Til hamingju með afmælið Unginn minn stóri.

Ég er alltaf að vona að hlýni, þó hér sé sól dag eftir dag og notalegt að vera útivið, kólnar um leið og dregur ský fyrir sól.  Ætlar sumarið aldrei að skila sér?

Í dag átti frumburður minn afmæli.  Ég gleymi aldrei þeirri stund er ég fékk hann til mín, mér fannst ég vera merkilegasta manneskja í heimi, ég byrjaði á að skoða og telja fingur og tær, og mér fanns hann vera fullkomið kraftaverk.  Núna þegar ég horfi á ungu konurnar hér heima spóka sig um götur með barnavagna, gleðst ég við tilhugsunina, því ég veit að við hugsum allar svona, þegar við höfum skilað litlu kraftaverki inn í heiminn og horfum á þetta kraftaverk sem hefur verið 9 mánuði að alast upp og stækka inn í okkur, og svo loks þegar þau koma út í heimin, þá ríkir ástúðin, stoltið og gleðin yfir vel loknu verki móður náttúru. Heart

Til hamingju með daginn elsku drengurinn minn. Heart

En það er margt sem ég er að hugsa um núna, þrátt fyrir einstaklega frábært líf og loksins að skilja að ég er FRJÁLS.... sjálfs mín herra og get bara gert það sem ég vil, þetta er að renna upp fyrir mér smátt og smátt eftir að ég hætti að vinna.  Og reyndar horfi ég á beðin í bænum, sem vissulega standa þarna mörg hver blómalaus og komið að mánaðamótum júní og júlí.  Að þá stilli ég mig um að gera neitt í því.  Það fólk sem tók við af mér þarf sennilega sinn tíma til að koma öllu í lag.  ég geri mér grein fyrir að þetta var allt komið í rútínu hjá mér, og líka það að öll þessi beð byggði ég upp sjálf og þekkti inn að hjartarótum.  Undrast samt að þetta skuli ganga svona því í minni tíð voru öll sumarblóm komin niður fyrir 17 júní.  En nýjir siðir koma með nýjum herrum... eða þannig.

Merkilegt nokk þá skammast ég mín ekki fyrir bæinn minn, því túlípanarnir sem ég skildi eftir í fyrra hafa bjargað því sem bjargað varð, sem og plönturnar sem ég hef gróðursett, þannig að þetta virkar allt saman vel, enn sem komið er.  Vona samt að bæjarbúar láti í sér heyra og finna að ef þeir eru ósáttir við ný vinnubrögð.  Það er nefnilega eina aðhaldið sem yfirvöld hafa til að gera betur að finna að bæjarbúar fylgist með og vilji fallegra umhverfi.

En það eru önnur atriði sem ég dauðskammast mín fyrir.  Eitt af því er aðbúnaður flóttamanna sem hingað koma í leit að aðstoð. http://www.dv.is/frettir/2011/6/24/forstodumadur-gistiheimilisins-fit-segir-flottafolk-dekrad/

HVernig stendur á að maður með slíka fordóma fær samning frá ríkinu um að hafa umsjón með flóttamönnum.  Ég get ekki orða bundist yfir þvílíkri smán að þessi maður með sinn "skilning" á málefnum flóttafólks skuli fá að hafa þá í sinni umsjá.  Það er allt eftir einu.  Von að mál gangi hægt og erfiðlega fyrir sig, og að blessað fólki leiðist út í sjálfsmorð og angistarúrræði, þegar þau finna að fólkið sem á að hjálpa er gjörsamlega hjartalaust.

Hér þarf að rippa upp og skoða málin betur, fá nýtt fólk inn, sem hefur skilning og nægan kærleika til að breyta þessu helvíti.... Ég skammast mín ofan í tær, og jafnvel lengra.

Og svo þetta!

http://www.dv.is/frettir/2011/6/24/utlendingar-borga-meira-tvofalt-i-blaa-lonid/

'Eg fór fyrir mörgum árum til Kúpu, þar uppgötvaði ég að til voru tvennskonar verð.  Verð fyrir innfædda og svo verð fyrir útlendinga.  Mér fannst þetta rosalega hallærislegt, eða í besta falli broslegt, en skildi þó að Kúpa er fátækt land og þeir þurftu að lifa af.  Þar voru hótel og strandir lokuð af bara fyrir ferðamenn, og fólk sem vann á hótelunum og ströndunum var með sérstakan passa til að komast í vinnuna. 

Svo les maður svona, og ekki bara les, frænka mín bróðurdóttir sem býr í Þýskalandi kom í heimsók um daginn með 5 þýska vini sína og vinnufélaga.  Þau fóru í Bláa Lónið og viti menn, meðan hún þurfti að borga eitthvað um 195o kall þurftu hin að borga um 4.800.  Og þau krakka greyin héldu að þetta væri bara svona, komu hingað vestur og fóru með flugvél til Fljótavíkur í nokkurra daga dvöl, og héldu að þau þyrftu að borga hærra verð fyrir sætin í flugvélinni in íslenska vinkona þeirra.  Og Guð veit að ég svoleiðis hundskammast mín fyrir að vera íslendingur þegar ég heyri svona og sé og les.  Hvað er að þessum gaur þarna í Bláa Lóninu.  Og nú þegar hefur komið í ljós að Landsbankinn á hlut í þessu batteríi, skora ég á hann að gangast fyrir því að þessu verði hætt, og allir borgi sama verð.  Þetta er nefnilega óþolandi mismunun og svo skammarlegt að flestir íslendingar ganga með hauspoka af skömm yfir þessu. 

Mér finnst líka rosalega hallærislegt að þurfa að standa í harðri samkeppni við ríkisfyrirtæki sem heitir Húsasmiðjan og Blómaval.  Daginn sem ég opnaði mína sölu, settu þau blómin á útsölu.  Þetta er í dag ríkisfyrirtæki og þar sem það ætti að vera keppikefli ríkisins að hlú að fyrirtækjum úti á landi, þá finnst mér hallærislegt að þurfa að standa í því að ríkisrekið fyrirtæki með allt sitt á hreinu geti staðið í því að reyna að drepa mig niður.  Ég á mína föstu kúnna sem koma bara til mín, og þau segja mér að plönturnar sem eru seldar þarna séu druslur.  Samt sem áður þá veit ég að fullt af fólki fer þangað til að kaupa af ríkinu, en hvað svo, ef þeim tekst að koma því þannig fyrir að ég nenni þessu ekki lengur, ætli þeir setji þá plönturnar á "tilboð"?  Þá þarf ekki að keppa við neinn, þá sitja þeir einir að markaðinum og allur gróðin fer suður. 

Þetta er einfaldlega rangt og röng skila boð.  En auðvitað í samræmi við þessa "velferðarríkisstjórn", sem allt vill gera til að koma öllu apparati til Reykjavíkur. 

Svona er lífið í dag elskurnar.  Fólk hefur verið að ráðleggja mér að fara niður á torg og selja þaðan, en ég er bara gömul og lúin, og hef gaman af að hlú að gróðri og svo sannarlega eru blómin mín flott og fjölbreytileg.  Þau eru alin upp í kærleika og ást og eru þess vegna harðgerðari fyrir vikið. 

En svona er þetta bara, við þurfum víst að aðlaga okkur að þessum tímum, en við þurfum samt ekki að gefast upp eða láta reka á reiðanum.  Það koma dagar og koma ráð, og ég hef þá trú að þeir sem spila falskt fái makleg málagjöld.  Hvergi í veröldinni hefur það borgað sig til lengri tíma litið að falsa og flagða.  Heiðarleikinn skilar sér alltaf til baka að lokum.  Heart


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigrún Þorbjörnsdóttir

Til hamingju með Inga Þór :) Náttúran sér sko alveg um að mæðurnar elski ungana sína og hugsi vel um þá :)

Ég kaupi alltaf sumarblóm og aðrar plöntur hjá einkaaðilum. Þar fæ ég persónulega þjónustu og miklu betri plöntur. Gerði meira að segja mína eigin vísindatilraun til að sanna hvað kærleiksplönturnar eru fallegri :) Vonandi bara að fólk hafi rænu á að versla af sínu heimafólki, aðeins þannig getum við byggt atvinnu fyrir alla.

Mér finnst voða kjánalegt að mismuna fólki eftir því hvaðan það kemur. Hef oft velt þessu fyrir mér með Bláa Lónið. Mér skilst á fólki að þetta sé svona víða um heiminn, að ferðamenn borgi hærra. Sel það ekki dýrara en ég keypti það (nema ef þú værir útlendingur sko.. :D )

Knús í Kúlu

Sigrún Þorbjörnsdóttir, 27.6.2011 kl. 00:33

2 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk fyrir Sigrún mín.  Gott að heyra að þú vilt hlú að því sem nær þér er. Enda veit ég að þú ert einmitt þannig elskuleg mín.  Ef þetta er víða með að útlendingar  borgi hærra verð en heimamenn, þá er heimurinn á rangri braut að mínu mati.  Vona bara að það sé ekki svo algengt.  Knús á þig elsku Sigrún mín.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 27.6.2011 kl. 09:06

3 identicon

Til hamingju með Inga Þór, já allar byrjum við örugglega á að skoða og telja, hvort ekki sé allt á sínum stað. En ég er sammála þér, það er ólýsanleg tilfinning að halda á nýfæddu barni og ég finn enn þessa kraftaverkstilfinningu með barnabörnin, það er ekki gefið að allt sé í lagi, en svo yndislegt. Ég get skilið að þér finnist sárt að ekki sé haldið við því sem þú varst búin að gera svo vel, en þú sást alltaf vel um meðan það heyrði til þín og það skiptir öllu. Sjáumst bráðum

Dísa (IP-tala skráð) 27.6.2011 kl. 09:44

4 Smámynd: Kidda

Til hamingju með frumburðinn.

Þetta með Blómaval er sér kapituli fyrir sig, í þau fáu skipti sem ág hef skoðað gróður hjá þeim hefur mér fundist að allt sé innflutt. Hef aldrei verslað hjá þeim blóm því þau eru bara druslur, ofvaxnar druslur öll sumarblómin og ekki eru fjölæru blómin skárri. Reyndar finnst mér að það þurfi að takmarka það sem er flutt inn af gróðri vegna þess sem getur fylgt með í moldinni. 

Það er synd ef bærinn þinn heldur ekki við beðunum sem þú settir upp. falleg beð og fallegur gróður lífgar svo upp öll svæði og lífgar upp manneskjuna sem nýtur þess að horfa á og vera innan um fallegan gróður.Okkur líður betur innan um fallegan gróður þó svo að við höfum engann áhuga á gróðri.

Það er frábært þetta frelsi sem þú finnur fyrir, kominn tími til

Kidda, 27.6.2011 kl. 11:06

5 Smámynd: Sóldís Fjóla Karlsdóttir

Til hamingju.....

Ég var í Afríku 2008 um sumarið og fórum við í dýragaðinn og þar var tekið hærra gjald af því við vorum HVÍT.....ég reifst og skammaðist en var bara bent á þetta liðist í Vestrænum ríkjum .....ég sagði að með því að gera þetta væru Afríkubúar að viðhalda nýlendukúgunni ....en ég var kveðinn í kútinn.

Svona er víst lífið.....ég er ekki sátt við þetta.

Sóldís Fjóla Karlsdóttir, 27.6.2011 kl. 18:20

6 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk Kidda mín, það er algjörlega rétt hjá þér að okkur líður betur innan um fallegan gróður og notalegt umhverfi.  Og frelsir virkar vel

Sóldís einmitt, við erum hér með kveðnar í kútinn, ég er hætt að hlæja að Kúpverjum sem hafa tvö verð og þú meðal svertingja.  Svona er lífið, stundum algjör lágkúra svei mér þá.  Og ég er ekki sátt við þessa nýju stefnu. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 27.6.2011 kl. 19:23

7 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Til lukku með drenginn þinn :)

Ásdís Sigurðardóttir, 27.6.2011 kl. 20:19

8 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk Ásdís mín.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 27.6.2011 kl. 23:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Höfundur

Ásthildur Cesil Þórðardóttir
Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Tónlistarspilari

Ásthildur Cesil - Dagdraumar
Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • 2f19c636fb68b249555c5fa250d3e103--russian-image-jellyfish
  • engill-angel
  • jolatre
  • 20171002 121526
  • gasometers-vienna-7[5]

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 31
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 27
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband