31.3.2007 | 14:02
Það sem ég vildi sagt hafa.
Jæja það er ennþá hvasst úti, og rigning og sól allt í bland. Ég er ein í kofanum, stubburinn er í afmæli og afi hans að syngja við opnun reiðhallar á Þingeyri. Eða réttara sagt á Söndum í Dýrafirði, þar verður örugglega sungið Ríðum Ríðum rekum yfir sandinn.
En ég er á leiðinni upp í gróðurhús að prikla. Það er afskaplega róandi og gaman. Gott fyrir sálina.
Stundum held ég að við íslendingar séum dálitlar risaeðlur í okkur. Við erum ekki lengra komin út úr moldarkofunum en að sitja á bæjarburstinni og mæna út í túnfótinn, þangað sem okkur langar.
Við erum óttalegir þrasarar um keisarans skegg stundum, og mér finnst á tímum eins og við greinum ekki aðalatriði frá aukaatriðum. Við erum oft smásálarlegri en fólk frá öðrum löndum. Ef til vill er það smæðin sem gerir það. Eða löngunin til að vera stór og merkileg.
Hér áður og fyrr til dæmis þurftu menn sem komu út úr skápnum hommar og lespíur að flýja til annara landa, því þeim var ekki vært hér á landi vegna fordóma. Vinur minn Hörður Torfason hefur sagt okkur sögur af því hvernig hann var flæmdur úr landi á sínum tíma, þessi öðlingur. Reyndar hafa tímarnir breyst og við færst nær nútímanum hvað þetta varðar, sem betur fer. En það eru ennþá nokkrar risaeðlur í veginum. Ein þeirra er umræðan um útlendinga. Hún er núna jafnmikið tabú og homma umræðan var á sínum tíma.
Menn eru útmálaðir og kallaðir öllum illum nöfnum ef þeir tala um þau málefni. Jafnvel þó þar sé skynsamlega mælt og af hófsemi. Þar er ég ekki að tala um æsingarköll og upphróp. Heldur umræðuna eins og hún ætti að vera.
Það er eins og fólk fari í baklás og setji tappa í eyrun. Mér finnst þessi hræðsla svolítið skrýtin. Hvað er svona hættulegt við að ræða þau vandamál sem geta sprottið í þjóðfélaginu ?
Ég held að þeir sem verst láta í þessu, séu sjálfir dálítið í gruggugu vatni og ekki alveg vissir um sinn eigin hug, alveg eins og þeir sem eru inn í skápnum, óvissir um sína kynhneigð ráðast gjarnan að hommum með offorsi.
Þetta eru bara mál sem þarf að ræða af skynsemi og ró. Það er ýmislegt sem þarf að huga að, skoða og laga. En það verður ekki gert með því að æsast upp og vilja stoppa alla umræðu. Og á þeim forsendum að umræðan veki ugg hjá erlendu fólki. Af hverju ætti hún að gera það ? Það fólk sem hér hefur komið, og er í samfélaginu, finnur viðmót þess fólks sem það umgengst. Það lætur ekki neina umræðu hrófla við sér hef ég trú á. Og ef menn eru hræddir við að umræðan geri fólk að rasistum, þá held ég að það sé líka á villigötum. Fólk lætur ekki umræðu breyta hug sínum, gagnvart fólki sem það umgengst.
Umræðan dregur ef til vill rasistana út úr skúmaskotunum. Gerir þá sýnilega og er það ekki bara betra að vita hvar þeir eru ? Þeir verða ekkert áheyrilegri fyrir það.
Venjulegt fólk eins og ég til dæmis fagna því að fá hingað fólk annarsstaðar að, ég held að það sé stimplað inn í þjóðarsálina, vegna smæðar okkar og legu landsins, að fjölga óviðkomandi fólki til að auka blóðblöndun.
Mér er sagt að á smástöðum hrífist ungt fólk af aðkomumönnum, það sé í eðli þeirra vegna þessarar blóðblöndunar. Okkur sé eiginlegt að leita út fyrir eigin flokk til mökunar. Það myndar heilbrigðari þjóð.
En nú er þetta orðið aðeins og langt. það sem ég vil segja er þetta: við eigum að elska og virða hvort annað hvaðan sem við komum. Og við eigum að koma fram við aðra eins og við viljum láta koma fram við okkur. Allir eiga að hafa sama rétt til að lifa í friði. Því miður þá er raunveruleikinn annar, og sennilega ómögulegt að laga það. En við getum allavega reynt. Og fyrsta skrefið til þess er að vera óhrædd við að ræða um hlutina eins og þeir eru. En ekki eins og við viljum að þeir séu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
30.3.2007 | 16:00
Hughrif.
Það er rigning en sólin skín.
Það er snjór, en litlir grænir kollar rísa úr moldu.
Það er rok, en samt friður í sálinni.
Lækirnir æða til sjávar, en fiskarnir vita ekki af því.
Það er regnbogi yfir bænum mínum og boðar gott vor.
Gulur rauður grænn og blár, gerður af meistarahöndum.
Það er rigning er samt er sól.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
30.3.2007 | 13:23
Gamalt og gott í tilefni vorkomu.
Ég var að taka til í tölvunni í vinnunni í morgun og rakst þá á þennan pistil minn síðan í fyrra eða hitteðfyrra. Þar sem hann á ágætlega við í dag, ætla ég að skella honum hér inn í gamni.
Kannast menn eitthvað við þetta ?
Sumarhugleiðingar garðyrkjustjóra.
Mig langar til að byrja að minnast á umgengni bæjarbúa um gróðursvæði. Auðvitað eru margir sem ganga vel um, en umgengnin er samt alveg ömurleg. Það liggur við að ég þurfi áfallahjálp á vorin, þegar ég kem að gróðursvæðunum, og þau eru öll út trömpuð, fólk alltaf að stytta sér leið. Börnin klifrandi í trjánum og hjólandi gegnum runnana. Við þurfum að taka okkur á í þessu, öll sem eitt. Það kostar ekkert nema nokkrar kaloríur að fylgja göngustígum, í stað þess að vaða yfir þar sem næst er. Við þurfum líka að brýna fyrir börnunum okkar að ganga vel um náttúruna. Börn eru skynsamt fólk, og ef maður talar við þau um þessa hluti þá skilja þau. Ef þeim er sagt það þá geta þau geta vel skilið að Ísland er napurt land, þar sem þarf að hafa mikið fyrir að rækta trjágróður. Við þurfum öll að taka okkur á og hjálpast að að ganga vel um. Núna er háannatími garðyrkjumannsins. Það þarf að klippa og snyrta tré og runna, skifta blómunum og flytja þær plöntur sem eru ekki á réttum stað. Talandi um rétta stað, þá þarf maður að velja hvað maður vill hafa í garðinum sínum, og hvaða tilgangi hann á að þjóna. Byrja verður á að fá gott skjól í hann sem hlífir öðrum viðkvæmari og meira spennandi plöntum. Hitastig garðsins hækkar líka við skjólgirðingar, hvort sem þær eru úr timbri eða lifandi gróðri. Það er líka mesti misskilningur að þegar búið er að koma með plöntuna heim og gróðursetja hana þá sé það búið. Maður þarf endalaust að huga að gróðrinum. Það þarf að gefa áburð, vökva við þurfum að vökva mikið, vegna þess að hér rignir tiltölulega lítið yfir sumarið. Það þarf líka að huga að því að gróðurinn fari ekki út um allt. Við þurfum að hemja hann. Ef við viljum t.d. hafa grenitré í litlum garði, þá er það allt í lagi . Svo fremi sem við látum grenið ekki vaxa yfir hvað sem fyrir verður. Við þurfum að ákveða hversu mikið pláss grenitréð má hafa í garðinum og svo einfaldlega klippum við af því þegar það vex yfir þá línu. Það er mjög auðvelt að klippa flestar plöntur, sumar þarf að klippa á réttum tíma, eins og birki sem er svokallaður blæðari, þ.e. þegar það fer að laufgast þá eykst blóðstreymið það mikið að plöntunni blæðir mikið ef klipptar eru stórar greinar af því rétt á því tímabili. (Ég tala um blóðstreymi, vegna þess að plöntur hafa eins og við æðakerfi, mjög líkt okkar, æðar sem flytja næringu frá jarðveginum til krónunnar og æðar sem flytja súrefnið úr loftinu niður í ræturnar. Samanber bláæðar og ósæðar okkar, en plönturnar hafa grænu korn í staðinn fyrir rauð blóðkorn.) Við getum tekið næstum hvaða tré sem er og myndað það í allskonar fígúrur. Þetta er mjög lítið stundað hér, og fólk þyrfti að hugsa meira um að klippa. Hugsið ykkur t.d. að hafa grenikúlu, eða lerki súlu í garðinum, þetta getur orðið mjög flott, það er ein svona greni kúla í Jónsgarði, það er búið að taka nokkur ár, en hún er mjög þétt og fín. Þetta var gamalt grenitré við samliggjandi göngustíga, það var toppbrotið og ekkert augnayndi. Ég hugsaði með mér hvað ég gæti gert til að leyfa því að vera. Og þá datt mér í hug að klippa það bara til. Og í dag er það ljómandi fallegt. Eins verður með trén við Landsbankann, bankastjórinn vildi ekki há tré en hann vildi fá sígrænar fallegar plöntur. Þetta varð lausnin að taka greni og klippa það til. Við getum líka tekið birki og hvaða plöntu sem er og klippt eftir því sem okkur dettur í hug. Þetta er sérstaklega æskilegt í litlum görðum. Annað sem við getum hugsað um, ef við viljum fá stórt limgerði strax, þá kaupum við einfaldlega stórar plöntur og gróðursetjum þær þétt. Það eru til mjög falleg birki limgerði, sem eru lítið klippt, en trén standa mjög þétt og verða þessvegna með grennri stofna. Ef þið eigið leið upp í Mosfellsdal, þá skuluð þið heimsækja Gróðrarstöðina Grásteina, Björn Sigurbjörnsson er það eigandi, hann hefur gert mikið af svona grönnum háum limgerðum, það er gaman að skoða þau hjá honum. Stöðin hans er líka afskaplega snyrtileg og falleg.
Eitt sem fólk ætti að hafa í huga líka í sambandi við snyrtimennsku, það er að þó lóðin manns nái ekki alveg út að gangstétt eða götu, þá tekur maður einfaldlega í fóstur þá ræmu sem ber í milli, það er ekkert snyrtilegt við garð þó flottur sé innan girðingar ef næsta umhverfi er allt fullt af njóla og öðru illgresi. Sumstaðar þar sem lóðir snúa upp í hlíð eða óræktarsvæði er þetta auðvita ógerlegt, ég er bara að tala um þar sem bil myndast frá lóð að götu eða gangstétt. Ef maður er svo óheppin að það er svona órækt við hliðina sem er ekki hirt, þá er til efni sem hægt er að úða og drepur njólann og allar plöntur nema grasið. Þetta er hormón sem heitir Herbamix. Maður kaupir það í apótekinu og fær sér úðabrúsa og úðar svo nágrennið, þannig getur maður losnað við illgresið. Þetta má líka nota á grasflötina sína, en passa verður allt annað svo sem blóm runna og tré. Allt eitur á að nota með varúð, helst að nota sem minnst af því. Og það er alveg bannað að hella afgöngum af eitri hvaða nafni sem það nefnist niður um niðurföll. Allir eiturafgangar verða að hellast niður í jarðveg. Bara lítið magn af permasect sem er lúsaeitur getur gert stór spjöll í náttúrunni ef því er hellt niður í niðurfall, þar sem það drepur öll dýr með kalt blóð þar á meðal fiska. Mín reynsla er sú að ef það er einungis um að ræða venjulega lús á trjágróðri þá er hægt að nota grænsápu. Það má blanda sterkt. Því blómið þolir sápuna vel. Lúsin á hinsvegar erfitt með að standast hana. Grænsápa myndar svo húð á blöðunum sem ver þau nokkurn tíma. Að vísu þarf að úða oftar með grænsápunni. Það er allavega gott að prófa þetta fyrst áður en gripið er til eitursins. Í garðskála gefst þetta vel. Þar er líka gott að vökva með Maxicrop þaraáburði, vegna þess að ýmis smádýr forðast hann, svo sem spunamaur, sem kemur mörgum garðskálaeiganda í hálfgerðan trylling. Ég nota mestmegnið grænsápu í garðskálanum hjá mér. Og það virkar alveg ef ég missi þetta ekki upp í algjöra orgíu.

Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
30.3.2007 | 00:35
Samvinna.
Arna Lára úr samfylkingunni hringdi í mig í dag. Ertu með lyklavöld að kosningaskrifstofu Frjálslynda flokksins. Jamm sagði ég. Já sagði hún, við erum nefnilega búin að plana að hittast til skiptis á kosningaskrifstofum Í-listans með fundi bæjarmálaráðsins og nú er komið að ykkur.
Algjörlega frábært sagði ég. Og ég meinti það. Þetta gladdi mig mikið. Í-listinn er sameiginlegur listi Frjálslynda flokksins, Samfylkingar og Vinstri grænna á Ísafirði í síðustu bæjarstjórnarkosningum. Þetta samstarf hefur gengið geysivel, og það var virkilega gaman að vinna með þessu góða fólki í kosningaslag. Og við höfum líka starfað vel saman síðan. Það sýndi sig í kosningunum síðast að þessir flokkar geta starfað mjög vel saman. Og mér finnst algjörlega frábært að við getum unnið saman líka á þessum vettvangi. Góður hópur og gott veganesti inn í kosningabaráttu, sem að mínu viti verður best haldinn með því að standa saman. Og við getum það svo vel. Það sáum við hér á síðasta ári. Áfram Kaffibandalag.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (22)
28.3.2007 | 23:44
Spurt með von um svar.
Mér þykir vænt um Framtíðarlandið og ég gekk í samtökin fljótlega eftir að þau voru stofnuð. Mér finnst frábært þegar grasrótin bregst svona við valdníðslu stjórnvalda. Og ég vona svo innilega að ég geti verið áfram í samtökunum.
En það er bara ýmislegt að bögga mig í því sambandi, og af því að ég vil hafa það sem sannara reynist, þá ákvað ég að ganga hreint til verks og spyrja mína ágætu félaga í samtökunum spurninga til að fá svör. Og ég vona að svörin verði þannig að ég geti sæl og ánægð haldið áfram að vera stoltur félagið í samtökunum. Þetta voru spurningarnar sem ég sendi inn til Framtíðarlandsins;
Ágætu félagar í framtíðarlandinu, ég gekk í samtökin vegna þess að ég heillaðist af þeim krafti og góðu málefnum sem þau börðust fyrir. Þegar svo var farið að tala um framboð leist mér ekki alveg á blikuna, vegna þess að þó ég sé alveg á því að vernda náttúru landsins og mér hafi algjörlega ofboðið framganga stjórnvalda í Kárahnjúkavirkunarmálunum og öðrum stórvirkjunum og álversæðis, þá er ég í stjórnmálaflokki sem ég hef valið mér út af öðrum góðum málefnum. Ég sá því fram á að þurfa að segja mig úr samtökunum. Sem betur fer varð ekkert úr því. En síðan hafa verið að heyrast raddir um skörun milli ykkar og Íslandshreyfingarinnar lifandi lands.Meðal annars hef ég séð að félagar í þeirri pólitísku hreyfingu segja að sá flokkur byggi á kenningum Andra Snæs. Þetta hefur sett bakslag í mig. Ég vil spyrja ykkur í einlægni hvernig þessum málum sé háttað.Hvar skarast Íslandshreyfingin og Framtíðarlandið ? Eru félagar í Framtíðarlandinu að vinna sem félagar í hreyfingunni fyrir Íslandshreyfinguna ?Er Framtíðarlandið nokkurskonar óformleg bakland Íslandshreyfingarinnar ?Er það tilviljun að Framtíðarlandið fór af stað með sína undirskriftaherferð um leið og Ómar kynnti sitt framboð ? Úr þessu þarf ég að fá skorið svo ekki verði um villst. Ég er pólitískur andstæðingur Íslandshreyfingarinnar, og þau hafa opinberlega sagt að þau vilji ekkert með minn flokk hafa, svo þetta þarf þetta að vera á hreinu fyrir mér..Það þarf líka að vera alveg á hreinu gagnvart öðrum landsmönnum sem eru í hreyfingunni, en eru í öðrum stjórnmálaflokkum.
Til þess að eyða allir svona óvissu verðið þið að gefa út yfirlýsingu um að Framtíðarlandið sé ekki á nokkurn hátt tengt Íslandshreyfingunni. Ef það er ekki gert, mun ég líta svo á að hér sé á ferðinni laumuspil sem ég get ekki sætt mig við.
Með kveðju Ásthildur Cesil.
Ég vona að ég móðgi engann þegar ég bið um þessi svör. Og ég vona líka að svörin verði þannig að ég geti verið áfram í þessum frábæru samtökum. Sem alltof sjaldan gerist að fari af stað, og fái fólk með sér. En það á bara ekki að blanda stjórnmálum inn í svona grasrótarhreyfingu, þá fer allt einhvernveginn á verri veginn. Því vona ég innilega að ég sé bara gamalt rótarhorn sem sjái skrattan í hverju horni, og fái að vita að ég þurfi ekki að hafa áhyggjur af því.
Svona er ég nú bara, það er nú það.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)
28.3.2007 | 09:34
Til stuðnings hetju. Hér þarf hröð handtök vinir.
Kæru vinir ég ætlaði ekki að blanda saman veru minni hér og á Málefnunum. En þetta mál þolir enga bið. Þetta innlegg hennar Krissu snart mig djúpt. Og ég geri orð hennar að mínum. Hér má engan tíma missa. Hér þarf að láta verkin tala. Megi ljós og kærleikur fylgja Ástu í veikindum hennar. Ég bið ykkur að leggja þessu máli lið. Ég fékk þetta sent áðan og langar til að vekja athygli ykkar á þessu. Mörg munum við líklega eftir því fyrr í vetur er Ásta Lovísa Vilhjálmsdóttir, einstæð, þrítug þriggja barna móðir kom fram í Kastljósinu og sagði frá baráttu sinni við krabbamein. Áður hafði Ásta vakið athygli fyrir bloggskrif sín þar sem hún tjáði sig af einstakri bjartsýni og hreinskilni um veikindi sín. Í lok síðasta sumars greindist Ásta Lovísa með krabbamein í ristli og í kjölfar þess var ristillinn fjarlægður. Við tóku erfiðar lyfjameðferðir sem því miður skiluðu ekki tilætluðum árangri og greindist Ásta með alls 10 meinvörp í lifrinni. Síðan þá hefur Ásta farið í ótal lyfjameðferðir sem því miður hafa ekki náð þeim árangri sem til var ætlast. Læknavísindin hér heima hafa gert allt sem í þeirra valdi stendur til Ásta geti fengið bót meina sinna. Prófuð hafa verið ný og ný lyf en allt kemur fyrir ekki. Meinvörpin halda áfram að stækka og krabbameinið tryggir bólfestu sína í líkama Ástu Lovísu. Í dag fékk hún afar slæmar fréttir og bloggaði þá þetta: QUOTE Fréttir !!! Enn og aftur fékk ég ekki góðar fréttir... Þessi barátta ætlar að reynast mér ansi erfið . Á þessum stutta tíma eða á aðeins ca 5 vikum hefur ÖLL meinvörpin náð að stækka þrátt fyrir lyfjameðferð. Það er rosa slæmt á ekki lengri tíma. Það sem er verst við þetta allt er að ég er búin að prufa öll nýjustu lyfin á markaðnum og á aðeins þessu gömlu eftir. Við vitum það flest að nýju lyfin eru oftast betrumbæting á þeim gömlu. Ég er hætt í lyfjameðferð hér heima og næsta skrefið er að koma mér út sem fyrst. Það er bara ekki annað hægt í stöðunni... Því miður *GRÁT*. Ég fékk samt líka góðar fréttir. Góðu fréttirnar eru þær að öll önnur líffæri eru hrein. Eitlarnir sem að höfðu verið að sýna stækkun .. Hafa ekki stækkað neitt núna. Það er því ólíklegt að það sé krabbi í þeim.. því þá hefðu þeir átt að fylgja stækkuninni á öllu hinu. Þetta er rosalegt sjokk samt sem áður. Það er sárt að vita að með þessu áframhaldi og ef ekkert fer að gerast til að draga úr þessu hröðu þróðun þá er vitað mál að ég á ekki langt eftir. Mér finnst það virkilega sárt og ég er virkilega hrædd. Núna líður mér eins og ég sé að kafna og það sé ekkert sem að geti hjálpað mér að ná andanum aftur. Úffff... Ég hata stöðu mína í lífinu núna !!! Ég er ekki í góðu skapi núna... Ég gæti setið hér leeeengi og ausað út en ég ætla ekki að gera það. Ég ætla ekki að leyfa reiðinni að ná tökum á mér núna þannig að ég ætla ekki að hafa þetta neitt lengra. Enn og aftur er sorgarferlið komið í gang og nú er að syrgja þessar fréttir þar til ég sé sólarglætuna að nýju. Bið að heilsa ykkur í bili Kv Ásta Lovísa Hún talar um að næsta skrefið sé að koma henni út sem fyrst. Þar á hún við út til New York í mjög sérhæfða lyfjameðferð sem enn er að vísu ekki komin reynsla á. Þessi lyfjameðferð er hins vegar síðasta hálmstráið í von um bata fyrir þessa ungu þriggja barna móður sem berst fyrir lífi sínu. Meðferðin kostar gríðarlega fjármuni, og hefur verið talað um 4-5 milljónir í því sambandi sem sjúklingurinn þarf að greiða úr eigin vasa. Ásta Lovísa hefur ekki verið viljug að biðja um stuðning og þess vegna ætla ég kona út í bæ að senda þetta á vini og vandamenn og biðja þá vinsamlegast um að hafa Ástu Lovísu í huga, biðja fyrir henni og börnum hennar, senda fallegar hugsanir og þeir sem eru aflögufærir mega gjarnan leggja inn einhverja fjárhæð á reikning sem faðir Ástu Lovísu stofnaði henni til handa en reikningsnúmerið er: 0525-14-102510 Kt:09.08.76-5469 Kæra fólk! Fyrir þessa ungu hetju gæti þetta verið spurning um líf eða dauða. Stöndum saman og reynum að gera allt sem við getum til að leggja í púkk. Þið megið svo endilega senda þetta áfram til vina ykkar, vandamanna, vinnufélaga og allra sem geta veitt stuðning á einhvern hátt í hvaða formi sem er. |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
27.3.2007 | 13:40
Bara svona til gamans.
Í mér flakkar fól
fylgir mér um ból.
Ferðast alveg frá
fingri að litlutá.
Með viðkomu á virkum stöðum
engum ég fletti um blöðum,
að voðalegt er nú þetta
og segi nú allt af létta.
Í heilanum stríðnin stjórnar
strengbrúðum skrokksins, fórnar
æru og orku minni
Ó er ekki mál að linni.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
26.3.2007 | 21:31
Að vera sjálfum sér næstur.
Guð gaf mér eyra svo nú má ég heyra,
Guð gaf mér auga svo nu má ég sjá.
Guð gaf mér tungu..... nei ég er að grínast ég verð að viðurkenna að ég er ekki kristin, ég hef tekið ásatrú. Það gerði ég eftir að mér varð ljós ákveðin hroki og hræsni sem einkenndi þann hóp sem var í forsvari fyrir söfnuðinn heima hjá mér í sambandi við kirkjuna gömlu.
En ég ber samt virðingu fyrir þeim sem trúa, því sumir þurfa á slíku að halda. Þó ég geti ekki skilið hvað gamlar sögur og mótsagnir í einni bók geta gefið fólki. En nóg um það. Það sem ég vil segja með þessu er, að við höfum augu og eyru og tungu, við höfum líka skynsemi til að bera. Þessi tæki eigum við að nota til að tjá okkur, hlusta á aðra og vega og meta. Ekki bara trúa öllu sem okkur er sagt, heldur ekki sýna hroka og rakka niður það sem aðrir hafa að segja. Heldur skoða fyrir okkur sjálf, hvað okkur finnst vera rétt og hvað rangt.
Við erum hugsandi verur og okkur var gefin skynsemi. Við erum ef til vill í eðli okkar hjarðdýr, ég veit það ekki. En stundum finnst mér að svo sé. Þá meina ég að okkur hættir til að elta hvort annað í allskonar vitleysu láta teyma okkur út í hitt og þetta án þess stundum að nota það vit sem okkur hefur verið gefið. Svona einskonar mememememe... Sérstaklega ef einhver segir það sem við lítum upp til. Ég vil bara segja þetta; við erum öll einstök og frábær, og hvert og eitt okkar getum tekið okkar eigin ákvarðanir, sem eru byggðar á okkar eigin innri skoðun. Við skulum muna það, og ekki láta neinn ákveða fyrir okkur hvað við viljum eða hugsum. Okkar er valið. Og ef við tökum ákvörðun, þá þarf hún að vera byggð á því sem okkur finnst sjálfum. Annars líður okkur ekki vel með þá ákvörðun. Því hver er alltaf sjálfum sér næstur.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
26.3.2007 | 11:27
Göngum hægt um gleðinnar dyr.
Liðin er sú tíð að þjóðin einblíni á stóriðju, hvað sem það kostar. Íslensk stjórnvöld virði alþjóðasamninga um varnir gegn loftmengun. Í umhverfismálum eru Íslendingar huti af heiminum öllum. Ísland styðji eindregið aðgerðir ti að draga úr loftlagsbreytingum.Enginn ástæða er til að íslensk stjórnvöld veigri sér við að gangast undir sömu skilyrði og aðrar þjóðir hvað varðar aðgerðir til að draga úr loftlagsbreytingum. Landvernd.Frjálslyndi flokkurinn vill hafa sjálfbæra landnýtingu, landvernd og landgræðslu að leiðarljósi.Sjálfbær landnýting felur það í sér að við nýtum landið þannir að það mæti þörfum okkar, án þess að stefna í voða möguleikum komandi kynslóða til að mæta sínum þörfum í framtíðinni. Íslendingar eiga enn langt í land hvað varðar sjálfbæra landnýtingu og það er sérlega mikilvæt að tryggja sjálfbæra nýtingu afrétta. Landeyðing er eitt mesta umhverfisvandamál okkar í dag. Mikilsverður árangur hefurnáðst í landgræðslu, en betur má ef duga skal. Leggja ber áherslu á verndun birkiskóga landsins. Taka ber sérstakt tillit til birkiskóga varðandi beitarálag, því 60% birkiskóga í landinu eru beittir, en þeir þekja nú einungis um 1% landsins. Menningarlandslag nær til þeirra svæða sem bera með sérstökum hætti vott um athafnir mannsins á ýmsum tímabilum við mismunandi aðstæður. Menningarlandslag hefur því menningarsögulegt gildi, í því felst sögulegt umhverfi okkar og ber okkur því að gera áætlanir varðandi verndun þess. Ferðaþjónusta,Ferðajónusta er vaxandi atvinnugrein á Íslandi og hefur ferðamönnum fjölgað um tugi þúsunda árlega síðastliðin ár. Ásókn í ósnortna náttúru eykst stöðugt og sífellt fleiri ferðamenn hafa efni á ferðum til framandi staða. Mikilvægt er að varðveita óspillta náttúru lalndsins því náttúran er fjöregg íslenskrar ferðaþjónustu. Frjálslyndi flokkurinn vill efla ferðajónustu með verndun og varðveislu menningarminja. Vinna þarf að ferðamannaleiðum, vegagerð, bryggjugerð, stígagerð og fleiru sem lítil fyrirtæki í ferðaþjónustu geeta ekki sinnt. Auk þess þarf að styðja sérstaklega veið ferðaþljónustufyrirtæki vegna þess að stuttur ferðamannatími hér á landi skapar erfið rekstrarskilyrði. Mikil nauðsyn er á að dreifa auknum fjölda ferðamanna sem víðast um landið. Gefa þarf ferðamönnum kost á auknum ferðum í náttúruskoun við strendur Íslands oglífríki sjávarspendýra, sjófugla, fiska og annarra lífvera á grunnsvæðinu. Ø Óbyggðir Íslands eru sameign íslensku þjóðarinnar.Ø Ráðstsöfunarréttur óbyggðanna verði ekki tekinn af þjóðinn.Ø Stærri náttúruverndar og útivistarsvæði.Ø Sjálfbær landnýting.
000
Hvað er það hérna sem fer fyrir brjóstið á Margréti ? Núna allt í einu erum við orðin stóriðjuflokkur að hennar mati hvenær breyttist það? Man ekki til að hún hafi álitið flokkinn stóriðjuflokk áður.
Ég hef ekki séð neina stefnu ennþá frá hinu nýja afli Íslandshreyfingunni. Og enginn verið kynntur til sögunnar nema Ómar, Margrét, Jakob Frímann og ung geðþekk kona sem ég man því miður ekki nafnið á. En er þetta nóg til að mynda sér skoðun á hvort maður vill fylgja hreyfingu eða er þetta leit fólks að einhverju öðru ?
Það hefur aldrei gefist vel að hlaupa til, af því bara. Það þarf að kynna sér vel, hvað ný öfl ætla að gera, fram yfir þau sem fyrir eru. Því annars er hætt við að illa geti farið, að menn festist í sömu sporum.
Margrét hefur reynt að gera sig að fórnalambi í samskiptum sínum við Frjálslynda flokkinn, en hefur ekki tekist að sanna að henni hafi verið hafnað. Enda viðurkenndi hún í viðtali á rás 2 um daginn að hún hefði yfirgefið flokkinn. En hefur hingað til sagt að flokkurinn hafi yfirgefið hana.
Hún hlaut góða kosningu í varaformann, en hefur nú upplýst að hún hefði hvort sem er farið, þó hún hefði unnið varaformannsslaginn. Til hvers var þá leikurinn gerður. Er það trúverðug manneskja sem leikur þennan leik ?
Það er bullandi óánægja í þjóðfélagi voru. Og það kemur berlega í ljós núna. En ég held nú að fólk ætti að skoða vel hvað er í boði, áður en rokið er af stað með eitthvað jafn óljóst og hér hefur verið boðið upp á. Bíða að m.k. þangað til þetta ágæta fólk hefur sett fram skýrt og vel, hverju það hyggst breyta, og hvernig. Það er nefnilega ekki nóg að tala hátt eða vera með fagurgala. Menn þurfa að hafa eitthvað að segja.
Nýr og ferskur flokkur segir Ómar Ragnarsson, hvar er þessi ferskleiki ? Það hefur ekki komið neitt nýtt í ljós. Eða ekki fæ ég séð það. Keisarinn er ef til vill nakinn í því tilliti.
Tíminn fram að kosningum verður sá tími, sem mun leiða í ljós hvort eitthvað stendur á bak við risastórar fullyrðingar og sigurgleði.
Sá tími verður spennandi og það verður vel tekist á. Ég vona að hann verði notaður til málefnalegrar umræðu og til að sýna fólki fram á hvað flokkar ætla að gera, og hvað þeir ætli að leggja áherslur á. Slík vinna er í gangi hjá Frjálslynda flokknum. Þar hafa verið góðar og ganglegar umræður við fólkið í landinu, um það sem því finnst brenna á sér og sínum.
Að mínu mati er það það sem skiptir mestu máli. Hvað það er sem jafnar lífskjör fólks, og gefur því sem besta afkomu. Leiðréttingar fyrir það fólk sem minna má sín í samfélaginu. Og þá er ég að tala um bæði það fólk sem er fætt hér á landi, og þá sem hafa hingað komið til að setjast að, annarsstaðar frá. Einnig aldraða og öryrkja og fátækt fólk sem hefur af einhverjum ástæðum orðið undir í lífsbaráttunni. Hagur þessa fólks verður ekki leiðréttur nema skipt verði um ríkisstjórn. Það er nokkuð ljóst eftir 12 ára þrautarsetu núverandi valdhafa. Það er svo margt sem þarf að gera. Og ég vona að Kaffibandalagið nái því að tengja saman þá þrjá flokka sem að því standa, svo fólk fái sterka velferðarstjórn í vor. Það er minn draumur allaveg.
Þessar tvær myndir eru frá Ísafirði þessa stundina, megi birta og góðar hugsanir fylgja okkur öllum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
25.3.2007 | 17:57
Læri - tækifæri, fimm fiskar og heitur pottur i einum hrærigraut.
Ésú mettaði fimm þúsund manns með nokkrum fiskum og brauði. Nú væri gott að hafa uppskriftina. Ég keypti nefnilega læri til að hafa í matinn fyrir litlu fjölskylduna mína. Það erum við hjónin og stubburinn.
En ég á börn og barnabörn sem hreint og beint elska gamaldags lærið sósuna og hrásaladið hennar ömmu í kúlu, svo nú hafa þau öll meldað sig í mat. Og ég get auðvitað ekki sagt nei. Hver getur sagt svoleiðis við yndisleg börn, barnabörn og tengdabörn hehehe....
En þetta læri verður bara að duga. Set bara fleiri kartköflur í pottinn og geri meiri sósu. Hefði átt að kaupa ís á eftir fattaði það nú ekki.
Tilbúið í ofninn, dálítið fært í stílinn hehehe...
Þetta er dálítið kuldalegt, en það getur samt verið gaman að leika sér hjá ömmu.
Þar kennir nefnilega ýmissa grasa, eða snjóa, eða vatna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
Um bloggið
Ásthildur Cesil Þórðardóttir
Tónlistarspilari
Bloggvinir
-
prakkarinn
-
katrinsnaeholm
-
jensgud
-
matthildurh
-
jenfo
-
kiddat
-
hronnsig
-
katlaa
-
katagunn
-
kolbrunb
-
joiragnars
-
birgitta
-
holi
-
rs1600
-
ktomm
-
heidathord
-
vestfirdir
-
steina
-
laufeywaage
-
maggadora
-
lehamzdr
-
icekeiko
-
isdrottningin
-
skaftie
-
hneta
-
hross
-
amman
-
johanneliasson
-
helgamagg
-
zeriaph
-
olafia
-
jogamagg
-
tigercopper
-
ellasprella
-
zumann
-
estro
-
sjos
-
gmaria
-
gudr
-
ktedd
-
salvor
-
bertha
-
solisasta
-
meistarinn
-
baenamaer
-
sirrycoach
-
annalilja
-
komediuleikhusid
-
tildators
-
hector
-
bene
-
skelfingmodur
-
fifudalur
-
xfakureyri
-
madddy
-
siggith
-
antonia
-
elina
-
rosaadalsteinsdottir
-
framtid
-
annaragna
-
sirri
-
thjodarsalin
-
bestalitla
-
helgatho
-
jyderupdrottningin
-
hallaj
-
ingistef
-
gudruntora
-
zunzilla
-
sisvet
-
aevark
-
bostoninga
-
ace
-
drengur
-
robbitomm
-
faktor
-
disag
-
ffreykjavik
-
ma
-
rannveigh
-
igg
-
robertb
-
sgisla
-
rafng
-
helgi-sigmunds
-
lotta
-
fullvalda
-
heimssyn
-
naflaskodun
-
johannesthor
-
jeg
-
huxa
-
sigrunzanz
-
jodua
-
tryggvigunnarhansen
-
minos
-
saemi7
-
blossom
-
ansigu
-
skagstrendingur
-
beggo3
-
h2o
-
westurfari
-
ammadagny
-
bjartsynisflokkurinn
-
elfarlogi
-
esig
-
sunna2
-
frjalslyndir
-
gudlaugbjork
-
gp
-
hreinn23
-
guki
-
gustafskulason
-
harhar33
-
diva73
-
huldagar
-
kliddi
-
axelma
-
keli
-
bassinn
-
jonvalurjensson
-
josefsmari
-
kuldaboli
-
kiddatomm
-
ksh
-
kristjan9
-
mio
-
omnivore
-
sumri
-
samstada-thjodar
-
fullveldi
-
nafar
-
stjornlagathing
-
sattekkisatt
-
athena
-
tikin
-
vallyskulad
-
vest1
-
totibald
-
tik
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (20.7.): 0
- Sl. sólarhring: 3
- Sl. viku: 18
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 18
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar