Ferðalag á hlýjum slóðum í óveðrinu hér heima.

þar sem ég sit hér í kósýhorni með kertaljós og hef það notalegt meðan snjóar og vindurinn hvín um allt land.  Langar mig til að bjóða ykkur í áframhaldandi ferðalag, nú til Belize og aftur til Mexico. 

 

Frá landamærunum til Belizeborgar eru tveggja tíma akstur.  Í Belize eru svartir menn, en þeir eru fíngerðari en þeir svertingjar sem maður sér oftast.  Þeir eru fríðir og andlitsfall þeirra er meira evrópskt.  Enda kalla þeir sig Creola eða blendinga. Enska drottninginn er ennþá á peningunum þeirra Belizedollurunum. 

Strax sást að Belize er greinilega auðugra land heldur en Guatemala.  Fallegri hús, mikið hreinlegra.  Kirkjugarðarnir voru þó skreyttir á sama hátt.  Með fallegum blómsveigum og allskonar litskrúðugu plasti. 

 

Hér eru líka fallegri garðar, og meira lagt upp úr umhverfinu.  Fyrsta skiltið sem við sáum var áróður um að skipta um stjórn.  Of lág laun, of mikil spilling, fjármunum sóað í vitleysu.  kjósum rétt, kannast einhver við svona?

 

Fyrst ókum við gegnum þykkan skóg, þar næst tók við akurlendi með búfé á beit.  Síðan lágaxin gróður, þar voru stofublóm okkar í sínum fegursta skrúða í skógarþykkninu.  Við sáum að húsin stóðu gjarnan á stöplum, og greinilegt er að hér er há grunnvatnsstaða.  Allstaðar dýki, sýki og leirur.  Við vorum komin til Belizeborgar um kl. 10.30.  Og fórum rakleitt niður á bátabryggju og tókum bát út á eyjuna Caye Caulker.  Þetta er rúmlega klukkutíma bátsferð á hraðskreiðum bát.

Eyjan er sandfláki.  Hún rétt stendur upp fyrir sjávarlínu.  Þarna eru fáir íbúar, mest eru þarna ferðamenn, og svo þeir sem þeim þjóna.  Á kajanum stóðu þeir í biðröð leiðsögumennirnir.  Rifust um kúnnana, þeir voru með hjól með skúffu aftan á þar sem dóti ferða mannanna var komið fyrir, svo fóru menn fótgangandi, því það tekur svo sem eins og tuttugu mínútur að labba eyjuna enda á milli. Sá sem náði athygli okkar heitir Kristófer.  Þeir stóðu nokkrir og hnakkrifust um hver ætti að aðstoða okkur, hver hefði séð okkur fyrst og hver ætti rétt á að koma okkur á hótel.  Eftir nokkurt þjark settum við töskurnar okkar á hjólið hans Kristófers, voru hálf þreytt og dösuð og vildum helst komast á hótel sem fyrst.  

 

mynd2

Svona eru leigubílarnir á Caye Culker, þeir fá vörur frá landi.

 Hér tala allir ensku öll skilti á enska tungu og auglýsingar, ágætis tilbreyting frá spænskunni.  Við röltum svolítið um til að velja okkur hótel.  Völdum loks eitt sem heitir Tropical Paradiso.  Þrifalegt lítið hótel. Alveg niður við ströndina.

 

MYND2A 

Hotel Tropical Paradiso.

Á fyrsta skiltinu sem ég sá stóð: Ókurteisi er fyrsta stigið í ofbeldi. Uncourtsy is the first step to violense. Þetta er frábær lítil eyja, verðurfar mátulega hlýtt og vindur af hafi sem kælir, engir bílar nema löggubíllinn.  Nokkrir golfvagnar og reiðhjól og traktorar, kókbíllinn er til dæmis traktor með aftanívagni.  Hér flauta menn ekki á vegfarendur, þeir segja Bíbb bíbb.  Þeir segjast ekki vilja fá mengunina af bílum og hávaðan. Öll húsin eru lágreist og lítil.  Allt hér í róleg heitum.  Húsin standa öll á stólpum, við héldum að það væri vegna flóða, en fólkið sagði okkur að það væri til að óvelkomin dýr kæmu ekki inn.

 

MYND3 

Húsin standa öll á stöplum.

MYND4

Kókbíllinn.

 

MYND5 

Aðalgatan í Caye Culker

 

Belizebúar eru vingjarnlegir og þægilegir.  Ekki svo langt síðan þeir losnuðu undan bretum.  Kristofer var glaðlyndur og þekkti greinilega alla.  Hann á fjórar kærustur og 13 börn með þeim.  Hann vinnur fyrir sér með því að fara niður á bryggju þegar bátarnir koma og krækja sér í kúnna til að leiðbeina á hótelin.  Hann sýnir manni í leiðinni hvar allt er.  Pósthúsið, bankinn, bestu veitingastaðirnir. We are good people segir hann og hlær. 

Daginn eftir fórum við að snorka.  Karabiska hafið er kjörinn vetvangur til þess.  Við sáum skötur, þær eru gæludýr hérna, innan um þær syntu nokkrir hákarlar, og fór nú svolítið um okkur við að sjá þá.  En skipstjórinn hann Glenn hló bara og demdi sér út í vatnið og svo fóru allir á eftir.  Hann var með svolitla beitu sem hann hafði tekið með sér til að laða sköturnar að, og svo gat maður klappað þeim og jafnvel tekið í fangið.  Þær eru mestu krútt   Ég sagði honum að á Íslandi ætum við sköturnar.  Hann hrópaði “Alberto”!! og benti á eina skötuna, “Alberto ekki synda til Íslands þeir éta þigþar.” 

Svo var farið á næsta stoppistað út að kóröllunum, og þar var farið í langan sundtúr.  Ég sleppti því nú samt og synti bara kring um bátinn og skoðaði fiskabúrs fiskana sem þar voru.  Það var stoppað á einum stað enn, til að skoða fiska og þar dró Glenn upp melónu og skar í bita og gaf öllum um borð með sér. 

 MYND6

 

Hákarlar og skötur.

Þetta var mjög skemmtilegt.  Og hreinn er hann sjórinn við Belize. Þarna eru kórallarnir alfriðaðir og liggur refsing við að brjóta eða skemma þá.  Innfæddir Belize búar hafa sitt eigið tungumál, þeir kalla það Creola. En mest tala þeir ensku eða spænsku. Eyjan er bara sandur, og hér og þar er smágróður, og pálmar.  Göturnar eru bara sandur sem og patíóin hjá þeim, og þeir sópa bara eða raka yfir sandinn.

 

Vorum þarna í þrjá dag og nutum góða veðursins og hvíldar eftir allt rútuferðalagið. Þegar við komum til borgarinnar fengum við að vita að rútan upp til Mexícó var farinn þann daginn.  Við ætluðum sem sé ekki gegnum Guatemala í þetta sinn nenntum ekki að hristast í rútunum á leirvegunum þar.  Ferðinni er heitir til Chetemal. Okkur var sagt að það væru hótel þarna skammt frá, og röltum því af stað með allt dótið.  Þar hóaði í okkur bílstjóri, við ætluðum ekki að sinna honum neitt.  En svo var orðið svo heitt og við þreytt þannig að við ákáðum að fá hann til að fara með okkur á hótel.  ‘Eg þekki öll hótel, sagði hann það kostar bara 5belize dollara að aka ykkur.  Allt í lagði sögðum við. 

Bílstjórinn fór fyrst með okkur á gististað, þar sem húsráðandinn var austurlensk, sennilega frá Kína. Herbergin voru eftir okkar meiningu algjörar rottuholur.  ‘Eg myndi ekki setja hundinn minn þarna inn sagði Elías.  Ég veit um annan góða stað sagði hinn greiðvikni bílstjóri og brosti út að eyrum.  “þetta var hvort sem ekki ekki nógu gott fyrir ykkur” sagði hann svo sannfærandi.  Á næsta stað bauð okkur velkomin kona frá Pakistan, allt svæðið var víggirt við vorum niður í miðbæ, og ekki frýnilegt að fara um.  “Ég myndi nú ekki einu sinni þora að fara út fyrir dyrnar hér að kvöldlagi” sagði mágkona mín.  “Já sagði bílstjórinn, ég veit um mjög góðan stað.  Þarna inni sat Palestínumaður þeir eru alltaf til vandræða” sagði hann þegar út í bíl var komið. 

Loksins komum við að mjög fallegu stóru húsi, The Great House.  Stóra húsið. Þetta er hús byggt 1927 fyrri fjölskyldu Barney Methaldo. Frægan kaupmann frá Belíze.  Glæsibygging, eins og plantekru húsin í Bandaríkjunum.   Við fengum stóra svítu með öllum þægindum og gríðarstóru baði.  Leigubílstjórinn var mann ákafastur að fylgja okkur upp á herbergi og skoðaði allt eins og krakki sem kemst í sælgæti, hljóp inn á bað, og svo hló hann og lék við hvern sinn fingur.  Bíllinn kostaði svo 15 belize dollara, vegan þess að við stoppuðum þrisvar, sagði hann og brosti blítt.  Ég gat gripið í handlegginn á Elíasi svo hann hjólaði ekki í  þetta náttúrubarn.  Við tékkuðum okkur inn og fengum okkur hádegismat á Smokey Mermaid Restaurant.  Grillaðan humar, hvað annað hér eru humrar og rækjur það besta, vegna nálægðar við sjóinn og gjöful fiskimið. 

MYND7 

The Great house. Appelsínu uppskerutíminn er greinilega núna Appelsínurnar í bílförmum.

Við höfðum beðið bílstjórann um að sækja okkur á hótelið næsta morgun.  Frúin var með honum í bílnum, hann kynnti hana fyrir okkur, þetta er kærastan mín, sagði hann hróðugur.  Hún var greinilega eldri en hann, en afskaplega elskuleg kona. Hún sagðist eiga tvö börn 9 og 12 ára, frá fyrra hjónabandi.  Hann hefur sennilega verið að segja frá ævintýrum gærdagsins og hana langað að sjá þetta fólk frá fjarlægum heimshluta.  Hann kom mínútu of seint og afsakaði sig í bak og fyrir, sagði að yfirvöld hefðu kolranga stefnu í málefnum borgarinnar, það væri ekkert gert í að laga umferðargötur og greiða fyrir umferð.  Hér væri mikil spilling stjórnmálamanna, mútur og svindl. Svo selja þeir passa til glæpamanna sagði hann hryggur.  “Ég kaus sko ekki síðast” sagði hann “ég fór á kjörstað, en biðröðin var svo löng, ég nenni ekki að standa í biðröð.  Kannski fer ég að kjósa núna, ef biðröðin verður ekki of löng.”  Sagði hann. 

Á rútubílastöðinni snérist hann í kring um okkur eins og skopparakringla, voða hjálpsamur, ég stakk 5belize dollurum í lófa hans og hann ætlaði eiginleg ekki að taka við honum.  Þakkaði fyrir sig og sagði að hann yrði að fara hann væri nefnilega búin að bjóða frúnni út að borða.

 

Hér heilsa manni allir og brosa, jafnvel heyrist “Good morning my friend.” Óvenjulegt í stórborg. 

Þar sem við sátum og biðum eftir rútunni heyrðum við sálmasöng.  Í dag er mánudagur, og þeir hér eiga frí á mánudögum.  Það var samt einhver vígsla í gangi, því það var löng strolla af hempuklæddum manneskjum, körlum og konum einhversskonar dómarar, eða þannig.  Skrúðganga, með sálmasöng. 

Rútan sem átti að fara klukkan tíu, fór fimm mínútum yfir ellefu.  Okkur hafði verið sagt að mæta hálftíma fyrir brottför til öryggis, svo mikið fyrir Mið Amerískan tíma. 

Aðalvegir í Belize eru malbikaðir, en götur í þorpum og bæjum eru bara eins og jarðvegurinn er.  Þeir slá grasið meðfram veginum að mestu leyti örugglega til að halda gróðrinum í skefjum. Húsin standa öll á stólpum.  Þakið mest með bárujárni, stráum eða leirþakflögum. 

Við komumst klakklaut yfir landamærin, þurftum að borga 30 dollara til að komast út úr Belize.  Komum til Chatemale um kl. eitt. Fórum svo með rútu til Villa Hermosa, mjög fallegs bæjar. Leituðum að góðu hóteli, fórum þar á Casa inn ágætis hótel.

MYND8

Ríó Grejalva í Villa Hermosa.

 Morguninn eftir fórum við á bæjarrölt. Í Borginni eru margir garða og græn svæði og mjög snyrtilegt.  Um hann rennur áin Rio Grejalva, við sáum ekki brú, en ferja eða kláfur virtist ferja fólk yfir hana.  Rútan til Mexícó fór ekki fyrr en klukkan átta um kvöldið, þannig að við höfðum nægan tíma, fengum að geyma farangurinn á hótelinu, og fórum og skoða dýragarð og plöntusafn sem er þarna rétt hjá, sem kallast Ymka sem þýðir á índíjánamáli Álfur sem verndar dýr og gróður.  Það var fróðlegt að fara þarna um, dýrin eru að mestu frjáls, en ekið er um svæðið á traktor með vögnum þar sem eru sæti fyrir fólk. 

MYND9

Í Ymka

MYND10

Voða notalegt.

 

Tókum góða rútu Linea one til Mexícó City, ákváðum svo að stoppa ekki þar heldur halda áfram til bæjarins Morelia, þar í námunda eru mjög fræg fiðrildi. Á leiðinni frá Villa Hermosa til Mexícó vorum við stöðvuð fjórum sinnum, og hermenn komu inn í rútuna og skoðu farþegana, báðu suma um passa, okkur létu þeir algjörlega í friði.  Mágkona mín hélt að þeir væru að leita að fólki frá Guatemala.  Það eru um 11 tíma akstur frá Villa Hermosa til Mexícó city. 

 

Morelía er geysilega fallegur bær, háskólabær, og eiginlega er allur miðbærinn eitt allsherjar listaverk.  Miðbærinn var byggður allur á sama tíma um fimmtán hundruð.  Þá var reistur varnarmúr umhverfis hann með 1200 bogagöngum.  Hluti þeirra er nú hulin jarðvegi, en ennþá má sjá sum þeirra og um aðalbogagöngin er ekið inn í bæinn, yfir boga göngunum er freska með tveimur stúlkum sem halda á ávaxtakörfum, tákn  um frjósemi og góða uppskeru. 

MYND11

Með fegurstu bæjum, Morelia.

Íbúar Morelia eru 1.500.000 og búa í 800 Coloníum, eða hverfum. Það er örugglega frábært fyrir arkitekta að fara þarna og skoða þessar fallegu og stílhreinu byggingar og hve allt er ótrúlega heillandi, að vísu eru göturnar í miðkjarnanum orðnar dálítið þröngar fyrir nútíma umferð.  Aðalatvinnuvegur borgarinnar er ferðamennska og smásala í kring um það, og svo skólarnir. 

Hér í grendinni er bærinn Ancangeó, þar er mjög stutt í Chicua Mountain Range Sierra Chincua.  Sem er frægur fyrir fiðrildin.  Á fimm stöðum hér um slóðir koma um 250 milljónir fiðrilda árlega frá Canada.  Bara til Sierra Chincua koma um 40 milljón þeirra.  La Mariposa Monarca.  Þau klekjast út í suðurríkjum Bandaríkjanna, fljúga svo til Canada og þegar fer að hitna þar fljúga þau í stórum hópum til Mexícó, alast þar upp, í apríl fljúga þau  svo yfir Mexícóflóann og aftur til Bandaríkjanna til að verpa.  Þau lifa í níu mánuði, meðan önnur fiðrildi lifa bara í 27 daga.  Atferli fiðrildanna var uppgötvað um 1870, en varð ekki aðgengilegt túristum fyrr en árið 1965, á þá aðeins á þeim tveimur stöðum af fimm. Fyrir nokkrum árum þegar við vorum í Guadalajara þá heyrðum við fyrst af þessum fiðrildum, þar sjást þau koma eins og ský yfir borgina á leið sinni til Sierra Chincua.   Einnig sjást þau í Mondevideo.

 

Við fengum okkur morgunmat morgunin eftir og geymdum farangurinn á hótelinu, keyptum okkur fararstjóra til að fara með okkur upp í fjöllinn,  við þurftum að borga aðeins meira þar sem við vorum bara þrjú, en lágmark eru fjórir, en þessu vildum við ekki missa af.

 Lagt var af stað kl. hálf níu.  Af þeim fimm stöðum sem fiðrildin koma á eru einungis tveir opnir almenningi.  Og Sierra Chincua er auðveldari hann er þó í um 3400 metra hæð.  Fararstjórinn sagði okkur að sífellt fækkaði fiðrildunum og í ár komu bara 110 milljónir, þeir hafa áhyggjur út af þessu, og miklar varúðarráðstafanir eru gerðar.   Strangar reglur eru um umferð og umgengni.  Til dæmis má ekki fara nálægt svæðinu með hesta né önnur dýr ekki tala hátt og engu henda á jörðina, alls ekki snerta neinar plöngur né fjarlægja dauð fiðrildi sem liggja á slóðinni.  Á öllum svæðum sem fiðrildin hafast við vex planta sem heitir Asclepia sem nærir fiðrildin hún er eitruð öðrum skordýrum og ver fiðrildin fyrri ágangi annarra skordýra, vegna þess að þau taka eitrið í sig. 

Leiðin var skemmtileg.  Héraðið sem við fórum í gegnum eða fylkið heitir Michoacan.  Við fórum fram hjá stóru svatni þar sem bílstjórinn sagði að væru ræktuð grasker, og heitir vatnið eftir þeim Graskerjavatn.  Við fórum líka gegnum stóra akra af trjám sem hann sagði að væru ferskjuakrar. Hann sagði að það væri mjög flott að sjá þessa akra á vorin fyrst stæðu trén í blóma og svo kom ávöxturinn án þess að nokkurt blað væri á plöntunni.  Reyndar voru menn nýbúnir að tína ávextina núna.  Þegar þeir tína ávextina, setja þeir upp markaði meðfram veginum og selja og gefa(fátækum) vegfarendum ferskjurnar.  En þær eru aðalútflutningsvara þeirra.

Við fórum líka framhjá stað þar sem vöktu athygli mína einkennilegar lágreistar byggingar.  Trjásúlur með þaki, ýmist úr leirflögum eða bárujárni við þessar byggingar var hlaðinn einskonar turn með þaki yfir sem lá á lágum súlum.

Bísltjórinn sagði okkur að þarna framleiddu þeir steina og þakflögur úr leir.  Turnbyggingin er ofnin sem þeir kynda með timburkurli.

MYND12

Leirverksmiðja.

Við fengum að skoða eina slíka verksmiðju.  Þarna var fjölskyldan að búa til þakflögur allt gert í höndunum.  Þeir vinna leirin úr jörðinni sem er rík af leir.  Hreinsa hann í höndum uns hann er alveg laus við sand og önnur efni.  Svo er hann verkaður með vatni þangað til að hann er mátulega þykkur til að móta steinana eða flögurnar. Þeir eru svo með heimasmíðuð mót. Móta flögurnar eða steinana leggja það á gólfið uns nægileg magn er til staðar svo er þessu raðað í ofninn um 1.600 flögur.  Byrgt fyrir opið með aflóga steinum og síðan fyllt inn í rifur með leir.  Svo er lítill trékross látinn í leirinn til að Guð sé með þeim í verki.  Ofnin kynntur í 12 til 18 tíma eftir stærð og þykkt steina.  Sonurinn á bænum rauf gatið á ofninum til að sýna okkur  Eftir 2 daga sem liðnir voru frá kyndingu var ennþá funhiti í ofninum.

MYND13

Ofninn.

MYND14

Ofninn opnaður, sjáið litla trékrossinn í opinu.

Við fórum í gegnum nokkur skemmtileg þorp í leiðinni.  ‘A sumum stöðum þarna hafa indíjánarnir ennþá sitt tungumál Purepec sem þýðir “Fólkið í þorpinu.” En það mál er frekar talað í sveitunum.  Síðasta þorpið áður en haldið er á fjöllin er fallegt þorp sem heitir Ancangeo. Þetta þorp er í miklum halla í þröngu dalverpi og húsin upp um allar hlíðar.  Smátorg er í miðjum bænum og tvær stórar kirkjur sitt til hvorrar handar.  Önnur tilheyrir Guadalupe en hin Ensku Gevalisku kirkjunni.  Hér trúa margir á svarta krist.  Fararstjórinn sagði að þorpið væri vinsælt til kvikmyndunar og þar væru teknar upp sápuóperur, eða framhaldsþættir svipaðir og  Leiðarljós. Húsin voru öll fagurlega skeytt með pottaplöntum aðallega pelargoníum.  Virkaði mjög flott.  Svo sá maður Friðarliljuna eins og túnfífil fyrir utan lóðina. Þorpið stendur í 3000 metra hæð.  Og áttum við eftir 400 metra til viðbótar að staðnum þar sem ferðin til fiðrildanna byrjar.

MYND15

Götumynd í Ancangeo, sjáið kirkjurnar tvær í baksýn.

MYND18

Svona lítur þorpið út.

 Sierra Chincua er pínulítil húsaþyrping, þar sem eru veitingahús og sölubásar.  Allt mjög hrátt og hróflað upp. Um 3ja tíma gangur fyrir konurnar frá þorpinu að labba með allt sitt hafurtask á höfðinu ef þær áttu ekki bíl, sem þær eiga auðvitað ekki.  Þarna sáum við marga hesta beislaða og söðlaða, karlmenn sátu eða lágu í grasinu að bíða eftir viðskiptavinum.

MYND19

Matsölustaðurinn þessi með rauða stiganum.

MYND20

Fína gestaborðið, fararstjórinn í bakgrunni.

Við vorum orðin svöng og fórum inn á þann frumstæðasta veitingastað sem ég hef á ævi minni farið inna.  Hann var í miðri lengjunni af samskonar húsaröð.  Gólfið var steypt en ekki sléttað, inni meðfram einum veggnum var langborð með fínum jóladúk, greinilega fyrir viðskiptavini, trjábolir sem sagaðir höfðu verið í tvennt voru bekkir sitt hvoru meginn við borðið. Annað dúklaust óheflað borð var við næsta vegg greinilega fyrir heimamenn.  Í horninu var skápur og nokkurs konar borð þar sem geymd voru eldhúsáhöld og koppar og kyrnur.  Við hliðina á inngangnum var hlaðinn ofn með stórri pönnu sem kynt var undir, þar við hliðina var borð þar sem geymd voru fleiri áhöld diskar og vaskafat með vatni.  Auk þess borð til að búa til tortillur.  Við fengum kjúklingasúpu eða eitt læri og soðið með.  Tortillur úr bláum maís með osti og sveppum örugglega týnda úr skóginum.

MYND21

Eldhúsinnréttingin.

Þarna er gríðarstór skógur alla leið frá Ancangeó.  Landslagið minnir mig á Svartaskóg, mikið af furu, greni og sýpris.  Við gerðum matnum góð skil og drukkum kók með, enda orðin svöng.  Það var ákveðið að leigja hesta til fararinnar, okkur leist ekki á að ganga því þarna er andrúmsloftið orðið ansi þunnt og maður er fljótur að mæðast.  Við gátum valið um stóra gæðinga eða litla, svipaða íslenska hestinum, nema mikið fíngerðari. En ekki nándar nærri því eins fótafimir.  Við riðum í hálftíma um skóginn eftir þröngum og krókóttum stíg. 

MYND22

Riðið af stað. 

Nú var gróðurinn orðin öðruvísi, runnamura þistlar og þöll bættust við furuna og grenið, en ekki lengur sypris eða thuja. Sá líka víðir líkan Silfurvíðir.  Loks komum við að rjóðri, þar sem stóð að hestarnir mættu ekki fara lengra.  Við urðum svo að fara fótgangandi 15 mínútna leið upp og niður krókóttan stíg. Maður var orðin ansi móður og andstuttur.  En Guð minn góður þetta var stórfengleg sjón sem við blasti.  Milljónir fiðrilda um 40 milljón á litlu svæði, rauðbrún með svörtum rákum og svo falleg.  Trén bókstaflega rauðbrún af fiðrildum og loftið bleikt af fljúgandi fiðrildum.  Mariposas Monarca þvílík undur og dásemd.  Og ferðin erfiða svo vel þess virði.  Við sátum lengi í algjöru tómi, ekkert hljóð, og bara horfðum á þessar fallegu verur flögra um.  Þetta var eins og heilagur staður. 

MYND23

Milljónir af fiðrildum.

MYND25

Þetta er karldýr það sést á litlu svörtu doppunum á neðri vængjum.

 MYND26

 

Á ferð og flugi.

Svo var að staulast til baka skríða upp á hrossið og láta það bera sig til baka.  Níu klukkutíma tók þessi fábæra ferð.  Og fróðleg enda kom í ljós að fararstjórinn okkar sem ók okkur um á 2ja ára gömlum Crysler var háskólamenntaður í ferðamennsku og gat því svara greiðlega öllum okkar spurningum.

Við fengum okkur að borða á Hotel Casino og tókum því næst bíl á rútustöðina, fengum ekki rútu alla leið til Mazatlán fyrr en kl. ellefu nenntum ekki að bíða klukkan var bara átta, svo við tókum rútu til Guadalajara og  komumst strax þar í rútu beint til Mazatlán vorumkomin þangað kl. 6 um morguninn. 

Ef þið hafið áhuga þá er framhald seinna. Mazatlán – San Fransisco. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mikið héld ég að þetta hafi verið æðislegt upplifelsi.

Að  sjálfsögðu bíður maður eftir næsta framhaldi.

Takk fyrir enn og  aftur.

Sigurður Kristján Hjaltested (IP-tala skráð) 2.11.2012 kl. 17:36

2 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Já og svo endurnýtur maður ferðarinnar með frásögn og myndum Sigurður minn

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 2.11.2012 kl. 17:56

3 Smámynd: Björn Emilsson

Kæra Asthildur.. Stórskemmtilegar ferðasögur, má nú segja. En, mér er spurn, hvað fær þig til að fara svona ferð og það til þessa landsvæðis?

Kunningja minum hér dreymir um að flytja til Belize. En það er vegna þess að elskan hans yfirgaf hann og flutti heim. Hann kemst hvergi, þar sem hann getur ekki selt fasteignina sína.

Björn Emilsson, 2.11.2012 kl. 18:13

4 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Okkur hjónunum þykir gaman að ferðast, og mágkona mín hefur búið í Mexico í yfir 30 ár, höfum heimsótt hana nokkrum sinnum, og svo datt okkur í hug að fara þessar ferðir, bæði suður um Mexico, Guatemala og Belize og svo upp í fjöllinn í Grand canyon.

Leitt að vinur þinn hafi misst kærustuna "heim".   Hann gæti eflaust leigt húsið sitt, og lifað konunglega í Belize, því það er ódýrt land og ekki þarf að hafa mikið fyrir lífinu þar, því þar er alltaf sama hitastigið og easy going. 

En það er afskaplega gaman að ferðast svona um og komast í snertingu og nánd við fólkið sjálft og upplifa það sem er að gerast í þjóðarsálinni þar sem maður kemur við.  Ómetanlegt að mínu mati.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 2.11.2012 kl. 20:39

5 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Copper Canyon átti þetta að vera vitaskuld.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 2.11.2012 kl. 20:39

6 identicon

Æðislegt ferðalag með undirleik norðanvindsins. Hlýtur að hafa verið stórkostlegt að horfa á öll fiðrildin svífa um .

Dísa (IP-tala skráð) 2.11.2012 kl. 21:43

7 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Já elsku Dísa mín það var stórkostlegt algjörlega ógleymanlegt og þögnin algjör, því við máttum ekki tala eða gefa frá okkur hljóð.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 2.11.2012 kl. 22:18

8 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

Takk fyrir þetta, mergjuð frásögn.

Axel Jóhann Hallgrímsson, 3.11.2012 kl. 08:05

9 Smámynd: Kidda

Takk fyrir mig, alltaf jafn yndislegt að ferðast með þér mín kæra.

Kidda, 3.11.2012 kl. 11:37

10 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk bæði tvö, mín er ánægjan.  Og svo lifir maður lengi á svona ævintýrum

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 3.11.2012 kl. 12:58

11 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Hefur þú spáð í hvað þú tekur flottar og fræðandi ljósmyndir? það er orðin spurning um að gefa sögurnar þínar og myndir út á bók, þvílíkt gaman að sitja kyrr á sama stað en samt að vera að ferðast !! takk fyrir mig í dag yndiskveðja í vestrið

Ásdís Sigurðardóttir, 3.11.2012 kl. 13:13

12 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk Ásdís mín, eiginlega hef ég ekki spáð mikið í það, gera þetta mér til ánægju og vonandi ykkur líka.  Það gæti alveg farið svo að þetta færi í bók.  Hver veit

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 3.11.2012 kl. 13:47

13 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

ja segðu, það má sko alveg skoða það :)

Ásdís Sigurðardóttir, 3.11.2012 kl. 16:48

14 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 3.11.2012 kl. 18:13

15 Smámynd: Kidda

Líst vel á bókarútgáfu, man líka eftir mörgum ævintýrasögum sem var gaman að lesa þar sem td ég var með í :) En það er virkilega gaman að lesa ferðasögurnar þínar, við erum svo heppin að geta farið með á framandi slóðir og aðrar slóðir :)

Knús í kúlu

Kidda, 4.11.2012 kl. 12:27

16 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk Kidda mín, já Málverjasögurnar fimmtudagssögurnar, það var gaman.  Knús á móti

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 4.11.2012 kl. 12:44

17 Smámynd: Guðrún Emilía Guðnadóttir

Takk fyrir að deila þessu skemmtilega ferðalagi með okkur

Knús í Kúlu

Guðrún Emilía Guðnadóttir, 4.11.2012 kl. 19:16

18 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk Milla mín, mín er ánægjan.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 4.11.2012 kl. 19:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Höfundur

Ásthildur Cesil Þórðardóttir
Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Tónlistarspilari

Ásthildur Cesil - Dagdraumar
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • 2f19c636fb68b249555c5fa250d3e103--russian-image-jellyfish
  • engill-angel
  • jolatre
  • 20171002 121526
  • gasometers-vienna-7[5]

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 4
  • Sl. sólarhring: 12
  • Sl. viku: 27
  • Frá upphafi: 2022156

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 23
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband