Til hamingju Guðrún.

Var að sjá á BB að Guðrún Sigurðardóttir hefur verið ráðin Nýr stöðvarstjóri Rúv.  Ég var einmitt að vona að svo yrði.  Ég vil reyndar nota þetta tækifæri til að þakka Finnboga Hermannssyni fyrir að standa vaktina á RUV-Vest um langa hríð.  Hann er mjög fróður maður og kom oft með góða sýn á hin ýmsu mál.  Nú getur hann slakað á og farið í að dunda sér við að setja niður kartöflur og grænmeti, gert upp gamla bíla og allt það sem varð að sitja á hakanum í fréttastarfinu.

Gudrun Sigurdardottir

Guðrún finnst mér alveg frábær manneskja og vel að þessu starfi komin.  Ég er viss um að útvarp vestfirðir eru þar í góðum höndum.  Hún er jákvæð og hugmyndarík, vakandi í því sem hún er að gera.

Það sem mér finnst flottast í þessu öllu er að það var ráðin í þetta starf okkar kona, ísfirðingur sem er inn í sálinni hér á Vestfjörðum og veit hvar hjartað slær.  Velkominn til starfa Guðrún mín og farnist þér vel í starfi.

Sóli skín í dag, og það var líka hellirigning, svo nú finnst manni vorið vera komið.  Ég var líka að gera starfslokasamning við Ísafjarðarbæ, þar sem verið er að leggja starfið mitt niður.  Ólíkt Guðrúnu sem er að taka við nýju starfi, þá er ég að leggja lokahönd á mitt.  Ég mun þó ekki hverfa af vettvangi, því ég mun áfram hugsa um grænu svæðin hér bara á annan hátt.  Ásel hefur gert verktakasamning við bæinn um umsjón með svæðunum.  Og ég mun gera mitt til að halda þeim í viðunandi horfi. 

Mér er þetta mjög kært, því ég hef byggt þau flest upp af eigin rammleik.  Oft með átaki og svokallaðri "frekju" sérstaklega fyrst í stað.  Með bilað bak eftir mikið puð fyrstu árin.  Svona er þetta bara.  Nýjir menn taka við með ný sjónarmið.  En ég mun halda áfram að reyna að passa upp á svæðin eins og ég get.  Sérstaklega mun ég reyna að verja Austurvöll, þann merkilega garð, sem er systurgarður Hallargarðsins í Reykjavík.  Við erum svo rík að eiga fjóra skipulagða skrúðgarða í bæjarfélaginu, Skrúð, Jónsgarð, Simsonsgarð og Austurvöll.  Sá yngsti hálfrar aldar gamall, þetta er mjög sérstakt í einu bæjarfélagi.  Og ómæld forréttindi fyrir okkur hér.  Þetta ber að vernda með öllum hætti.

   Ég mun örugglega ræða meira um störf mín í bæjarfélaginu.  En ég byrjaði sem umsjónarmaður opinna svæða 1978, og hef unnið með smá hléum fram á þennan dag.  Byrjaði reyndar að vinna hjá bænum á skrifstofunni 1966, þannig að ég er sennilega elsti starfsmaðurinn þar.  Fór í Garðyrkjuskóla ríkisins árin 1987 -8 og var gerð að garðyrkjustjóra Ísafjarðarbæjar upp frá því.  Núna frá og með 1. maí hins vegar ætla ráðamenn að leggja starfið mitt niður.  En gera verktakasamning við Ásel eins og áður sagði. Það voru ekki mörg græn svæði þegar ég tók við.  Og Skrúðgarðar bæjarins í algörri niðurníðslu.  Ég þurfti að leita að þeim beðum sem voru til staðar í görðunum tveimur Jónsgarði og Austurvelli.  En ég hef alltaf haldið þeim í sem upprunalegustu mynd.  Sá sem teknaði upp Austurvöll var Jón H. Björnsson sá mæti landslagsarkitekt, og ég veit að hann er mjög ánægður með hve viðhaldi garðsins hefur verið haldið sem upprunalegustu, og þeim gróðri sem þar var.

En nú þarf ég að þjóta ég skrifa ef til vill meira um þessi mál síðar. 

 IMG_1455


Í dag var varpað kjarnorkusprengju á hafnarborgina Hiroshima....

Þetta var yfirlýsing frá Eisenhower.   Svo heyrði ég endurtekið tvisvar í dag, lesið af Pétri Péturssyni heitnum.  Fyrirgefið en er þetta ekki þjóðin sem taldi sig hafa rétt til að ráðast inn í Írak, og jafnvel fleiri lönd vegna hættu á innrás af völdum kjarnorku ? Öxulveldi hins illa.

Pétur heitinn sagðist hafa titrað og það hafi verið skelfilegt að lesa þetta.  Hvað þá að upplifa það.  Þetta rifjar upp að helsta hryðjuverkaríki heims er nefnilega Bandaríki norður Ameríku.  Það er eina ríkið sem hefur lagst svo lágt að sprengja ekki bara eina heldur tvær borgir í tætlur með kjarnorkusprengjum.  Konur, börn menn, dýr allt sem lifir.  Er þeim refsað ? eru þeir fordæmdir? Ónei, við leyfum þessum morðingjum að gera sjálfa sig að heimslöggu, sem telur sig þess umkomna að ráðast inn í önnur ríki til að stemma stigu við því sem þeir kalla hættu á árárum með kjarnorku. 

Hvenær kemur sá tími að Bandaríkjamenn verði dregnir til ábyrgðar fyrir glæpi gegn mannkyni.  Hér þýðir ekki að segja að þetta sé fyrnt.  Það hefur ennþá ekki fyrnst glæpir nasista.  Og það ríkir enn þögn um hvað gerðist í Helförinni.  Nema sú söguskýring sem okkar er gefinn.  Ekki ætla ég að réttlæta þann hrylling.  En mér finnst bara að það eigi jafnt yfir alla að ganga.  Þetta er búið að ólga í mér í dag, síðan ég heyrði gamla góða fréttaþulinn okkar fara með þessa frétt.  Hann kallar til okkar að handan og sendir okkur þessi skilaboð yfir móðuna miklu.  Ætli það sé tilviljun ?


Síðan skein sól !

Þá skín sólin á ný á okkur hér á vestfjörðum. 

 

IMG_4185

 

Það er bara góður hugur í mínu fólki.  Menn spá í atvinnumálin, og mikið er spekulerað um olíuhreinsistöðina.  Og sýnist þar sitt hverjum.  Flestir eru á því að hér sé um einhverskonar gulrót að ræða.   Menn eru orðnir svolítið skeptiskir á kosningaloforð meirihlutans og hvert þau leiða okkur.  Það er komið mikið af innantómum og fjölnota loforðum.  Margir gera að því skóna að hér sé ein slík.  Ef við höfnum þessari stöð sé bara hægt að segja við okkur að fyrst við höfnum þessu, þá þurfum við ekki þessa 15 milljarða sem á að setja hingað.  Því við viljum hvort sem er ekki láta bjarga okkur.

Málið er að við viljum ekki láta gera neitt.  Við viljum fá að bjarga okkur sjálf.  Eða eins og góður maður sagði einhverntímann, látið okkur hafa verkfærin og við skulum vinna.

Við höfum sýnt að við erum dugandi fólk sem vill vera hér áfram og gera það sem gera þarf.  En til þess þurfum við tækifærin og verkfærin og þær auðlindir sem við eigum rétt á hér við bæjardyrnar hjá okkur.  Og við munum sjá um að koma okkar sjálf upp úr þeirri eymd sem nú blasir við.  IMG_4186

Þessar myndir tók ég núna fyrir augnabliki síðan.  Þegar ég kom heim til mín útblásin af bjartsýni á lífið og tilveruna. 


Leikur í skýjum á þessum dýrðardegi.

IMG_4179 

Það er stundum fallegt að sjá hvernig sólin leikur sér við skýin á kvöldin. 

 

IMG_4180

Maður fyllist lotningu yfir þeirri fegurð.

IMG_4181

Og enginn mynd er eins.  Listaverk almættisins í allri sinni dýrð.

IMG_4182

Endalaus listaverk, aldrei aldrei eins.

IMG_4183

Hvaða listaverkasalur bíður upp á slíkt ?  Og hvaða listagallerí jafnast á við þetta ?


Ég og Frjálslyndi flokkurinn.

  Ég hef verið að rifja upp af hverju ég tók þátt í uppbyggingu Frjáslynda flokksins. 

Ég hafði svo sem heyrt ávæning um að það væri verið að setja nýjan flokk á koppinn, en veitti því ekki nánari athygli.  Ég var á þeim tíma í forsvari fyrir Skíðavikuna á Ísafirði, og var að á kafi í vinnu.  Ég var upp á skíðasvæði einu sinni sem oftar, þegar Halldór Hermannsson kom til mín og spurði mig hvort ég vildi ekki koma og taka þátt með þeim.  Bretta upp ermar og taka slaginn með þeim bræðrum.

Kall4reglugerdÉg hafði þá verið “landlaus” um hríð, hafði alltaf kosið Sjáfstæðisflokkinn en gat það ekki lengur af réttlætissjónarmiðum.  Hafði spurst fyrir hjá hinum flokkunum í kosningum og verið fátt um svör  hjá flestum. 

Þegar ég fór að vinna með þessu ágæta fólki og skoða málefnin þá fannst mér þetta vera einmitt það sem ég hafði verið að leita að. Um þetta leyti kom Guðjón Arnar í flokkinn og fleiri góðir menn voru þarna sem ég þekkti vel, öðlingar eins og  Pétur Bjarnason þáverandi fræðslustjóri Vestfjarða.  Þarna var Margrét Sverrisdóttir og faðir hennar Sverrir.  Það svall í okkur öllum eldmóður réttlætisins. 

post-6389-1132924550Það var gaman að upplifa fyrsta Landsþingið og vinna að framboði við fengum tvo menn inn á þing, það var reyndar Guðjón Arnar sem dró Sverri Hermannsson inn á þing.  En sigurin var sætur, þar sem okkur hafði ekki verið spáð byrlega.  Við höfum reyndar mátt sæta því alla tíð síðan að fá hraklegar spár úr skoðanakönnunum.  En fólki mitt hefur aldrei látið það á sig fá.   Kall2reglugerdInn í flokkinn komu svo fljótlega ungir menn sem voru að koma heim frá námi.  Þeir höfðu leitað innan flokkaflórunnar og sáu að þarna var tækifæri til að láta til sín taka og byggja upp ferskan og góðan flokk.  Það voru allskonar spekulasjónir um hvaða stefnu við ættum að taka, og það var gaman að vinna upp málefnahandbókina.  Bændur fengu þann kross að fara yfir landbúnaðarmálin, sjómennirnir og skipstjórarnir ræddu kvótakerfið og hvernig væri best að meðhöndla það.  Guðjón varað strax í upphafi við hvað myndi gerast og allt sem hann sagði hefur staðið eins og stafur á bók.  Öll varnaðarorðin komið fram. GudniLand 

Það er gaman að starfa í litlum flokki  þar sem hver og einn skiptir máli, og hefur sitt að segja.  Það er gaman að byggja upp slíkan flokk.  Því miður hefur alltaf verið einhver afföll, menn yfirgefið flokkinn, ég held vegna þess að þau voru frekar að hugsa um persónulegan frama eða sitt eigið sjálf en ekki fólkið og þjóðina.  Það besta er samt að fólkið sem myndar kjarnann er allt til staðar ennþá í flokknum.  Allt það góða fólk sem hefur lagt mikið á sig til að gera veg flokksins sem mestan.  Fólki sem hugsar um framtíðina og hag almennings en ekki bara sinn eigin frama. 

Broskelling  Nú höfum við þurft að liggja undir leiðinda áróðri og rógi um rasisma, sem á sér enga stoð í raunveruleikanum.  Fyrstu árin var reynt að þaga okkur í hel, tala ekki um flokkinn, og gleyma honum eins og hægt var.  Þegar það gengur ekki lengur, er reynt að koma á hann ljótum stimpli.Við munum lifa þetta af eins og annað.  Af því að málefnin eru góð, vel ígrunduð og manneskjuleg.  Ég sé eftir Margréti úr flokknum, ég held að henni hefði farnast betur innan okkar raða.  En hún ákvað að fara þessa leið og það er nú einu sinni í okkar anda að menn hafi frelsi til að þiggja eða hafna.    Fólkið í flokknum mínum er misjafnt eins og gengur, sumir eru ef til vill klaufalegir við að koma sínum sjónarmiðum á framfæri.  En kjarninn og uppistaðan í flokknum er heilsteypur hópur sem hefur staðið af sér alla brotsjóa hingað til.  Ég er stolt af mínum mönnum.  Og ég er viss um að þegar talið verður upp úr kössunum 12. maí þá mun koma í ljós að við höfum hljómgrunn meðal þjóðarinnar.

toppur_vinstri Annað sem ég vil minnast á er  að hér á Ísafirði fórum við í samstarf með Í – listanum, það er samstarf með Vinstri grænum og Samfylkingunni.  Þetta samstarf var og er enn aldeilis frábært og góður andi.  Ég vona að við höldum áfram því góða samstarfi, því við eigum miklu meira sameiginlegt en það sem sundrar.  Við verðum að fara að hugsa öðruvísi, ekki bara um vinsældir og okkar eigin rass.  Heldur um hvað hægt er að gera með samvinnu og samstöðu.  Við þurfum að hugsa um alla sem eru í samfélaginu okkar og sérstaklega þá sem minna mega sín, þeir eru fleiri en margir vilja vera láta.  En fyrst og fremst þurfum við að huga að framtíð barnanna okkar.  Það er ekki skemmtileg framtíðarsýn ef núverandi ráðamenn verða búnir að ráðstafa auðlindum okkar til peningafurstanna,  eins og mér  sýnist hugur þeirra standa til.  Einkavæða og selja samanber bankana, símann og bráðum ríkisútvarpið, í sjónmáli eru svo Landsvirkjun og fiskurinn í sjónum. 

Er það sú framtíðarsýn sem við viljum sjá?

   Ég veit að fullt af fólki gengur um með leppa fyrir augunum.  Allt er svo gott og flott og allt yrði alveg hræðilegt ef vinstrimenn kæmust hér að.   Hvurslags vitleysa er þetta eiginlega eða barnaskapur ?Eru svokallaðir vinstri menn öðruvísi menn en hægrimenn ? Ung kona sem er öryrki í dag sagði við mig;  það er talað um að herða sultarólina, okkar sultaról er strengd á síðasta gati.  Við getum ekki meir.  Uppreisn gamla fólksins segir líka sína sögu. Hagræðing ? hvað er það ? Að mínu áliti er það fallegt orð yfir arðrán.  Um leið og þú hagræðir einhverstaðar þá skerðir þú annarstaðar, svona eins og Eins dauði er annars brauð.  Hvar er til dæmis hagræðingin í sjávarútvegi.  Skuldir sjávarútvegsins eru gífurlegar, og aukast sífellt, hvenær kemur að skuldadögum þar.  Og hvar standa bankarnir þá ? Þegar ekkert verður eftir til að taka veð í ?Og ekki nóg með það að greifarnir fari út úr sjávarútveginum með peningana sína, og eftir sitji menn með skuldirnar, heldur hefur skapast það ástand í sjávarbyggðum að fólk getur hvorki lifað eða dáið, situr í verðlausum húsum.  Það fær ekki einu sinni lán út á húsin sín, af því þau eru ekki á stórReykjavíkursvæðinu.  Byggðirnar eru að blæða út vegna þess að þær eru sveltar.   Úff Ásthildur ! Ég verð alltaf reið þegar ég hugsa um þessi mál.  Kall1reglugerdÞað er ekki þjóðhagslega hagkvæmt.  Það er heldur ekki þjóðhagslega hagkvæmt að flytja okkur landsbyggðalýðin á mölina í gettó í Breiðholtinu, eða upp við Rauðavatn.  Eins og Jón Sigurðsson hefur lagt til og margir styðja.  Það sem er hagkvæmt fyrir þjóðina er að gefa henni sem mest frjálsræði, losa um kverkatak greifanna á óveiddum fiski í sjónum.  Og losa um kverkatak á bændum og leyfa fólki að bjarga sér á þann hátt sem það best kann.  Það er hægt að stýra aðgangi að auðlindunum með skynsamlegum hætti, án þess að hlekkja fólki í landinu í þrældóm.  Það er líf eftir þessa ríkisstjórn.  Það er hægt að gera betur.  Og það er komin tími til að við þorum að gera það.  Þorum að breyta til.   Að þora er allt sem þarf.

Gróður, móðir jörð og ungviðið sem mun erfa jörðina.

Þessar elskur komu í heimsókn í dag.  Flott og fín.  Ömmudúlla og skjaldsveinn.

IMG_4173 Prinsessa með stæl.

Svo var maður náttúrulega í gróðrinum, eins og þið sjáið þá grænkar allt meira og meira í gróðurhúsinu.

IMG_4175 Og svo má sjá blómin betur hérna.

IMG_4178

En svona leit veðrið út í morgun

IMG_4174

Allt hvítt. 

En það er vor í sálinni og mér líður mjög vel.  Héðan er sum sé allt gott að frétta.  Og allt í blóma, líka pólitíkin þessi skrýtna tík, því það er hreinlega ekkert að marka skoðanakannanirnar.  Það er allt annað hljóð sem við heyrum hér og í öllu kjördæminu.  En það má víst ekki segja svoleiðis. 

Við munum blíva þannig er það bara.  Og við munum marka spor.  Við erum.... einfaldlega. 

Og til hamingju móðir jörð með daginn þinn.  Ég elska þig og allar þínar vættir huldar sem sýnilegar, stórar sem smáar.  Allt frá hinum eldgamla Berg í hina smávöxnu og glöðu blómálfa.


Litlir stubbar og pabbi og ömmudama frá Vín.

Þessi litli stubbur kemur oft í heimsókn til ömmu.  Hann er alveg frábær og farin að tala heil ósköp. Það er svo gaman að fá hann í heimsókn.

IMG_4169

Hér eru svo hann og pabbinn

IMG_4166

Og svo stubburinn minn stóri bróðir og frændi hans að leika Harrý Potter

IMG_4170

En svo er hér í lokin ein Vínardama, krúttið hennar ömmu sinnar.

IMG_1491 Maður getur nú aldeilis puntað sig þegar maður er Vínardama. Heart


Skoðanakannanir.

Ég er farin að hafa þá ískyggilegu tilfinningu að við höfum fundið upp hjólið, fundið hina einu og sönnu aðferð til að ráða yfir þjóðinni.  Einhverjir, ekki endilega stjórnmálamennirnir heldur þeir sem gera skoðanakannanir eða kaupa þær. 

 

Það er farið að gera skoðanakannanir á öllu mögulegu og ómögulegu, það voru a.m.k. þrjár slíkar í hádegisfréttum.  Og þeim var meira að segja skipt niður í ekki bara karla og konur heldur líka flokka og karla og konur í viðkomandi flokkum.  Hvað á þetta skoðanakannanafargan eiginlega að ganga langt ?

Víst geta skoðanakannanir verið skoðanamyndandi, sérstaklega fyrir fáfrótt fólk sem bara fylgir næsta manni.  Og svona endalausar kannanir um allt mögulegt, lögregluher, matarverð, hvort grasið sé grænna hér eða þar, eða hvort manni líki við skattkerfið eru að mínu mati komnar algjörlega út fyrir öll velsæmismörk. 

Mér líður eins og við séum mötuð á upplýsingum sem eiga að koma okkur öllum á sömu skoðun á hinum ýmsu málum. Hvenær kemur könnun um hvenær við fötum í rúmið, hversu oft við höfum kynmök við makan, eða bara hversu oft við förum í bað ? Síðan er þessu safnað saman, til að fyrirtæki geti vita hvað þau eigi að framleiða mikið af sjampói eða getnaðarvörnum ?  Þjóðfélagið er hreint út sagt vaðandi í þessum endalausu könnunum.

Og hvað er lagt til grundvallar, við vitum að það er hægt að fá allskonar útkomur úr skoðanakönnunum, allt eftir því hvernig er spurt.  Eins og til dæmis þessi; hvaða flokk myndir þú kjósa ef þú kýst ekki Sjálfstæðisflokkinn? 

Við vitum að sumir stjórnmálaflokkar kaupa sér skoðanakannanir, og þá eru þær kannanir miðaðar við útkomu sem hugnast viðkomandi flokki. Þ.e. þeir sem á annað borð hafa efni á slíku.  Hvenær byrja kannanir um drykkjusiði okka, hvaða drykk myndir þú kaupa ef þú keyptir ekki Kók ?

Við búum í mötunarsamfélagi.  Við erum á hverjum degi mötuð á allskonar upplýsingum um hvernig við eigum að haga okkur og hvað við eigum að gera.  Þeir sem ekki vilja dansa með, eru taldir einstrenginslegir og afturhaldsseggir.  Það þurfa allir að dansa í takt, hvert svo sem dansinn dregur okkur.  Ekki hugsa of mikið sjálf/ur, það hentar ekki þeim sem vilja stjórna.  Dansandi stefnulaus þjóð er óskaþjóð neyslusamfélagsins, svo það sé hægt að draga okkur á asnaeyrunum endalaust telja okkur trú um að þetta sé það besta fyrir okkur.  Og það sé óþarfi að breyta neinu, því við séum hamingjusamasta þjóð heims, og hér sé allt í sem mestum blóma og sóma. 

Ef einhver mjóróma rödd bendir á að það sé nú einhver fátækt til, eða fólk sem ekki hefur það eins gott og aðrir, þá er það bara píp í afturhaldsseggjum.  Enginn hefur það eins gott og hinn íslenski almúgamaður.  Og allir græða.  Bankarnir, tryggingarfyrirtækin, verslanirnar, sægreifarnir stjórnmálamennirnir engar áhyggjur þarf að hafa þar.  Samt læðist að manni sá grunur að þegar einn græðir þá hlýtur einhver annar að tapa.  Það er ekki hægt til lengdar að allir hver og einn einasti græði.  Einhverjir hljóta að þurfa að borga fyrir herleg heitin. Það skyldi þó aldrei vera að breiðu bökin í okkar ríka góðærisþjóðfélagi væru einmitt þeir sem minnstan þátt eiga í þessu velferðarþjóðfélagi.  Og síðan og ekki síst reikningurinn sendur inn í framtíðina,  til barnanna okkar og barnabarnanna.  Þau munu fæðast sem þrælar neyslu og bruðls okkar sjálfra.

Þjóðólfur Greipsson, fæddur 3. apríl 2020, hann fær við fæðinguna, sendan reikning frá forfeðrum sínum upp á 50 milljónir, sem hann þarf að hafa greitt upp fyrir 40 ára aldur.  Hann fær númerið 1313 þræll númer 150630.


Dagurinn í dag.

Dagurinn í dag er svolítið úfin og æstur.  Ég held að hann spái líka meira roki seinna í dag. 

IMG_4164

IMG_4165 Veðrið hefur mikil áhrif á okkur allavega mig.   Þegar sólin skín verður maður einhvernveginn svo léttur í lund og bjartsýnn, en þegar dimmt er og drungi yfir öllu verður maður ósjálfrátt orkulaus.  Grenjandi rigning getur haft mjög góð áhrif á mann ef það er hlýtt.  Veðrið í dag er svo sem ágætis vorveður, ef maður er að hugsa um gróðurinn.  Það er alltaf betra fyrir hann ef smá úrkoma er með næðingnum.  Þurr vindur er það versta fyrir plöntur og tré, það þurrkar upp vatnsbúskapin í plöntunni og kallar fram kal. 

En þetta veður er svo sem allt í lagi, því ég ætla upp í gróðurhús að vinna.  Nú er ég að huga að kryddplöntunum.  Salvíu, Fáfnisgrasi rosmarin og slíku.  Ég er líka að hugsa um að sá blómkáli grænkáli og öðrum káltegundum.  Það er ennþá of snemmt að sá fyrir saladinu.  Þetta þarf allt að vera útspekulerað, svo það sé tilbúið á réttum tíma. 

En ég vona að þið eigi öll góðan laugardag og ennþá betri sunnudag. Heart


Föstudagur til fjár !

Þá er komin föstudagur, enginn skóli í dag, þar sem það var starfsdagur kennara, stubburinn farin út að leika sér í góða veðrinu sem betur fer.  Og helgin framundan.  Veðrið er gott og létt í öllum hér fyrir vestan.  Nú er keppnin að baki og þá er bara að hella sér út í pólitíkina.  Þá skrýtnu tík.  Þetta verður spennandi tími fram að kosningum.  Margt sem þarf að gera og takast á við.  Ég vil óska þess að við getum haldið okkur málefnalegum og á vitrænum nótum.  Það þýðir ekki að menn megi ekki benda á það sem betur má fara, eða skammast út í einn og annan.  Heldur að sýna öðrum þá virðingu sem við viljum að aðrir sýni okkur. 

Það er líka leiðinlegt að sjá hve reynt er að þagga niður Frjálslynda flokkinn.  Við erum svo sem vön því gegnum tíðina, en það er samt alltaf jafnleiðinlegt.  Óskiljanlegt eiginlega, nema að það eigi að reyna að þagga flokkinn í hel.  Einnig er snúið út úr helstu baráttumálum hans og reynd að gera málflutning manna tortryggilegan.  Þessu þarf að breyta. 

Það sem mér finnst flottast við flokkinn er einmitt að menn þora að tala tæpitungu laust um það sem brennur á þeim.  Og það er ekki hrokkið í bakgír og hætt við málefnin þó þau séu óvinsæl, eða rökkuð niður.  Þá er frekar farið í málefnavinnslu og dregnar fram ástæður og viðmið.

Þetta er lítill flokkur þar sem samheldnin er mikill meðal þeirra sem að honum standa.  Það ríkir góður andi meðal fólksins, og við erum ákveðin að standa af okkur allt það leiðinlega sem á okkur hefur dunið.  Menn stappa í hvor aðra stáli og standa með sínum mönnum.  En þar fer líka fram heilbrigð skoðanaskipti, og ekki eru allir sammála öllu.  Sem betur fer.  Þá væri enginn framþróun.  Að geta rætt málin og komið með sín sjónarmið er lykillinn að velferð og góðri málefnastöðu.  Flokkurinn er reyndar opin öllum sem hafa áhuga á að vinna með okkur og setja sitt mark á hann.  Það er pláss fyrir allar hendur.  Það er bara að hafa samband. 

Jæja þetta er nóg í bili.  Ég óska ykkur baða góðs dags og vona að allir hafi það sem best.  Og svo er helgin framundan. Það er það notalegasta við föstudaga að mínu mati. 

IMG_3548 Verum einlæg eins og börnin.  Verum opin og víðsýn og tökum á móti þeim upplýsingum sem við fáum með opum en gagnrýnum huga.  En leyfum skynseminni að ráða.  Við erum öll að stefna í sömu átt. Okkur greinir bara á um aðferðir. Heart


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Höfundur

Ásthildur Cesil Þórðardóttir
Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Tónlistarspilari

Ásthildur Cesil - Dagdraumar
Apríl 2007
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30          

Nýjustu myndir

  • 2f19c636fb68b249555c5fa250d3e103--russian-image-jellyfish
  • engill-angel
  • jolatre
  • 20171002 121526
  • gasometers-vienna-7[5]

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.7.): 0
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 18
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 18
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband