Úr gullkistu Frjálslyndaflokksins.

Ég er að lesa Gullkistuna, blað sem Frjálslyndi flokkurinn gefur út.  Frjálslyndi flokkurinn er sá flokkur sem hvað mest og best hefur barist fyrir réttlátri fiskveiðistefnu og hefur leiðsögn gamla skipstjórans og aflaklóarinnar Guðjóns Arnars verið kjölfestan í þeirri baráttu. 

Í blaðinu þennan sjómannadaginn er grein eftir Ólaf Sigurðsson matvælafræðing sem heitir: Lífsbjörg þorpanna var rænt frá okkur.

Mig langar til að birta hana hér (án leyfis) til heiðurs sjómönnunum okkar og þorpunum allt kring um landið.

Lífsbjörg þorpanna var rænt frá okkur.

Við leikfélagarnir vorum 11 eða 12 ára þegar við byrjuðum að vinna á bryggjunni í Hafnarfirði.  Lægsti taxti fyrir 16 ára og yngri var 80% af fullorðinslaunum.  Náðu hátt í launin hans pabba í bankanum.  Strákarnir í Vesturbænum voru hörkuduglegir, þó við værum bara krakkar.  Unnið var til sjö og frameftir á laugardögm.  Við þvoðum lestarborðin, klampana, steisklampa og fl. sem aftur fór í lestina nýþvegið eftir löndun.  Þetta var alltaf svona á sumrin en skóli á veturna.

Oft fengum við vinnu um páska og í jólafríum, alltaf var gott að fá aur.  Í bænum sást varla fólk á ferli, allir að vinna í Bæjarútgerðinni.  Í hádegi og kvöldin flykktust konurnar í stígvélunum og hvítu jökkunum heim til að elda og svo til baka.  Á sunnudögum var þrjúbíó og Bæjarbíó.  Lífið var einfalt en vinnan gaf okkur margt og árin liðu.

Við bræðurnir fórum með launaumslögin til mömmu á föstudögum, ekki þurfti ég pening þangað til ég fór til tannlæknis í Reykjavík.  Þetta var í þá tíð að unglilngar fengu falskar tennur í fermingargjöf.

Svo gerðist eitthvað, aflinn minnkaði, togarinn Maí varð þungur í rekstri og deilur stóðu um Bæjarútgerðina.  Las svo í blaðinu að búið væri að selja togarann norður, það var alvarlegt fannst mér, unglingnum. Það flaug um bæinn að bæjarfulltrúarnir væru svo vitlausir að láta veiðarfærin með án þess að verðleggja þau.  Manni fannst eitthvað vera að þessu öllu.  Maður hafði alltaf haldið að þetta væri það sem bjargaði Íslandi og okkur frá fátæktinni.  Þetta var í þá tíð þegar allt var nýtt, og engu hent og helst aldrei tekið lán, enginn peningur til.  Epli voru að vísu aðeins um jólin og margt útlenskt okkur framandi.

Síðan komu nýjar veiðireglur og Maí fékk kvótann, sem hafnfirðingar höfðu unnið fyrir, Bæjarútgerðin var að líða undir lok.  Fiskvinnslan var ekki svipur hjá sjón eftir að Bæjarútgerðin hætti. Ég ímynda mér að mörg sjávarplássin hafi lent í því sama, að missa fiskvinnsluna frá sér.  Sums staðar er enn vinnsla í landi en nægir oft varla til að það sé lífvænlegt í mörgum plássum.

Mér gremst að til sé kvótakerfi, þar sem hægt er að taka af þorpunum aldagamlan rétt til að geta lifað í plássinu, í nafni hagræðingar í vinnslu.  Svo var okkur í Hafnarnfirði boðið upp á stækkað álaver í staðinn.  Nú ætla bæjarfulltrúarnir enn og aftur að hafa vit fyrir okkur, eftir að hafa selt kvótana frá þorpinu, fyrir einskis verð loforð um að vinnslan fari ekki.

Björginni hefur verið rænt frá þropunum, með hjálp bæjarstjórnar, ríkisstjórnar og að frumkvæði útvegsmanna.  Álver duga okkur ekki.  Samfélagslegt tjón er ekki metið, því það er ekki verið að reikna svoleiðis hluti.  Sagði ekki forsætisráðherra Davíð Oddsson á sinni valdatíð, að það þyrfti að aðstoða fólk í fámennum byggðalögum að flytjast suður?

Ég veit ekki hvernig þetta gerðist að við hættum að hugsa um hvað hélt byggðinni uppi umhverfis landið, kannski að spilltir stjórnendur hafi skipt með sér gæðunum.  Framsóknarmenn áttu landbúnaðinn og sjálfstæðismenn fiskinn og gráðugir einkahagsmunir réðu för.  'Eg veit að himnarnir hrynja ekki ef útgerðarmenn verða að borga gjald af auðlindinni.  Veit líka að fólkið sem býr í fámennum sveitarfélögum umhverfis landið verður ekki í vandræðum með að veiða og vinna fisk eins og áður.  Við kunnum þetta og getum alveg bjargað okkur, bara ef vil fáum það án þess að björginni verði stolið frá okkur aftur.

Til hamingju með daginn sjómenn!


Viðtalið í Fréttatímanum.

Ég er afskaplega ánægð með viðtalið við Sigríði Dögg um Júlla minn og Jóhönnu í Fréttatímanum, blað sem ég hafði ekki lesið, en fékk þær upplýsingar að það kæmi á hverjum föstudagsmorgni á N1 á Ísafirði, en væri algjörlega búið um hádegið.  Ég hafði því smáfyrirvara á og bað starfsmennina að geyma eitt eintak fyrir mig, og það var nákvæmlega þannig að þegar ég kom var ekkert eintak eftir, Ó ég bað um að þið geymduð eitt eintak fyrir mig sagði ég, já sagði stúlkan í afgreiðslunni og brosti það er hér og hún rétti mér eintak.  Takk ljúfan.Heart

Ég vona bara að þetta opni einhverjar gáttir til skilnings um hvað er að gerast.

Ein vinkona Jóhönnu hringdi í mig í dag til að þakka mér fyrir greinina, og sagði mér að hún hefði reynt að styðja við bakið á henni í súru og sætu.  Og hún hafði einmitt bjargað henni kvöldið áður þegar hún missti meðvitund, var flutt á spítala og þegar vinkonan ætlaði að heimsækja hana daginn eftir, þá var hún farin út af spítalanum.  Hún varð afar undrandi og spurði: Eruð þið ekki að djóka í mér?  Vona að ég megi segja þetta umbúðarlaust.  Nei hún var farin út af spítalanum.  Og þar sem hún átti ekki í nein hús að venda, fór hún til fólks sem hún þekkti úr neyslu.  Þannig bara gerðist það hræðilega.

Ef hún hefði fengið að fara í vistun þar sem hlúð hefði verið að henni og henni hálpað, hefði hún ef til vill getað komist upp úr þessu, því hún var bæði hrein og glöð þegar hún kom frá Sólheimum.  En nei enn og aftur var henni kastað fyrir úlfana.  Segi og skrifa.  Svona getur alveg gert mann brjálaðan. Hvers á þetta blessaða fólk að gjalda að kerfið svo gjörsamlega hendir þeim beint út í dauðann. 

Af hverju er ekki einhver stofnun sem tekur við konum, rétt eins og körlum þegar þau koma úr afplánun? Af hverju eiga þær bara að fá að vera á götunni og kastað út í það líf aftur og aftur, allt rifið burt?

Bæði Jóhanna og Júlli minn vildu hætta þessu lífi, en kerfið hafnaði þeim, og drap þau, það var nefnilega ekki óvinurinn andlitslausi sem drap þau, því þau vildu komast burt, það var kerfið sem drap þau.  Fyrirlitning bókstafsins og óþolinmæði kerfisins sem á endanum drap þau, eins og svo marga aðra.  Þessu þarf að linna og það þarf að þvinga kerfið þá á ég við íslenska ráðamenn sem setja lög um fangelsismál og félagsmál, ásamt mörgu öðru, til að gjörbreyta afstöðu sinni til fíkla og hvað það snýst um. 

Ég vona að ég særi engan með þessari færslu, en stundum þarf bara að segja napran sannleikan til að fá fólk til að sjá á hversu þvílíkri rangri leið við erum.  Og þetta ætti í raun og veru að vera eitt af næstu kosningaloforðum, því slíkur er fjöldi aðstandenda sem eru í sárum vegna aðstæðna í fjölskyldum.  Það er nefnilega alrangt að þetta sé einkamál dómskerfis og félagsmála eða lögreglu, þetta er líka mál fjölskyldna og heilbrigðisstofnana og svo margra annara stofnana og einstaklinga.

Ég fæ ekki mitt fólk til baka, en svo sannarlega vil ég leggja mitt af mörkum til að aðrir foreldrar lendi ekki í því sama og við ástvinir Júlla míns og Jóhönnu, það er komið alveg nóg.

http://www.frettatiminn.is/tolublod/1_juni_2012 Hér er viðtalið.  Og ég sé að þetta blað er bara mjög gott og yfirgripsmikið. 

Svo lofaði ég einum viðskiptavini mínum að tilkynna að ég hef opnað garðplöntustöðina mína, hún verður opin sem hér segir:

Miðvikudaga, fimmtudaga og föstudaga frá 14.00- til 18.00

Laugardaga og sunnudaga frá 14.00 til 16.00.

lokað á mánudögum og þriðjudögum.

Hún hafði nefnilega áhyggjur af því að fáir vissu um opnunina, og svo er um marga fleiri, þessar elskur bera minn hag fyrir brjósti. En ég verð þarna sjálf og gef líka góð ráð og svara spurningum sem upp verða bornar, og allir velkomnir.Heart


« Fyrri síða

Um bloggið

Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Höfundur

Ásthildur Cesil Þórðardóttir
Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Tónlistarspilari

Ásthildur Cesil - Dagdraumar
Júní 2012
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • 2f19c636fb68b249555c5fa250d3e103--russian-image-jellyfish
  • engill-angel
  • jolatre
  • 20171002 121526
  • gasometers-vienna-7[5]

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (30.9.): 1
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 71
  • Frá upphafi: 2024188

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 39
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband