Úr gullkistu Frjálslyndaflokksins.

Ég er að lesa Gullkistuna, blað sem Frjálslyndi flokkurinn gefur út.  Frjálslyndi flokkurinn er sá flokkur sem hvað mest og best hefur barist fyrir réttlátri fiskveiðistefnu og hefur leiðsögn gamla skipstjórans og aflaklóarinnar Guðjóns Arnars verið kjölfestan í þeirri baráttu. 

Í blaðinu þennan sjómannadaginn er grein eftir Ólaf Sigurðsson matvælafræðing sem heitir: Lífsbjörg þorpanna var rænt frá okkur.

Mig langar til að birta hana hér (án leyfis) til heiðurs sjómönnunum okkar og þorpunum allt kring um landið.

Lífsbjörg þorpanna var rænt frá okkur.

Við leikfélagarnir vorum 11 eða 12 ára þegar við byrjuðum að vinna á bryggjunni í Hafnarfirði.  Lægsti taxti fyrir 16 ára og yngri var 80% af fullorðinslaunum.  Náðu hátt í launin hans pabba í bankanum.  Strákarnir í Vesturbænum voru hörkuduglegir, þó við værum bara krakkar.  Unnið var til sjö og frameftir á laugardögm.  Við þvoðum lestarborðin, klampana, steisklampa og fl. sem aftur fór í lestina nýþvegið eftir löndun.  Þetta var alltaf svona á sumrin en skóli á veturna.

Oft fengum við vinnu um páska og í jólafríum, alltaf var gott að fá aur.  Í bænum sást varla fólk á ferli, allir að vinna í Bæjarútgerðinni.  Í hádegi og kvöldin flykktust konurnar í stígvélunum og hvítu jökkunum heim til að elda og svo til baka.  Á sunnudögum var þrjúbíó og Bæjarbíó.  Lífið var einfalt en vinnan gaf okkur margt og árin liðu.

Við bræðurnir fórum með launaumslögin til mömmu á föstudögum, ekki þurfti ég pening þangað til ég fór til tannlæknis í Reykjavík.  Þetta var í þá tíð að unglilngar fengu falskar tennur í fermingargjöf.

Svo gerðist eitthvað, aflinn minnkaði, togarinn Maí varð þungur í rekstri og deilur stóðu um Bæjarútgerðina.  Las svo í blaðinu að búið væri að selja togarann norður, það var alvarlegt fannst mér, unglingnum. Það flaug um bæinn að bæjarfulltrúarnir væru svo vitlausir að láta veiðarfærin með án þess að verðleggja þau.  Manni fannst eitthvað vera að þessu öllu.  Maður hafði alltaf haldið að þetta væri það sem bjargaði Íslandi og okkur frá fátæktinni.  Þetta var í þá tíð þegar allt var nýtt, og engu hent og helst aldrei tekið lán, enginn peningur til.  Epli voru að vísu aðeins um jólin og margt útlenskt okkur framandi.

Síðan komu nýjar veiðireglur og Maí fékk kvótann, sem hafnfirðingar höfðu unnið fyrir, Bæjarútgerðin var að líða undir lok.  Fiskvinnslan var ekki svipur hjá sjón eftir að Bæjarútgerðin hætti. Ég ímynda mér að mörg sjávarplássin hafi lent í því sama, að missa fiskvinnsluna frá sér.  Sums staðar er enn vinnsla í landi en nægir oft varla til að það sé lífvænlegt í mörgum plássum.

Mér gremst að til sé kvótakerfi, þar sem hægt er að taka af þorpunum aldagamlan rétt til að geta lifað í plássinu, í nafni hagræðingar í vinnslu.  Svo var okkur í Hafnarnfirði boðið upp á stækkað álaver í staðinn.  Nú ætla bæjarfulltrúarnir enn og aftur að hafa vit fyrir okkur, eftir að hafa selt kvótana frá þorpinu, fyrir einskis verð loforð um að vinnslan fari ekki.

Björginni hefur verið rænt frá þropunum, með hjálp bæjarstjórnar, ríkisstjórnar og að frumkvæði útvegsmanna.  Álver duga okkur ekki.  Samfélagslegt tjón er ekki metið, því það er ekki verið að reikna svoleiðis hluti.  Sagði ekki forsætisráðherra Davíð Oddsson á sinni valdatíð, að það þyrfti að aðstoða fólk í fámennum byggðalögum að flytjast suður?

Ég veit ekki hvernig þetta gerðist að við hættum að hugsa um hvað hélt byggðinni uppi umhverfis landið, kannski að spilltir stjórnendur hafi skipt með sér gæðunum.  Framsóknarmenn áttu landbúnaðinn og sjálfstæðismenn fiskinn og gráðugir einkahagsmunir réðu för.  'Eg veit að himnarnir hrynja ekki ef útgerðarmenn verða að borga gjald af auðlindinni.  Veit líka að fólkið sem býr í fámennum sveitarfélögum umhverfis landið verður ekki í vandræðum með að veiða og vinna fisk eins og áður.  Við kunnum þetta og getum alveg bjargað okkur, bara ef vil fáum það án þess að björginni verði stolið frá okkur aftur.

Til hamingju með daginn sjómenn!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vilhjálmur Stefánsson

Hvenær eignaðist Frjálslyndiflokkurinn Gullkistu???

Vilhjálmur Stefánsson, 3.6.2012 kl. 17:55

2 identicon

Hver er gullkista Frjálslynda flokksins Ásthildur, Er það kannski Þór Saari, Birgitta og Margrét varahjól óvinsælustu Ríkisstjórnar Allra tíma á Íslandi, allavega er Sigurjón frjálslyndi afskaplega fámáll þessa dagana.

Kristján B Kristinsson (IP-tala skráð) 3.6.2012 kl. 20:04

3 Smámynd: Árni Gunnarsson

Eitthvað er djúpt á málefnum hjá þessum prúðu drengjum Ásthildur mín. En líklega finnst þeim að "fyndnin" sé ígildi málefna og röksemda.

Árni Gunnarsson, 3.6.2012 kl. 21:48

4 identicon

Í fyrsta lagi, þá breytir það engu, hversu góðir einstaklingar Frjálslyndir eru. Þeir hafa sýnt ótrúlegan dómgreindarskort, og ákveðið að leggja lag sitt við Hreyfingarfólkið. Það er vondur félagsskapur.

Í öðru lagi, þá er það nú svo, að fólk út um allt land vinnur við fisk, bæði veiðar og vinnslu. Á að taka atvinnuna af þessu fólki, og að færa aflaheimildirnar til Hafnarfjarðar?

Í þriðja lagi, þá er það í hæsta lagi vafasamt, að grundvalla veiðar og vinnslu á gamalli rómantík, og eftirsjá eftir gömlum og góðum dögum. Rómatík færir ekki mat á diskinn. Gott veiðikerfi, þar sem hægt er að skipuleggja sókn og vinnslu eftir því hvaða markaður gefur besta verðið á hverjum tíma, gefur mun meira af sér á diskinn.

Í fjórða lagi, þar sem ég hef kynnst veiðum og vinnslu, fyrir og eftir aflamarkskerfi, þá get ég borið því vitni, að meðferð afla og vinnsla hans, er ólíkt betri í dag, en var. Sem betur fer hefur kvótakerfið leitt það af sér, að litlar, óhagkvæmar og illa reknar útgerðir eru farnar. Líka skítakopparnir sem voru fljótandi dauðagildrur.

Í fimmta lagi, þá er ekki hægt að halda uppi fiskvinnslu allt árið, með öryggi fyrir landverkafólk, og sölukerfið, ef það á að hverfa aftur til trilluútgerðar.

Í sjötta lagi, þá er það algerlega á huldu, hvaða "nýju" skip eiga að veiða fiskinn, eftir að búið er að hirða hann af útgerðunum. Er fólk að hvetja til þess að "nýjir" útgerðarmenn leggist í fjárfestingafyllerí?

Eða á að taka skipin líka af útgerðamönnum dagsins í dag?

Í sjöunda lagi, þá höfum við ekki ráð á því að gera misheppnaðar sósíaltilraunir með grundvallaratvinnuveg Íslands og Íslendinga.

Í áttunda lagi, er ágætt að minnast þess, að margir af þeim sem berjast hvað hatrammlegast fyrir innköllun og endurúthlutun á kvóta, eru útgerðamenn sem seldu veiðiheimildir með gríðarlegum hagnaði og hættu útgerð.

Hilmar (IP-tala skráð) 3.6.2012 kl. 23:07

5 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Já Árni minn, svona getur þetta verið. 

En til að svara ykkur Vilhjálmur og Kristjan þá er Gullkistan blað sem Frjálslyndi flokkurinn hefur gefið út frá upphafi, nafnið vísar til þess að Djúpið okkar er oft kölluð Gullkistan vegna þess hve fengsæl miðin þar eru.  Þór Birgitta og Margrét eru ekki í Frjálslynda flokknum og hafa aldrei verið.  Það er annað mál að Frjálslyndi flokkurinn hefur ákveðið að ganga til liðs við fleiri hreyfingar þar sem lítið ber á milli í málefnum.  Sérstaklega því sem brýnast þykir að bjarga heimilum fólks undan hrammi peningaaflanna í landinu og breyta sjávarútvegsstefnunni það sem nú liggur fyrir í þinginu um þau mál eru öll í skötulík og ríkisstjórnin rúin trausti.

Hilmar þetta með dómgreindarskortin tek ég ekki undir.  Ég hef kynnst þessu fólki persónulega og þó ég skilji ekki allaf allar þeirra ákvarðanir, þá hafa þau alltaf reynt að standa með fólkinu í landinu.  Stundum er eins og fólk skoði ekki heildarmyndina.  En þannig er það bara.

Þetta númer tvö er einmitt það sem gert er í dag, það þarf að tryggja að fiskurinn komi að landi það sem hann veiðist, þannig að landsbyggðin geti byggt sig upp á ný með þeim gæðum og gögnum sem eru við bæjardyrnar hjá þeim.  Þetta er grundvallaratriði.

Ég veit ekki hvaða þekkingu þú hefur á veiðum og vinnslu um landið.  En það er enginn gömul rómantík að upplifa að fólkið í þorpunum er skilið eftir atvinnulaust, af því að einhver taldi sig eiga kvótann og gæti farið með hann til Hornafjarðar eða hvert sem er, frá fólkinu sem hafði veitt hann alla tíð.  Það sem þú ert að segja þarna að útgerðarmenn eigi að fá að hafa sína hentisemi og geti ráðstafað fiskinum í sjónum eins og þeim þóknast, og leigt svo út frá sér til þeirra sem eiga minni skipinn og haft verðið eins og þeim þóknast er það það sem þér finnst réttlátt?

Þessu númer 4. vísa ég einfaldlega á bug.  Það getur vel verið að óhagkvæmar útgerðir hafi lagst af, en það er heldur ekki hægt að bera þetta svona einhliða saman, hér hefur átt sér stað meiri tækni og betri græjur.  Hugarfarsbreyting um að fara betur með afla en áður var. 

Þetta fimmta er einfaldlega ekki rétt heldur.  Ég veit um smáútgerðir og vinnslur þar sem fiskurinn er í þvílíkum gæðaflokki að sölumenn keppast um að fá að selja fiskinn þeirra og þeir fá einfaldlega hærra verð fyrir hann.  Það eru nefnilega fyrirtæki í dag sem sérhæfa sig í að selja fisk frá minni útgerðum og þeim sem ekki eru með sölukerfi sjálfir.  Þessum fyrirtækjum er að fjölga skal ég segja þér, vegna þess að þeim gengur vel og þörf er á þeim.

Þessi meinvilla að það þurfi endilega að vera einhver ný skip og nýjir menn sem koma í stað eldri útgerðarmanna er bara hlægileg.  Það er enginn að tala um að taka fiskinn af stórútgerðum, heldur að taka af þeim frjálsa framsalið, þeir hafa ekki rétt á því að eiga kvóta, jafnvel miklu meiri en þeir veiða og einfaldlega leigja hann fyrir marga milljarða til annara.  Þarna á fólkið í landinu að hafa umráð um úthlutunina og fá arðinn af leigu kvótans.

Það er eins og allt bara leggist af ef þjóðinn fær kvótan eins og stendur í stjórnarskránni.  Eina vandamálið er að menn eru búnir að kaupa kvóta, en það er þó minna en látið er í veðri vaka.  Og þá tel ég koma til greina að afskrifa skuldir á móti.   Ég hef enga trú á öðru en þessi sömu útgerðarmenn haldi áfram að gera út, og aðlagi sig nýjum og réttlátari reglum.  Sá kvóti sem verður af þeim tekinn verður þá til opnunar inn í kerfið af þeim sem vilja sækja sjó.

Fjandans væl er þetta með að taka skip og kvóta af útgerðarmönnum.  Þeir hljóta að hafa vitað allan tímann að fiskurinn er sameiginleg auðlind þjóðarinnar og að þetta kerfi yrði lagt af einhvern góðan veðurdag, þar sem óréttlætið er himinhrópandi.

Hér er ekki verið að tala um misheppnaðar sósíaltilraunir með grundvallaratvinnuveg Íslands, heldur að tala um að styrkja landsbyggina enn frekar og tryggja að útgerðir haldist í þeim plássum og bæjum þar sem fólk getur haft atvinnuöryggi og þurfi ekki að óttast að útgerðarmaðurinn taki sig upp einn góðan veðurdag og fari eitthvert annað með kvótann.  Það er einmitt það sem þarf að stoppa og það fyrr en seinna.

Bla bla bla.... þessi lumma var búin til af þeim sem vilja hafa þetta allt saman óbreytt.  Hreinn áróður L.Í.Ú.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 4.6.2012 kl. 09:20

6 Smámynd: Ólafur Örn Jónsson

Góð grein hjá Olafi Sigurðssyni Asthildur þakka þér fyrir að deila henni með okkur.

Ég vil fá að taka undir með þér varðandi "misheppnaðar sósialtilraunir" Hilmars. Erum við ekki ný staðin upp ér hruni sem seðlaprenntun út á kvótann kostaði þjóðina Hilmar?

Ólafur Örn Jónsson, 4.6.2012 kl. 09:53

7 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk fyrir innlitið Ólafur, jú svo sannarlega erum við að standa í ströngu vegna þess að peningarnir leituðu allir á fáar hendur, og margar þeirra voru hendur Útgerðarmanna, sem margir eru jafnframt bankamenn ekki satt?

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 4.6.2012 kl. 10:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Höfundur

Ásthildur Cesil Þórðardóttir
Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Tónlistarspilari

Ásthildur Cesil - Dagdraumar
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • 2f19c636fb68b249555c5fa250d3e103--russian-image-jellyfish
  • engill-angel
  • jolatre
  • 20171002 121526
  • gasometers-vienna-7[5]

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 4
  • Sl. sólarhring: 12
  • Sl. viku: 27
  • Frá upphafi: 2022156

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 23
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband