Hugleiðing inn í nóttina og ferðalagið mitt.

Vorið er eiginlega komið hér í Austurríki, bændur eru að plægja akrana og allstaðar má sjá einyrkjana vinna á sínum ökrum, það eru ávaxtatré, eða grænmetis og ávaxta akrar eins og jarðaberja og paprikuakrar.  Ávaxtatrén eru að byrja að bruma, fuglarnir syngja sinn vorsöng, spætan heyrist með bor í nefi og íkornar skjótast milli trjáa.  Hitinn hér hefur verið um 17° yfir daginn og þó frjósi á nóttunni, þá lifnar allt við að morgni, þegar sólin nær að bræða allt. 

Og nú er ég farin að huga að heimferð.  Hlutverki mínu lokið hér í bili.  Kvaddi hestana í morgun, ég finn að þeir eru farnir að þekkja mig og vilja vinna með mér.  Þeir reka snoppuna til mín og leggja hausinn að mér, þegar ég set á þá beislið og gjörðina til að fara að vinna, þeir eru fúsir að gera æfingarnar sínar og  vita að á eftir fá þeir brauð og fóðurbætir og síðan að fara út í sólina með hey og vatn.  Fullkomið samband milli dýrs og manns.

Við Bára mín höfum farið saman í hesthúsið eftir að hún lauk prófunum sínum, við vöknum vekjum litlu ungana okkar og gefum þeim að borða, klæðum og greiðum og svo förum við niður í skóla og leikskóla með þær svo er haldið í hesthúsið, eftir að Bára mín bættist í hópinn, getum við aðeins slakað á, fengið okkur kaffisopa og rabbað við Sabínu sem á hofið, og aðrar áhugaverðar manneskjur sem hér eru á stjákli. 

En sem sagt nú skiptir um, ég fer í flug um hádegið á morgun og flýg fyrst til Kaupmannahafnar, þar sem systir mín sem þar býr mun koma út á flugvöll, þar sem ég stoppa nokkra klukkutíma svo við höfum tækifæri til að spjalla, síðan flýg ég til Oslóar þar mun ég hitta allavega yngsta soninn og fjölskylduna hans.  Svo er vetrarríkið Ísland eftir helgina.

Myndirnar bíða betri tíma, og annað slíkt.  En ég vil benda fólki sem er í nágrenni við Vín að fara og kíkja á sýninguna hennar Ericu Jóhannsson hún er afar flott og fjölbreytileg. Það má kíkja á hana hér, ég er líka með myndir sem ég ætla að setja hér inn seinna. 

http://www.leolab.at/folder/

 

En svona er lífið, það er að koma og fara.  Hingað til hefur mér alltaf þótt erfitt að kveðja og fara, ég held samt núna að ég hafi fengið ótrúlega hjálp hjá vini mínum Samúel, hjálp sem ég er ákveðin í að vinna úr.  Og mér finnst ég vera svo frjáls einhvernveginn á ótrúlegan hátt.  Mér finnst eins og allar dyr hafi opnast, og ég sé sjálfa mig gera nákvæmlega það sem ég þarf að gera fyrir mig.  Það er ekki þar með sagt að ég ætli bara að hugsa um sjálfa mig.  Gleðin er einmitt í því fólgin að gera eitthvað fyrir þá sem maður elskar, og með því að gleyma ekki sjálfum sér verður ánægjan af því að gera ástvinum sínum gott ennþá betri þegar maður tekur sjálfa sig inn í myndina. 

Ég veit að ég mun sakna þessara litlu fiðrilda sem ég þekki svo ótrúlega vel, samt veit ég að mín bíður að takast á við annað, sjálfa mig og ástvini mína annarsstaðar.  Og þó maður sakni einhverra þá er alltaf þessi nýja ákvörðun og tilfinningin um að næsti áfangi bíði handan við hornið.  Áfangi sem gaman er að takast á við og vinna úr.  Ég er afskaplega ánægð með dvölina mína hér, og þakklát mínu fólki hér, sem ég hef lært mikið af og átt góða daga hjá.  Ég er líka svo glöð að hafa getað verið dóttir minni stuðningur við það sem hún er að gera.  Reyndar vona ég að ég geti verið öllum mínum börnum stoð og stytta á einhvern hátt.

Þegar krýsur koma og maður á ekki mikið milli handa af fé, skilur maður hve litlu máli skipta peningar.  Það er auðvitað gott að eiga fyrir salti í grautinn og það er líka gott að vera svo rúmur á því að geta sparað til að heimsækja börnin sín.  En þegar aurana skortir, þá tekur við það sem næst manni er, fjölskyldan, vinirnir og allt sem er í kring um það.  Kærleikurinn og þörfin á að standa saman og vinna saman að því sem máli skiptir.  ég held satt að segja að við eigum að vorkenna útrásarvíkingum því þeir komast ekki nálægt því að upplifa þessa innri gleði, umhyggju og kærleika.  Því þeir þurfa að kaupa þetta allt, ekki bara frá öðrum í busines heldur líka frá sínum nánustu.  Allskonar væntingar eru gerðar til þeirra um að gera þetta og hitt, og þó þeir hafi auðvitað efni á slíku, þá er alveg viðbúið að þeir tími því ekki, því græðgin er nú einu sinni þannig að hún ríður ekki við einteyming og í því tilfelli er máltækið gott Æ sér gjöf til gjalda. 

Þetta er orðið alltof langt en bráðum verð ég ekki í sambandi lengur í einhvern tíma, og það er svo margt sem mig langar til að sýna ykkur, en það kemur smátt og smátt.  Núna er ég bara á kafi í að sinna fólkinu mínu hér og upplifa kveðjustundina með þeim. 

En afsakið allt þetta, það er bara svoleiðis að þetta kom, á morgun verður nýr dagur með nýja áfanga og nýjar áherslur.

Knús á ykkur öll inn í nóttina. Heart 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Erla Magna Alexandersdóttir

Þú ert ritfær kona og auðvitað heldurðu þessum pistlum saman þeir eru frábær  SAGA LÍFS ÞÍNS.

 rAUNAR ER EG ef eg nenni að titla mig eitthvað  rithöfundur   endalaust- búin að gefa út bók- skrifa fyrir útvarp og blöð- fyrir löngu

  og veit hvað þú mikill rithöfundur.

 Notaðu það !

 kv.  erla magna spámiðill

Erla Magna Alexandersdóttir, 9.2.2011 kl. 21:42

2 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk fyrir þessi orð Erla mín spámiðill Ég reyni að halda til haga því sem ég skrifa, en það er bara plenty meira þarna inni sem vill komast út og tjá sig.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 9.2.2011 kl. 21:48

3 Smámynd: Dagný

Það er erfitt að kveðja þegar maður veit ekki hvenær unnt verður að hittast næst. Eigðu góða heimför kæra mín og gleðilega heimkomu

Dagný, 9.2.2011 kl. 23:47

4 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Ég óska þér góðrar ferðar... 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 10.2.2011 kl. 00:38

5 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

  Ég sagðist ætla að líta inn til þín,rétt áðan á mínu bloggi. Já  virkilega óska þér góðar heimferðar, síðan verður spennandi að sjá allar myndir þínar.....

Helga Kristjánsdóttir, 10.2.2011 kl. 01:11

6 identicon

Góða ferð heim dúllan mín, sjáumst.

Dísa (IP-tala skráð) 10.2.2011 kl. 09:48

7 Smámynd: Sóldís Fjóla Karlsdóttir

Það er erfitt að kveðja.... góða ferð hvert sem þú stefnir. 

Sóldís Fjóla Karlsdóttir, 10.2.2011 kl. 13:06

8 identicon

Kærar þakkir fyrir frábært blogg.  Þú hefur áreiðanlega glatt marga fleiri en mig með notalega mannbætandi spjallinu þínu. Ekki skemma allar skemmtilegu myndirnar  af prinsessum, ferðamyndum og öllum dýrunum sem eru í kring um þig.  Ég vona að þú eigir gott ferðalag framundan. Óska þér og þínum alls góðs.

Margrét Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 10.2.2011 kl. 14:48

9 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk er komin til Noregs, flaug í dag. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 10.2.2011 kl. 21:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Höfundur

Ásthildur Cesil Þórðardóttir
Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Tónlistarspilari

Ásthildur Cesil - Dagdraumar
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • 2f19c636fb68b249555c5fa250d3e103--russian-image-jellyfish
  • engill-angel
  • jolatre
  • 20171002 121526
  • gasometers-vienna-7[5]

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 30
  • Frá upphafi: 2022162

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 26
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband