Mannleg reisn.

Mig langar aðeins að tala um það sem fram fór í gærkveldi, nú þegar sigurvíman er að baki og skynsemin tekin við. 

Ef ég á að segja hvað var þarna í hnotskurn þá myndi ég segja "mannleg reisn"

Þetta kvöld og svo undirbúningurinn var alveg frábært.  Það var svo sem ekki mikill undirbúningur, við hittumst einu sinni heima hjá Matthildi og Gumma þar sem farið var yfir nafnalistann og hvað ætti að standa við hvern keppanda og þar voru teknar myndirnar sem svo voru settar á netið.  Síðan var hist á Langa Manga kaffihúsi þeirra hjóna, þar sem Kastljósið og aðstandendur þess voru mætt til að ræða við okkur og taka upp.  Síðan æfing í Félagsheimilinu um kvöldið.  Þar sem meiri tími fór í að spjalla og hlæja en að fara yfir það sem átti að gerast.  Allir voru afslappaðir og glaðir, enginn var stressaður þrátt fyrir að þarna voru kvikmyndagerðarmenn með kvikmyndavélar á fullu.  Við vorum eins og stjörnur sem ekkert létum trufla okkur.  Flestir þarna mjög óvanir að koma fram.  Sumir jafnvel nýstaðnir upp úr þunglyndi og minnimáttarkennd. 

Svo kom stóri dagurinn.  Og þegar við mættum fengum við að vita að það var uppselt, og þurfti að vísa fólki frá.  Þarna voru þrír upptökumenn fyrir sjónvarp og fréttamenn frá ýmsum fjölmiðlum m.a. BBC.  DV maður var þarna líka og BB ljósmyndarinn okkar Halldór Sveinbjarnason.  En okkar fólk var ekki stressað fyrir fimm aura.  Það var rosalega merkilegt. Því ég hef oft tekið þátt í allskonar uppákomum, m.a. ótal frumsýningum á leikritum, þar sem æft hefur verið í a.m.k. 6 vikur og byggt upp allt sem þarf að gera og segja. 

Þarna voru okkar frumkvöðlahetjur á þönum, ein sá um miðana og bókanir, önnur var að raða upp stólum og skipleggja hver ætti að sitja hvar, þriðja að tékka á eldhúsinu, og sú fjórða að fylgjast með uppröðun á borðum og tékka á salnum.  Gummi fastur á barnum................... við afgreiðslu þessi ljúfi drengur.

Nú við vorum í sífeldum ljósmyndatökum og upptökum.  Þurftum að pósa og fara í upptökur í mynd og allir voru svo æðrulausir að undrun sætti. 

Á skemmtuninni vlidu flestir vildu koma fram með eitthvað atriði.  Og þetta fjölmiðlafár virtist ekki trufla þau neitt. 

Nú erum við að tala um fólk sem sjaldan eða aldrei hefur komið fram svona opinberlega.  Og ég verð að segja að ég hef bara aldrei upplifað annað eins. 

'Eg hef verið að spá í hvers vegna þetta gekk allt svona lipurlega og áreynslulaust fyrir sig.   Var það vegna þess að fólk var að vinna að einhverju sem skipti máli, eða var það vegna þess að stjórnendur voru rosalega óbeislaðir og frakkir.  Hvað olli því að 12 manns sem sjaldan eða aldrei höfðu komið opinberlega fram voru fullkomlega róleg og glöð að vera þau sjálf svona óforvarendis ?

Þarna stóðu þau fyrir framan kvikmyndavélarnar og brostu og bara sögðu það sem þau ætluðu að segja róleg og ákveðin falleg með bros á vör,  öll sem eitt.  Að öllu venjulegu hefði átt að ríkja taugatitringur og spenna.  Allir hefðu átt að vera stífir af spennu og ótta.

Ekkert slíkt gerðist.  Og frú Ásta Dóra kom sá og sigraði.  Alveg eins og í ævintýri.  Þessi kona sem aldrei hefur stigið á svið, aldrei gert neitt opinberlega til að ögra einu né neinu bara blómstraði eins og allir hinir.  Það er með ólíkindum og ég þekki þetta alveg ágætlega búin að vera í Litla Leikklúbbnum síðan 1966, sýna m.a. í Þjóðleikhúsinu og á norrænni leiklistar hátíð í Danmörku, verandi í hljómsveitum út og suður í mörg herrans ár, og taka þátt í allskonar uppákomum.  Ég veit vel að þetta er bara alls ekki svona.  Hvað olli þessu ?

Ég hef verið að spá í þetta.  Ég held að það byggist fyrst og fremst á því hve óstressaðar forsjárkonurnar voru. Og hvernig þær höndluðu málið frá A til Ö.  Það skiptir ekki svo litlu máli.

Það hringdi í mig blaðakona frá erlendu blaði í dag.  Setti ekki á mig nafnið eða blaðið.  Hún spurði mig hvort áhugi á málinu hefði komið mér á óvart.  Ég sagði nei.  Af hverju ekki ? spurði hún.  Og ég sagði, það sem hér er að gerast er eitthvað sem í raun og veru allir hafa verið að spá í.  Alveg eins og í sögunni um nýju fötin keisarans.  Enginn sagði neitt nema að dást að fötunum, þangað til eitt barn hrópaði upp; Mamma maðurinn er nakinn.  Þá einhvernveginn rann upp ljós fyrir öllum, og þeir sáu sem var að karl greyið var fatalaus.

Þannig eru málin stundum.  Við gleypum öll hvert eftir öðru enginn má vera öðruvísi, viðtekinn venja verður það sem allir eiga að samþykkja, þó þeir geri það ekki i raun og veru.  Svo þarf bara einn til að standa upp og segja; Mamma maðurinn er nakinn.  Og það er bara það sem allir vita, en enginn hefur haft kjark í sér til að segja opinberlega.  Þess vegna hefur þessi áhugi og eftirspurn ekki komið mér neitt á óvart.  Ég vildi óska að það kæmu fleiri svona sannleiksmál upp á yfirborðið og yrðu meðtekinn og sett á stall.

Sannleikurinn er þarna alltaf, og þegar við heyrum hann þá vitum við einhvernveginn að þetta er hann.  En meðan enginn stendur upp og segir setninguna, þá erum við meðvirk og fylgjum bylgjunni.  Það mættu fleiri segja þetta: Mamma maðurinn er nakinn.

Það er verið að segja þetta víðar.  En því miður þá er dýpra á þeim sannleika.  Þar sem við erum á einhvern hátt ekki tilbúin til að takast á við það sem það fólk er að reyna að segja.  En það er bara annað mál.

Við skulum vera dugleg að standa upp fyrir okkur sjálf og benda og segja Mamma Mamma maðurinn er nakinn !


Að gefnu tilefni.

Ég var að frétta að einhver nafnlaus manneskja væri að senda sms um mig.  Þess vegna ætla ég að tala út um það mál hér.

Faðir minn átti útgerð ásamt tveimur öðrum, bróður sínum og skipstjóra sem hafði unni með þeim í mörg ár.  Faðir minn og bróðir hans voru sveitastrákar norðan frá Fljótavík, fluttu hingað í bæinn og byrjuðu í útgerð með tvær hendur tómar.  Þeir fóru í skreiðar framleiðslu og keyptu báta, fyrst litla róðrarbáta en síðan stækkuðu þeir við sig. Þegar kvótakerfið var sett á áttu Þeir Júlíus Geirmundsson, man ekki hvort þeir áttu ennþá Guðrúnu Jónsdóttur en þessi skip voru skírð eftir ömmu minni og afa. Þeir fengu kvóta með þessum skipum, með þeim var í útgerð eins og áður sagði skipstjórinn þeirra til margra ára.  Síðan fóru þeir líka í frystihúsarekstur og hét það fyrirtæki Gunnvör h.f.  Það voru þessir þrír aðilar sem fóru með eignarhlut í frystihúsinu og togaranum.  Fyrir nokkrum árum , þegar ættingjar föðurbróður míns og skipstjórans höfðu tekið við rekstrinum en faðir minn var ennþá með sinn hluta varð brestur á samstarfi milli föður míns og þeirra um reksturinn, sá ágreiningur endaði með því að faðir minn sá sér ekki annað fært en að selja sinn hluta.  Fyrirtækinu var því skipt niður og seldi faðir minn sinn hluta.  Honum var ekki kunnugt um hverjir keyptu, því þeir vildu ekki að það væri honum ljóst af einhverjum ástæðum.  Nema að þarna fékk faðir minn dágóðan arð.  Við erum 7 systkinin og þegar móðir okkar dó, fengum við í okkar hlut helming á móti föður okkar eins og vera ber. 

Hvað þessi saga kemur við þeim áherslum sem ég hef í sjávarútvegsmálum er mér ekki alveg ljós.  Það vita allir sem vilja vita það, að verslun með kvóta er lögleg miðað við reglur í dag.  Enginn af þessum þremur aðilum hefur farið með fé sitt burtu úr bæjarfélaginu. 

Mér finnst þetta bara ekki skipta neinu máli varðandi mína afstöðu til þess að eign kvóta og brask með hann á að stoppa.  Þar ber ég fyrir brjósti eins og allir sem vinna með Frjálslynda flokknum, og réttur manna til að nýta auðlindir sjávar í dreyfðum byggðum landsins.  Ég tel það vera hagsmunamál landsbyggðarinnar.  Og ég tel að sú eyðibyggðastefna sem nú ríkir sé slæm fyrir alla þjóðina.  Ekki bara fyrir landsbyggðina heldur líka fyrir fólkið á höfuðborgarsvæðinu. Því brottkastið og rýrnun fisksins í sjónum sem er ekki veiddur, kostar okkur milljarða árlega, sem koma ekki inn í hagkerfið.  Það vita allir sem vilja vita að það er ekki hægt að geyma fisk í sjónum.  Hann syndir burtu, étur hvor annan og koðnar niður ef hann fær ekki æti.  Eða eins og nú er fullt af þorski um allann sjó, en ekki hægt að veiða hann ef menn eiga ekki líka steinbítskvóta, því steinbíturinn sem er mikið af syndir ofan á þorskinum, svo sjómenn geta ekki náð til þorsksins, og mega ekki koma að landi með steinbítinn.  Þetta kerfi er hlægilegt og að nokkur einasti maður skuli geta varið það, hvað þá hreykt sér af því er út úr korti. 

En það breytir ekki því að meðan lögin eru eins og þau eru, þá spila menn í því kerfi.  Það þarf því Frjálslynda flokkinn í stjórn til að breyta þessu og koma á meira réttlæti.  Við það stend ég og því vil ég vinna að. 

Ómerkilegir slúðurberar breyta því ekki.  Það er miklu heiðarlegra að koma hér fram undir nafni og spyrja mig hreint út, heldur en að vera að senda fólki sms með slíku nagi. En þá gæti verið að ég gæti svarað fyrir mig og útskýrt mín mál.  Það er illa hægt við baknag í skjóli nafnleyndar.  Ég vil að lokum segja að ég er enginn puntudúkka ég get alveg sagt mína meiningu og rifist við hvern sem er á málefnalegum nótum.  Rógi og illmælgi á bakið á manni er hins vegar ekki hægt að svara.  Því vil ég eiginlega beina þeim orðum til þess fólks sem hefur fengið svona skilaboð að láta mig vita.  Ég vil frekar fá hlutina beint í andlitið en á bakið á mér.  Þannig er ég sjálf. 


Fegurðarsamkeppnin óbeisluð fegurð 2007.

Já þetta var yndislegt kvöld.  Mig langar til að deila því með ykkur.  Ég fór í greiðslu og förðun og svo tók minn ekta maki af mér mynd í garðskálanum.

IMG_4154

IMG_4160 Svona flott var ég þá.

Síðan fór þetta alveg rosalega vel fram allt saman.  Halldór Jónsson lífskúnstner, ísfirðingur par exelense var veislustjóri og stýrði með glæsibrag.  Hann er fyndinn og flottur.  Svo voru skemmtiatriði, Einleikur Ársæls Níelssonar, skemmtilegt uppistand Elísabetar um hvernig er að verða magur aldeilis frábær performance.  Vestfirskar Valkyrjur sungu sumarsöngva, og kvartet frískra karlmanna söng minni kvenna og fleiri góð lög.  síðan sáu keppendur sjálfir um ýmis skemmtiatriði.  Það var svo gaman að fylgjast með hvað allir keppendurnir hreinlega skinu á sviðinu og nutu sín í botn. 

Matthildur, Íris, Gréta og Eygló voru eins og stormsveipir um allt, stjórnuðu öllu og voru í uppvarti og uppvaski og bara allt í öllu.  Krafturinn í þessum konum er eiginlega ótrúlegur. 

Þarna voru a.m.k.  Þrír aðilar með myndatökuvélar, og fleiri með myndavélar, og það var myndað í gríð og erg.  Alveg eins og á öðrum stórviðburðum.  Því vissulega var þetta stórviðburður.

Loks kom að því sem beðið var eftir afhendingu titla og borða.  Og það var spenningur í loftinu.  ég er viss um að ég fékk flottasta titilinn, ég vann nefnilega ÁRUNA 2007.  Heart Hvað getur hreinlega verið flottara en það.  Segi nú ekki margt. 

En svo kom að aðalspurningunni hver fær titilinn óbeisluð fegurð 2007 ?  Það hefur nefnilega komið í ljós tilkynnti Matthildur, sem við reyndar vissum, að það er ekki hægt að keppa í fegurð.  Svo það verður að draga meðal keppenda um hver hlýtur titilinn.  Þetta var svo flott sem mest gat verið.  Og eiginlega alveg tilgangurinn sem helgaði meðalið. Ásta Dóra þessi elska sem var líka kosin "Uppáhalds" dróst svo upp úr hattinum sem óbeisluð fegurð 2007.  Og allt ætlaði um koll að keyra.

Þetta var bara eitthvað svo fallegt og mannlegt að það einhvernveginn snart hvern einasta mann í salnum.  Það var mikil ánægja með kvöldið og maður fann að fólk var jafnvel klökkt.  Ein ung stúlka sem uppvartaði á staðnum sagði við mig; veistu að þetta kvöld var meira spennandi og skemmtilegt heldur en miss Vestfirðir um daginn.  Einn keppandinn sagði; ég er orðin dofin í kinnunum af hlátri.  Þetta var bara svona.  Og ég held að í kvöld hafi verið brotið blað í sögu fegrunarsamkeppna. 

IMG_4162

IMG_4161 Þessar tók minn elskulegi eiginmaður eftir heimkomuna.  En þetta var eini titilinn sem ég óskaði mér.  Og finnst alveg frábært að fá hann.  Þegar ég fór til að þakka norninni Björk fyrir mig, sagði hún; það var aldrei nein spurning þú skeinst eins og stjarna á sviðinu allann tímann. Hversu mikið fallegra er hægt að segja við neina manneskju? Ég bara spyr.  Svo fékk ég allskonar gjafir, nudd hjá Stebba Dan, bænabréf frá Séra Valdimar og kerti.  Er hægt að fá andlegri gjafir ? ég bara spyr.

Ég held að í kvöld hafi verið brotið blað. Ég tek undir orð veislustjóra frá og með þessu kvöldi verður fegurðarsamkeppni aldrei söm og áður.  Og ég held líka að þetta muni hafa ruðningsáhrif. Og ég er alveg viss um að hetjurnar þessar fjórar geri sér ekki grein fyrir því hve miklu þær hafa breytt.  Þær voru bara að gera eitthvað sem þeim fannst skipta máli.  Þær óttuðust að það kæmu alltof fáir, og engir myndu taka þátt.  Reyndin var að það var fullskipuð sveit þátttakenda, og það var uppselt og fengu ekki allir miða.  Fréttamiðlar allstaðar að fylgdust með, og síðast en ekki síst þá varð svo margt að þessi frábæra gúllashsúpa varð uppurinn og þurfti að elda meira, en það gerði bara ekkert til, þeir sem voru svangir átu bara brauð meðan þeir biðu eftir að Maggi Hauks og Ranka elduðu meiri súpu, hlustuðu á veislustjórann segja brandara og alla hina skemmta.  Þetta var allt svo heimilislegt og kósí, elskulegt og aldeilis frábært. 

Þetta verður endurtekið, að mér heilli og lifandi sem ég heiti Ásthildur Cesil.  Þær skulu ekki fá að hætta hér og nú. Hér verður framhald á.  Ég er uppnumin og heilluð af dásamlegu kvöldi og vissu um að hér hefur eitthvað stórkostlegt skeð.  Eitthvað sem ekki verður hönd á fest nákvæmlega núna, en það hefur gerst og það mun breyta heilmiklu.  Og það eru þessar fjórar frábæru konur með Matthildi, með Mál Matthildar í fararbroddi auk Guðmundar Hjaltasonar sem hafa breytt heiminum núna.  Það er flott að upplifa svoleiðis örstutt... en samt risaskref. 

Segi bara enn og aftur TAKK FYRIR MIG.


Bloggfærslur 19. apríl 2007

Um bloggið

Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Höfundur

Ásthildur Cesil Þórðardóttir
Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Tónlistarspilari

Ásthildur Cesil - Dagdraumar
Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • 2f19c636fb68b249555c5fa250d3e103--russian-image-jellyfish
  • engill-angel
  • jolatre
  • 20171002 121526
  • gasometers-vienna-7[5]

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.7.): 0
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 18
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 18
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband