Að skipta um skoðun.

Í síðasta bloggi mínu sagði ég frá því að ég hefði skipt um skoðun í sambandi við Stjórnarskrárfrumvarpið.  Það var þannig að ég fór á góðan fund með Dögun, þar sem Lýður Árnason útskýrði hvað fælist í þessu frumvarpi og hvað það væri sem væri verið að reyna að koma á framfæri.

Mér þótti þetta afar skynsamlegt og sérstaklega með 111 greinina, þar sem fólk hefur (og ég þar á meðal) verið ósátt með hana.  Hræðst hana og talið þar með að hún væri verkfæri Samfylkingarinnar til að troða okkur inn í ESB. 

Sumir af mínum góðu bloggvinum voru að vonum óhressir með þetta, og hafa reynt að telja mér hughvarf.  Ég skil þá mjög vel, ég hefði sjálf gert það sama í þeirra sporum, þvi málið er að bara það að Samfylkingin kom þessu á koppinn vekur efasemdir miðað við allar þær svikamyllur sem ESB liðar hafa reynt að hafa í frammi. 

Þegar ég svo fór að kynna mér málið og las það sem stjórnlagaráð skrifaði með 111 greininni, þá breyttist viðhorf mitt.

Þar stendur m.a.:

Skýring á 111 grein.

"Ákvæði um framsal ríkisins  er nýmæli í  frumvarpi þessu.  Rætt hefur verið um þörf á að setja slík ákvæði í stjórnarskrá. Til að skýra réttarstöðuna og tryggja aðkomu þings og þjóðar, sbr það sem kemur fram í almennum athugasemdum kaflans.  Íslensk stjórnskipan hefur verið talin heimila framsal ríkisvalds að  uppfylltum tilteknum skilyrðum þó vissulega hafi verið deilt um þau skilyrði og túlkun þeirra.

Stjórnlagaráð leggur til að stjórnarskrá taki sérstaklega á með hvaða hætti  fara skuli með þjóðréttarsamninga af þessu tagi.  Lítur ráðið þá til þeirrar óskrifuðu meginreglu sem er talin gilda. (249.)

Það er mikilvægt að útfæra slíka meginreglu í stjórnarskrá þannig að ekki leiki neinn vafi á hver mörk slíkrar reglugerðar verði og hvaða málsmeðferðarreglur gildi um samningana.

Með því verður hægt að tryggja aðkomu þings á gerð slíkra samninga og ekki síst þjóðarinnar.

Með greininni er því lagt til að í stjórnarskrána bætist ákvæði um heimild til þess að ríkið verði aðili þjóðréttarsamningi sem felur í sér skuldbindingu til að framselja eða deila hluta ríkisvaldsins.

Framsetning ákvæðisins tekur mið af norrænum fyrirmyndum einkum ákvæðum í stjórnarskrám Noregs og Danmerkur."

 Það er einmitt það sem hefur verið að væflast fyrir mér, þetta með framsalið, og það hefur verið blásið út að hér sé veriði að koma inn hjálp Samfylkingarinnar til að auðvelda þeim ESB ferlið, þegar einmitt er verið að taka á því að það verði ekki eins auðvelt. Þar sem tekið er sérstaklega á því að það þurfi bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu til, auk aðkomu þingsins.

En 111 greinin hljómar svo:

"Heimilt er að gera þljóðréttarsamninga sem fela í sér framsal ríkisvalds til alþjóðlegra stofnana sem Ísland á aðild að í þágu friðar og efnahagssamvinnu. Framsal lríkisvaldsins skal ávalt vera afturkræft.

Með lögum skal afmarka nánar í hverju framsal ríkisvalds samkvæmt þjóðréttarsamningum felst.

Samþykki Alþingis fullgildinu samnings sem felur í sér framsal ríkisvalds skal ákvörðunin borin undir þjóðaratkvæði til samþykktar eða synjunar.

Niðurstaða slíkrar þjóðaratkvæðagreiðslu er bindandi".

Nú er það svo að þarna er tekið þannig á málum að það er girt fyrir að ríkisstjórn og Alþingi geti einhliða ráðstafað fullveldisrétti Íslands til annara ríkja eða sambanda nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu. 

Einnig las ég bréfið sem forseti Alþingis fékk við afhendingu draganna.

"Forseti Alþingis.

 

Með ályktun Alþingis frá 24. mars 2011 var stjórnlagaráði falið að gera tillögur um breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944.  Þær tillögur liggja nú fyrir í formi frumvarps til nýrrar stjórnarskrár og afhendist það forseta Alþingis hér með.  Frumvarpið var samþykkt einróma með atkvæðum allra fáðsfulltrúa á síðasta fundi ráðsins sem lauk miðvikudaginn 17. Júlí síðastliðinn.

Stjórnlagaráði var meðal annars falið að fjalla um skýrslu stjórnlaganefndar, sem kosin var af Alþingi 16. júní 2010.  Hlutverk stjórnlaganefndar var að undirbúa þau verkefni sem síðar voru falin stjórnlagaráði, meðal annars með því að halda þjóðfund um stjórnarskrármálefni og safna gögnum og upplýsingum um þau og leggja fram hugmyndir um breytingar á stjórnarskránni.  Stjórnlaganefnd hélt þjóðfund 6. nóvember 2010, þar sem þúsund þátttakendur voru valdir með úrtaki úr þjóðskrá og afhenti nefndin stjórnlagaráði skýrslu sína og tillögur á fyrsta fundi ráðsins, 6. apríl síðastliðinn.  Frumvarp stjórnlagaráðs er því afrakstur mikillar vinnu á löngum ferli.

Fulltrúar í stjórnlagaráði eru fjölbreyttur hópur með ólíkar skoðanir, menntun og reynslu.  Hver og einn hefur tekið afstöðu til mála á eigin forsegnum.  Almenningur hefur átt greiðan aðgang að verkinu, fyrst og fremst með athugasemdum og innsendum erindum  á vefsetri ráðsins.  Þannig hefur varðveist sú hugmynd að almenningur kæmi að endurskoðun stjórnarskrárinnar.  Frumvarp stjórnlagaráðs hefur því mótast smám saman í samræðum milli fulltrúa innbyrðis og opnum skoðanaskiptum við samfélagið.  Stjórnlagaráð afhendir nú þingi og þjóð frumvarpið.  Skýringar með frumvarpinu veða afhentar Alþingi í næstu viku og endursspegla umræðuna innan ráðs og utan.

Stjórnlagaráð væntir þess að sú opna umræða sem fram hefur farið á undanförnum mánuðum  um stjórnarskrármál haldi áfram. I frumvarpinu er gert ráð fyrir að breytingar á stjórnarkskrá séu framvegis bornar undir atkvæði allra kosningabærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar.  Fulltrúar í stjórnlagaráði eru einhuga um að veita beri landsmönnum öllum færi á að greiða atkvæði um nýja stjórnarskrá áður en Alþingi afgreiðir frumvarpið endanlega. Komi fram hygmyndir um breytingar á frumvarpi stjórnlagaráðs lýsa fulltrúar í stjórnlagaráði sig reiðubúna til að koma aftur að málinu áður en þjóðaratkvæðagareiðsla fer fram.

Reykjavík 29. Júlí 2011.

Og undir þetta skrifa

Salvör Norðdal

Andrés Magnússon

Ari Teitsson

Arnfríður Guðmundsdóttir

Ástrós Signýjardóttir.

Dögg Harðardóttir

Eiríkur Bergmann Einarsson.

Eringur Sigurðarson

Freyja Haraldstóttir

Gísli Tryggvason

Guðmundur Gunnarsson

Illugi Jökulsson

Íris Lind Sæmundsdóttir

Katrín Fjeldslted

Katrín Oddsdóttir

Lýður Árnason

Ómar Þorfinnur Ragnarsson

Pawel Bartoszek

Pétur Gunnlaugsson

Silja Bára Ómarsdóttir

Vilhjálmur Þorsteinsson

Þorkell Helgason

Þorvaldur Gylfason

Þórhildur Þorleifsdóttir

Örn Bárður J‘onsson

Þorsteinn Sigurðsson.

Þarna skrifa allir ráðsmenn undir athugasemdalaust, og fólk úr öllum flokkum og með allar skoðanir.  Ekki bara það, heldur skilaði þessi 1000 manna fundur sem haldinn var  drögum um allt sem skipti það fólk mestu máli, til stjórnlagaráðs, og upp úr þessum hugmyndum og áherslum hefur svo verið unnið.  Mér sýnist af fullum heilindum og virkilega vel unnið plagg.

Ég var lengi á báðum áttum, vingsaðist til og frá eftir því sem ég las allskonar fullyrðingar og skoðanir á þessum drögum.

En þegar ég fór á fundinn þá einhvernveginn áttaði ég mig á mikilvægi þess sem hér var verið að gera.  Og áttaði mig líka á því að svona tækifæri kemur ef til vill ekki aftur. 

Þetta hefur í raun og veru ekkert með þessa ríkisstjórn að gera.  Þetta hefur með okkur sjálf að gera og hvernig nýtt Ísland við viljum sjá.  Eitthvað sem yfir þúsund manns úr öllu þjóðfélaginu hafa komið að.  Eitthvað sem við verðum að lesa okkur til og skoða sjálf en ekki fara eftir upphrópunum annara, oftast þeirra sem vilja ekki breyta, eða sjá sér hag af því að hafa lýðveldið allt svona galopið fyrir spillingu og óráðssíu.

Hér er þetta mál í heild sinni þökk sé einni bloggvinkonu minni Dagnýju: http://www.stjornlagarad.is/other_files/stjornlagarad/Frumvarp_med_skyringum.pdf

Þegar ég kom út úr skápnum með þessa skoðun mína vissi ég að ég myndi mæta mótspyrnu, og það varð, flestir sem ég á samskipti við hér á vegnum eru afar kurteisir og virða hvor annan. En svo eru sumir sem eru heitir í sinni sannfæringu, rétt eins og ég er í sambandi við ESB.  og læt stundum þung orð falla þar um.

Þeirri baráttu mun ég halda áfram. Enda held ég að vel skoðuðu máli þá komi þetta umsókninni um ESB nákvæmlega ekkert við, og ef eitthvað er, afmarkar frelsi stjórnvalda enn frekar til að ganga þá braut.

En eina sem ég get sagt er, lesið og kynnið ykkur málið þið sem hafið verið tvístígandi eins og ég. Skoðið vel hvað hér er á ferðinni og takið svo ykkar eigin ákvörðun út frá því sem ykkur finnst sjálfum. Ekki láta mata ykkur á einhverjum úrdráttum þar sem það sem gæti valdið misskilningi er dregið fram af fólki þá meina ég stjórnmálafólki, sem ekki vill láta þessar breytingar ganga eftir. Það er nefnilega svo ljómandi gott að hafa þetta eins og það er. Fjórflokkurinn við völd samtryggður í sinni spillingu og vegferð á kostnað okkar hinna.

Hér er tækifæri sem ekki býðst aftur í bráð svo mikið er víst.

Eigið svo góðan dag elskurnar ég þarf að fara upp á lóð að hlú að plöntum, þar sem sólin skín og veðrið er þannig að ég get verð úti. Gömlu beinin mín þola nefnilega ekki kuldann og rakann sem var til dæmis í gær.

Vil bara ítreka að ég skil vel ykkur sem ekki líkar afstaða mín, og þið hafið fullkomlega rétt til að bæði vera reið við mig og eins að hafa ykkar eigin skoðun. Ég er bara þeirrar gerðar, að ég vil frekar vera óvinsæl og segja eins og mér finnst, en að játa því sem ég tel ekki eiga að vera til að vera vinsæl. Heart

ÍSl. Fáninn

Ætla svo að enda þennan pistil minn á ljóði sem ég sendi Dögun þegar verið var að leggja grunnin að því stjórnmálaafli. 'Eg var reyndar beðin um að lesa þetta ljóð upp á fundinum góða.

Áfram – Nýtt Ísland, við ýtum úr vör,

Á úfinn og kólgandi marinn.

Með hugsjónir góðar, er hafin sú för

Og heilagur rétturinn varinn.

 

Þegnarnir uppskera eins og þeir sá.

„Þetta“ er alla að kyrkja.

  þurfum við atkvæð´ og þau ekki fá

Því  við viljum mannauðin virkja.

 

Því réttum við fram okkar hjálpand hönd

Og heitstrengjum -  ykkar er valið.

Og biðjum að fljótlega bresti þau bönd

Sem brýnt hafa okkur og kvalið.

 

Áfram – Nýtt Ísland, við siglum þann sjó

Sem samhugur einn getur bundið.

Og finnum þá gleði í hjarta-  og fró,

Sem friðþæging ein getur fundið.


Bloggfærslur 4. október 2012

Um bloggið

Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Höfundur

Ásthildur Cesil Þórðardóttir
Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Tónlistarspilari

Ásthildur Cesil - Dagdraumar
Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • 2f19c636fb68b249555c5fa250d3e103--russian-image-jellyfish
  • engill-angel
  • jolatre
  • 20171002 121526
  • gasometers-vienna-7[5]

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.9.): 6
  • Sl. sólarhring: 8
  • Sl. viku: 75
  • Frá upphafi: 2024185

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 42
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband