Mistök ríkisstjórnarinnar að mínu mati.

Þau eru fjölmörg.  Í upphafi átti þessi ríkisstjórn ágætis möguleika.  Margir bundu vonir við að nú yrði viðsnúningur á málum, hún myndi taka á spillingunni og snúa vörn í sókn.   Þannig má segja að viðbrögð almennings við henni væru mjög góð, mig minnir að þau hafi notið yfir 70% fylgis í fyrstu skoðanakönnunum.  Jóhanna var vinsælasti stjórnmálamaður landsins, og hafði tiltrú flestra Steingrímur naut líka mikillar virðingar sem maður með bein í nefinu og ákveðnar skoðanir sem hann sagði hreint út. 

Auðvitað voru ekki gerðar miklar kröfur til þeirrar starfsstjórnar sem tók við eftir fall fyrri stjórnar, eðlilega því þau tóku við brunarústum og slökkvitækin voru flest biluð eða í höndum brennuvarganna.

Það var mörgum því fagnaðarefni þegar stjórnin hélt velli og fékk nægilegan meirihluta til að þurfa ekki að reiða sig á Framsóknarflokkinn til stuðnings.

Málið er að blekið var ekki þornað á stjórnarsáttmálanum þegar ljóst var að fólkið það hafði snúið sér algjörlega við í öllu sem þau höfpu haldið fram fyrir kosningar. 

Öll stóru orðin hans Steingríms að hann vildi ekki inn í ESB, vildi ekki Alþjóða galdreyrissjóðinn, og það yrði að hreinsa til með útrásarvíkingana hurfu eins og dögg fyrir sólu.

Það var nefnilega fyrsta verkið þeirra að splitta upp þjóðinni með umsókn inn í ESB.  Ef þetta fólk hefði séð fyrir hvað var í aðsigi með Icesave og þá baráttu, þá áttu þau aldrei að byrja á því að reka hornfleig í þjóðarsálina með þessum hætti.  Það voru fyrstu vonbrigði mín með ríkisstjórnina.  Það var Jóhanna sem þar gekk fremst í flokki og lagði alla áherslu á inngöngu í ESB.  Það myndi bjarga öllu og bara við umsóknina myndi allt lagast.  Fyrir þennan ákafa sinn og framgöngu dó eitthvað í henni, hún hefur ekki borið sitt barr eftir að þetta gekk ekki eftir og svo mikla andstöðu almennings við þetta stóra áhugamál Samfylkingarinnar. 

Svo kom Icesave.

Í dag hefur afskaplega lítið gerst.  Stjórnin hefur látið allt danka meira og minna sem kemur til góða fyrir almenning hér á landi, en látið alla sína orku í samningaviðræður við hollendinga og breta um Icesave.   Og það sem verra er, Steingrímur gerði nákvæmlega það sama og fyrri stjórnir gerðu, hann réði gamlan félaga sinn afdankaðan stjórnmálamann til að fara í viðræður við ljónið og vindmylluna.  Það hefði alveg mátt vita að slíkur gæti aldrei staðið í hárinu á þessum hrægömmum sem eru þekktir fyrir að kúga og arðræna þjóðir sem ekki stóðu þeim á sporði.  Enda gafst hann upp og skrifaði bara undir.  Þá hefði Steingrímur geta bjargað andlitinu með því að segja sannleikann og annað hvort reka félaga sinn út aftur með nýjar tillögur í farteskinu eða verið skynsamur og sett nefnd sérfræðinga í málin.

En nei "Stórglæsilegur samningur", hrópaði hann.  Og maður spyr sig, fannst honum þetta svona gott, eða hélt hann að við værum öll afdalabændur og stafkerlingar sem vissum ekkert í okkar haus.  Gleymdi hann öllu velmenntaða fólkinu sem vissi betur?  Og gat ekki annað en látið það í ljós?

Enn ein mistök voru þau að Jóhanna bókstaflega hvarf.  Hún reyndist ekki sá foringi sem fólk hafði búist við, sennilega eftir ESBupphlaupið.  Enn þann dag í dag kemur hún fram í skötulíki og lætur Steingrím útskýra öll mál.  Forsætisráðherra hlýtur að þurfa að standa í lappirnar og hvetja þjóð sína til dáða.  Það hefur alveg vantað. 

Verstu mistök þessarar ríkisstjórnar eru þó að hætta að hlusta á fólkið sitt.  Það hafði náðst góð sátt um nýjan samning um Icesave með fyrirvörum samþykktur af öllum þingmönnum Alþingis.   Þegar farið var með þann samning út til Bretlands og Hollands, sýndu þessir harðsnúnu menn tennurnar.  Það hefði átt að vera ljóst að svona gerðist ekki baráttulaust, ef menn vildu halda sínu máli til streitu.  En aftur var lyppast niður og skriðið skjálfandi til baka heim.   Ekki nenna þessu lengur, heldur bara lúffa og gera eins og kúgunaraðilarnir vildu.  Nýr samningur um algjöra uppgjöf settur saman, þvingað gegnum alþingi með að mig minnir 2ja atkvæða mun, með skyldujátun sumra og brotthlaups annara. 

Þá var það sem eiginlega enginn hafði búist við, upp reis alda í samfélaginu, fólk var búið að fá nóg, og yfir 60.000 manns skrifaði forsetanum til að biðja hann um að hafna lögunum.  Ég get sagt að ég þorði ekki að hlusta á útvarpið þegar forsetinn hélt fundinn, ég var svo fullviss um að hann myndi skrifa undir, en fannst svo mikið í húfi.   Ég var því afskaplega glöð að heyra að hann synjaði undirskrift.  Það var þungu fargi af mér létt, og ég sá að það voru margir sem þannig hugsuðu.

Síðustu og stærstu mistök ríkisstjórnar Steingríms og Jóhönnu og sennilega þau sem eyðileggja hana eru samt sem áður þau að þau hafa algjörlega snúið baki við þjóðinni í baráttunni um Icesave.  Í stað þess að hlusta á fólkið sitt og hefja baráttu fyrir betri samningum, héldu þau sér fast í að troða þessum beint ofan í kokið á okkur.  Og þegar Eva Joly og fleiri þungaviktarmenn tjáðu sig og töldu að við gætum gert betur, voru allar slíkar raddir gagnrýndar.   Þau gengu meira að segja svo langt að hafa samband við kvalara okkar og fullvissuðu þá um að þessu yrði troðið ofan í kokið á okkur hvað sem tautaði og raulaði. 

Nú sitja þau rúin traust fólks, nema hörðustu stuðningsaðila, sem reyna að halda í þá mítu að allt fari í kaldakol ef við látum ekki segjast, ganga jafnvel svo langt að ímynda sér að hér komi hafnarbönn eða jafnvel innrásarherir og ég veit ekki hvað ef þetta gangi ekki eftir.   Sífellt fleiri tjá sig erlendis frá, sem benda á þá augljósu staðreynd að við gætum ekki borgað skuldina þó við reyndum.  En það er jafnharðan slegið á þær hendur, og nú er svo komið að fólkið í landinu hefur það á tilfinningunni að Jóhanna og Steingrímur gangi beinlínis erinda breta og hollendinga. 

Það er synd að svona er komið.  Því ég veit að meiri hluti þjóðarinnar vill í raun og veru að þessi ríkisstjórn haldi velli.   Ekki af því að hún standi sig svona vel, heldur af því að menn óttast meira en allt annað að Sjálfstæðismenn og Framsókn komist aftur til valda.   Svo virðist vera að gullfiskaminni þjóðarinnar sé á undanhaldi, sennilega er það bloggi og netumræðum alamennings að þakka.  Það er ekki lengur hægt að stóla á fréttamiðla sem draga taum þessa eða hins.  Það er farið að sjást í gegnum spillinguna, sjálfselskuna og löngunina í völd og hræðsluna við að sannleikurinn komi upp á borðið. 

Það er því spurning hvort réttlætanlegt sér að ríkisstjórn sem er illa skárri en aðrir kostir, og sem þar að auki hefur fyrirgert traust sínu með því háttarlagi sem hér er lýst, eigi að fá að sitja bara af þvið við viljum ekki hina aðilana að völdum. 

Þess vegna verðum við að krefjast þess að hér komi á fót utanþingsstjórn fólks sem ekki er tengt pólitískum hópum.  Stjórn sem er ekki bundin af vinaböndum, sérhagsmunaklíkum og feluleik með hrikalega sjálftöku klíkna á auðlindum þjóðarinnar. 

Við getum það ef við viljum.  Við höfum sýnt það almenningur í landinu fyrst með baráttunni á Austurvelli, og síðan með undirskriftalista til forsetans um að neita undirskrift.  Ef við tökum okkur saman og krefjumst þess að fá réttlætinu fullnægt, þá getum við það.  Vilji er allt sem þarf. 

Oft var þörf en nú er nauðsyn.  En til að svo megi verða, megum við ekki fara ofan í skotgrafir og berja hvort annað niður og norður.  Samstaða er það eina sem getur hjálpað íslenskri þjóð að standa á rétti sínum.  Láta ekki kúga sig til að borga hæsta verði þjófnað örfárra manna, sem ennþá halda sínu fyrra líferni eins og ekkert hafi í skorist.  Eins og þetta komi þeim bara ekkert við.  Þeir eru ennþá að gambla með þjóðarauðinn, og ekkert eða sára lítið gert til að stoppa þá af.

Svona horfir málið við mér.  Ég er bara gömul kerling úti á landi, en ég á börn og barnabörn sem ég vil ekki að standi með bogið bak alla sína tíð til að þræla fyrir þjófa og þjófsnauta.  Og heldur ekki fyrir hégómagjarna stjórnmálamenn sem hafa persónugert vandann og vilja fyrir hvern mun gera allt hvað sem er til að þurfa ekki að skammast sín fyrir frammistöðu sína. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kidda

Heyr, heyr, er 100% sammála þér. Frábær pistil.

Knús í kærleikskúluna

Kidda, 20.1.2010 kl. 13:00

2 identicon

Sæl, Ásthildur.

Frábær pistill.

Kær kveðja, á alla.

Þórarinn Þ Gíslason (IP-tala skráð) 20.1.2010 kl. 13:18

3 Smámynd: Jónína Dúadóttir

Vá það er ekki oft sem ég get tekið undir einasta hvert orð af svona mörgum, frábær pistill ! Heyr heyr ! Knús

Jónína Dúadóttir, 20.1.2010 kl. 13:30

4 identicon

Þarna virðist þú hafa verið með beint samband inn í huga meginþorra þjóðarinnar. Mín vegna "forstjóri yfir ísland", allt er sennilega betra en þetta sem við höfum. 

Alexander (IP-tala skráð) 20.1.2010 kl. 14:19

5 Smámynd: Adda Þorbjörg Sigurjónsdóttir

Ég er sammála þér að mestu leiti. Vil þó ekki utanþingsstjórn en tel að mynda verði nýja stjórn. Hvaða flokkar sem koma að henni vita núna að almenningur fylgist vel með og ætlar ekki að láta leiða sig eins og lömb. Nú er orðið ljóst að taka þarf til hendinni innan allra flokka og það er á ábyrgð hvers og eins að hafa áhrif innan sinna flokka. Ég tel þetta vera uppgjör gagnvart fjármálakerfinu og græðgi en ekki ákveðnum flokkum. Nýja stjórn þarf því að það er ótækt að láta þessa sömu stjórn fara að semja í þriðja skiptið. Mér finnst hún heldur ekki hafa staðið sig gagnvart öryrkjum og öldruðum. Skattahækkanirnar eru banal og hægja á uppbyggingu og dýpka kreppuna. Það þarf að hugsa út fyrir rammann og við sem þjóð þurfum að vinna saman að lausnum en ekki uppgjöf.

Adda Þorbjörg Sigurjónsdóttir, 20.1.2010 kl. 17:17

6 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

´Þetta er aldeilis góð færsla.Já,ég eins og þú ákvað að hlusta ekki á ákvörðun forseta,heyrði það óvart á útvarpi Sögu,sem best hefur fylgst með öllu um þessar meintu svokölluðu;Alþjóðlegu skuldbindingar okkar; sem er rangnefnt.        Haítí er mikið í fréttum út af hörmungunum sem þar dynja á. Það tók þá 122ár að greiða skuld,sem kúgarar þeirra töldu þá skulda,eftir að þeir brutust undan yfirráðum Frakka,sem heimtuðu bætur til þrælahaldara þeirra.   Berjumst gegn ranglætinu,verjum afkomendur okkar,baráttukveðjur

Helga Kristjánsdóttir, 20.1.2010 kl. 18:34

7 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Þú ert snilla, takk fyrir þetta.

Ásdís Sigurðardóttir, 20.1.2010 kl. 19:15

8 Smámynd: Halla Rut

Frábær pistill, það besta sem þú hefur skrifað og svo sönn greining á ástandinu.

Halla Rut , 20.1.2010 kl. 19:21

9 identicon

Mjög góður pistill en linnulaus bölmóðsspá Steingríms J og Jóhönnu sem halda á lofti málstað Breta og Hollendinga lofar ekki góðu eða hvað.

Þór Gunnlaugsson (IP-tala skráð) 20.1.2010 kl. 20:24

10 Smámynd: Jens Guð

  Ég gæti ekki orðað þetta betur.

Jens Guð, 20.1.2010 kl. 21:54

11 Smámynd: Steingrímur Helgason

Þú ert alltaf verulega góð, ztundum mun betri en það, zérlega í dona ígrunduðum þjóðfélagzlegum greiníngum.

Þarna, í þezzari ertu lángbezt.

Steingrímur Helgason, 20.1.2010 kl. 23:28

12 Smámynd: Eyjólfur G Svavarsson

Verulega góður pistill hafðu þakkir fyrir!!!

Eyjólfur G Svavarsson, 21.1.2010 kl. 00:23

13 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Ég er 100% sammála þér, ég þakka þér þennan frábæra pistil. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 21.1.2010 kl. 00:42

14 identicon

"You cannot solve problems with same level of conciousness that created them"  Albert Einstein

Alexander (IP-tala skráð) 21.1.2010 kl. 06:20

15 identicon

Þú slærð engin vindhögg frekar en vant er. Frábær greining á ástandinu eins og það birtist okkur. Vonandi flýgur þessi grein þín sem víðast   Kv. úr Borgarfirði Steini Árna.

Þorsteinn Árnason (IP-tala skráð) 21.1.2010 kl. 08:58

16 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Þakka ykkur öllum fyrir.  Þetta liggur svona við mér og mér finnst í raun og veru mjög leitt að þessir tveir flokkar hafi fallið í nákvæmlega sömu gryfju og þeir hinir sem ríktu með offorsi í 20 ár.   Það er eitthvað við svona flokkakerfi sem verður til þess að fólkið missir gjörsamlega jarðsamband við fólkið í landinu. 

 Sennilega ætti að setja lög um að alþingismenn fengju svipuð laun og meðal launamaður á Íslandi.  Enga bitlinga eða ofureftirlaun.  Og auðvitað á að byrja á því að afnema allt slíkt, þeir eiga bara að fá venjuleg eftirlaun eins og aðrir, og ef þeir fara í aðra vinnu eftir þingmennsku, eiga þeir ekki að eiga neinn rétt fram yfir aðra.  Það er einmitt þessi fjandans sérmeðeferð á stjórnmálamönnum og öðrum pólitíkusum sem skapar fjarlægðina frá almenningi.

Síðan vil ég að farið verði yfir nefndarfarganið sem er í gangi á vegum ríkisins, og taki þar út allar ónauðsynlegar nefndir og ráð, sameini aðrar og hætti að borga fólki fyrir að eiga sæti í nefndum og ráðum, nema þau mæti á fundi.  ég er ansi hrædd um að þarna séu drjúgir peningar sem ríkið eyðir í svona vitleysu.  Sem engu þjónar nema að halda uppi vinum og vandamönnum, með því að skipa þá í nefndir á vegum ríkisins.  Stjórnmálamenn bæði alþingismenn og sveitarstjórnarmenn sem sækja fundi í vinnunni eiga vitanlega ekki að fá greitt séstaklega fyrir slíkt. 

Við erum komin út í skiptingu þegnanna, í þá sem eru almenningur og á ekki upp á pallborð og eru bara eins og hermaurar vinnudýr til að halda hinum uppi.  Og svo eru það hinir sem eiga völdin og deila og drottna.  Gefa einum og taka af öðrum.  Er nema von að lýðræðið sé skekkt.  Í skjóli þessa alls þrýfst svo spillinging, því auðvitað vill þessi valdastétt ekki missa völdin og láta aðra taka við og fara að skoða og hreinsa til.  Þessu marki er allur fjórflokkurinn brenndur og þess vegna sjá þeir til þess að engir utanaðkomandi nái inn fyrir klíkuna.  Því þetta verður auðvitað að vera í felum undir feldi.  Annars missa þeir tökin á sauðþráum einfeldlingum sem hugsa ekkert en þakka fyrir hvern mola sem dettur af háborðinu og þakka fyrir að fá að þræla og borga, puða og viðhalda hinum útvöldu.  Þess vegna er um tómt mál að tala að eitthvað breytist meðan þessi fjórflokkur heldur völdum og enginn annar kemst að. 

Mín skoðun er því að við verðum að þora að hleypa fleirum að, til dæmis Hreyfingunni, Borgarahreyfingunni, Frjálslyndaflokknum og bara þeim sem vilja breytingar.   Helst þarf þetta fólk allt að tala sig saman og vera í sama liði, því þeir stefna í sömu áttina, en hafa ekki svipuna á sínu fólki.  Þar þarf að koma skynsemi og málamiðlanir í stað svipunnar og skipunnar. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 21.1.2010 kl. 09:00

17 identicon

Góður pistill hjá þér.

(IP-tala skráð) 21.1.2010 kl. 09:12

18 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk fyrir það Sigurlaug.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 21.1.2010 kl. 09:15

19 Smámynd: Gudrún Hauksdótttir

Takk fyrir frábærann pistil og ég get ekki verid meyra sammála tér.

Kvedja frá Hyggestuen

Gudrún Hauksdótttir, 21.1.2010 kl. 11:09

20 Smámynd: Kidda

Cesil mín, þú verður bara að fyrirgefa en ég vil fá þig á þing næst þegar verður kosið

Landið eitt kjördæmi og þá get ég kosið þig á þing.

Allt sem kemur frá þér er eins og talað út úr mínu hjarta.

Knús í kærleikskúluna

Kidda, 21.1.2010 kl. 12:20

21 Smámynd:

Takk takk takk Ásthildur. Frábær pistill - fari hann sem víðast.

, 21.1.2010 kl. 14:02

22 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk stelpur mínar.  Við erum sennilega á sama bátnum og þess vegna getum við staðið saman.  Knús á ykkur allar.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 22.1.2010 kl. 01:35

23 Smámynd: Guðrún Sæmundsdóttir

Frábær pistill hjá þér Ásthildur, ég er þér 100% sammála! Þessi samningur verður felldur af þjóðinni og saman tökum við á þvi sem að hödnum ber!

Guðrún Sæmundsdóttir, 22.1.2010 kl. 17:23

24 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Nákvæmlega Guðrún mín. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 22.1.2010 kl. 17:34

25 identicon

" Ég er bara gömul kerling úti á landi''' Segirðu, en fyrir mér var meira vit í þessum pistli en alt sem komið hefur frá Jóhönnu og Steingrími frá kosningum. Ég myndi skifta þeim út fyrir þig hvenær sem er.

Arnór Valdimarsson (IP-tala skráð) 22.1.2010 kl. 21:42

26 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Innilegar þakkir Arnór, og takk fyrir innlitið.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 27.1.2010 kl. 12:44

27 identicon

Þakka þér fyrir þessa góðu grein 'Ásthildur mín ,ég er svo sammála þér vonbrigðin eru svo mikil ég gæti farið að grenja af reiði.

ERNA ÁRNADÓTTIR (IP-tala skráð) 27.1.2010 kl. 17:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Höfundur

Ásthildur Cesil Þórðardóttir
Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Tónlistarspilari

Ásthildur Cesil - Dagdraumar
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • 2f19c636fb68b249555c5fa250d3e103--russian-image-jellyfish
  • engill-angel
  • jolatre
  • 20171002 121526
  • gasometers-vienna-7[5]

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 6
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 26
  • Frá upphafi: 2022150

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 24
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband