Kastljósið í gær, baráttan mín og áhugaleysi kerfisins við að lagfæra mestu mannréttindabrot á Íslandi.

Ég horfði á kastljósþáttinn í gær, og fann hvernig öll mín barátta rifjaðist upp.  'Eg tek innilega undir hvert einasta orð sem Jóhannes Kr. Kristjánsson sagði í þættinum.  Ég ráðlegg fólki sem missti af þættinum að horfa á hann hér:

http://dagskra.ruv.is/sjonvarpid/4545105/2011/05/20/0/

 Árið 1998 þann 5. janúar skrifaði ég öllum alþingismönnum bréf og sendi með allskonar trúnaðarskjöl sem ég hafði aflað mér um einstakling sem er mér kær.  Bréfið hljóðar svo:

 

Ísafirði 5. janúar 1998.

 

 

 

Ágæti þingmaður íslenska ríkisins.

 

Er það ekki rétt hjá mér að þú sitjir á Alþingi til að gæta allra þegna kjördæmis þíns? Ég vil benda þér sérstaklega á hópi ungs fólks sem full þörf er á að kannað sé með sérstökum hætti, hvernig hægt sé að koma til hjálpar. Málið þolir enga bið.

 

Þetta eru fíkniefnaneytendur.

 

Ég er að tala um þá sem svo djúpt eru sokknir að þeir eru komnir í lögbrot. Ég er ekki að tala um unglinga heldur ungt fólk, alveg upp úr skalanum.

 

Í þjóðfélagi okkar er í dag litið á þetta fólk sem glæpamenn, en ekki sjúklinga – og þeir meðhöndlaðir samkvæmt því í okkar réttarkerfi.

 

Ég álít að það þurfi að fara í saumana á dóms – og réttarkerfi Íslands í dag, og færa þar hlutina til nútímalegra horfs.

 

 

Ef við ætlum að stefna að fíkniefnalausu landi árið 2002 þá er þetta einn af veigameiri þáttum sem þarf að lagfæra.

 

 

Það gengur ekki lengur að þessu fólki sé stungið inn í fangelsi án tillits til hvar og hvernig það er statt í lífinu, það brotið niður og síðan sent út á götu aftur án neinnar raunverulegrar aðstoðar. Fangelsi á Íslandi eru heldur ekki í stakk búin að taka við þessu fólki, þar sem aðeins mun vera einn sálfræðingur starfandi við stofnunina, engir læknar né félagsfræðingar. Ekkert fagfólk sem meðhöndlar”sjúklingana”.

 

Hér þarf líka að taka tillit til hvort fólkið sé að bæta sig og komið í nýtt líf, áður en það er rifið upp og sett í fangelsi fyrir brot sem það framdi í annarlegu ástandi löngu áður. Og hver er þá tilgangurinn með innilokuninni?

 

Til að sýna fram á fáránleika framkvæmda í málum þessa unga fólks ætla ég að senda hér með einstakt mál sem er mér tengt – ég vil taka fram að þetta einstaka mál verður að meðhöndla sem trúnaðarmál, því meiningin er auðvitað að þessi mál verði skoðuð í heild sinni og fundin mannsæmandi lausn fyrir “sjúklingana” okkar.

 

Stúlka mér tengd var komin ansi langt niður í fíkniefnaneyslu hún var búi að komast oft í kast við lögin. Hún átti nokkur börn sem höfðu verið tekin af henni að vísu til vandamanna hennar.

 

Þessi stúlka var búin að taka sig á, ástfangin, búin að gifta sig og komin með barn. Maður hennar var búin að vera fíkill lengi, reikandi og festi ekki tilfinningabönd við nokurn mann. Þessi tvö voru semsagt búin að finna hvort annað og farin að feta veginn þrönga og mjóa saman. En yfir hvíldi einn skugi, stúlkan átti yfir höfði sér 15 mánaða fangelsi. Hún var kölluð inn í ágúst s.l.

 

Ég gerði allt sem ég gat til að forða því að hún yrði sett inn, ég var hrædd um að þetta áfall yrði framtíð þeira svo þungt högg, að allt það sem áunnist hefði í þeirra lífi væri í hættu. Ég fékk vottorð fráheimilislækni þeirra, vottorð frá sálfræðingi sem ræddi við þau í nokrum samtölum og vottorð frá félgasfræðingi. Ekkert tillit var tekið til umsagnar alls þessa fagfólks. Og ég segi hefði ekki verið heppilegra í þessu dæmi að breyta dómnum í skilorðibundið fangelsi, og sjá hvort unga fólkið stæði sig ekki til langframa, heldur en að rífa litlu fjölskylduna í sundur og senda hana sitt í hvora áttina og taka áhægu á að þau færu aftur í sama horfið og litla barnið færi til annara. Og ég segi aftur og enn hver er eiginlega tilgangur fangelsisvistunar á Íslandi í dag.

 

Á hinum Norðurlöndunum eru allstaðar til lokaðar meðferðarstofnanir. Það er lífsnauðsyn

að koma slíkum á hér, þá er hægt að dæma fólkið í meðferð allt frá þrem mánuðum til árs eða svo.

 

Fangelsismálastofnun virðist starfa eftir mjög þröngt afmörkuðum reglum og ekkert svigrúm virðist gefið til mannúaðr á þeim bæ. Þessu verður að breyta.

 

Ágæti þingmaður ! Ég bið þig að lesa þetta bréf og meðfylgjandi plögg vandlega, og vita hvort þér finnst ekki ástæða til að skoða nánar aðstöðu og aðbúnað óhamingjusams fólks, sem vegna veikleika og kjánaskapar en ekki glæpaeðlis hefur lent milli steins og sleggju og er hjálparlaust og vonlaust í okkar velferðarríki.

 

Ég þekki nógu marga af þessu óhamingjusama fólki til að geta sagt að oftast er þetta yndislegt fólk, en veikgeðja og hefur þess vegna látið glepjast þangað til ekki varð aftursnúið. Við höfum réttindi og skyldur gagnvart þessufólki, við höfum ekki heldur efni á að missa það í dauðann, en þar enda allof margir ef ekkert verður að gert, annað hvort úr sjúkdómum eða fyrir eigin hendi. Það er margt sundurtætt foreldri úti í þjóðfélaginu sem hefur engin ráða til bjargar.

 

Opin meðferðarstofnun hefur ekkert að segja því að flestir þessa hóps eru komnir of langt til að vistast þar sem það getur gengið út daginn eftir. Ég segi þetta vegna þess að ég hef upplifað þetta sjálf og ég vil engum svo illt að ætla honum að ganga í gegnumslíkt helvíti, þar sem allt blandast saman ástin á afkvæminu, sjálfsblekkingin, lygin og vonleysið, reiðin út í eiturlyfjasalana og ekki síst reiðin út í kerfi sem frekar slær á hverja veika tilraun til sjálfsbjargar er að vera til hjálpar reiðubúið.

 

Virðingarfyllst ÁCÞ

 

 

Ég fékk svar frá tveimur þingmönnum en mér vitanlega hefur ekkert eða lítið gerst í þessum málum frá þeim tíma.  Þarna var þá þingmaður núverandi yfirmaður Litla Hrauns, sem að mér skilst er að gera ágætis hluti, en það er ekki aðalvandamálið.  Heldur algjört áhugaleysi kerfisins á málefnum unga fólksins okkar sem á í erfiðleikum. 

Takið eftir hvað Jóhannes segir um undirheimana.  Þetta er nákvæmlega það sem ég hef verið að benda á.  Takið líka eftir hvað hann segir um meðferðarstofnun, hann kallar það ekki beint lokaða meðferðarstofnun, heldur sérstaka og meinar auðvitað það sama og ég. 

Minn drengur er dáinn það hefði ekki þurft að gerast ef stjórvöld hefðu gripið inn í og komið af stað ferli til að laga þetta ómennska bákn sem fangelsismálin eru, læknarnir og stofnanir margar á vegum ríkisins KERFIÐ í heild.

Núna bara á þessum síðust dögum eru komin tvö morð framin af fólki í neyslu, örugglega án þess að ætla sér slíkt, en við þær aðstæður sem það var í missti stjórn á sér.  Einn maður liggur á gjörgæslu meðvitundarlítill eftir árás frá syni sínum, sem framdi þann verknað í vímu.  Allir þessir einstaklingar sem hafa nú um sárt að binda og skömmin sem mun hrjá þá héðan í frá er skelfilegri refsing en fangelsisvist.

Ég ætla að birta tvö bréf frá syni mínum hér til að sýna að bak við fíkla eru manneskjur með væntumþykju, kærleika og von um betri tíð.  Þetta er ekki bara númer á blaði, eða eins og Jóhannes segir í viðtalinu; þegar ég skoðaði skýrslurnar sá ég stimpilinn, það var ekki stimpill í eiginlegri merkingu heldur var hann þarna til staðar FÍKILL.

 

 

3.10.2002.

 

Elsku frænka mér finnst þú vera frábær. Trygg góð sterk svo ástbúin frænka. Ég upplifði furðulega og mjög góða tilfinningu í fyrsta skiptið, pældu, á ævinni, verur sem ég er búin að vera mikið umkringdur yfir ævina, rýfur burt vonleysi þunglyndi eymd og volæði. Hvað fimm fallegar ilmandi rósir og skilaboð um vináttu; ég vona að þú móðgist ekki en þegar ég þurfti að yfirgefa þennan ljóta langa ganga, stal ég þessu frá þér. Ég gat fundið fimm stráka sem ég kunni vel við og gaf þeim öllum (mána líka) rós með þessum orðum “gult er fyrir virðingu”. Ljóti langi gangurinn ljómaði hreint út sagt (kannski bara fyrir mig)en furðulegt. Jæja ég get ekki sofið klukkan er að verða fimm þennan þriðjudagsmorgun svo ég ætla að reyna og reyna og ... ég veit vel að þú hefur í óvenjulegu samstarfi, allt sem þitt vald megnar mér til handa og ég er rosalega þakklátur og ánægður fyrir. Mér finnst ekki væmið að segja að ég elska þig og snáðana þín líka innilega þar með talinn þennan stóra. Hafðu það sem best. Júlli.

 

 

2.10.2002.

 

Elsku mamma mín, sterkasta kona í heimi mig langaði til þess að tala aðeins við þig í gegnum pennan. Ég gæti aldrei fundið nógu stóra afsökun fyrir þig gagnvart því sem ég hef reynst þér.

Ég virðist vera að versna það hefur kannski farið í hausinn á mér.

 

Þú getur ekki hafa fundi neina reiði eða eitthvað í þá veru frá mér vegna þessa sviptingarmáls, því það skil ég ósköp vel.

 

 

Það er erfitt að eiga lítin gosa þessa dagana því ég get ekki annað en hræðst það að hann gæti

líkst foreldrum sínum þ.e.a.s. slæmu hliðunum. En hann hefur þó forvörnina og vel veit ég að bæði ég og Jóhanna höfum margt til að bera það þarf bara að leiðbeina honum vel, ég gæti aldrei sagt (ég vildi að ég ætti ekki barn)því hann er hjarta mitt og að sem ég lifi fyrir, því ég veit að hann er búin að bjarga mér oft frá því er ég veit að ég á ekki að gera.

 

Læknirinn sem kom í gær var vægast sagt óhepppilegur ég hafði einu sinni farið á stofuna til hans, sem endaði með rifrildi og ljótum orðum. Ég man ekki nafnið á honum en er hann sat hér í klefanum með lögregluþjón í gættinni (engin trúnaður eða slíkt) að þetta var ekki leiðinlegt fyrir hann að segja mér að ég væri ekki í lífshættu, svo hann ætlaði ekki að gera neitt mér til hjálpar. Ég gæti bara byrjað meðferðina strax, eitthvað tiltal fékk hann þó, því ég fékk 30 mg af líberíum í staðinn fyrir 150 sem ég var á niður á Skólavörðustíg og þar er annar svipaður læknir ögn skárri þó.

Jæja þetta var ekki ætlum mín að kvarta og kveina. ******* hringir í mig á eftir því hitt var eingöngu fyrir 1 dag. Mig langaði bara að þakka þér þína óbilandi þolinmæði líka styrk og segja þér að éger stoltur af kjarnamömmu.

 

Gott finnst mér líka að þið krosstrjáasystur standið og vinnið saman á við fimm fótboltalið þegar þið teljið nauðsyn. Eitt er vont, gott hjá mér því ég má ekki sjá tré né hellulögn því þá huga ég um að þarna gæti ég ásamt fjölskyldunni verið við vinnu(áhugi) Mér finnst pabbi vera einstakurmaður því sennilega voru þeir er hefðu unnið jafn hart og lengi orðin eitt hrúgals, ég vildi bara að hann væri blóðfaðir minn líka.

 

Nú er ég orðin orðlaus enn og aftur þúsund þakkir og þúsund kossar Júlli.

 

P.S. Kyssið og knúsið litla manninn frá mér. Bless bless.

 OOOOOOOO

Málið er að kerfið hefur stimplað þennan hóp sem glæpamenn og aumingja sem eiga ekki neinn rétt á neinni aðstoð frá þeim sem þykjast vera meiri og betri en þau.  Og þessi læknir hringdi aldrei og þottist ekki vera við, svo við urðum að hafa samband við þá á skólavörðustígnum og kvörtuðum til landslæknis sem sendi kvörtunina beint hingað heim til þeirra sem kvartað var undanDevil Þar með gat hann fríað sjálfan sig. 

 

 

Hér að lokum er svo endir á bréfi til Kerfisins frá árinu 2003.

 

 

Endir á bréfi til yfirvalda.

 

 

Reynsla mín af því að eiga afkvæmi með fíkniefnavanda hefru í raun sannfært mig um eftirfarandi:

 

1a Fangelsisvist sérstaklega í upphafi neyslu hefur meiri skaðleg áhrif heldur en bætandi.

1b Leiðir það að auki af sér meira tjón hjá fyrirtækjum og hinum almenna borgara með fjölgun

innbrota.

2 Óviðunandi er að sá biðtími sem er frá því að menn eru handteknir fyrir afbrot og þangað

einhverskonar úrræði finnst (fangelsi) Á þessum tíma eru neytendur komnir í mikla neyslu

sem þeir þurfa stöðugt að fjármagna.

3 Fangelsi er ekki viðeigandi úrræði fyrir fíkniefnaneytendur. Vegna þess að þau vinna frekar að því að taka þá út úr venjulegu lífi(einangrun frá samfélaginu) og skerðir frekar hæfni

til að takast á við lífið.

  1. Í dag er enginn stofnun sem tekur viðmjög langt leiddum neytendum í afvötnun ogmeðferð. Því er vonlaust fyrir aðstandendur að koma þeim í meðferð með þeirra samþykki og viljastyrk nákvæmlega á sama tíma og þetta er ekki fyrir hendi.

Meira að segja Geðdeild L.H. Deild 33a hleypir sjúklingum út þrátt fyrir áhyggjur aðstand-

enda og vissu um að hann ræður ekki viðneyslu.

Það mun borga sig að takast á viðfíkniefndavandann með því að bygja upp traust úrræði, því sparast mjög mikið fjármagn fyrir utan að mannslíf er ekki hægt að ameta til fjár.

 

 

Það má benda á eftirfarandi kostnaðarliði.

 

Kostnað við heilsugæsluog lyfjagjöf.

“ við löggæslu, handtökur og dvöl í fangelsum.

“ vegna félagsþjónustus vegna styrkja og fjárhagsaðstoðar.

“ tryggingarfélaga vegnablóta.

“ hins almenna borgara vegna þess að eigur hafa stundum persónulegt gildi.

“ tilfinningalegan kostnað aðstandenda sem þurfa að horfa hjálparlaus upp á neyð ástvinar.

“ mikil fíkniefnaneysla gerir fólk óvinnufært og þar tapast mannauður.

“ við allar meðferðarstofnanir sem eruopnar og hafa ekki nægilegt aðhald fyrir illa farna neytendur.

 

 

Verðurg væri að athuga hversulangur tími líður frá handtöku til fangelsunnar og hversumiklu tjóni fíklar valda á því tímabili og hversu margir brjóta af sér eftir að afplánun lýkur. Er félgasvist lausn á vanda fíkniefnaneytendaárið 2003?

Jæja ég vona að þeir sem hafi áhuga á þessum málum hlusti á viðtalið við Jóhannes og lesi þetta langa mál sem ég hef að segja. Ég hef geymt öll bréf vottorð og slíkt og einhverntíman mun þetta allt koma fram á prenti.  Ég hvet því KERFIÐ til að fara að standa í lappirnar og laga þessi mál, svo þau standi ekki eins og steintröll þegar umræðan kemur öll upp á yfirborðið og umsagnir um meðferð Kerfisins á þessum öðruvísi börnum okkar. Það verður erfitt að horfast í augu við. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Takk fyrir þennan frábæra pistil Áshildur mín. Þetta er mjög gott og nauðsynlegt innlegg hjá þér í þessa löngu tímabæru umfjöllun. Vonandi að sem flestir komi með svona innlegg í umræðuna.

Ég horfði á Kastljósið í gær, og hann á miklar þakkir og heiður skilið fyrir þessa baráttu og framlag, hann Jóhannes Kr. Kristjánsson. 

Loksins fá svikin ungmenni talsmann og opinbera umræðu um staðreyndir mála, og sumir læknar þykjast vera með sársaukasting í hjarta, yfir því sem þeir hafa alltaf vitað, en gerðu ekkert í. Læknar senda þau bara með stimpil út í lífið, sem nánast er ógerningur fyrir sterkustu einstaklinga að rísa undir, hvað þá brotna einstaklinga!

Nú er von hjá þeim sem þurfa að berjast til síðustu krafta, við svikult kerfi, sem er mest til fyrir starfsfólkið en ekki skjólstæðingana. Önnur hönd kerfisins þykist vera að hjálpa minnimáttar, á meðan hin hönd kerfisins slær þá ítrekað niður í vanvirðingarsvaðið!

Loksins, loksins þorði einhver að taka á þessum málum, og opinbera þennan ljóta sannleika sem hefur verið þegjandi samkomulag dómara, læknastéttarinnar, alþingismanna, ráðherra ásamt restinni af kerfinu, að láta viðgangast, með örfáum undantekningum.  Þetta er sýndar-velferðarkerfi fyrir yfirstéttina á kostnað minnimáttar í þjóðfélaginu!

Velferðarkerfi sem segist vera að "hjálpa" minnimáttar, sem þarf svo að borga þessum "hjálpurum" velferðarkerfisins laun, með skattpíningu af lægstu launum minnimáttar, sem eru langt undir neysluviðmiðum? Með þeim afleiðingum að sjúkum fjölgar!!!

Hvar er mannúðin og réttlætið í "velferðarkerfinu"?

 M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 21.5.2011 kl. 15:34

2 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Mannúðin og réttlætið nær ekki alla leið inn í kerfið.  Það eru nokkrir starfsmenn sem vilja vel en þeim eru takmörk sett af Kerfinu sem hefur þegar stimplað fólkið okkar sem óalandi og óferjandi og án mannréttinda. Það er heila málið.  Enginn hjálp þar sem að kerfinu snýr.  En ég veit að þarna úti starfar fólk sem vill gera vel, það er bara ekki nóg.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 21.5.2011 kl. 15:45

3 Smámynd: Valdís Skúladóttir

Hvað þarf að gera svo þetta kerfi vakni.

Valdís Skúladóttir, 21.5.2011 kl. 20:33

4 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Þú lagðir sko þitt af mörkum elsku vinkona, vonandi vaknar fólk einhverntíman og skilur raunveruleikann.

Ásdís Sigurðardóttir, 21.5.2011 kl. 20:59

5 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 22.5.2011 kl. 01:54

6 Smámynd: Sigrún Aðalsteinsdóttir

Þetta eru erfiðir hlutir að kljást við. Ég hef upplifað það að missa fólk í eyðileggingu fíkniefna. Og hvað getur maður gert. Ég veit ekki hvar maður á að byrja. Í kringum mörg okkar eru hörmungarsögur, en aðeins bjartsýni okkar heldur okkur eftirlifendum á floti. Við bara verðum að halda áfram lífinu með brosi á vör vegna afkomenda okkar. Guð veri með þér og þínu fólki <3

Sigrún Aðalsteinsdóttir, 22.5.2011 kl. 02:04

7 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk stelpur mínar það er ekki auðvelt að varpa fram okkar sonar mins leyndustu hugsunum.  Eg ég veit að hann hefði viljað að ég opinberaði það sem honum í brjósti brann, því hann var alltaf á varðbergi til að bjarga öðrum frá því helvíti sem hann var staddur í.  Elsku barnið mitt er dáið, en ef til vill er hægt að bjarga einhverjum öðrum frá sama helvíti með því að segja söguna erfiðu og upplýsa um það sem við bæði urðum að upplifa.  Eg það gæti hjálpað einhverjum þá er ekki til einskis barist.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 22.5.2011 kl. 02:28

8 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

Takk fyrir þennan pistil Ásthildur.

Það geta engir, sem ekki hafa reynt á eigin skinni,  ímyndað sér það svartnætti og vonleysi sem umlykur aðstandendur fíkla. Þeirrar lífsreynslu óska ég engum.

Axel Jóhann Hallgrímsson, 22.5.2011 kl. 11:43

9 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk Axel, já það er skelfileg lífsreynsla sem ég vildi geta hlíft öðrum við.  En meðan Kerfið steinsefur í þessum málum gerist harla lítið.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 22.5.2011 kl. 12:34

10 Smámynd: Bergljót Gunnarsdóttir

Elsku Ásthildur mín. Takk fyrir að gefast ekki upp og berjast áfram. Þú ert stókostleg. Ég trúi ekki öðru en þú fáir einhverju áorkað að lokum.

En kerfið er þungt og kerfinu er sama. Ég sendi heilbrigðisráðherra nýlega bréf í tvígang þar sem ég spurði um lyf sem mér var sagt að gæti hjálpað fíklum, þ.e. hvort stæði til að prófa það hér á landi. Jú, jú ég fékk í bæði skiptin svar, þar sem mér vað tilk. að bréfið væri móttekið og lagt inn á borð ráðherra.

Ráðherra les greinilega ekki póstinn sinn, eða hann nennir ekki að svara honum, eða honum er bara skítsama. Það er allavega niðurstaðan sem ég hef komist að. 

Á meðan sá dónaskapur viðgengst að stjórnvöld sem eru í vinnu hjá okkur sem kusum þau, hlusti ekki á okkur, og virði okkur ekki einu sinni svars þegar við eigum við erindi við þau, er lítil von að úr rætist. Mér sýnist, að það þurfi að setja reglur, fyrir þá sem eru við völd hverju sinni, og skylda þá til að sinna bréfum og erindum borgaranna. 

 Það er ekki víst að allir ættu erindi sem erfiði, en það væri þó búið að koma málinu til yfirvalda sem væru skyldug að sinna því, þá myndu þau sjá að  að mörg þessara mála varða mannslíf, og enginn gengur þeirra erinda þeirra að gamni sínu.

Gangi þér vel mín kæra og allar góðar vættir fylgi þér í baráttunni!

Bergljót Gunnarsdóttir, 23.5.2011 kl. 02:30

11 Smámynd: Bergljót Gunnarsdóttir

"gengur þeirra erinda að gamni sínu."

Bergljót Gunnarsdóttir, 23.5.2011 kl. 02:34

12 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Já Bergljót það er einmitt þetta sem ég er að tala um hirðuleysið og dónaskapurinn gagnvart fólki sem á við ákveðin vanda að etja, fíkn, þau eru ekki virt viðlits hjá kerfinu, og fyrir yfirvöldum eru þau ekki til.  Það svíður afar mikið.  Ég ætla ekki að hætta þessu brasi.  Þó stundum sé maður alveg með upp í koki af hvernig á þessum málum er tekið.  Takk fyrir hlý orð. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 23.5.2011 kl. 10:08

13 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

  Ásthildur mín! Niðurstaða mín er,að þeir sem eru faglærðir og vinna í þessum  (og öðrum t.d. barnaverndar)málum, eru ekki allir að vinna með brjóstvitinu eða ætti ég að segja skilningi og hluttekningu. Það koma upp í hugann atvik á svo mörgum sviðum,þar sem valdhroki (eða mennta),spilar stórt hlutverk.  Fiknefnavandinn er orðinn geigvænlegur, þú nefndir þrjár árásir langt leiddra fíkla, ég fæ sting í hjartað,um leið og það vekur upp hryllilegar minningar um morð Atla Helgasonar á,bróður tengdadóttur minnar,Einars Arnars Birgis. Við þessar aðstæður sýndi sárþjáð móðir Einars,einstaka umhyggju fyrir börnum,er hún að beiðni barnsmóður Atla, tók á móti dóttur hans ,,henni til sáluhjálpar. Fíkniefnavandinn er að verða ógnvænlegur í því sambandi get ég ekki annað en minnt á þau mistök að láta Jóhann sýslumann á Keflavíkurvelli fara. Gruna að þar hafi samkeppni um stöður valdið,jæja eða hvað veit ég annað en þessi maður tók á því,þar sem allt byrjar, SMYGLIÐ. Ásthildur mín, bestu kveðjur.

Helga Kristjánsdóttir, 24.5.2011 kl. 13:01

14 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Já Helga mín, það er eins og einhverjar valdablokkir sem virðast getað togað í strengi hjá valdinu.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 24.5.2011 kl. 17:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Höfundur

Ásthildur Cesil Þórðardóttir
Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Tónlistarspilari

Ásthildur Cesil - Dagdraumar
Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • 2f19c636fb68b249555c5fa250d3e103--russian-image-jellyfish
  • engill-angel
  • jolatre
  • 20171002 121526
  • gasometers-vienna-7[5]

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 32
  • Frá upphafi: 2022942

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 29
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband