Fallega og góða hliðin á unglingunum okkar.

Það hefur mikið verið rætt um einelti í skólum undanfarið.  Og RÚV tekið málið upp á sína arma.  Það er nauðsynlegt og þarft að opna þá umræðu svo sannarlega. 

En það verður svolítið einhliða umræða um ungt fólk í sambandi við svoleiðis mál, svo mig langar til að benda á að það er til önnur og miklu fallegri hlið á okkar yndislega unga fólki.

Þegar sonur minn missti föður sinn, þá var hann dálítið einmana, hafði ekki komist upp á lag með að eignast vini og var alltaf heima einn í tölvunni eða horfa á sjónvarp.  Að undirlagi kennarans hans tóku börnin í bekknum hans upp á því að skrifa hvert um sig eitthvað fallegt til hans og lítil blöð.  Þessu var safnað saman í lítinn kassa sem nokkrir bekkjarfélagar hans komu með.  Þeir sátu hér hjá honum í yfir tvo tíma og upp frá því var aldrei vandamál með vini. 

Ég er þessum kennara innilega þakklát.

Þegar drengurinn minn missti svo mömmu sína var einnig tekið fallega á því.  Umsjónarkennararnir fengu séra Magnús til að koma og ræða við báða 9 bekkina.  Þær komu svo báðar í heimsókn til hans með fallega gjöf.

En það var ekki allt, daginn eftir kom ein skólasystir hans í heimsókn með bók sem þau höfðu sjálf gert, hvert og eitt barn hafði skrifað eitthvað fallegt.  Og síðustu daga hafa þau verið dugleg við að koma í heimókn og vera með honum.

En það sem þau skrifuðu var margt svo fallegt og einlægt að ég ætla að taka mér bessaleyfi og setja það hér inn.  Það er án leyfis en ég vona að mér fyrirgefist það.  Svo sannarlega þurfum við líka að hugsa um hve yndisleg þau geta verið börnin okkar og fallega hugsandi.

Sumir ortu ljóð:

Úlfur ég veit að þú ert sár,

svo mikið að það dettur niður tár.

En eftir öll þessi ár,

þá er ég vinur þinn upp á hold og hár.

Úlfur ég samhryggist.

þú er frábær strákur

fyndinn og skemmtilegur.

Þú átt allt það besta skilið í lífinu.

Við í árgangnum hugsuðum mikið til þín í gær og flest allir vildu koma strax í heimsókn.

Það er bara af því að okkur er ekki sama.

Þú ert vinur okkar og við erum til staðar fyrir þig.

Kæri Úlfur.

Ég samhtyggist innilega með hana mömmu þína.

Hún var örugglega yndisleg manneskja og þú mátt bara vita að ég verð til staðar ef

þú þarft einhvern til að tala við. Þinn einlægur.

Elsku Úlfur.

Ég samhryggist innilega með móður þína.

Ég mun vera til staðar fyrir þig alltaf.

En eitt finnst mér sérstsakt, það er hvað þú ert

rosalega sterkur inn í þér.

Þinn vinur.

Haltu áfram.

Stattu af þér strauma stríða.

því ekki eftir þér þeir munu bíða.

Haltu áfram þú dráttarhestur,

því öll við vitum að þú ert bestur.

Þó það sé svart,

þá stendur það vart.

Því þú marga vini átt

og þeir koma munu brátt.

Elsku Úlfur.

Við samhryggjumst þér innilega.

Þú ert skemmtilegur og góður vinur.

og við vitum að þú munt halda því áfram.

Við erum alltaf til staðar fyrir þig.

Elsku Úlfur.

Við vottum þér alla okkar samúð

og fjölskyldu þinni. Við verðum

hér hvar og hvenær sem er fyrir

þig, við getum ekki ímyndað okkur hversu erfitt þetta er fyrir þig. 

Við vonum allt það besta.

Okkur þykir vænt um þig.

Þú ert einn af okkur.

Elsku Úlfur.

Ég veit ekkert hvað ég á að skrifa né dettur eitthvað í hug,

ég vildi bara segja þér að ég samhryggist og ég vil líka að þú vitir að ég verð alltaf til staðar.

Núna ætla ég að teikna Óla -Prik mynd af okkur að hoppa í polla.

Vona að þér líði betur fljótlega.

Elsku besti Úlfur minn.

Ég samhryggist þér innilega.  Kannski aðeins meira en þú heldur.  Ég vona að Jóhanna hvíli í friði og að hún mundi aldrei fara frá ykkur í huganum.

Ég skal vera til staðar fyrir þegar þegar þig vantar vin eða bara einhvern til að chilla með.

Þú og allir sgtrákarnir eru mjög mikilvægir fyrir mér.

Ef það er eitthvað sem ég get gert fyrir þig endilega láttu mig vita.

Farðu vel með þig vinur.

Elsku, elsku Úlfur minn.

Ég samhryggist þér innilega!

Þú veit að þú átt góða bekkjarfélaga og við erum öll til staðar og öll tilbúin að hjálpa þér.

'Eg er til staðar, ef þú þarnast mín.  

Ég hugsa til þín.

Ég v ona að þér líði vel og farðu vel með þig.

Eitt bros getur

dimmu dagsljósi breytt.

Kær kveðja.

Þetta voru bara hluti af öllum fallegu kveðjunum frá krökkunum í bekknum hans.

Ég varð innilega hrærð að lesa þetta og ég veit að þetta snart hann inn að hjartarótum.  Því ég veit að daginn sem móðir hans lést var hann að lesa það sem krakkarnir höfðu skrifað og sent honum þegar faðir hans dó.

Ég veit það líka vegna þess að það er svo notalegt að lesa öll fallegu skrifin frá ykkur sem hér vottuðu okkur samúð.  Hlý og innileg orð skipta máli þegar manni líður illa.  Þau geta hreinlega skipt sköpum.

Mér finnst þetta bara svo fallegt og jákvætt og vil þess vegna benda á hvað við eigum góða unglinga í heildina.  Og hvað þau eru opin og einlæg þegar þau finna að einhver er í sorg. 

Ég vil svo senda kennurum og skólastjóra og öðru starfsfólki skólan innilegar þakkarkveðjur fyrir hve vel og frábærlega þau hafa haldið utan um drenginn minn, og það besta var einmitt að virkja bekkjarfélagana, því þó ég geti veitt honum öryggi og ástúð, þá jafnast samt ekkert á við að fá vinina í heimsókn og finna þá hlýju strauma sem þau veita og halda utan um.  Heart

Þó geri ég mér grein fyrir að það versta er eftir.  Það er alltaf erfiðast að horfa á nána ættingja sína hverfa ofan í gröf.  Það er einhvernveginn þá sem allt brestur.   Þá er allt svo óendanlega óafturkræft. 

Megi allir góðir vættir vaka með ykkur öllum og vernda.  Og það er gott að vera góður hvor við annan, það gefur sálarlífinu svo mikið. Heart


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mikið rosalega er þetta fallegt. Knús á ykkur frænka

Gréta (IP-tala skráð) 7.5.2012 kl. 11:46

2 identicon

Æ, hvað það er gott að sjá hvað krakkarnir eru frábær þarna á Ísafirði. Sannarlega góðir vinir! Bestu kveðjur og samúðarvottun. Kv. María

María Úlfarsd. (IP-tala skráð) 7.5.2012 kl. 12:55

3 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Knús á móti Gréta mín. Þetta er svo sannarlega fallegt, heiðarlegt og sýnir það besta í okkur öllum. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 7.5.2012 kl. 12:57

4 Smámynd: Hjördís Vilhjálmsdóttir

Mikið er þetta fallegt kæra Ásthildur og það væri gott ef fleiri gerðu það sama við náunga sína

Það er svo erfitt að skilja hvað fólk rembist oft mikið við að spara allt það sem frítt er. Hvort sem það eru hughreystandi orð, falleg orð, hrós, segja takk, svo ég taki dæmi. Of margir hanga á þessu eins og hundar á roði og splæsa helst aldrei í slík orð eða framkomu við náungann, eins og t.d. hjálpsemi. Þetta er það eina sem virkilega er hægt að bruðla með hægri vinstri og nota óspart. Og reyndar stefnuljósin líka, þau eru spöruð grimmt. Við erum oft svo skrítin þjóð þegar kemur að sparnaði og ,,eyðslu". 

Ég vona að sem flestir lesi þetta jákvæða og mikilvæga blogginnlegg þitt Það er mikil þörf á að sem flestir tileinki sér svo fallega framkomu, hvort sem það er til barna, unglinga eða fullorðinna. 

Gaman væri að vita hvort fleiri en Úlfur eigi slíka reynslu , þeas hvort þetta sé viðtekin venja fyrir Vestan sem þyrfti þá að breiðast hratt og örugglega yfir allt landið, rétt eins og blessuð sólin með sína birtu og yl.  Ég hef aldrei heyrt af neinu álíka svo ég muni. Og ánægjulegt að þetta sé skrifað í bækur, á tímum Facebook og netsins alls. 

Hjördís Vilhjálmsdóttir, 7.5.2012 kl. 14:19

5 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

Þetta er svo fallegt, svo innilegt, hjartans bestu skilaboð hvers manns eru að halda utanum og hlúa að hjarta náungans í raunum hans. Svo einfalt og létt en samt svo áhrifaríkt, að undrun sætir að það sé ekki meira notað. Þið eruð snillingar þarna fyrir vestan. Kennið öðrum fræðin.

Axel Jóhann Hallgrímsson, 7.5.2012 kl. 14:34

6 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk María, ég sá ekki innleggið þitt fyrr en eftir á. 

Hjördís mín já þetta er svo sannarlega gefandi innlegg, ég þekki ekki til hvort þetta sé almennt svona, þó get ég alveg ímyndað mér að svo sé.  Sem betur fer eru fá börn sem missa svona nána ættingja.  Það er reynsla sem enginn vill lenda í.  En þetta gefur alveg heilmikið mér líka sem hans nánasta ættingja í dag.

Axel minn þú orðar þetta svo fallega. 

Og Gréta mín á að fá hjarta líka

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 7.5.2012 kl. 17:50

7 Smámynd: Guðrún Emilía Guðnadóttir

Þetta er yndislegt að lesa og gott að vita þegar ungviðin okkar koma fram og segja hvað í hjarta þeirra býr.

Kærleikskveðjur

Guðrún Emilía Guðnadóttir, 7.5.2012 kl. 20:20

8 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Það er eiginlega ekkert fallegra til, því þau tala hreint frá hjartanu. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 7.5.2012 kl. 23:01

9 identicon

Þegar sáð er af umhyggju í ungar sálir getur það skilað sér svona vel. Börnin og unglingarnir læra af umhverfi sínu og hafa þarna fundið góða leið. Þetta unga fólk lærir að styðja þegar þarf og finna hvað það skiptir miklu máli. Það er mjög fallegt að lesa hvað þau eru einlæg og hlý. Vináttan er eins og kónulóarvefur, ótrúlega sterk og gefur svo mikið

Dísa (IP-tala skráð) 7.5.2012 kl. 23:10

10 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Einmitt! Fallegra verður það ekki,gott að þú notaðir bessaleyfið.þetta verða allir að sjá.Mb.Kv.

Helga Kristjánsdóttir, 7.5.2012 kl. 23:42

11 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk Helga mín. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 8.5.2012 kl. 00:30

12 identicon

Yndislega fallegt. Held að þú áttir þig ekki á Ásthildur hvað þú snertir mörg hjörtu með mannlegu

skrifum þínum. Knús til ykkar allra.

Sigþrúður Elínardóttir (IP-tala skráð) 8.5.2012 kl. 01:10

13 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk fyrir þetta innlegg Sigþrúður.  Sennilega er ég ekki alveg meðvituð um áhrifin af skrifum mínum.  En ef þau snerta strengi þá er ég innilega þakklát fyrir það.  Við þurfum smá kærleik inn í samfélagið á þessum tímum.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 8.5.2012 kl. 10:12

14 Smámynd: Kidda

Þetta eru yndislegar kveðjur frá yndislegum unglingum. Svona kveðjur geta ekki annað en hjálpað þeim sem fá.

Við heyrum miklu oftar eitthvað neikvætt um unglinga en jákvætt.

Knús í kúlu en þó sérstaklega handa Úlfi, hann er heppin að eiga góða að, bæði fjölskyldu og vini <3

Kidda, 8.5.2012 kl. 11:52

15 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Skila því Kidda mín, já það fer allof lítið fyrir því í umræðunni sem börnin okkar gera vel. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 8.5.2012 kl. 12:10

16 Smámynd: Jens Guð

  Takk fyrir að deila þessu með okkur.  Þetta er hjártnæmt að lesa.  Þó að umræða um einelti og mörg önnur vandamál í skólum sé þörf og nauðsynleg þá má ekki gleymast að sömuleiðis er margt gott starf unnið í skólum.  Bróðurdóttir mín, þá 12 ára,  varð fyrir því að móðir hennar svipti sig lífi.  Skólinn hennar tók frábærlega á því máli.  Það voru haldnir fundir með bekknum,  sálfræðingar og fleiri afgreiddu þetta sorgarferli af þvílíkri fagmennsku að kom mér í opna skjöldu að til væri svona vel útfærð og vel unnin dagskrá (prógramm) fyrir áfall af þessu tagi.  Ég hefði ekki trúað því að óreyndu að hægt væri eða að til staðar væri svona góð úrvinnsla á í grunnskóla á þessu reiðarslagi.   

Jens Guð, 9.5.2012 kl. 00:38

17 identicon

Já takk fyrir að deila þessu með okkur Ásthildur. Það er alveg á hreinu að hann hefði ekki getað fæðst inn í betri fjölskyldu eða verið í dag í betri höndum. ;)

Guðbjartur Sveinbjörnsson (IP-tala skráð) 9.5.2012 kl. 01:51

18 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk fyrir mig Guðbjartur.

Jens það sem vel er gert fer oftar en ekki hljóðlegar en hitt sem miður fer.  En það verður líka að benda á það góða sem er að gerast, það vekur til umhugsunar og jafnvel kemur slíkum góðum hlutum í gang víðar. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 9.5.2012 kl. 09:41

19 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Ég fæ tár í augun yfir þessum flottu krökkum. En fyrst og fremst tárast ég yfir því hvað lagt hefur verið á þennan unga mann. Guði sé lof fyrir að hann á þig og Ella að. Knús á milljón

Jenný Anna Baldursdóttir, 11.5.2012 kl. 09:25

20 Smámynd: Sigrún Þorbjörnsdóttir

Yndislegir og flottir krakkar að gera þetta. Ekki nóg að þau hjálpa Úlfi með svona fallegum skrifum, heldur hjálpar þetta þeim sjálfum líka.

Takk fyrir að deila þessu með okkur, við megum svo sannarlega gera meira af því að benda á allt sem jákvætt er. Knús í Kúluna.

Sigrún Þorbjörnsdóttir, 11.5.2012 kl. 10:04

21 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk Jenný mín.  Já það er mikið lagt á drenginn okkar

Elsku Sigrún mín, við gerum sennilega alltof lítið af því að segja frá því góða og fallega.  &#39;Eg er líka viss um að krökkunum hefur sjálfum liðið betur að skrifa svona fallega. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 11.5.2012 kl. 10:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Höfundur

Ásthildur Cesil Þórðardóttir
Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Tónlistarspilari

Ásthildur Cesil - Dagdraumar
Sept. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30          

Nýjustu myndir

  • 2f19c636fb68b249555c5fa250d3e103--russian-image-jellyfish
  • engill-angel
  • jolatre
  • 20171002 121526
  • gasometers-vienna-7[5]

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.9.): 2
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 40
  • Frá upphafi: 2021759

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 26
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband