3.10.2009 | 11:14
Við fengum að sjá drenginn okkar í gær.
Við fengum að sjá drenginn minn í gær. Séra Magnús ráðlagði okkur að fara og sjá hann, taka Úlfin með. Það myndi létta pressunni af þegar kistulagningin fer fram. Hann er svo fallegur og mikill friður yfir honum. Það vottar fyrir brosi á munni hans. Það var gott að fá að sjá hann.
Okkur líður betur á eftir. En við vitum að hann er ekki þarna lengur, heldur meðal okkar.
Og mikið held ég að hann hafi orðið hreykin af Úlfi litla, þegar hann sagðist vilja leiða bæn yfir pabba sínum. Hann bað þess að englar vektu yfir öllum sem syrgja pabba hans, ættingjum og vinum. Þetta var falleg bæn og Séra Magnús var með honum í þessu, séra Magnús er sérstök perla.
Á eftir fórum við öll heim í kúlu og tengdadæturnar elduðu pizzur, og allir hjálpuðust að, nema mamman sem var hálf frosin.
Símon Dagur ljúflingur.
Hann sagði hátt og greinilega afi. Ingi Þór pabbi hans hefur nefnilega verið að segja okkur að hann hafi sagt pabbi og við bara hlóum að honum. En svo heyrðum við í gær að drengurinn sagði hátt og skýrt nokkrum sinnum afi, og meira að segja afi minn einu sinni.
Tinna að undirbúa pizzuveislu. Hanna Sól hjálpar til.
Alveg í anda Júlla míns fullt hús af börnum.
Það er gott að vera saman og deila sorginni.
Við erum öll vinir það er gott.
Svo var farið í fatakistuna hjá ömmu og farið í búninga.
Prinsessur af báðum kynjum.
Stóru börnin voru þó sýnu alvarlegri.
Þeim finnst ótrúlega gaman að fara í allskonar búninga og leika sér þannig öll saman.
Pizurnar voru mjög góðar og við áttum yndislega kvöldstund saman.
Verst þykir mér hvað þessi litli stubbur missir af að kynnast pabba sínum.
Úlfur ætlar samt að segja honum frá pabba og rifja upp með honum sögur af fjöruferðum, veiðiferðum og öðru skemmtilegu sem þeir voru alltaf að gera saman.
Hér eru nokkrar myndir sem ég tók af bloggi Guðrúnar vinkonu Júlla míns.
Júlli í góðum félagsskap, Guðrún og vinur hans Ásgeir.
Fallegi drengurinn minn.
Með æskuvini sínum Símoni, sem nú er látin fyrir nokkrum árum.
Megi allir góðir vættir vaka með ykkur og vernda.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (29)
2.10.2009 | 14:05
Laugardagskvöld. nóv. 1988.
Laugardagskvöld nóvember 1988.
Til mömmu og pabba frá svarta sauði famelíunnar.
Ég ákvað að skrifa bréf en veit ekkert kvað ég á að skrifa.
Ég gæti sennilega talið á annari hendi þau bréf sem ég hef skrifað yfir allt mitt líf.
Með þessu kroti er ég sennilega líka að spekulera í mínum vandamálum sem mig langar mest af öllu í heiminum til að leysa. Þá meina ég eins og þið vitið hvers vegna. Ég hef frá því ég var tólf þrettán ára dottið í það nærri því á hverri helgi og í síðustu ár gerst má segja dópari.(hassisti)
Mig langar miklu meira til þess að vera heima hjá mér hjá ykkur, heldur en hírast meira og minna má segja á götunni hér í Reykja vík. Ég ætlaði mér aldrei að fara suður og vera svona lengi. Reyndar aldrei. Láta aldrei vita af mér. Það er eins og ég límist fastur í einhverju einhvernveginn og ég loka mig burt frá öllum.
Ég á bestu fjöldkyldu í þessum heimi og ég elska ykkur meira en orð geta lýst og hef brugðist ykkur svo mikið og það kvelur mig mest. Ég hef fengið svo mörg tækifæri, svo marga sjénsa en alltaf sama sagan aftur og aftur. Ég er inn á Síðumúlanum þegar ég skrifa þetta, fyrir ávísanafals og þegar ég slepp út, ætla ég að reyna og ég meina virkilega reyna allt sem ég mögulega get til þess að stoppa þetta HELVÍTI.
Ég ætla mér það og ég skal geta það og þið viljið hálpa mér ég veit það.
Inga Bára sendi mér sígarettur, tannbursta, skrifblokk og penna á miðvikudag, og þetta er það fyrsta sem ég skrifa og ég búinn að vera með pennan í höndunum síðan þá, svona nærri því og spekulera í því hvað ég ætti að krota niður og nú get ég varla hætt.
Jón Ólafur spurði mig hvort ég vildi fara inn á Vog eða fara vestur.. Ég veit það ekki. Ég meika varla að fara í meðferð eftir fyrri kynni en mundi þá sennilega taka þessa tólf daga sem er Vogurinn og sleppa eftirmeðferðinni. Xxxx xxxxx xxxxxx og Xxxxx Xxxxx voru síðast þegar ég vissi báðir á leið í meðferð. Ég er ennþá að spá í það.
Áður en ég klára allt blekið úr pennanum hennar Ingu þá ætla ég að hætta þessu mér líður svo miklu betur eftir að hafa skrifað þetta. Mér þykir vænt um ykkur öll og bið að heilsa öllum.
Júlli.
Unglingurinn minn.
Barnið mitt.
Í faðmi fjölskyldunnar.
Giftingarmyndin okkar allra.
Alltaf góður við alla.
Alltaf hjálpsamur.
Í faðmi fjölskyldunnar á gamlársdag 98.
Á hamingjudegi að skíra litla Þórð Alexander Úlf, og pabbi heldur barninu undir skírn, enda nafni hans Þórður Júlíusson
Hann var alltaf hrakfallabálkur þessi elska. Þegar hann datt og meiddi sig var hann farin að segja mamma ekki láta sauma. Í baksýn má sjá Óla, sem var dúkka sem fylgdi krökkunum lengi vel ef eitthvað bjátaði á, þá var Óli bestur. Set inn þetta bréf hans. Þar sést svo ekki verður um villst að börnin okkar vilja EKKI vera í þessu HELVÍTI, það er ekki rétt að hengja sig í svona mýtur sem eru hreinlega ekki réttar. En nú er ég orðin algjörlega orkulaus og þarf að fara út og hressa mig við. Þetta tekur á allstaðar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)
2.10.2009 | 10:43
Brot úr sögu og smá mömmó.
Sonur minn féll síðasumars 2005. Eftir stutta ferð til Reykjavíkur með kærustunni. Hann þoldi ekki gamla andrúmsloftið, og hélt að hann gæti fengið sér smáhass til að reykja. Það kostaði hann ústkúfun í fjölskyldunni. Það er sárt, en það er víst það eina sem hefur áhrif.
Hann var nýbúin að taka lán, sem ég og unnusta hans erum skrifaðar fyrir, til að borga niður skuldir, og lífið virtist blasa við.
Hann stóð stoltur í kirkjunni þann 16 júní og hélt syni sínum undir skírn. Það var yndisleg stund.
Því sárara var þegar ljóst varð að hann var fallinn. Hann hafði komið með soðningu, og eldað mat, bauð okkur öllum í mat. Þá sagði unnustann mér, að hún vissi að hann væri byrjaður að nota efni aftur. Hún var voða sár. Mest reið var hún þó yfir lyginni, sem alltaf fylgir þessu. Og reiðiköst, undanbrögð og slíkt. Það er óþolandi. Ég studdi hana í að loka bara á hann, þangað til hann gerði eitthvað í sínum málum. Hann var um stund á heimili fyrrverandi konu sinnar, þar var allt út um allt, og öll merki neyslu. Svo færði hann sig yfir til gamals vinar, sem var hallur undir flöskuna. Við misstum samband við hann um hríð.
Um tveim mánuðum seinna, fór hann að koma í heimsókn aftur, hann virtist vera edrú, en þreyttur.
Ég er ekki á neinu núna manna, sagði hann. Ég talaði við lögregluna, og stuðningsmann minn og þeir, ætla að koma mér inn á Vog, en það tekur tíma.
Svo fór hann að hjálpa mér í garðinum. Hann var þreklaus og pirraður, en lét sig hafa það.
Unnusta hans kemur oft í heimsókn, ég hvatti hana til að koma, því ég vil fylgjast með fjölskyldunni. Hún er líka stundum einmana, því hún á ekki stóra fjölskyldu hér. Þetta er prýðisstúlka, og það besta sem hent hefur son minn á hans ævi.
Já eins og ég hef sagt áður, þá hef ég skrifað ýmislegt niður gegnum tíðina. Það er ef til vill komin tími til að láta sumt af því uppi, ef það gæti aukið skilning á því hvað fjölskyldur fíkla ganga í gegn um.
Það er samt svo að ég held að það sé varla fjölskylda í landinu sem ekki er á einn eða annan hátt tengd fíkli.
Málið er bara að það eru allir að berjast inná við, margir vilja fela stöðuna, eða eru hræddir við að segja frá neyslu barnsins eða ættingjans. Það er oftast út af ótta við viðbrögð lögreglu og yfirvalda. Því um leið og fólk ánetjast fíkniefnum eru þau um leið orðin glæpamenn eftir hugsunargangi fólks.
Það er aftur á móti alröng nálgun. Svo röng að það er eins og að gera reykingafólk að glæpamönnum fyrir að reykja á almannafæri. Það gerist auðvitað um leið og reykingar verða bannaðar. Þá verðið þið gott fólk sem reykið gerð umsvifalaust að glæpalýð eftir kokkabókum samtímans.
Ég var að ræða við lögreglumann í fyrradag. Hann sagði mér að hann ætlaði ekki að verja kerfið, en málið væri að lögreglunni væri skapaður ákveðin rammi til að fara eftir.
Já ég veit það sagði ég. Eg held að það sé einmitt það sem er að í samfélaginu, hver og einn sem þarf að eiga við brotið fólk hefur sinn ramma og enginn fer út fyrir hann. Þess vegna, sagði ég er svo þarft og mikilvægt að setja á stofn ráðstefnu um fíkniefnavandann á Íslandi.
Hann tekur yfir ekki færri en fjögur ráðuneyti ef ég gleymi engu. Og allir þessir aðilar koma á einn eða annan hátt að vanda fíkils og afleiðingum neyslu.
Það er Dómsmálaráðuneytið, þar eru tollarar, dómarar, fangelsismálayfirvöld, lögregla.
Heilbrigðisráðuneytið, þar er landlæknir sjúkrastofnanir, læknar, geðlæknar sálfræðingar.
Félagsmálaráðuneytið. Þar eru yfirvöld félagsmála, barnaverndarnefndir, meðferðarfulltrúar, félagslega kerfið.
Fjármálaráðuneytið. Þeir þurfa að skapa skjaldborg um brotna fólkið og byggja meðferðarheimili sem kemur í stað fangelsis.
En það eru fleiri sem koma að þessu, eins og tryggingafélög, lögfræðingar, prestar, aðstandendur og fíklarnir sjálfir.
Þetta er ótrúlega víðtækt vandamál. Og ef hver og einn er að sitja bara í sínum ramma og hugsar ekki inn í næsta skref. Þá erum við áfram í vondum málum.
Hér þarf að koma á ráðstefnu sem inniheldur alla þessa aðila. Þar yrði að kryfja málin niður í kjölinn, og gera sér grein fyrir vandanum, og ekki síst hvað er hægt að gera til að snúa þessari þróun við.
Þetta er orðið risastórt kýli, sem fólki hættir til að líta framhjá og sópa undir teppi, af því að það er ekkert sem knýr yfirvöld á um að gera eitthvað í málinu. Foreldrar eins og ég sagði brotnir og búnir á taugum og orku. Fíklar sem vita að þeir eiga engann rétt á neinu, eins og fram er komið við þau í dag af mörgum.
Meðferðarstofnanir sem flestar eru á framfæri kristilegra félaga eða samtaka eru yfirfull og langur tími í bið. Sem er nokkuð ljóst að fíkill sem finnur hjá sér þörf fyrir að gera eitthvað í sínum málum, getur ekki beðið eftir. Hann þarf að komast inn um leið og kallið kemur. Annars er hætt við að allt renni út í sandinn.
Minn sonur var oft að reyna að komast inn í meðferð. Það leið alltof langur tími uns hann átti að komast að, og þá var hann sprungin á viljanum. Auk þess taka stofnanirnar ekki við einstakling sem er í harðri neyslu fyrr en þeir hafa farið í niðurtrapp á Geðdeild landspítalans í 10 daga.
Minn sonur missti af innlögn á Vog einmitt út af því að eftir að ég loksins hafði komið honum inn á Landspítalann, þá fékk hann bæjarleyfi eftir þrjá daga í stofnuninni, og svo skyldu þau ekkert í af hverju hann kom ekki inn aftur fyrir kl. sex um kvöldið. Maður sem var búin að vera í harðri neyslu fleiri vikur.
Það eru ansi margar brotalamir í kerfinu okkar. Og foreldrar sem eru að berjast grípa ansi oft í tómt. Auðvitað hefur þetta lagast eitthvað sem betur fer. En tölur sýna að betur má ef duga skal.
Versta sem gert er, er þegar kerfiskarlar og konur afskrifa fíkla og afgreiða sem úrþvætti. Þá er ég ekki að tala um fólkið sem vinnur með þeim á stofnunum og slíku. Heldur þeim sem eru ofar í þrepi og gætu lagað hlutina. Það þarf ekkert að leggja sig fram um að skapa umhverfi til að laga þetta. Lafir meðan ekki sekkur virðist hugsunin vera.
Ég er að tala um stjórnvöld og frammistöðu ríkisins gagnvart þessum stóra hópi. Í raun og veru er þetta risastórt heilbrigðismál. Þar sem ekki bara fíklarnir eru veikir. Heldur líka brotnir foreldrar, systkini, afar og ömmur. Veit ekki hversu margir eru komnir á róandi, eða með magasár af áhyggjum af einstaklingum sem hafa fyrir löngu síðan misst allan hemil á neyslu sinni.
Og það er svo rangt að dæma þau vondar manneskjur, því þær eru það alls ekki í flestum tilvikum. þau eru veik og geta ekki bjargað sér sjálf. Þess vegna er óraunhæft að tala um að það þýði ekkert að reyna að bjarga manni sem vill ekki bjarga sér sjálfur. Fæstir vilja vera í þessu helvíti. En þau hafa ekki þrek til að standa á móti fíkninni. Þar þarf að koma til stofnun sem hægt er að setja þau inn í, sem er lokuð og þau komast ekki frá, fyrr en árangur hefur náðst. Það eru svona stofnanir á flestum norðurlandanna. Þetta eru dýr vistunarúrræði fyrir einstaklinga.
En þar til dæmis í Danmörku er fólk sem brýtur af sér dæmt í svona lokaðar meðferðarstofnanir. Fangelsun er ávísun á áframhaldandi neyslu með tilheyrandi meiri vitneskju um neðanjarðarkerfið.
Ísafjörður í gær.
Öll börnin fengu svona jólagjafir frá Júlla fyrir síðustu jól. Hann var alltaf að gefa fiskana sína og var alltaf svo glaður með það.
Og alltaf var hann fyrstur til að ganga frá, leggja á borð eða skera steikina. Alltaf boðin og búin þessi elska mín.
Æskuvinir.
Smá mömmublogg.
Maður þarf nú ýmsar aðferðir til að borða.
Hér er verið að fá sér það sem krakkarnir í kúlu kalla afaskyr.
Margir sem færa okkur engla í minningu Júlla míns. Enda var hann örugglega engill.
Afaskyr í hávegum haft á þessu heimili.
Og þá er auðvitað við hæfi að það sé afi sem hjálpar til.
Og hér er smá grettukeppni.
Það þarf að skoða hvort tennurnar séu nógu vel burstaðar.
Já það er gaman að geifla sig fyrir framan spegilinn.
Þið sjáið að okkur er lífsnauðsyn að afa svona gleðigjafa hjá okkur mitt í sorginni.
Í morgun að klæða sig fyrir leikskólann.
Lítil skotta kát og glöð.
Svo er alltaf smákeppni um hver á að fá að slökkva á sjónvarpinu þegar lagt er af stað í leikskólann.
Ég vona að ykkur fiinnist ekki leiðinlegt að lesa svona pistla eins og hér að ofan. En mér þykir mikilsvert að þessir hlutir komi fram til þess að vekja til umhugsunar um raunveruleikan í heimi fíkilsins. Og það hefur ekkert með mannkosti fíklisins að gera. Þetta eru yndislegar manneskjur flestar, sem hafa festst í neti kóngulóar sem engu sleppir. Og það er barátta lífsins að halda sér edrú það sem eftir er. Þess vegna er best að byrja aldrei, og aldrei prófa neitt slíkt fyrir áeggjan eða fagurgala heimsins. Í því felast hættur og jafnvel dauði. Eigið góðan dag elskurnar mínar og megi allar vættir heimsins gæta ykkar allra.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (24)
1.10.2009 | 09:40
Ég vil að þið vitið....
að hvert kærleiksríkt orð sem hér er skrifað, hvert huggunarorð, hvert hrós bæði til mín og Júlla míns, er skrifað í sálina mína, lesið meðtekið og nýtt til að þreyja daginn. Líka símtölin og heimsóknirnar. Ég veit ekki hvar ég væri án þessa.
Í dag er ég ekki lengur með kjökrið upp í koki, heldur hálf frosin. Ég horfi á myndirnar af fallega drengnum mínum og það er eins og allt fjarlægist, ég trúi ekki að þetta sé að gerast. Og þegar Úlfurinn minn grætur sárt og segir; þetta má ekki vera að gerast. Pabbi Pabbi ekki fara frá mér. Þetta er óréttlátt. Þá veit ég ekki hvað ég á að segja við hann. Reyni bara að faðma hann og knúsa.
En kennarinn hans hún Hlíf hefur verið alveg yndisleg, hún kom hér og færði honum stjörnu. En hún gerði meira, hún kom bekkjarsystkinum hans til að skrifa til hans falleg kort á miða, hvert barn með sinn miða, og svo komu nokkrir bekkjarfélagarnir í gær og færðu honum fallega öskju með þessum yndislegu skilaboðum frá þeim. Þeir sátu hér og spjölluðu lengi vel. Og allt var svo fallegt.
Drengirnir komu fyrir hönd alls bekksins.
Þeim gekk mjög vel að spjalla saman.
Málið er að Úlfur litli er nýkomin úr vikudvöl í Heydal í Djúpinu hjá yndislegu fólki, hann kom svo glaður á mánudaginn um hádegið og fær svo þessar hræðilegu fréttir nokkrum tímum seinna. En hann fær að fara aftur inn í Heydal þegar allt er búið, og hann tilbúin til að finna ró. Allt góðu og yndislegu fólki að þakka, og ég er svo þakklát.
En mig langar að tala um Júlla minn. Og ég ætla að ræða hér tvo atburði sem gerðust í hans lífi, sem sennilega mörkuðu hvað stærstu skrefin í lífsmynstri hans. Ég segi þetta ekki af heift eða illsku, heldur til að fólk geti áttað sig á því hve mikils virði það getur verið að hafa í huga þetta fallega máltæki; aðgát skal höfð í nærveru sálar. Og einnig setninguna; Það sem þér gjörið yðar minnsta bróður það gjörið þér mér.
Fyrri sagan gerist á tímabili sem Júlli minn var í neyslu, þó ekkert alvarlega. Hann hafði þá nýlega verið í fangelsi á Litla Hrauni og sagði vinum sínum að þangað ætlaði hann aldrei aftur. Hann sagði við vin sinn. Gættu þín að komast aldrei í þá aðstöðu að vera settur í fangelsi, þangað vil ég aldrei fara aftur.
En þau vinur hans og unnusta voru að rúnta á bíl, þeir í glasi, hún bláedrú. Þau voru á bíl sem Júlli minn átti gamalla Volvó minnir mig, og var hann lúin og lasinn og enginn kunni almennilega á hann nema Júlli.
Svo stoppar bíllinn og fer ekki í gang, þau reyna að ýta honum en ekkert gengur. Júlli minn segir þá við vinkonuna, færðu þig aðeins ég skal koma honum í gang. Hann sest undir stýrið og kemur bílnum í gang. Hann er svo kominn út úr bílnum aftur, þegar lögreglan birtist. Þeir vilja taka hann fastan. Hann segir; ekki gera mér þetta strákar, þið sáuð að ég var bara að koma bílnum í gang. Ég var ekki að keyra.
Þeir malda í móinn, hann sárbænir þá, og segir ef þið takið mig núna, þá verð ég settur aftur inn í fangelsi. Þeir hringja svo upp á stöð og segja að þeir séu með Júlla Tomm, og hvað þeir eigi aðgera; skipunin var klát; komið með hann strax.
Hann er færður upp á stöð, vinirnir fara með, og biðja um að það verði tekin skýrsla og blóðprufa af bílstjórnaum. Nei þess þarf ekkert sögðu lögreglumennirnir, þetta verður allt í lagi.
En nei, fyrir þennan "glæp" var hann settur aftur inn í fangelsi. Þarna brast eitthvað í drengnum mínum. Hann misst trúna á réttlætið og hann missti trúna á lögregluna. Og ég segi nú bara, hvað bjó þarna að baki. Þessa sögu sagði hann mér sjálfur, og nýlega staðfesti vinur hans hana, og sagði mér nákvæmlega eins. Ég verð köld af angist bara við að rifja þetta upp. Svo illt og harkalegt og vont að ég á ekki orð.
Hann var aldrei samur eftir að hann kom heim aftur sagði vinur hans. Og það veit ég líka allof vel. Og ég segi, þarna var ekki bara illmennska að verki, heldur líka ólöglegt athæfi lögreglunnar. Og ég segi er það hægt að brotið sé svona á fólki, þó sumum finnist þeir vera úrkast? Á lögreglan ekki að vera hafin yfir svona vinnubrögð? Sonur minn talaði svo aldrei meira um þetta, og hann var búin að fyrirgefa öllum allt, eins og hann gerði alltaf. En það situr í mér, og það situr í vinum hans. Og þegar þeir menn sem þarna komu illa fram lesa þetta sem ég vona að þeir geri. Þá vona ég að þeir læri af því og næst þegar þeir komast í þá aðstöðu að gera góðverk eða illvirki, að þeir muni hvað þeir gerðu, og breyti rétt.
Ég vil af þessu tilefni taka fram að þetta á ekki við um flesta sem nú eru í lögreglunni hér, sem eru góðir menn og voru vinir Júlla, og hjálpuðu honum á margan hátt, síðar. Eftir að sá sýslumaður sem þá var hafði flutt og nýr og réttlátur sýslumaður komin til starfa. Sem átti síðar stóran þátt í því að hjálpa Júlla mínum.
Hin sagan er reyndar fallegri. En hún er þannig. Að eftir að sonur minn hafði verið í innbrotum og allskonar veseni, þá komum við því þannig fyrir að hann var settur í síbrotagæslu. Það var gert til að stöðva hringrásina, sem var að hann fór inn, út aftur, braust inn til að ná í fíkniefni og svo endalaust. En af því að sýslumaðurinn (konan) sem þá var hér var einstaklega skilningsrík og mannleg, þá setti hún inn að ef hann kæmist inn í Krýsuvík, væri honum sleppt. Ég var þá að reyna að koma honum þangað í meðferð.
Svo er hringt í mig og mér sagt að þeir geti tekið við honum ef hann komi fyrir kl. 11.00 til þeirra þetta var á þriðjudagsmorgni. Þeir taka eða tóku þá inn, tvo menn í einu, en þeir urðu að vera mættir á réttum tíma á ákveðin stað. Ég byrja að reyna að losa drenginn, átti samt dálítið erfitt vegna þess að það var auðvitað ekki 100% öruggt að hann kæmist, vegna þessara skilmála. En ég ákvað að láta slag standa, að duga eða drepast. Það gengur svo loksins að fá hann lausan. Lögreglan ekur honum svo af stað. En þeir fara með hann upp í Krýsuvík í staðin fyrir skrifstofuna í Hafnarfirði. Hann kemur því of seint, og búin að missa plássið, mér er sagt að hann sitji bara hjá þeim í Hafnarfirðinum vegalaus og ráðalaus, fangelsismálstofnun taki ekki við honum aftur.
Lögregumaður hér sem hlut átti að máli, hringdi þá í mig og helti sér svoleiðis yfir mig, að ég hélt að ég myndi deyja, var sennilega hræddur um sjálfan sig. Ég held eftir á að ég hafi fengið taugaáfall þennan dag. Og átti í miklum erfiðleikum næstu vikur og mánuði. Ekki bara vegna þessa reiðilesturs, heldur líka vegna áhyggna af drengnum mínum, nú myndi hann fara á götuna og hverfa.
En svo hringir í mig sýslufulltrúi frá sýsluskrifstofunni hér, maður sem ég hafði verið í sambandi við, um að láta Júlíus lausan. Ásthildur mín, sagði hann. Viltu ekki að ég hringi í þá hjá Krýsuvíkursamtökunum og biðji þá um að taka hann Júlíus inn svona aukalega.
Guð minn góður hvað þetta bjargaði mér, þetta gekk svo eftir og Júlíus fór inn í Krýsuvík á sérplani. Hann var það í fimm mánuði, og blómstraði. Mamma sagði hann, þetta er í fyrsta skipti sem ég get verið heilan dag án neyslu. Þetta hélt ég að ég gæti ekki og mér líður svo vel. Þarna byrjaði hans endurreisn.
Vinur minn sagði mér um daginn þegar hann kom til mín að Júlli hefði sagt: ég sat við gluggan í Krýsuvík og horfði út, og allt í einu fann ég svo mikinn frið í sálinni, ég vissi að ég var laus undan fíkninni. Og mér leið svo vel.
Þessi sýslufulltrúi gaf okkur öllum nokkur góð ár með syni mínum, vegna þessa kærleiksverks fæddist yndislegur drengur, og stórkostleg listaverk voru gerð.
Ég segi ykkur þetta til að þið sjáið svart á hvítu, að allt sem þú gerir bróður þínum kemur til baka tífallt. Ef þú vilt nota aðstöðu þína til að sparka í liggjandi mann, þá áttu sjálfur tíu spörk skilið. En það er ekki bara það, spörk gróa, en ör í sálinni með vitneskju um að þú hafir eyðilagt góða sál, grær aldrei. Í innsta kjarna hvers manns er réttlætið fólgið. Og sálin meðtekur og veit, þó sá hinn sami vilji ekki horfast í augu við sjálfan sig og gjörðir sínar.
Sá sem gefur og vinnur kærleiksverk, fær það þúsundfalt borgað í góðri líðan yfir góðu verki.
Sem betur fer varð Júlli minn aldrei hatrinu að bráð. Hann notaði sína eigin niðurlægingu til að hjálpa öðrum. Hann notaði líf sitt sem aðvörun til unga fólksins sem hann sá að var að fara ranga braut. Hann var stórbrotinn persónuleiki og mitt í allri niðurlægingunni var hann samt stór manneskja.
Ég get sagt ykkur að mér leið ekki verst þegar hann var í þessu ástandi, þegar hann braust inn og stal til að ná í fíkniefni, eða jafnvel braust inn til fólks sem mér þykir vænt um, og þurfti að takast á við skömm og annað. Verst leið mér þegar hann hafði náð að koma einhverju fallegu inn í líf sitt, ég sá hamingjuna og birtuna í augum hans slokkna vegna svona atburða eins og ég lýsti hér fyrst. Sá vonina deyja um að hann gæti orðið hamingjusamur vegna fólks sem taldi sig vera honum æðra og hafa tök á að upphefja sjálft sig á því að niðurlægja hann.
Það er þess vegna sem ég segi í kvæðinu mínu. Ég get ekki varið þig fyrir áföllunum, ekki hlíft þér við miskunnarleysi mannanna.
Á þessum árum var oft erfitt. Erfitt að takast á við þá leið sem Júlli ákvað að fara. En ég hef alltaf elskað hann og trúað á það góða í honum. Erfiðast var þrátt fyrir allt að fálma út í tómið, þar sem enga hjálp var að fá. Enginn úrræði, enginn mannréttindi handa fólki eins og honum. Ég vona að við höfum komist lengra í dag, en samt alltof stutt. Hér á að rísa meðferðarheimili fyrir fíkla. Það gengur ekki að fangelsin séu yfirfull af fólki sem er í raun og veru fangar fíknarinnar. Ekki glæpamenn heldur sjúkt fólk sem þarfnast og þráir betra líf.
Ég heyri oft sagt að það sé ekki hægt að bjarga þeim sem ekki vilja bjarga sér sjálfir. Ég ætla að lýsa því yfir hér og nú að þetta er alrangt. Þetta er mýta sem á að friðþægja þá sem ekkert hafa fram að færa fyrir fólk eins og Júlla minn.
Það er hægt að bjarga fólki með því að hafa lokaða meðferðarstofnun, þar sem fagfólk er til staðar, læknar, geðlæknar og sálfræðingar, ráðgjafar og meðferðarfulltrúar. Það vill enginn vera í þessum sporum, en þau eru ekki sjálfráð gerða sinna. Og þegar ekkert er sem stoppar þau af að fara út af meðferðarstofnun, þá er það bara þannig. Fíknin yfirvinnur allt. Þetta ætti reykingafólk að vita. Þeir hætta ekki að reykja þó þeim sé bannað að reykja innandyra. Þeir fara bara út. Sama gerir fíkillinn, munurinn er sá að reykingamaðurinn er með ráði og rænu, hinn er veikur.
Fermingardrengurinn minn.
Lítill drengur ljós og fagur.
Ég skrifaði oft um málefni fíkla hér fyrir 30 árum eða svo. Opnaði umræðu sem legið hafði í þagnargildi, því fólk vill ekki opna sig um að börnin þeirra séu í svona. En það voru margir sem hringdu í mig og þökkuðu mér fyrir. Ég fann að ég var að opna á málefni sem voru ekki í góðu lagi, og ekkert var verið að vinna í. Það var enginn þrýstihópur frá foreldrum fíkla, sem flest voru eins og ég, uppgefin og vonlaus, örþreytt af angist, bæði yfir hvað yrði næst, og hvort presturinn og lögreglan kæmu og bönkuðu uppá. Það er líka þannig að það er erfitt að hringja í yfirvöld og segja barnið mitt er í neyslu. Því hver vill verða valdur að því að barnið manns sé meðhöndlað eins og ég hef upplifað með minn son. Það má eitthvað breytast til að slíkt gerist.
Og ég tek fram að ég er ekki að alhæfa langflestir eru góðir og gegnir menn. Það er allstaðar innan um fólk sem gengst upp í því að upphefja sjálft sig á kostnað annara. Málið er bara að það er óþolandi að slíkt fólk sé í þeirri stöðu að geta í krafti embættis leyft sér slíkt. Það á ekki að fá að líðast.
Þá hef ég romsað út úr mér reiðinni. Það bara rifjast svo margt upp þegar ég fer að hugsa um lífshlaup drengsins míns. Og ef eitthvað af hans mistökum getur orðið til þess að bjarga öðrum, þá er það einmitt það sem hann hefur alltaf verið að gera. Það er alveg í anda þess sem hann hefði viljað.
Eigið góðan dag. Og innilega takk fyrir allan hlýhug, kærleik og væntumþykju sem ég hef fundið hér á þessum síðum undanfarið. Og ekki bara ég, því fjölskyldan mín sem er í sárum les líka það sem þið skrifið og einnig vinir hans, sem sumir hverjir eru alveg jafn hrærðir og sorgmæddir og við.
Innilega takk.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (26)
Um bloggið
Ásthildur Cesil Þórðardóttir
Tónlistarspilari
Bloggvinir
-
prakkarinn
-
katrinsnaeholm
-
jensgud
-
matthildurh
-
jenfo
-
kiddat
-
hronnsig
-
katlaa
-
katagunn
-
kolbrunb
-
joiragnars
-
birgitta
-
holi
-
rs1600
-
ktomm
-
heidathord
-
vestfirdir
-
steina
-
laufeywaage
-
maggadora
-
lehamzdr
-
icekeiko
-
isdrottningin
-
skaftie
-
hneta
-
hross
-
amman
-
johanneliasson
-
helgamagg
-
zeriaph
-
olafia
-
jogamagg
-
tigercopper
-
ellasprella
-
zumann
-
estro
-
sjos
-
gmaria
-
gudr
-
ktedd
-
salvor
-
bertha
-
solisasta
-
meistarinn
-
baenamaer
-
sirrycoach
-
annalilja
-
komediuleikhusid
-
tildators
-
hector
-
bene
-
skelfingmodur
-
fifudalur
-
xfakureyri
-
madddy
-
siggith
-
antonia
-
elina
-
rosaadalsteinsdottir
-
framtid
-
annaragna
-
sirri
-
thjodarsalin
-
bestalitla
-
helgatho
-
jyderupdrottningin
-
hallaj
-
ingistef
-
gudruntora
-
zunzilla
-
sisvet
-
aevark
-
bostoninga
-
ace
-
drengur
-
robbitomm
-
faktor
-
disag
-
ffreykjavik
-
ma
-
rannveigh
-
igg
-
robertb
-
sgisla
-
rafng
-
helgi-sigmunds
-
lotta
-
fullvalda
-
heimssyn
-
naflaskodun
-
johannesthor
-
jeg
-
huxa
-
sigrunzanz
-
jodua
-
tryggvigunnarhansen
-
minos
-
saemi7
-
blossom
-
ansigu
-
skagstrendingur
-
beggo3
-
h2o
-
westurfari
-
ammadagny
-
bjartsynisflokkurinn
-
elfarlogi
-
esig
-
sunna2
-
frjalslyndir
-
gudlaugbjork
-
gp
-
hreinn23
-
guki
-
gustafskulason
-
harhar33
-
diva73
-
huldagar
-
kliddi
-
axelma
-
keli
-
bassinn
-
jonvalurjensson
-
josefsmari
-
kuldaboli
-
kiddatomm
-
ksh
-
kristjan9
-
mio
-
omnivore
-
sumri
-
samstada-thjodar
-
fullveldi
-
nafar
-
stjornlagathing
-
sattekkisatt
-
athena
-
tikin
-
vallyskulad
-
vest1
-
totibald
-
tik
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (4.10.): 0
- Sl. sólarhring: 4
- Sl. viku: 28
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 25
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar