið veður áfram, þó ég heyri ekki mikið í því, og snjórinn þyrlast niður er við hæfi að ljúka við ferðasöguna mína.

 

Ferðasagan.  Fjórði og síðasti hluti. Mazatlán til Vestfjarða. 

 

Það var gott að komast til Mazatlán, heim til mágkonu minnar, það var tilbreyting að komast inn á heimili og geta farið í venjubundið heimilislíf, þó við værum ekki komin alveg heim.  Þarna var stjanað við okkur.  Vöknuðum, fórum út á Patíó að lesa, fengum okkur morgunverð og svo var farið niður á strönd.   

 

Mynd1

á ströndinni. 

 

Mazatlán er mjög falleg borg, þar búa um 140 þúsund manns.  Aðalgatan liggur með fram hreinlegri sandströnd, þar koma margir ferðamenn á hverju ári.  Aðallega frá Ameríku eða Kanada.  Þeir stytta veturinn heima fyrir, með því að koma hingað í hlýtt og gott veður. Margir eiga íbúð eða villu þarna, og svili minn sér einmitt um hótel sem er í eigu margra ameríkana og kanadamanna.  Hann hefur líka séð um glæsivillur ríka fólksins, eins og frú Grímhildar, en hún átti snyrtivörufyrirtæki Lancome að mig minnir.  Við fengum að skoða villuna hennar, og þvílíkan og annan eins íburð hef ég aldrei séð fyrr né síðar.  Glæsikerra var í bílskúrnum sem beið komu hennar, og þernur, garðyrkjumaður og bílstjóri sem voru þarna meðan hún var í burtu.  Hún er að vísu búin að selja bæði fyrirtækið og húsið núna.

 

mynd2 

Götumynd frá Cerr De Jesus Mazatlán. Íbúarnir eiga gangstéttina út að götu, og þurfa að sjá um að gera þær og þrífa.  Þess vegna eru gangstéttarnar mismundandi fyrir framan hvert hús, og sumir hafa ekki gert neina gangstétt.  Bara sandur fyrir frama.  Aðrir helluleggja og sumir steypa.  Götutréð er Fícus Benjamínus.  Og yfirleitt eru það garðyrkjumenn sem koma og snyrta trén, það er sama með þau íbúarnir eiga trén og láta klippa þau eftir eigin smekk. Við betri götur eins og þessa eru varðmenn sem íbúarnir deila með sér að greiða fyrir að vakta götuna á nóttunni.  Á nóttunni er allir bílar fyrir innan grindurnar sem þið sjáið, og hliðin læst.   

 

 Þarna lifa menn á rækjuveiðum, humri, ostrum og ferðamennsku.  Til skamms tíma voru nokkrir íslendingar þarna í útgerð og veiðarfæraþjónustu.  Rækjan er stærri en við eigum að venjast, og humarinn líka.  Á ströndinni vorum við alltaf á svipuðum slóðum hjá Playja del Oro. Sjórinn er tandur hreinn og ágætlega hlýr.  Á hverjum morgni um nýju leytið kom maður syngjandi upp úr sjónum, með poka á bakinu, hann var á ostruveiðum.  Hann hafði smáaðstöðu rétt við hliðina á okkur. Lítinn trékassa og salt og sítrónu.  Þangað hélt hann með aflann og byrjaði að brjóta skeljarnar, maður get svo fengið nýja og spriklandi ostru hjá honum á 2 pesóa.

 

Þarna er stöðugur straumur af sölumönnum sem ganga um ströndina og reyna að selja manni allt mögulegt frá tyggjópökkum upp í flottar tréskurðarmyndir, og málverk.  Handklæði og sólgleraugu.  Margir sölumennirnir eru indíjánar.  Einn maður gekk þarna um á hækjum og söng aríur, ekki var nú röddinn til að hrópa fyrir, en hann fékk stundum pening, menn tóku viljann fyrir verkið. 

mynd3 

Strandsala.

 

Sinalóa fylkið sem Mazatlán tilheyrir er eitt helsta Mafíusvæðið í Mexícó.  Hér er friðsælt á daginn, en margt gerist í skjóli nætur.  Og margir eru myrtir.  Þó maður trúi því ekki þegar maður gengur um þennan vinalega bæ að degi til, með öllum sínum ferðamönnum og friðsæld.

Hérna er karnival um þetta leyti, og er þegar byrjað að skreyta bæinn.

mynd4 

Úti að borða morgunverð í Mazatlán með fjölskyldunni.

 

Tíminn leið allt of fljótt þarna, því við höfðum ráðgert að stoppa þrjá daga í San Fransisco. 

Yfirgáfum Mazatlán á fallegum sólardegi, til að fara út á flugvöll, þurftum að fljúga til Mexícósity, og svo þaðan til San Fransisco.  Urðum að stoppa eina nótt í höfuðborg Mexícó, gistum á flugvallarhóteli “Rezor” mjög fínu hóteli með tveimur herbergjum nóttin kostaði 100 pesos.  Þurftum að vakna um kl. 4 a.m. til að ná fluginu. 

 

Maður finnur svo vel þegar maður kemur aftur til bandaríkjanna hve dónalegir þeir eru og leiðinlegir, þeir sem eru í einkennisbúningum þ.e.a.s.  Að vísu lentum við á afskaplega elskulegum ungum manni í útlendingaeftirlitinu, við vorum fyrstu íslendingarnir sem hann hafði séð.  Maður þarf að gera vel grein fyrir sér, og á hvaða hóteli maður ætli að dvelja, og við vorum ekki ákveðin.  “Æ ég set ykkur bara á Holliday inn” sagði hann og hló. 

Síðan tók við þrautarganga gegnum eftirlit þar sem þessir venjulegu ameríkanar komu við sögu ruddalegir og ofstopafullir.  Til dæmis konan sem tók við tollmiðanum, hún hrifsaði hann úr hendinni á mér með fyrirlitningar svip, svo mig langaði mest til að sparka í rassinn á henni. Þarna voru engar almennilegar upplýsingar að fá um hótel og slíkt, við vildum vera niður í miðbæ.  Þegar við spurðum í upplýsingum, sagði daman með þjósti að það væri ekki hennar mál að svara til um hvaða hótel væru í miðborginni.  Meðan hún athugaði neglurnar á sér.  En rétti okkur samt ferðamannabækling þar sem voru upplýsingar um hótel en við vissum náttúrulega ekki hvað snéri upp eða niður á San Fransisco.

 

 

 

Við stautuðum okkur fram út bæklingnum og komumst að því að sennilega væri Unik square í miðbænum.  Þar fundum við hótel sem heitir King George Hótel.  Þokkalegt hótel og í göngufæri við allt. 

mynd5 

Leitað eftir hóteli á flugvellinum í San Fransisco.

 

Slöppuðum af eftirmiðdaginn, en fórum á röltið um kvöldið.  Borgin iðaði af lífi, við fórum svo á hótelbarinn þar var live djass og blues, ungir strákar alveg frábærir músikantar.

 

Við vöknuðum snemma morgunin eftir og löbbuðum einn og hálfan tíma til að leita að stað til að borða morgunverð, annað en kaffi hús með sætum kökum og vöfflum. Fundum loks einn.... við hliðina á hótelinu, þar sem við höfðum reyndar snætt kvöldið áður.  Eftir hádegið tókum við einn af hinum frægu Cable vögnum niður í ferðamannahluta borgarinna við höfnina. Fengum okkur að borða humar og krabba á frábærum stað í Fiehermanswharf við höfnina.

mynd6 

Útsýnið úr restaurantinum. Listamenn að störfum.   

mynd7

Teflt á Unik squaire.

 

Síðasti stóri jarðskjálftinn hér var 1989, hann lagði stóran hluta borgarinnar í rúst.  Hér eru um 32 hæðir sem mynda borgina, en hún er frá sjávarmáli upp í 929 feta hæð. Þess vegna eru göturnar eintómar brekkur. Aðal samgöngutækin frá Höfninni í miðborgina eru rafmagnsvagnarnir.  Þeir ganga fram og til baka, þessir gömlu vagnar.

mynd8 

Cable train.

Þessir vagnar voru teknir í notkun um 1873, það var maður að nafni Andrew Smith Hallidie, sem fann þá upp, áður höfðu menn hesta til að draga vagna upp og niður hæðirnar, en eitt sinn horfði hann upp á að hestur féll og vagninn dró hann niður eina hæðina og þá hét hann að finna upp leið til að gera samgöngurnar mannúðlegri.

 

 

 Fyrir 155 árum var hér aðeins þorp en svo fannst gull í nágrenninu og síðan hefur borgin þanist út.  Hún er ekki síður fræg fyrir margvíslegan arkitektúr. Hér býr fólk frá öllum heimshornum.  

mynd9 

Flottur arkitektúr.

 

mynd11

Listin blómstrar í miðborginni.

 

Við sigldum svo undir hina frægu Golden gate brú. Hún var 17 ár í byggingu og lengi vel var talið ekki væri hægt að byggja brú á þessum stað. Því gífurleg rok geta orðið þarna, og mikil þoka.

themightywolfman

mynd12 

Golden Gate. Liturinn er táknrænn og brúin er stöðugt máluð alla daga, öll ár. Brúin sveiflast 9 metra til og frá í mestu rokhviðum.

 

 Í mörg hundruð ár sigldu spánverjar og aðrar þjóðir þarna framhjá, án þess að uppgötva innsiglinguna.  En það var fyrir tilviljum að spænskt skip hraktist þarna inn fyrir sjávarstraumum.  Straumurinn er svo mikill að oft er erfitt að komast þarna inn.  Brúin sveiflast um 9 metra til og frá þegar kári geisar af fullu afli.  Það eru menn allt árið, alltaf að gera við brúna og mála hana.  Þeir byrja á einum enda hennar og þegar þeir eru komnir yfir er byrjað aftur þar sem frá var horfið.  Oft gella við þokulúðrar þegar bátarnir koma inn, í þokumistri. Þokulúðrarnir við innsiglinguna gefa frá sér mismunandi hljóð, til að sjómenn átti sig á aðstæðum.

mynd13 

Alcatraz hin illræmda fangaeyja.  Ekki er hægt að synda frá henni í land vegna þungra strauma.

 

Inn á miðjum flóanum er fangaeyjan Alcatraz.  Þar voru menn hafðir í haldi og afar fáum tókst að flýja.  Því ekki var hægt að synda frá henni sökum straumsins.  Eyjan er núna til sýnis fyrir ferðamenn.  Þarna er önnur eyja þar sem innflytjendur voru geymdir.  Uns þeim tókst að sanna að þeir mættu flytjast inn til landsins.  Þeir urðu að eiga ættingja í landinu til að fá dvalarleyfi.  Aðallega voru það kínverjar. Og eru þeir áberandi í borginni. Önnur stór brú er hér hún kallast Bay brigde öðru meginn og Oaklandsbrigde hinu meginn, hún liggur í gegnum tvær litlar eyjar og er önnur kvikmyndastúdíó.  Í jarðskjálftanum féll efra dekk hennar niður og kramdi þó nokkuð marga bíla undir farginu og margir dóu.  

Við fórum á nokkur söfn, vaxmyndasafnið, og safn sem heitir Ripley´s Believe it or not.  Eða furður veraldar. 

ynd14

 

Elíar í góðum félagsskap. Fídel, Hussein og Napóleon.  Madam Tussaud er samt flottari.

 

Hér er margt að sjá og mikið um að vera.  Hér eru allstaðar bílageymslur, kallaðar Parkhótel. Upp á níu hæðir, og kostar 30 dollara að geyma bílinn 24 tíma.

 

Síðasti dagurinn lofaði ekki góðu regnið buldi á rúðum hótelsins.  En það stytti upp sem betur fer.  Fórum aðeins í búðarrölt, í Macys og Old Navi. Þá varð nú amman gráðug, þvílíkt úrval af barnafötum.

 

Um kvöldið röltum við um í höfninni hér er aðalferðamannasvæðið, og margt um að vera. 

 

 

Við fengum okkur að borða á Johns’ steakhouse. Ég fékk mér ostrur í forrétt og grillaðan túnfisk í aðalrétt. 

 

Röltum um og rákumst á litla sjoppu þar sem hláturmildar Havairósir buðu okkur að freista gæfunnar og velja okkur ostru og gá hvort í henni væri perla.  Ef ekki væri perla þyrftum við ekki að borga.  Til að gera langa sögu stutta, þá fann ég fyrst eina bláa perlu sem er mjög sjaldgæf, og svo fékk ég að prófa aftur og fékk aðra, reyndi einu sinni enn og fékk þá eina hvíta.  Ég lét gera hálsmen og hring með tveimur bláu perlunum, til þess var nú leikurinn gerður, og svo hálsmen úr þeirri þriðju sem var hugsuð sem sængurgjöf fyrir dóttur mína. Þetta kostaði all plús skartgripir fyrir mágkonu mína með hennar perlum um 800 dollara.  En það var svo gaman að þessu og hreint upplifelsi að kvöldinu og aurnum var vel varið. 

Svo var haldið upp á hótel King George, með cable train auðvitað.

mynd15 

Blómabarn sem lék fyrir þá sem biðu eftir fari með cable car.  Hér sést aðeins í hringinn sem var snúið við til að rétta af vagnana.  Gæinn átti örugglega bílinn i baksýn, svo hann hefur ekki verið á nástráinu.

 

mynd17 

Niður á höfninni. Hér hefur verið gert stórátak í að hreinsa flóann af mengun og sæljónin eru friðuð og þessi pallar gerðir sérstaklega fyrir þau. Það var bæði mikill hávaði og fnykur af þessum elskum.

 

mynd18

Í perluleit. 

mynd19

 

Og Voila!!! Blá perla. Þessar Hawaisku sögðu að það hefði aldrei komið fyrir áður að einhver fengi tvær bláar perlu.  En þær vissu auðvitað ekki að hér var norn á ferð.

 

Þegar heim á hótelið kom var verið að sýna í sjónvarpinu morðsögu með Jessicu Flecher, marga þætti, eiginlega alla nóttina.  Og meðal annars þegar frú Flecher fór í cable car einmitt hér í San Fransisco. Vagnarnir ganga frá Unik torgi að Fishermans Wharf, á hvorum stað er svo snúningshleri sem er handsnúið, og svo aka vagnarnir til baka. 

 

Daginn eftir var svo haldið til Boston og það þurftum við aðeins að bíða á flugvellinum, þá var tíminn notaður til að ljúka við að lesa þær bækur sem ég hafði fengið lánaðar hjá góðum vini.  Og svo var farið upp í flugleiðavél og haldið heim á kalda gamla frón. 

 mynd20

Gamla frón, Vestfirðir, í ljósbrotum. Það er einmitt á svona stöðum sem nornir verða til. 

 

 mynd21

 

Fullt tungl!!!

 

Hér með lýkur þessum ferðabrotum mínum. ‘Eg vona að þið hafið haft gaman af, og getað upplifað í huganum ferðalagið með mér.  Þegar maður ferðast svona á eigin vegum, þá kemst maður nær fólkinu sjálfu og tengist betur landi og þjóð.  Það gerir ferðalagið miklu innihaldsríkara. 

 

                                                   Sögulok.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Takk takk og góða nótt

Ásdís Sigurðardóttir, 9.11.2012 kl. 22:57

2 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Góða nótt Ásdís mín

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 10.11.2012 kl. 00:52

3 Smámynd: Sigurður Þorsteinsson

Ásthildur, takk fyrir ferðalýsinguna og söguna, og myndirnar. Skemmtileg ferð, ég naut hennar í botn.

Sigurður Þorsteinsson, 10.11.2012 kl. 10:17

4 identicon

Takk, fyrir söguna, gaman að sjá þetta allt saman.

 Ég á hvíta perlu sem Andri dóttursonur minn fann í skel við líkar aðstæður. Hann var svo heppinn að fá þrjár og lét setja þær í hálsmen fyrir mikilvægustu konurnar í lífi sínu, mömmu, ömmu og móðursystur (hann var á þrettánda ári). og ömmumen er í hjartalaga ramma. Geymt mjög vel og notað við sérstök tækifæri.

Dísa (IP-tala skráð) 10.11.2012 kl. 11:08

5 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

Takk fyrir að taka mig með þér í þetta skemmtilega ferðalag.

Það er gaman að segja frá því að sama fyrirkomulag á gangstéttum er viðhaft á Krít og í Cerr De Jesus Mazatlán. Þar eru allar útgáfur gangstétta allt frá engri upp í flísalögð listaverk. Á Krít töldu menn líka að mið gangstéttin væri besti staðurinn fyrir trjárækt, oft varð að stíga út á götuna í hraða umferðina til að komast framhjá trjánum sem girtu gersamlega fyrir alla gangandi umferð. Skemmtilegasta gangstéttar útgáfan fannst mér samt vera einföld steypt stétt í grófari kantinum. Því húseigandinn hafði steypt niður í gangstéttina sóltjald og gamlan skrifstofustól, á hverjum hann sat keðjureykjandi  og rabbaði við gesti og gangandi.

Axel Jóhann Hallgrímsson, 10.11.2012 kl. 11:39

6 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk fyrir að koma með Sigurður minn.

Dísa en fallegt, Andri er nú líka svo yndæll og náinn ömmu sinni

Gaman að þessu með Krít Axel.  Sé karlinn fyrir mér sé hann fyrir mér þarna búin að koma sér vel fyrir

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 10.11.2012 kl. 12:06

7 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Flott endir verð líklegar að lesa hina kaflanna. Þeir eru ekkert alslæmir kallarnir/fólkið í Ameríku en á flugvöllunum eru menn oft yfirkeyrðir en það vinna flestir tvöfalda vinnu til að lifa af.

Valdimar Samúelsson, 10.11.2012 kl. 15:59

8 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Já ég veit, en það er svoleiðis oft að fólk fyllist einhverju yfirlæti þegar það er komið í einkennisbúning, þá á ég við þá sem ef til vill hafa ekki þroska til að ráðskast með aðra.  Takk Valdimar minn.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 10.11.2012 kl. 16:20

9 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Þetta hefir verið æðislega gaman. Sástu að Helga gamla Páls er dáinn. Þær voru svo miklar vinkonur móðir mín og Helga enda stór frænkur líka enda kom hún alltaf í heimsókn vestur á víðimel þegar hún var í bænum. heyrumst.

Valdimar Samúelsson, 10.11.2012 kl. 17:52

10 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Já Valdimar, ég frétti það inn á flugvelli þegar ein önnur gömul vinkona Inga Jóns var þar til að vera í jarðarför.  Manstu eftir Ingu, hún var gift Leifi Páls.  Frábær manneskja og góð vinkona mín þegar við vorum að vinna saman á bæjarskrifstofunni hér.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 10.11.2012 kl. 17:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Höfundur

Ásthildur Cesil Þórðardóttir
Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Tónlistarspilari

Ásthildur Cesil - Dagdraumar
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • 2f19c636fb68b249555c5fa250d3e103--russian-image-jellyfish
  • engill-angel
  • jolatre
  • 20171002 121526
  • gasometers-vienna-7[5]

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 5
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 25
  • Frá upphafi: 2022149

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 23
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband