Að pakka niður.

Ég ætti fyrir löngu að vera byrjuð að pakka niður dótinu telpnanna minna.  Málið er að ég hef byrjað á því þrisvar og í öll skiptin fengið svo sárt fyrir brjóstið að ég hef ekki getað byrjað.  Þó er ég búin að þvo af þeim það mesta og setja í haug.  Það er bara svo fjandi erfitt að pakka niður kjólunum, púslunum, bókunum og því sem tilheyrir þeim.  Vitandi ekki hvenær ég sé þær aftur.  Það er ótrúlega sárt.  Og það sem verra er ég get ekkert annað en látist vera glöð og samgleðjast þeim að vera að fara til pabba og mömmu.  Því auðvitað er það það besta, og þær hlakka til.  Þó þær skilji ekki alveg að með því þarf að yfirgefa kúluna og hænurnar ballettin, sundtímana og allt sem fylgir.  Og svo er mamma auðvitað að fylgjast með og verður sorgmædd að vita af mömmu sinni í sárum.  Því hún veit betur en nokkur annar hve sárt það er.  Þar sem hún hefur nú gengið í gegnum það allt saman s.l. tvö ár. 

Ég segi samt sem áður, ég myndi gera þetta allt saman aftur, ekki bara af því að þær eru svo yndislegar, heldur líka af því að ég elska barnið mitt svo mikið.  Hún á skilið að fá tækifæri til að ljúka sínu námi og verða það sem hana hefur alltaf dreymt um, dýralæknir.

Þetta er satt að segja að fara með mig.  Síðasti balletttíminn, síðasti sundtíminn, síðustu dagar í leikskólanum, það á að gera eitthvað skemmtilegt fyrir þær þann dag í leikskólanum.  Síðan ferðin suður og svo fara þær til mömmu sinnar með pabba sínum. 

Þá byrjar nýr kafli í mínu lífi.  Ég veit að þetta verður erfitt í fyrstu, en það er ekkert eðlilegra en að börn séu hjá foreldrum sínum, og ég ætti og reyndar geri það að gleðjast með litlu fjölskyldunni að sameinast.

Hanna Sól sagði við Isobel í dag á leiðinni í ballettinn.  Sko, ég bý á Ísafirði, pabbi í Reykjavík og mamma í Vín.

Í gær sagði Ásthildur á leið heim úr leikskólanum; amma ég ætla að veiða fisk fyrir þig. Ég ætla að veiða fisk fyrir þig, afa og mig.  Ég ætla að veiða hann í sjónum.  Ekki veit ég hvað kom henni til að hugsa svona.  En þessi litlu atriði verða einhvernveginn svo stór allt í einu.

IMG_0683

Þær fengu aðeins að koma með ömmu í vinnuna um daginn, það var rosa spennandi.

IMG_0687

Brandur er hættur að vera í fýlu og búin að taka fjölskylduna í sátt.  Hann er nú reyndar að siða litla dýrið til.  Stelpurnar gera sér ekki alveg grein fyrir að Snúður fer ekki með þeim.  En auðvitað bíður Trölli stóri bróðir þeirra í Vín.

IMG_0693

Ég er búin að ákveða að leyfa þeim að hjálpa mér að pakka niður kjólum og dóti, það verður sennilega auðveldara fyrir okkur allar.  En ekki fyrr en eftir veisluna á morgun.  Þá ætla ég að halda stelpupartý fyrir nánustu vinkonur Hönnu Sólar.

IMG_0695

Það er hluti af sportinu að klæða sig upp í prinsessukjóla.

IMG_0697

Og þeir eru svo sannarlega notaðir.

IMG_0699

Úlfur er ansi liðtækur stóri bróðir, hér er hann að greiða prinsessunni fyrir afmæli Ásthildar.

IMG_0700

Og við bökuðum auðvitað vöfflur með rjóma.

IMG_0704

Það er alltaf stutt í músikina hjá þeim, þær syngja algjörlega í réttum dúr og takti mörg lög, sum þeirra erfið.  En þær eru báðar svona líka klárar.

IMG_0706

Að vísu finnst Úlfi lítið til strumpanna koma, en hann dansar samt með þeim stuttu.

IMG_0730

Ennþá eru Skafti og Tinna hér, en í vor missi ég þau til Noregs.

IMG_0731

Vöfflurnar komnar á borðið og táningarnir tilbúnir.

IMG_0733

Og hún fékk m.a. kaffistell.

IMG_0745

Og börnin skemmta sér vel.

IMG_0757

Börn þurfa alltaf að fikta í kertum, það er bara þannig.

IMG_0758

Hér er verið að  leika með bollastell.

IMG_0760

Unglingarnir í tölvunni.

IMG_0771

Ég vona að barnabörnin mín nái að verða eins náin og börnin mín og þeirra systkinabörn, þó lönd skilji að í bili.  En ég vona bara að þau verði öll nálægt mér þegar hlutirnir fara að lagast.

IMG_0785

Og ég verð að trúa því að hlutirnir lagist, þó það þurfi að rippa upp samfélagið og reka mann og annan, þá skal svo verða sem ég heiti Ásthildur Cesil.

IMG_0789

Þau eru nefnilega hvert öðru yndislegra.

IMG_0776

Minnstu börnin á bænum.

IMG_0802

Hver segir að strákar geti ekki leikið sér í  mömmó?

IMG_0803

Meira að segja mestu litlu karlrembusvínin á þessu heimili.   Hehehehe.. Óðinn tilkynnti mér í dag, þegar við fórum að sækja langafa til að versla að hann ætlaði að verða hermaður, hann ætlar sko ekki í framhaldsskóla.  Hann er samt ekki viss hvort hann ætlar að fara í hermennsku í Noregi, Þýskalandi, Danmörku eða jafnvel Afríku.  Stóri frændi er nefnilega hermaður í Írak.

IMG_0798

Þó að prinsessurnar mínar og prinsessukjólarnir fari, þá verður samt eftir fatakistan hennar ömmu, þar sem gætir ýmissa grasa.

IMG_0684

Ísafjörður jafn þungbúin og sálin mín.

Ég er samt ákveðin í að byrja nýtt líf eftir að þessu lýkur.  Þá ætla ég að breyta um stíl og fara að hlú að sjálfri mér og Úlfi og Ella mínum.  Málið er að þó manni finnist hjartað vera að bresta og allt að hverfa, þá kemur alltaf eitthvað nýtt.  Við verðum alltaf að stefna fram á við og reyna að gera gott úr öllu.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Úff hvað ég skil þig elsku Ásthildur mín,  dóttir mín bjó hér með barnabörnin í sumar og eftir að þau voru farin fann ég einn skó af Mána mínum undir sófa og það var nóg til þess að ég fór að hágráta. Orka barnanna er svo sterk og það er svo tómt án þeirra.  En þau komu aftur í heimsókn í nóvember og voru þá hálfan mánuð og þá lifnaði heldur betur yfir mínu koti...  nú fylgist ég með þeim úr fjarska, tölum saman á "skype" og ég syng fyrir þau í gegnum tölvuna. Reynar nennir bara sú yngri að hlusta. Skype er ferlega sniðugt tæki fyrir ömmur, þó manni langi stundum að teygja sig inn í tölvuna og knúsa þau litlu.

En það er rétt hjá þér að það kemur alltaf eitthvað nýtt og maður er svo sannarlega manns gaman.

Jóhanna Magnúsdóttir, 26.1.2010 kl. 18:03

2 identicon

Knús og kærleukur frá mér. Kv Guðný

Guðný Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 26.1.2010 kl. 19:45

3 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Elsku vinkona, þetta er erfitt en ef einhver kemur út úr þessu með jákvæðni þá ert það þú, það er á hreinu   kærleikskveðja og þú mátt vita að þið eruð í huga mínum alla daga

Ásdís Sigurðardóttir, 26.1.2010 kl. 21:30

4 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

æjæjæj.... sárt að lesa, sárt að finna.

En þá segi ég eins og góður maður sagði eitt sinn við mig: Einnig þetta líður hjá Á meðan sendi ég þér ást og hlýju

Hrönn Sigurðardóttir, 26.1.2010 kl. 21:32

5 identicon

Veit varla hvað skal segja. Les pistlana þína með kökk í hálsi og skil þig svo rosalega vel. Haltu fast um hann Ella þinn og Úlfinn. Samheldni, ást og vinátta. Við eigum ekkert dýrmætara en fjölskylduna okkar og vinina. Bið Almættið að styrkja ykkur kæra fjölskylda. Ásthildur mín, það er frábært hversu vel þú tjáir þig og þínar tilfinningar. Það gerir bara gott að geta það, bæði í gleði og sorg. Kærar kveðjur úr Andakílsárvirkjuninni.

Arndís Ásta Gestsdóttir (IP-tala skráð) 26.1.2010 kl. 23:15

6 Smámynd: Steingrímur Helgason

Þú verður kletturinn þeirra áfram, þó zwo zkilji að tími & kílómetrar einhverjar daga, vikur & mánuði.

Svo koma nýir tímar, ný verkefni & zitt hvað ertu nú enn með í handraðanum í kúlu þinni, vina mín.

Steingrímur Helgason, 26.1.2010 kl. 23:22

7 Smámynd: Jónína Dúadóttir

Ég skil þig svo vel.........

Jónína Dúadóttir, 27.1.2010 kl. 07:55

8 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk innilega, aftur og aftur fær ég styrk frá ykkur bloggvinum mínum.

Já Jóhanna mín skypið er ómissandi.  ég hef samt ekki komið því upp ennþá.  En ætla mér að gera það.  Hef ekki getað einbeitt mér að neinu sem skiptir máli. 

Takk Guðný mín.

Takk elsku Ásdís.

Takk Hrönn mín.

Innilega takk Dísa mín, já ég ætla mér að hlú að þeim sem eftir verða.  Ég veit að afi er líka afar sorgmæddur.  Hann getur bara svo lítið tjáð sig um það.  Og Úlfur líka.  Þó hann stríði þeim stundum, þá þykir honum svo undur vænt um lillurnar okkar.

Takk Steini minn, ég vona svo sannarlega að þannig verði það einmitt.  Og að ég fái þær í heimsókn fyrr en seinna.  Kúlan er orðin þeim sitt heimili.  Og ég veit að þær munu sakna þess að geta ekki verið svo frjálsar að fara út og inn eins og þær vilja.

Takk Jónína mín.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 27.1.2010 kl. 09:03

9 identicon

Elsku Íja mín, ég kannast við þetta síðan Svava bjó í Svíþjóð með Andra, það var alltaf svo erfitt að kveðja og sleppa. Og að láta sem ekkert væri, því ekki vill maður láta litla sál fara vitandi að amma er leið. En þú ert sterk og tíminn líður fljótt, þegar litið verður til baka. Ef þú kemur í bæinn, endilega láttu heyra í þér ef þú hefur stund. Haltu svo bara áfram að segja okkur hérna hvernig þér líður, það léttir aðeins og augljóslega er hér fullt af fólki sem hugsar til þín og tekru smá þátt í því sem þú deilir. Allt það góða verndi þig og þína elsku vinkona.

Dísa (IP-tala skráð) 27.1.2010 kl. 09:12

10 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk elsku elsku Dísa mín. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 27.1.2010 kl. 09:25

11 Smámynd: Guðborg Eyjólfsdóttir

Elsku Ásthildur mikið innilega finn ég til með þér og skil þig vel, þú segir að Ísafjörður sé jafn þungbúinn og sálin þín, en ég sé á myndinni að það er bjart á henni líka :) þannig að það verður fljótt að birta til aftur hjá þér, svo það jákvæða kanski við þetta er að nú hefur þú ástæðu til þess að fara oftar til Vínar   Knús á þig mín kæra

Guðborg Eyjólfsdóttir, 27.1.2010 kl. 09:33

12 Smámynd: Kidda

Skil að þetta sé erfitt verk að pakka niður dótinu þeirra. Og það verður enn verra þegar þær fara suður. En þú getur alltaf huggað þig við að þær munu alla tíð búa að því að hafa fengið að vera hjá afa og ömmu og munu aldrei gleyma því hvað það var gott og gaman að fá að vera þar.

En við hugsum öll vel þín/ykkar og verðum hérna áfram til staðar fyrir þig elsku Cesil mín. Núna er að koma tími ykar Ella og Úlfs. 

Risaknús og faðmlag í kærleikskúluna

Kidda, 27.1.2010 kl. 09:37

13 Smámynd: Sigurlaug B. Gröndal

Elsku hjartans Ásthildur mín. Þetta eru erfiðar stundir og sársaukinn við að skilja við litlu prinsessurnar eftir allan þennan tíma hlýtur að vera nánast óbærilegur. Öll ævintýrin í kúlunni, afmælin, veislurnar, leikirnir og fleira og fleira sem þig hafið brallað saman og gert saman. En þú tekur öllu með svo miklu æðruleysi að ég á ekki til orð. Þú ert algjör hetja í mínum augum, svo stórkostleg kona sem gefur svo mikið, án þess að vita af því. Með pistlum mínum úr kúlunni og myndum. Ég held þú gerir þér enga grein fyrir því hversu mikið þú ert að gefa t.d. mér.  Guð veri með þér og vaki yfir þér, mín kæra Áshildur. Kær kveðja úr Þorlákshöfninni.

Sigurlaug B. Gröndal, 27.1.2010 kl. 11:22

14 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Innilega takk fyrir þetta Sigurlaug mín.   Já þetta er sannarlega erfitt.  Í dag ætlum við að hafa stelpupartý með nokkrum vinkonum hennar úr leikskólanum, svo munum við hjálpast að við að setja dótið þeirra niður í kassa og "hafa gaman" af því.  Það má ekki skemma gleðina yfir því að fara til mömmu sinnar og pabba, sú litla var samt hugsandi í gærkvöldi þegar ég sagði henni að hún færi til mömmu, en ekki að mamma kæmi til hennar.

Elsku Kidda já ég er vissulega þakklát fyrir þann tíma sem ég hef fengið að hafa þær kring um mig.  Og ég veit að ég á eftir að koma sjálfri mér upp úr þessum dimma dal.  Hann er rökkvinn eins og er, en sólin mun brátt skína yfir fjöllin og hjálpa mér til að komast á réttan kjöl aftur.

Takk Guðborg mín.  Já ég held að það sé alltaf svolítill ljósgeisli þarna inn í mér, sem getur ekki slokknað.   Hann er þar af því að ég hef reynt að haga mínu lífi þannig að þykja vænt um allt og alla í kring um mig.  Þó stundum hafi ég blásið og sagt eitthvað sem er ljótt.  Þá hefur það oftast verið nasablástur.  En við eigum öll svona ljós í hjartanu sem kemur okkur upp á yfirborðið aftur.  Það þarf bara að hlú að því, og þykja nógu vænt um sjálfan sig til að leyfa  því að lifa. 

Knús á ykkur öll, og enn og aftur lyftið þið mér upp til ljóss og vonar með því að senda mér hlý orð og hvatningu.  Ég er innilega þakklát fyrir það.  Og þarf á því að halda einmitt núna.

Þegar eitthvað sorglegt gerist skyndilega, þá fær maður sjokk, og allt hrynur skyndilega.  En svo getur maður farið að byggja sig upp.

Þegar aðdragandi verður á ferlinu, þá er ekki hægt að byrja uppbygginguna fyrr en allt er búið.  Sá tími sem líður er bæði yndislegur að fá að njóta, og svo hins vegar nagandi þjáningin við aðskilnað, og þá er ekkert hægt að gera nema bíða og njóta þess sem er, og vita að maður getur ekki gert neitt uns sá tími kemur.  Samt myndi ég gera nákvæmlega sama hlutinn aftur.  Og hef boðið dóttur minni það, hún verður að vita að ég er tilbúin til þess að gera nákvæmlega það sama ef þörf verður á.  Okkur Ella mínum líður vel með þá ákvörðun.   Og auðvitað reynum við að komast til þeirra í heimsókn  ef þess verður nokkur kostur í þessum þrengingum.

Innilega takk fyrir mig.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 27.1.2010 kl. 11:40

15 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Jenný Anna Baldursdóttir, 27.1.2010 kl. 12:20

16 identicon

Kæra Ásthildur

Það er alveg aðdáunarvert hvað þú ert að gera fyrir börnin þín og barnbörn.  Ég get vel skilið að erfitt sé að kveðja að sinni, ég hafði þó tækifæri að koma heim um nærri því hverja helgi þegar ég var í Reykavík og fjölskyldan fyrir vestan.  Í hvert skipti var það erfitt en ég vissa að ég var bara 40 mín í burtu.

Þegar þessu tímabili líkur þá tekur nýtt við og eins og þú segir sjál þú þarft líka að passa þig því án þín getur svona ævintýri ekki gengið upp. Öll viljum við að ævintýrin endi vel og það mun gerast á endanum og þið verðið öll saman kominn í kúlunni þinni spurning hvort þú þurfir ekki að huga að fleiri kúlum til að koma öllum fyrir í kringum þig :)

Hafðu það sem allra best fyrir vestan, fyrr en síðar komum við öll aftur.

kv

Torfi Jó

Torfi Jó (IP-tala skráð) 27.1.2010 kl. 12:38

17 Smámynd: Elín Helgadóttir

Kossar og knús á þig og þína Ásthildur...

Elín Helgadóttir, 27.1.2010 kl. 12:46

18 identicon

Sæl...búin að lesa endalaust að vanda og fletta fram og til baka í blogginu þínu eins og alltaf :)

en veistu oft hef ég hugsað þegar ég er að skoða myndirnar hjá þér...ohhh hvað það er örugglega gaman að alast upp hjá þessari ömmu já og afa! Ekki það að afi minn og amma voru alveg frábær en ég bjó auðvitað ekki hjá þeim...mín skoðun er sú að það séu forréttindi að fá að alast upp í grennd við afa og ömmu svo ég tali nú ekki um HEIMA HJÁ afa og ömmu !!...myndirnar eru yndislegar og lýsa svo miklum kærleik og gleði hjá prinsessunum þínum og unga manninum... hjá ömmu og afa má nefnilega svo ótalmargt sem maður þarf að læra en flestir halda að maður geti alls ekki...það eina sem vantar er þolinmæði, tími og tilsögn :) Ert búin að standa þig eins og hetja bæði fyrir þær og mömmu þeirra...betri amma og mamma er varla til ! :)

 hafðu það gott kæra kona og farðu vel með þig...þú ert búin að ganga í gegnum það að missa barn...þolir maður þá ekki allt annað ??...eða venst því amk...mannst bara að tíminn læknar ekki heldur lærir maður að lifa með því ! 

 knús og ljós í kúluna þína :**

ókunnug....aftur :) (IP-tala skráð) 27.1.2010 kl. 16:05

19 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Knús á mót Ella mín, vona að þú hafir fundið gistingu fyrir hópinn þinn.  Þér er velkomið að gista hjá mér um páskana, það er alltaf pláss ef ekki eru gerðar of miklar kröfur.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 27.1.2010 kl. 16:06

20 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

 Blessuð börnin eru svo miklir gleðigjafar. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 27.1.2010 kl. 17:03

21 Smámynd: Ragnheiður Ólafsdóttir

Elsku Ásthildur mín!

Mikið skil ég vel hvernig þér líður núna að missa dúllurnar þínar úr landi en mundu að það er tímabundið þær koma aftur þó að það sé ekki strax.  Ég á börn og barnabörn í Hollandi og Þýskalandi, svo ég veit hvernig það er að hafa stóran hluta af fjölskyldunni erlendis, en tölvurnar Fésið MSNið og barnaland hjálpa mikið.  En eins og þú segir þá ert þú að byrja nýtt líf og ég veit að ef einhver gerir það þá ert það þú. Sendi allar mínar bænir og góðar óskir til ykkar.Þín vinkona

Ragnheiður Ólafsdóttir, 27.1.2010 kl. 18:26

22 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk Ragnheiður mín

Takk Jóna Kolbrún mín

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 27.1.2010 kl. 20:00

23 identicon

æji þetta tekur örugglega einhvern enda Ásthildur mín, en þetta eru stóru málin, lítið fólk-litlar sorgir, stórt fólk-stórar sorgir, veit ekki hvort það er rétt. Allt gengur þetta yfir og fólk kemur aftur heim, þessir hlutir eru samt afskaplega þungbærir.

knús

sandkassi (IP-tala skráð) 28.1.2010 kl. 03:45

24 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Innilega takk fyrir þetta Gunnar.  Já litla fólkið okkar horfir frekar til framtíðar sem betur fer, þar mættum við læra meira af þeim.  Þó sé ég að sú stutta er dálítið hugsandi yfir breytingunni.  Hún á eftir að taka nærri sér að yfirgefa kúluhúsið.  En svo tekur bara framtíðin við hjá okkur öllum í fjölskyldunni.  

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 28.1.2010 kl. 09:32

25 Smámynd: Hulda Haraldsdóttir

Hulda Haraldsdóttir, 9.2.2010 kl. 06:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Höfundur

Ásthildur Cesil Þórðardóttir
Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Tónlistarspilari

Ásthildur Cesil - Dagdraumar
Sept. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30          

Nýjustu myndir

  • 2f19c636fb68b249555c5fa250d3e103--russian-image-jellyfish
  • engill-angel
  • jolatre
  • 20171002 121526
  • gasometers-vienna-7[5]

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.9.): 7
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 45
  • Frá upphafi: 2021764

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 30
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband