Tvö bréf.

Var búin að skrifa minningargrein um Jóhönnu mína en hef ekki birt hana enn.

En ég hef ákveðið að nota sorgarsögu barnanna minna til að vekja fólk til umhugsunar um hvernig kerfið hefur malað þau undir sér, meðan hægt hefði verið að bjarga þeim. 

Á morgun á ég von á blaðamanni til mín til að ræða um þessi mál.  

En ég ætla að birta eitt tiltekið mál hér núna, en ég hef hugsað mér að skrifa sögu þeirra og vonandi gefa út, til að fólk átti sig á því hvað er í raun og veru í gangi með þessi öðruvísi börn okkar.

Sumt af þessu er trúnaðarmál, en þar sem þau eru bæði dáin, ætla ég einfaldlega ekki að huga að því frekar.  Reyndar er lögfræðingurinn einni dáinn.

Lögfræðingur minn á þessum tíma, sem hjálpaði mér ótrúlega mikið Jón Oddsson sótti um að hún yrði ekki sett í fangelsi heldur fengi að afplána sína refsingu á annan hátt.  Hér er bréf frá Heilsugæslustöðinni á Ísafirði um þetta mál.

2.júní skrifaði Jón Oddsson bréf fyrir mína hönd um frest á refsingu Jóhönnu.  Svarbréf fangelsismálastofnunar er hér eftir bréf sem við sendum frá sálfræðingi sem við fengum til að gera úttekt á ástandinu. 

Ísafjörður 13.08.97

Jóhanna Rut Birgisdóttir kom á stofu til undirritaðs í tengslum við fyrirhugaða afplánun 15. mánaðar fangelsisdóms sem hefst föstudaginn 15. ágúst n.k. Jóhanna kemur ásamt tengdamóður sinni Ásthildi Cesil Þórðardóttir kt. 110944 4469, sem jafnframt er ábyrgðaraðili gagnvart Barnaverndarnefnd Ísafjarðarbæjar um að Jóhanna og eiginmaður hennar, Júlíus Kristján Thomassen, sonur Ásthildar, sinni foresldraskyldum sínum gagnvart 6 mánaða gömlu barni þeirra, Þórði Alexander Úlfi Júlíussyni en þau búa á heimili Ásthildar.

Jóhanna Rut lýsir skoðun sinni á fyrirhugaðri afplánun á þá leið að ef af verður bitni hún aðallega á nokkra mánaða gömlum syni hennar, Þórði Alexander Úlfi og jafnframt á hjónabandi hennar og Júlíusar K. Thomassen.

Rökin eru einkum sú að það rask sem fylgir fangelsisvist og hugsanlegri fjarveru barnsins við móður vegna fangelsisvistunar, geti haft óæskileg áhrif á þroska barnsins og á eðlileg tengslamyndun barnsins við foreldra.  Enn fremur að það góða samband og samvinna sem myndast hefur milli foreldra barnsins um barnauppeldið, sé stefnt í hættu og að líkur aukist verulega á því að fíkniefnaneysla hjá föður geti fylgt í kjölfarið vegna þeirrar röskunar sem fangelsisvist móður fylgir, ef af verður, en undanfarna 10 mánuði hefur Júlísus ekki neytt fíkniefna og helgað sig uppeldisstörfunum og að rækta gott samband við eiginkonuna.  Jóhanna Rut hefur ekki neytt fíkniefna síðan í fyrra sumar og er staðráðin í að standa undir þeim foreldraskyldum sem á hana eru lagðar. Ábyrgðaraðili votta þessa frásögn.

Undirritaður lýsir sig sammála því sem að ofan greinir og telur að sú röskun sem fangelsisvist móður hefði óhjákvæmilega í för með sér, geti haft óæskileg áhrif á þroska barnsins og dregið úr eðlilegri tengslamyndun við foreldra.  Í þessu sambandi telur undirritaður að heppilegast sé að hið góða samband móður, föður og barns sem skapast hefur, sé ekki stefnt í hættu með einhliða fangelsisvistun móður.  SLíkt myndi óhjákvæmilega mest bitna á saklausu barninu.

Undirritað af sálfræðingi.

3. júlí 1997.

Með bréfi, dags. 20. júní 2997, fóruð þér þess á leit fyrir hönd skjólstæðings yðar Jóhönnu Rutar Birgisdóttur, að fyrirhugaðri afplánun hennar á 15 mán. tildæmdri refsingu með dómi Hæstaréttar uppkveðnum 29. maí 1997, sem hefjast átti þann 28. júlí sl. yrði frestað til 1. óktóber 1997.  Vísið þér í þessu sambandi til brýnna aðstæðna hennar vegna umönnunar sveinbarns hennar.

Samkvæmt 3. grein reglugerðar nr. 29/1993 um fullnustu refsidóma er fangelsismálastofnun heimilt ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi, að veita frest á að hefja afplánun.  Hér er um að ræða undantekningu frá þeirri meginreglu að afplánun hefjist streax er dómur verður fullnustuhæfur.

Í verklagsreglum fangelsismálastofnunar segir að í þeim tilvikum er frestur á afplánun er veittur skuli aðeins veita dómþolu skamma fresti og er þá átt við viku eða hálfan mánuð í senn.  Mánaðarfrestir sem tíðkuðust hér áður fyrr eru aflagðir.  Er þetta liður í þeirri stefnumörknu fangelsismálastofnunar að hraða allri refsifullnustu.

Í 2. gr. 3. gr. reglugerðar um fullnustu refsidóma nr. 29/1993 segir að við ákvörðun á því hvort að veita skuli frest á afplánun skuli m.a. taka mið af alvarleika afbrots dómþola, sakarferli og öðru sem máli skiptir.  Skjólstæðingur yðar hefu alls 5. sinnum frá árinu 1990 verið dæmd til refsivistar fyrir auðgunarbrot.  Hún hefur þrívegis afplánað refsivist, nú síðast frá 25. október 1994 til 22. desember 1995, en þá var henni veitt skilorðsbundin reynslulausn í 2 ár.  Með ofangreindum dómi Hæstarréttar voru þessar eftirstöðvar dæmdar upp og var skjólstæðingur yðar dæmd í 15 mánaða fangelsi fyrir auðgunarbrot.

Eins og fram kemur í bréfi yðar fæddi skjólstæðingur yðar barn 8. mars 1997 og nýtur hún aðstoðar tengdamóður sinnar og væntanlega einnig barnsföður við umönnun barnsins.  Fullkunnugt er um gildi samvista milli móður og ungabarns en engu að síður er eigi unnt að fallast á umbeðin frest með vísan til framkvæmdar.  Vegna aðstæðna skjólstæðings yðar er hins vegart veittur frestur til 1. ágúst 1997 en þá skal afplánun hefjast.

Þessari úttekt var ekki svarað frekar.  Fangelsismálastofnun var búin að gera sitt..... eða þannig.

Sem sagt ekki tekið tillit til neins nema lagabókstafsins.  Á þessum tíma voru þau bæði hætt afbrotum og fannst þau eiga framtíðina fyrir sér með lítið barn, ástina og vonina um betri tíma.  En ónei, ekkert tilliti tekið til þess.  Það skyldi ganga fyrir að lagabókstafnum yrði fullnustað.

Hér vantar eitthvað inn í.  Eitthvað mannlegt sem segði þessu hjartalausa lagabókstafsfólki að ef til vill væri mikilvægara að bjarga mannslífi en að hengja sig í þurra lagabókstafi. 

Þess vegna ágætu lagabókstafsverðir er dauði þessa fólks bein afleiðing af ykkar og yfirvalda hjartalausu ákvarðana.  Þið getið ekki veitt mínu fólki lífið aftur, en þið getið ef þið hafið einhverjar hjartataug, breytt þessu kerfi þannig að það sé tekið tillit til aðstæðna og skoðað hvort það sé ef til vill affarasælla að sjá í gegnum fingur við fíkla, ef það má verða til þess að þau verði nýtir þjóðfélagsþegnar, þegar þau hafa sýnt að þau eru á réttri leið.  Að það sé ef til vill einhver ástæða til að hugsa að það sé ef til vill betra að taka hjartað á þetta og gefa smá sjens.


Smá músasaga.

Skemmtileg músasaga.  Það hefur verið sagt að mýs séu skynsömustu dýrin, ekki veit ég það, en það eru samt margar skemmtilega sögur til um þessar elskur.

Í hænsnakofanum mínum eru tvær mýs, þær búa inn í veggnum, og skjótast alltaf þangað inn þegar mig ber að dyrum.  Eru örugglega feimnar.

Eitt sinn er ég kom inn hafði ein hænan náð í aðra músina og var að goggast í hana, músin lá eins og dauð á bakinu með allar lappir upp í loftið.  Svona hreyfingarlaus missti hænan strax áhugann á henni.  Ég var að hugsa hvort það gæti verið að......  Það sást nefnilega ekkert á henni. 

Hugsaði með mér að láta hana eiga sig.

Þegar ég kom í kofan daginn eftir var enginn mús dauð á gólfinu.  Þá vissi ég hvað hafði gerst.  Hún hafði nefnilega þóst vera dauð til að bjarga sér.

Enda eru þær báðar ennþá þarna að skjótast.  Þetta var snilldar bragð hjá mýslu. Segið svo að dýrin hugsi ekki?

HAGAMS~1


Bloggfærslur 27. maí 2012

Um bloggið

Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Höfundur

Ásthildur Cesil Þórðardóttir
Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Tónlistarspilari

Ásthildur Cesil - Dagdraumar
Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • 2f19c636fb68b249555c5fa250d3e103--russian-image-jellyfish
  • engill-angel
  • jolatre
  • 20171002 121526
  • gasometers-vienna-7[5]

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (30.9.): 4
  • Sl. sólarhring: 9
  • Sl. viku: 74
  • Frá upphafi: 2024191

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 42
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband