Smá hugleiðing frá því fyrir nokkrum árum. Þetta er spurning um góða vísu sem má kveða oft og mörgum sinnum.

Er svona að taka til í mínum ranni áður en ég hætti hér.  Og rakst á þennan pistil sem er skrifaður fyrir nokkrum árum.  Datt í hug að setja hann hér inn aftur.

 

Fyrir Icesave

Ég er að hugsa um mannlegan hugsunargang kosti og breyskleika.  Þar kennir ýmissa grasa og margt fer í gegnum kollin á mér.  Það er svo sem ágætt að ég er komin svo langt að geta farið að huga að öðru en sorginni.  Mér finnst ég vera að vakna og vera meira lifandi en í langan tíma.  Þó er framkvæmdaleysið ennþá til staðar.  En smátt og smátt eykst mér orka til að gera hlutina.  Og ég verð glaðari og ánægðari með sjálfa mig, þegar mér eykst þrekið.

 

En nú er ég sem sagt að hugsa um ástandið í samfélaginu okkar og hugleiða út frá því.  Við erum einkennilegt samfélag.  Það hef ég gert mér grein fyrir í langan tíma.  Eða allt frá því að ég fór utan 17 ára gömul í lýðháskóla í Svíþjóð.  Og síðan dvaldi 2 ár í Glasgowborg sem au pair. 

 

Þar uppgötvaði ég að fólk er bara fólk, þeir sem eru duglegir komast áfram, hinir sitja eftir.  Enginn ofan í hvers manns koppi.   Svona heilt yfir.  Auðvitað eru alltaf frávik og ég er ekki að segja að þar ríki ekki afbrýðisemi þess sem minna má sín til þeirra sem fleyta rjómann.  Og ég er heldur ekki að segja að menn komist ekki áfram á óheiðarleika og misnotkun á trausti.  Þetta er bara allt einhvernvegin fjær og utar en hér heima.

 

Við aftur á móti erum í eintómum klíkum.  Og oft kemur það fyrir að haldið er aftur af fólki með mikla hæfileika á einhverju sviði vegna þess að öðrum finnst að þeir eigi ekki skilið að komast að.  Öðrum er lyft upp og fá ótrúlegustu tækifæri af því að þeir þekkja rétta fólkið, eða eru í réttu klíkunni.  Auðvitað eru undantekningar, en þær eru færri en tilefni gefur til.  Og þeir sem þannig brjótast fram skara oft það mikið fram úr að þeir vekja eftirtekt langt út fyrir litla Ísland. 

 

Þetta leiðir svo til þess að það er ekki endilega færasta fólkið sem situr í bestu stöðunum, eða er í forsvari eða jafnvel bara bestu listamennirnir.  Af því að við viljum einhvernvegin ráða því hverjir sitja þar.  Eða einhverjir vilja ráða.  Það eru mörg dæmi um svona.  Þarf ekki  að leita langt. 

 

Þetta háir held ég líka stjórnvöldum, þegar nýir aðilar komast til valda.  Því þá situr klíkulið frá fyrri ráðamönnum og sjá til þess að hlutirnir gangi eins og þeir vilja.   Hver man ekki eftir skemmtilegu þáttunum bresku „Já ráðherra“  Ansi er ég hrædd um að þar leynist mikill sannleikur falin í spaugi að hætti spaugstofunnar.

 

Þetta er svo sem engum að kenna, heldur er þetta afleiðing af fámenninu og heimóttarskap okkar allra.  Þetta lýsir sér m.a. í því að hér eru kosningar nánast skrípaleikur, því við höfum gefið leyfi til að hér starfi einungis fjórir stjórnmálaflokkar, flokkar sem sitja á gömlum merg, eða nýtt vín á gömlum belgjum.  Okkur dettur ekki í hug að breyta til þó allir fjórir flokkarnir hafi einangrast og eru nánast úr öllum takti við þjóðina.  Það má ekki breyta út af þessu hvað sem tautar og raular.  Þó ný framboð komi og reyni að breyta, þá leggst allt á eitt að rífa niður og liggja yfir hverju smáatriði til að sundra og drepa niður.  Fólkið sem kom inn fullt af hugsjónum og góðum áætlunum um að gera góða hluti er úthrópað sem tækifærissinnar og fábjánar eða ég veit ekki hvað.  Við tökum Lúkasinn á hvert nýtt framboð sem vogar sér að storka fjórflokknum.

 

Og það merkilega er að þetta sama fólk er hundóánægt með ástandið og traust almennings virðist vera ansi lítið á stjórnmálamönnum.  Og  þá hugsa ég, hvað er hægt að gera í málinu. 

 

Ef fólk virkilega vill breytingar, verður það að gefa öðrum tækifæri, gefa þessum fjórum flokkum frí, og þora að taka slaginn með öðrum framboðum.   Í mínum huga er ofarlega bæði Frjálslyndi flokkurinn, þar sem ég var innanbúðar og veit að flestir þar vildu virkilega breyta áherslum.  Og það sést í dag að allt sem við töluðum um hefur annað hvort orðið ljóst að þurfti, eða stjórnvöld hafa tekið það upp á sína arma vegna þess að það var rétta leiðin.   Og síðan Borgarahreyfingin sem var af sama meiði, fólk sem vildi leggja sitt af mörkum til að bæta ástandið.   Fólk gerir það sér til dundurs að kalla þessa flokka og fólkið sem þar er innanbúðar allskonar nöfnum,  eins og krakkar í sandkassa,  einn er fitubolla annar dvergur. 

 

Meðan við komumst ekki upp úr þessum sandkassa breytist ekki neitt.  Meðan við samþykkjum allt og verjum sem OKKAR FLOKKUR gerir ekki af því að okkur líkar endilega það sem þeir gera, heldur bara af því að þetta er mín klíka.  Þá er enginn hvati til að breyta neinu.   Menn ganga að því vísu að EIGA svo og svo mikið fylgi, og geta raðað sínum mönnum upp í goggunarröð samkvæmt því, og lofað öðrum feitum bitum til að halda þeim góðum.

 

Nú þegar fólk kallar á nýtt Ísland, og krefst : Heiðarleika, virðingar og sanngirni, þá verðum við að skilja það, að það fæst aldrei fram nema við tökum málin í okkar hendur og  þorum að treysta nýjum einstaklingum fyrir fjöregginu.  Við verðum að losna af þessum fjórflokkapólitíska klafa.   Ég er ekki að segja að forystumennirnir séu ekki gott fólk, en vald spillir, og þegar menn gera sér grein fyrir að þeir þurfa ekkert að vanda sig, og það er nánast sama hvernig þeir haga sér, þjóðin nöldrar bara út í horni og að svo er það búið, þá er ekki von til að þeir fari að leggja á sig að gera betur.  Þetta er bara hrákaldur sannleikur.

 

Það var augnablik sem þessir herrar skulfu, og það var þegar búsáhaldabyltingin stóð sem hæst.  Þá urðu þeir virkilega hræddir, en bara augnablik.  Því alveg eins og þeir vonuðu, þá var þetta bara enn ein bólan.  Fólk hætti að nenna að mæta, bara örfáir einstaklingar sem virðast vera vakandi og hrópa ennþá í eyðimörkinni.  Hinir hafa sofnað aftur svefninum langa.

 

Ekki af því að ástandið sé orðið betra, og ekki af því að stjórnmálamennirnir hafi tekið sig á, og ekki heldur af því að það sjáist nein merki um iðrun eða sjálfsásökun þeirra um hvað þeir gerðu rangt.  Nei þetta versnar ef eitthvað er.

 

Eitt er líka og það er fréttaflutningur, sem er með ólíkindum.  Það virðist enginn blaðamaður þora eða mega rannsaka eitt eða neitt.  Það er bara vasast í smáatriðum og talað um það sem „má“  ef einhver reynir að opna á einhver mál, þá rísa sérhagsmunagæðingarnir upp til handa og fóta og þessi skal burt.  Við viljum ekki að fólk fari að hugsa um annað en það sem við viljum mata þau á.  Það gengur ekki.  Þau gætu farið að rísa upp og breyta þessum hlutfjöllum.   Eins og í frönsku byltingunni. 

 

Ég hef líka velt því fyrir mér hvernig útrásarliðinu líður á sálinni.  Að vísu eru þeir verndaðir í bak og fyrir sumir af einni klíkunni, aðrir af hinni.  Og grátkórar kyrja á víxl um óréttlæti yfir  því af hverju þeirra maður fær á baukinn þegar hinir eru miklu verri.  Og almenningur kyrjar með.   Þá hlýtur það samt að svíða í sálinni að vera orðin ómerkingur og óbótamaður í eigin landi.  Jafnvel þó menn geti sprangað um í útlöndum með öðrum auðkýfingum og þóst menn með mönnum.   Þá vita þeir að ef þeir ætla að nálgast það sem þeir hafa sölsað undir sig hér heima, verða þeir fyrir allskonar aðkasti og leiðindum af afbrýðisömum almenningi, sem auðvitað eiga bara að þegja og þrauka og borga skuldirnar.

 

Ætli þeim líði hótinu betur en þeim sem hefur misst allt sitt vegna útrásarinnar, á einn veginn eða annan? Eini munurinn er sá að þeir hafa það val að skammast sín og koma til baka með ránsfenginn og biðjast afsökunar.  Það er nokkuð ljóst að almenningur sem er almennt séð afskaplega undirgefinn og auðmjúkur þegar valdamenn og auðkýfingar eiga í hlut, munu strax fyrirgefa þeim og bugta sig og beygja í auðmýkt og undirgefni. 

 

Víkingar hvað!

 

Nei þetta er auðvitað orðið ansi langur pistill sem enginn nennir að lesa.  En það er ágætt að setja þetta svona á blað, það hverfur þá ef til vill úr undirmeðvitundinni, því ég satt að segja hef miklar áhyggjur af ástandinu og ekki síst af því að við erum svona þröngsýn og ég geri mér grein fyrir að ástandið mun ekki breytast.  Því fyrr frís í helvíti en fólk hættir að kjósa flokkinn SINN og verja SÍNA MENN, af því þeir eru í sömu klíkunni, heldur en að fólk fylki sér til nýrra afla sem vilja vinna þjóðinni vel.  

 

Og þetta er sama fólkið og er alveg til í að færa einhverjum lokuðum klúbbi fyrirtæki annars á silfurfati, bara af því hann er svo ömurlegur.   Án þess að vilja fá að vita hver hinn aðilinn er, og hvort hann er ekki alveg jafn sökóttur og slæmur. 

 

Hvenær ætlum við að komast upp úr þessu hjólfari?  Eða viljum við ef til vill engar breytingar?  Við höfum nú haft tækifæri til þess í tíu ár að refsa fjórflokknum, sem er hver um sig jafnsekur um ástandið sem er hér í dag.  En við höfum ekki þorað því, og hætt og smánað það fólk sem hefur viljað ganga fram fyrir skjöldu og breyta.   Það þarf nefnilega ekki nema að byrja á kviksögum, þær byrja venjulega í afkimum núverandi flokka, af því að menn eru ennþá dálítið smeykir um að missa stólinn sinn, og við tökum Lúkasinn á það og æpum og skrækjum eins og vitleysingar tökum undir og flytjum söguna áfram.   Og svo endar það með því að enginn, ekki nokkur maður hefur minnstu löngun til að reyna að bjóða sig fram til að laga ástandið.   Til hvers að leggja persónu sína í flórinn bara fyrir hugsjónina um að bæta ástandið?  Þakkirnar sem fólkið fær er bara skítkast.  

 

Ég segi það alveg satt, þetta er ósköp andstyggileg skrif, og eflaust les enginn alveg niður að þessum orðum, fyrr en við tökum til í okkar eigin ranni, og tökum leppana frá augunum, reynum að horfa allra átta og láta skynsemina ráða, gerist nákvæmlega ekki neitt.  Ekkert nýtt Ísland, enginn ný hugsun,  engin upprisa lýðræðis.  Og við getum bara sjálfum okkur um kennt.  

 Þannig er nú það. 

imagesCAKLHNR5

Og eitt að lokum svona dagsins í dag.  Sum okkar ætla svo að leggja nafnið sitt við að taka á sig ábyrgðina á skuldum þessara auðmanna með því að játast undir ríkisábyrgð á skuldum þeirra, svo þeir geti haldið áfram sigri hrósandi.  Hverslags vitfyrring er það?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðrún Emilía Guðnadóttir

Ég las þetta niður í grunn og líkaði vel, því satt er þetta besta mín.

En hvert ertu að fara snúllan mín, þú lætur okkur vita.

Kærleik í kúlu

Guðrún Emilía Guðnadóttir, 17.3.2011 kl. 11:59

2 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Milla mín ég er ekki að fara neitt, er búin að segja upp vinnunni og ætla að snúa mér að garðplöntustöðínni minni alfarið.  Er orði dálítið leið eftir 30 ára starf, og vill bara njóta mín betur svona í restina meðan ég hef ennþá krafta og heilsu.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 17.3.2011 kl. 12:20

3 Smámynd: Guðrún Emilía Guðnadóttir

Gott hjá þér elskuleg, maður á að hlusta á hjarta sitt

Guðrún Emilía Guðnadóttir, 17.3.2011 kl. 12:23

4 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Já einmitt Milla mín.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 17.3.2011 kl. 12:33

5 identicon

Veistu, Ásthildur.

Ég er farin að halda að þetta Nýja Ísland, sé bara til að þjóðin hugsi um eitthvað sem enginn kemur til með að framkvæma. þetta fólk er þá ekki með neitt nöldur á meðan og fækkar í nöldurhópnum. Hvar er núna búsáhaldabyltingin. Var það þetta ástand sem þau stefndu að. Það finnst mér einkennilegt.

en kannski er búið að draga allar vígtennur út öllum sem höfðu kjark til að berjast fyrir sínu. Ég hef ekki fyrir neinu að berjast, nema halda íbúðinni minni og það get ég ekki gert niður á Austurvelli svona ein og sér.

Yngsti sonur minn sem hefur verið Garðykjustjóri á akranesi tók uppá því í haust að segja upp vinnunni og gerast sjálfstæður atvinnurekandi.

Mamma auðvitað á taugum en þau hjónakornin bara brött og hlakka til að takast á við ný verkefni.

Sigrún Jóna (IP-tala skráð) 17.3.2011 kl. 12:50

6 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Þetta var ekki það sem ég vildi með búsáhaldabyltingunni.  Og já ég held að það sé búið að drepa ansi mikið niður í fólki, flestir eiga bara nóg með að lifa og basla við að halda því sem það ennþá hefur.  Þetta er nú Norræna velferðarstjórnin í hnotskurn. 

En hvað son þinn varðar, þá er alltaf virðist vera nóg að gera í garðyrkju, sérstaklega ef hann er góður að umgangast fólk, margt gamalt fólk sem þarf á aðstoð að halda með garðana sína og þeir sem eiga nóg af peningum og vilja hafa allt fínt og flott. Svo eru alltaf einhverjir sem þurfa að láta gera þetta og hitt.  Allavega hefur minn maður haft nóg að gera í garðyrkju hér, nú bresta á klippingar.  Ég er viss um að hann hefur verið búin að fá nóg af sínum samskiptum við yfirmenn, það er svona svipað og hér.  Það á að gera allt en ekkert má kosta.  Það er hugsunarhátturinn, sýnir bara að drengurinn er ákveðin og tekur málin í sínar hendur. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 17.3.2011 kl. 13:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Höfundur

Ásthildur Cesil Þórðardóttir
Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Tónlistarspilari

Ásthildur Cesil - Dagdraumar
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • 2f19c636fb68b249555c5fa250d3e103--russian-image-jellyfish
  • engill-angel
  • jolatre
  • 20171002 121526
  • gasometers-vienna-7[5]

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 20
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 18
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband