Er ekki komin tími á lýðræði?

Veðrið hér er rysjótt í dag, reyndar bjóst ég við meira roki, en fjöllin skýla gróðri, dýrum og fólki. 

Nú fer í hönd kosningavetur, þingið verður sett á morgun einmitt á afmælisdaginn minn.  Þingmenn óttast eggjakast og mótmæli.  Alla vega vona ég að margir mæti og sýni þessu fólki að við munum lengra en nokkrar mínútur aftur í tímann.  Við munum ef til vill mörg ár aftur í tíman, margir meira að segja fram undir 2007.  Við flest okkar sem ekki erum með flokksgleraugu fyrir augunum, munum líka hvernig ýmsir ráðamenn hafa hagað sér, bæði fyrrverandi ríkisstjórn, "Guð blessi Ísland" og hvernig það fólk svo hagaði sér sem tók við, lofaði öllu fögru en lítið hefur orðið úr efndum.  Við skulum ekki láta blekkja okkur með því að hér sé allt bara að rísa og á góðri leið, sem er kosningaáróður einmitt vegna kosningaveturs.  Andstæðingarnir hamra svo á öllu því versta og segja allt sé á vonarvöl.

Sannleikurinn er einhversstaðar þarna á milli.  En það er ekki þessum núverandi stjórnvöldum að þakka, heldur ef til vill þrátt fyrir þeirra aðgerðarleysi og rugling fram og til baka. 

Nú fylkist hver þingmaðurinn fram af öðrum og ætlar sér stóra hluti á alþingi.  Fólk sem flestir íslendingar líta til sem miður æskilegs fólks til að vera til fyrirmyndar og sitja og setja öðrum lög og reglur, en hafa á margan hátt þverbrotið þær reglur sjálf.  Þetta á líka við um ráðherra bæði núverandi ríkisstjórnar og þeirrar fyrri.  Og alla leið aftur til Framsóknar, það sitja bankamálin efst, kögunarmál og Finnur Ingólfsson, svo ekki sé talað um Halldór Ásgrímsson.

All þetta fólk er gróðrarstía spillingar að mínu mati.  Og verð að segja að þeir nýliðar sem komu inn síðast hafa ekki megnað að draga úr því drullusvaði, annað hvort sokkið sjálf með þeim sems fyrirvoru, verið þæg og látið hafa sig í allskonar drullumall eins og Núbo málið og Magmamálið.

Eða raddir þeirra hafa einfaldlega koðnað niður.  Þó er það nokkuð ljóst af atkvæðagreiðslum á þingi að langflestir þingmenn og ráðherrar, með örfáum undantekningum fylgja foringja sínum í blindni og greiða því atkvæði sem stjórnin vill hverju sinni.  Þó samviskan segi þeim að þeirra fyrsta og fremsta skylda sé við almenning í landinu.

En því hafa forkólfar fjórflokksins löngu gleymt.  Þeirra mottó er að halda fjórflokknum á floti og sjálfum sér í klíkunni við eða nálægt kjötkötlunum.

En ég skynja að fólkið í landinu er ekki ánægt.  Þjóðinni finnst flestum að þau hafi verið svikin, endar ná ekki lengur saman og afborganir eru að verða óyfirstíganlegar, hvað sem "útreikningum" hagfræðinga

líður.  Málið er að fæstir þeirra eru hlutlausir ekki frekar en "stjórnmálafræðingar" eða háskólaprófessorar sem eru meira og minna að reyna að hafa áhrif á fólk með allskonar fræðimennsku sem er lítið annað en áróður fyrir sínum málstað.  Þetta er mín tilfinning.  Enda eru margir af þessum svokölluðu "sérfræðingum" með öllu rúnir trausti og ég einfaldlega tek ekki mark á því sem þeir segja.

Það er það versta við þetta allt saman, þegar hver keppist við að fegra sinn málstað, með því að annað hvort ljúga, eða mistúlka sannleikann þá verður það einhvernveginn svo að almenningur missir sjónar á markmiðunum og verður reitt og vantreystir allri stjórnsýslunni - fjórflokknum.

Fólk vill, sumir allavega, breyta til, veit ekki hvort það dugir fram að kjörborðinu þegar höndinn leitar að sínum uppáhalds bókstaf, af því að þeir hafa alltaf kosið flokkinn sinn, eða þeir vilja ekki þennan eða hinn við völd.  Þetta heitir ekki lýðræði heldur leiðitami og undirlægjuháttur.

En fyrir þá sem virkilega vilja leita að fýsilegum kost, þá bendi ég á alla vega fjóra flokka sem eru í framboði.

Þar má fyrst nefna Hægri Græna, sem er frekar íhaldsamur róttækur flokkur með skýr stefnumál, ef fólk vill halda í það sem var.  Þetta framboð er með ákveðna stefnuskrá og algjörlega mótfallið aðild að esb Góður möguleiki fyrir hægri menn sem eru á móti esb og óánægð með Sjáflstæðisflokkinn. http://www.afram-island.is/

Svo er það Björt Framtíð, flokkur sem er sá eini ásamt Samfylkingunni sem er ákveðin í að ganga í esb. http://www.bjortframtid.is/alyktun/.   Þessi flokkur er upplagður fyrir Samfylkingarfólk sem vill refsa sínum mönnum.  Gæti samt gengið til liðs við Samfylkinguna að loknum kosningum.

Samstaða. http://www.xc.is/grundvallarstefnuskra Flokkur Lilju Mósesdóttur og fleiri.  Ég tel að það hafi verið lögð mikil vinna í þessa stefnuskrá og þau hafa notið liðsinnis fólks sem þekkir til, flokkurinn ber auðvitað merki áherslna Lilju á þingi, sem oftar en ekki voru skynsamar og vel ígrundaðar.

Að lokum bendi ég á Dögun. http://www.xdogun.is/kjarnastefnur/  Þar sem ég þekki best til þessa framboðs, vegna þess að ég hef fengið að vera með í ákvörðunum og þar að auki eru flestir mínir menn og konur þarna fremst í flokki Frjálslyndi flokkurinn, veit ég að hér hefur verið vandað vel til verka.  Og eins og með Samstöðu leitast við að fá ráð og hygmyndir frá sérfræðingum og fólki sem vel þekkir til.

Ég myndi vilja sjá að þessi tvö framboð Samstaða og Dögun leiddu saman hesta sína og skoðuðu hvort ekki væri betra að fara í framboð undir sama merki.  það ber ekki mikið í milli þeirra í stefnumörkun.  Fólkið sem mest og best hefur unnið að þessum tveimur framboðum hefur verið framarlega í mótmælum, bæði tunnuslætti, borgarafundum, búsáhaldabyltingunni og fleiri uppákomum.  Þau hafa því skoðanir sem liggja mjög nálægt hvor annari.  Nú þegar Lilja hefur gefið út að hún ætlar ekki að vera í forsvari fyrir Samstöðu, ætti ef til vill að finnast flötur á því að þessi tvö framboð gætu starfað saman, því ég veit að það hefur verið í umræðunni, og að Lilja hafði ekki áhuga á því. 

Málið er nefnilega það kæru landsmenn að það erum við sjálf fyrst og fremst sem berum ábyrgð á því að lýðræðið virki. Það er í okkar höndum að hrósa og refsa. Þegar við kjósum alltaf yfir okkur sömu spillinguna, burt séð frá því hvernig þingmenn og ráðherrar hafa unnið, þ.e. í stað þess að huga að heill almennings, hugsar fyrst og fremst um sinn eigin frama og hygla sér og klíkubræðrum. Þá erum við ekki að vinna lýðræðinu framgang.

Flokkur sem svikið hefur flest sín kosningaloforð til að komast í ríkisstjórn á ekki heima í ríkisstjórn.

Flokkur sem hlustar ekki á þjóðina í einu stærsta máli hennar, og hefur klofið bæði þjóð og flokka í herðar niður, og bægslast áfram með hausinn undir sér, jafnvel sett allt sem átti að vera upp á borðum undir það, og skjaldborg sem aldrei varð á ekki heima á alþingi.

Flokkur sem býður fram fremst á sínum listum menn og konur sem hafa sýnt ótrúlegt dómgreindarleysi og óráðsíu sjálfum sér til framdráttar, og bíður þess að gefa höndinni sem gefur þeim, auðlindir þjóðarinnar hefur svo sannarlega ekkert að gera í ríkisstjórn.

Flokkur sem hefur svo án þess að blikna verið með í því að gefa sínum mönnum fjármagnið og fyrirtækin í landinu hlýtur að vera vafasamur til að stjórna landinu.  Sporin hræða.

Nei nú þarf að hafa kjark til að breyta, veita þessum nýju framboðum atkvæði sitt, og láta á það reyna hvort ekki breytist eitthvað.  Það hefur einfaldlega ekki verið reynt áður að neinu marki. 

Er ekki komið nóg af spillingu, klíkuskap og einkavinavæðingu?  Er ekki komin tími á að breyta til og gefa þessum framboðum tækifæri til að sýna hvað í þeim býr?

Lillý Rósalind.

Lillý Rósalind er komin á nýtt heimili, hún fór með stórri flugvél suður í gær. 'Eg sakna hennar, en ég veit að hún fer á gott heimili, þar sem verður hugsað vel um hana.

En hér eru þrír kettlingar eftir, öll voða ljúf og sæt.  Doppa bíður eftir að það verði hringt og spurt eftir henni af manneskju sem hafði áhuga á að fá hana.  Steggirnir tveir eru svo voða spenntir eftir að komast líka á gott heimili.  Það er gott upplag í þessum litlu dýrum, því báðir foreldrarnir eru einstaklega ljúfir og mikil gæludýr, enda hafa þau hjálpast að að ala upp ungviðið sitt. 

En eigið góðan dag í þessu leiðinda veðriHeart


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Heyr, heyr. Sonur minn verður þrítugur á morgun, greinilega góður dagur í kortunum, vona að þingmenn hagi sér vel, er þó ekkert voða bjartsýn á það, kosningar væru góður kostur, en ég er svo hrædd við að fjórflokkurinn haldi sínu, hér hafa menn gullfiskaminni, hvað geta fullorðnar konur eins og við gert í þessu? það hlustar enginn á okkur, við sjáum til. Kveðja með rokinu vestur.

Ásdís Sigurðardóttir, 10.9.2012 kl. 15:21

2 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Já Ásdís mín það er hætt við því, svo óskiljanlegt sem það er.  En sennilega tekur lengri tíma að losa asnanna af stöllum sínum svo þeir átti sig á því að það getur verið grænt gras fyrir utan.  Kveðja héðan úr mínu roki

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 10.9.2012 kl. 15:23

3 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Sendi þér kveðju með,,,,þannig byrjaði færsla mín í dag,þegar ég var hrifin frá tölvunni. Hef líklega viljað segja með hvellinum hér. Satt að segja er ég efins um smáu framboðin,en svo sannarlega vil ég þessa ríkisstjórn út í veður og vind. Bíst við að línur skýrist ekki almennilega fyrr en eftir þorrann,þótt ég sé ekki neinn spámaður. Kisurnar eru vel uppaldar,sannarlega engir villikettir,ó nú byrjar aftur fokking Flokka-at,minnug þessa frasa frá hruninu. Blessunaróskir til þín og þinna.

Helga Kristjánsdóttir, 10.9.2012 kl. 22:05

4 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk sömuleiðis Helga mín.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 10.9.2012 kl. 22:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Höfundur

Ásthildur Cesil Þórðardóttir
Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Tónlistarspilari

Ásthildur Cesil - Dagdraumar
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • 2f19c636fb68b249555c5fa250d3e103--russian-image-jellyfish
  • engill-angel
  • jolatre
  • 20171002 121526
  • gasometers-vienna-7[5]

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (8.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 21
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 19
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband