Þurfum við (þjóðin) ekki bara utanaðkomandi hjálp?

Ein af þeim rökum sem ég heyri oft þegar rætt er um ESB eru þau að það sé betra að hafa erlent yfirvald, heldur en spillingaröflin hér heima.   Það minnki spillinguna og ...... hvað svo?? ég heyri svo aldrei neitt lengra.  Það er bara svoleiðis.  Ef við losum okkur við íslensk yfirvöld og göngum Evrópusambandinu á hönd þá verður allt svo gott og blessar, spillingarlaust.

En ég hef reyndar heyrt að sú spilling sem hér þrífst svo vel, sé bara stormur í vatnsglasi miðað við spillinguna innan efstu laga ESBstjórnarinnar.  Það er nefnilega engin trygging fyrir því að við munum hafa það betra ef einhverjir utanaðkomandi fari að sjá um okkar mál. 

Það sést til dæmis vel núna í Grikklandi, en ég hef líka horft til Írlands, Spánar, Litháen og annara landa sem eiga í erfiðleikum.  Það hvarflar ekki að stjórn Evrópusambandsins að arða upp á smáríkin ef þau eiga í erfiðleikum.  ESB getur ekki haft gott af þeim, til dæmis sýnilega í Grikklandi fá svona nýja og óþreytta þræla til að halda uppi neyslu þeirra sjálfra.

Það er alltaf þessi lenska að ágirnast allt það sem utanað kemur.  Það er sagt að slíkt "ástand" sé tilkomið af því að við séum einangruð og fámenn.   Það má alveg rétt vera.  Mér finnst það líka beinlínis hlægilegt þegar ég heyri fólk halda því fram í alvöru að við séum of fá til að vera þjóð.  Höfum við ekki endst hér í þúsund ár?  Sem þjóð, stundum að vísu undir annara valdi, en síðan 1944 verið sjálfstæð þjóð, meðal þjóða. 

Við eigum ennþá okkar eigin tungu og krónuna.  Sumir segja að hún hafi bjargað okkur í hruninu.  Ég held líka að krónan sé ekki vandamálið heldur fíflagangur þeirra sem áttu að varðveita hana og það sem hún stóð fyrir.  Og ekki síst allar auðlindirnar, vatnið, víðernin, sjávarauðlindina og önnur hrein matvæli og ég veit ekki hvað

Það er dapurlegt að lesa um og heyra um allt svindlið og svínaríið sem ennþá viðgengst hér á landi með bankafólkið sem er ennþá á ofurlaunum, fólkið sem jafnvel var þátttakendur og vinir þeirra sem ollu hruninu, vinnandi að því að skammta aftur vinum og vandamönnum bitastæð fyrirtæki.  Og nýta sér eigin fyrirtæki til að vinna fyrir sig og bæði skrifa og kvitta undir reikninga.  Á meðan gengið er hart fram í að bjóða húsin ofan af þeim sem sitja í súpunni.

Dapurlegast af öllu er þó að horfa framan í smettið á viðskiptaráðherra, sem segir að þetta bara eigi að vera svona.  Þau ætli ekki að fara að skipta sér af launagreiðslum eða fyrirkomulagi bankageirans.  Eða forsætisráðherra sem kvartar og kveinar, en virðist ekki sjá að það er hún sjálf sem þarf að setja hnefa í borð. 

Og ég spyr, ef þau geta ekkert gert eða skipt sér af, hver borgar þessu fólki ofurlaunin?  Ef ég greiði fólki laun, lít ég svo á að það sé í vinnu hjá mér.  Ef mér líkar ekki vinnubrögðin, þá annað hvort gef ég fólki tækifæri til að bæta sig, eða læt það fara, og ræð nýtt fólk sem ræður við það sem því er ætlað að gera.

Ég er auðvitað bara einföld manneskja eins og barnið í sögunni um Keisarann nakta; en ég spyr hvaðan fær þetta fólk peningana sína.  Eru þetta peningarnir sem áttu að fara í heilbrigðiskerfið, eða samfélagshjálpina?  Eða að lækka skuldir heimilanna?  Fleiri milljónir á mánuði er ekkert smáræði í árferði sem þessu.  Og ég get sagt bæði Jóhönnu, Steingrími og Gylfa að þetta misbýður gjörsamlega minni réttlætis- og siðferðiskennd.  Og ég heyri og sé allstaðar að ég er ekki ein um það.

Ég bæði heyri og sé líka að fólk hugsar sama og ég með ráðaleysi og framtaksleysi ríkisstjórnarinnar, og hvernig hún velkist fram og til baka í rótinu og tekur aldrei á neinum málum. Gott dæmi er Icesave og sá glæsilegi samningur sem fjármálaráðherran var svo glaður með, að það mátti ekki hrófla við honum.  Þessum óskapnaði var svo þröngvað gegnum þingið gegn vilja þjóðarinnar, og sem betur fer þá gerði forsetinn það sem fæstir bjuggust við.   Hann neitaði að skrifa undir.  Hann er maður sem hefur sambönd víða, og hefur eflaust aflað sér upplýsinga um hversu arfavitlaust þetta var allt saman.   Eins og margir aðrir hafa sagt okkur síðar, fólk sem veit og þekkir til, Eva Joly og margir fleiri. 

Þá er brugðið á það ráð að leita uppi fólk sem er nógu forhert til að reyna að koma umræðunni í þann farveg að við verðum að greiða, og getum það alveg.  Og svo vælir þetta fólk og er undrandi á því að við tökum ekki fagnandi þessum rökum þeirra um að við getum avleg tekið á okkur, börn og barnabörn skuldaklafana.   Og ég hugsa af hverju?  Er erfitt að horfast í augu við að gera mistök, þannig að þau skulu troðin ofan í kokið á okkur, með góðu eða illu.  Nú er búið að setja upp samninganefnd til að sækja málið ennfrekar.  Og strax heyrist að það sé ýmsu hægt að breyta, og hnika til.  Svo ekki var það nú alveg rétt Steingrímur að þetta væri það besta sem var í boði. 

Rétt eins og inngöngubeiðnin í ESB átti að gera allt gott og opna allar lánalínur, ekki gekk það eftir Jóhanna.  Þannig hafið þið hrakist til og frá orðið uppvís að lygi til að koma ykkar hugðarmálum fram, eða fela bjálfaganginn í ykkur þetta er mitt presónulega mat.

Nú síðast þegar forsætisráherran fór til Brussel til að flýta ferlinu um inngöngu í ESB, þvert ofan í vilja meirihluta þjóðarinnnar og nú líka fyrirtækja í landinu.

Hvað er að ykkur?  Eru stólarnir svona mjúkir og hlýir, að þið viljið kosta öllu til að sitja sem fastast.  Ég veit að fólkið í landinu vill heldur ekki sjá Sjálfstæðisflokk eða Framsókn við völd heldur.  Við erum nefnilega búin að komast að því að fjórflokkurinn er allur jafn rotinn og spilltur.   Það eru samt ennþá sauðir sem fylgja forystufénu alveg fram af bjargbrúninni. 

En gerjunin er byrjuð, hún er reyndar farin að ólga, og það er bara spurning um hvenær við tökum okkur saman og heimtum utanþingsstjórn.  Heimtum að forsetinn leysi upp ríkisstjórnina og setji á neyðarstjórn til að bjarga því sem bjargað verður.  Því þið getið það greinilega ekki.  Félagsmálaráðherran segir það sé bara gott að fólk flýji land.  Færri eftir til að greiða bætur sennilega.  En þá eru líka færri hendur til að borga álögurnar sem þið hafið sett á okkur hin sem eftir erum. 

Ef fólk fer ekki að vakna og koma sér niður á Austurvöll til að sýna vilja sinn í verki þá er þessari þjóð ekki viðbjargandi.  Ef til vill þurfum við hjálp erlendis frá.  Þá á ég við að þjóðirnar í kring um okkur sjái hversu mikill vandræðagangurinn er og neiti að skipta við fólkið í forystunni, krefjist nýrra aðila til að taka á vandanum.  Það er svo sem að byrja, því nú vilja bretar fá að skoða myndina hans Gunnars Sigurðssonar Maybe I should have.   Ætli það sé byrjunin á því að þær þjóðir sem okkur standa næst vilji fara að opna box pandóru og skoða hvað er þar inní?  Vilji vita hvort spillingin sé svona mikil að jafnvel forystumönnum ríkisstjórnarinnar sé ekki treystandi til að taka á málunum, og allt sé að fara í sama farið, sömu öflin að hirða allt sem hægt er að hirða á brunaútsölu.  Til hvers ætti þá að fara að lána okkur pening, til að þeir fái betra start? 

Fer þetta ekki að verða komið nóg.  Og eitt er einkennilegt það er af hverju er endalaust verið að fresta útkomu skýrslunnar sem öll þjóðin er að bíða eftir?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Eyjólfur G Svavarsson

Ásthildur, knús fyrir þetta. Greinarnar þínar eru hver annari betri, nú þarft þú að fara að búa þig undir að fara að stofna flokk framfara og réttlætis, og safna saman trúverðugu fólki, fólki sem hugsar ekki bara um endan á sjálfu sér bara hella sér út í þetta. kv.Bláskjár.

Eyjólfur G Svavarsson, 18.2.2010 kl. 11:44

2 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk fyrir hrósið Eyjólfur.  Ég er upp með mér af því.  Málið er að ég er orðin gömul og þrotin kröftum.  Annars myndi ég ekki hika.

En mér dettur í hug saga, sem ég heyrði einhverntíman þegar ég hugsa um ástandið hér núna.  Mann hana ekki frá orði til orðs en inntakið er svona.

Maður lenti í flóðbylgju, hann komst upp á þak hússins síns og ákallaði Guð um aðstoð. 

Nokkru síðar kom bátur siglandi fram hjá, fólkið veifaði til hans og sagði að það væri pláss fyrir hann í bátnum. 

Nei takk svaraði maðurinn´Guð mun hjálpa mér.

Svo komu menn á fleka siglandi fram hjá, þeir buðu honum far, en hann neitaði, sagði að Guð myndi hjálpa sér.

að lokum flaut stórt og mikið tré framhjá.  En maðurinn hugsaði bara um Guð og leit í aðra átt. 

Hann drukknaði svo þegar vatnið fór yfir þakið.  Undrandi kom hann til Guðs og sagði; hvað gerðist eiginlega?  Ég hef alltaf verið Guðhræddur maður og gert allt rétt í lífinu, hvers vegna bjargaðir þú mér ekki?

Þá sagði Guð; ég gerði þrjár tilraunir til að bjarga þér, fyrst sendi ég þér bát, þvínæst fleka og síðast tré.  En þú hunsaðir allar mínar bjargir og því fór sem fór.

Erum við ekki dálítið á þessum stað núna.   Það finnst mér einhvernveginn. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 18.2.2010 kl. 12:38

3 identicon

Ragna Birgisdóttir (IP-tala skráð) 18.2.2010 kl. 12:43

4 Smámynd: Jóhann Elíasson

Það er nefnilega málið að við sitjum uppi með SÖMU spillingaröflin þótt það verði gengið í ESB þannig að þau rök eiga ENGAN VEGIN VIÐ það kann aldrei góðri lukku að stýra þegar MARGIR ætla að fara að stjórna...

Jóhann Elíasson, 18.2.2010 kl. 12:47

5 Smámynd: Davíð Þ. Löve

Alveg hárrétt hjá þér. Getuleysið er algjört. Hvernig getur t.d. staðið á því að lögfræðingamafían fær að að valsa um gjaldþrota bankastofnanir, stofna  fyrirtæki sérstaklega svo hægt sé að moka til sín meiru fjármagni? Ætlar enginn að taka á þessu ráni um hábjartann dag? "Öll þurfum við að fórna" var básúnað um víðann völl eftir hrunið. Er þessi mafía undanskilin? Mér verður óglatt þegar ég fylgist með þessum hræ ætum naga síðustu leifarnar af beinum þessara fyrirtækja. Þau fórna engu og lifa áfram í sínum lokaða heimi lúxusbifreiða og heimila. Þau hafa slitið sig frá þessari þjóð og telja sig yfir okkur hafin.

Davíð Þ. Löve, 18.2.2010 kl. 12:48

6 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Það sem ég átti við með sögunni hér að framan er að við verðum að átta okkur á því að það gerist ekki neitt fyrr en við sjálf tökum okkur saman og krefjumst þess að hér verði komið á utanþingsstjórn/neyðarstjórn.  Því miður verður að segjast eins og er, að það er ekki hægt að hjálpa okkur fyrr en við losum okkur við spillinguna. 

Við erum nánast eins og stríðshrjáð land eða hamfarasvæði, þar sem ekki er hægt að koma inn með björgunaraðstoð og hjálpargögn, því rétt eins og gerist mjög víða annað hvort gleypa stjórnvöld eða glæpamenn hjálpargögnin og selja til að græða meira.  Ljótt að segja, en ef til dæmis Norðmenn vildu leggja okkur lið og lána okkur fé; hvert færi það fé? jú til að byggja upp bankana ekki satt.  Og hverjir sitja þar með milljónir á mánuði og deila og drottna.  Það er alveg víst að slíkt fé myndi aldrei skila sér til jóns og gunnu. Þetta er þyngra en tárum taki.

Þess vegna verðum við að sýna samtakamátt og krefjast neyðarstjórnar sem tekur á spillingunni, setur upp skjaldborgina, setur virkan ramma um bankana, siðvæðir viðskiptalífið og frystir eignir þeirra sem grunaðir eru um þjófnað eða misferli.   þetta eru stór orð, en eru þau langt frá sannleikanum?

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 18.2.2010 kl. 14:25

7 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

  Sæl!!  Tökum flekann. Bestu kveðjur vestur

Helga Kristjánsdóttir, 18.2.2010 kl. 15:25

8 Smámynd: Eyjólfur G Svavarsson

EINGIN ER ELDRI EN HONUM FINNST

Eyjólfur G Svavarsson, 18.2.2010 kl. 22:34

9 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Hehe Eyjólfur satt er það.  Það er líka gott að vita hvenær maður er orðin of gamall til að standa í stríðinu.  Ég get rifið kjaft, það ætla ég mér að gera áfram.  Svo þarf fótgönguliða til að ganga fram og berjast.  Takk samt.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 19.2.2010 kl. 19:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Höfundur

Ásthildur Cesil Þórðardóttir
Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Tónlistarspilari

Ásthildur Cesil - Dagdraumar
Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • 2f19c636fb68b249555c5fa250d3e103--russian-image-jellyfish
  • engill-angel
  • jolatre
  • 20171002 121526
  • gasometers-vienna-7[5]

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 33
  • Frá upphafi: 2022943

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 30
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband