Smá ferðalag til Mexico.

Flugum um hálf níu um morguninn frá Keflavík til Boston.  Þar tók á móti okkur í útlendingaeftirlitinu ung hress suðurríkjadama.  Heilsaði hún okkur brosandi og með kostum og kynjum, sagðist hafa verið á Íslandi,  í Reykjavík og víðar.  Spurði hvort Ísafjörður væri nálægt Akureyri. 

Það var knappur tími til að ná í farangur okkar og setja hana í framhaldsflug til Mexícócity, en við vorum fullvissuð um að taskann færi alla leið.  Það hafði verið klukkutíma seinkun hjá Icelandair svo við höfðum bara einn og hálfan tíma til að koma okkur gegnum útlendingaeftirlitið, fara á annan terminal og ná vélinni til Chicago.  Þar þurftum við að bíða lengur, fengum okkur brauðsneið og djús, og reyndum að láta fara vel um okkur.  Flugið til Mexicócity  tekur fjóra og hálfan tíma. Stúlkan í eftirlitinu í Chicago spurði hvaðan við værum og hrópaði upp yfir sig Íslendingar þá hef ég aldrei séð fyrr. 

 

Úti í Ameríku er geðveikislegt eftirlit, maður þarf að fara úr skónum og allt gegnum lýst, var samt feginn að sleppa við það sem sumir þurftu að ganga í gegnum, að láta taka af sér fingraför og mynd í bak og fyrir. 

 

Lentum í Mexícó um kl. 6 að staðartíma, vorum þá búin að græða 7 tíma.  Þá kom í ljós það sem ég reyndar hafði óttast að taskan okkar hafði ekki skilað sér. Það er samt mikill munur að koma frá Bandaríkjunum til Mexícó, fólkið hér er miklu brosmildara og kurteislegra en í B.N.A.

Þegar maður kemur inn í Mexícó, er tollaeftirlitið þannig að þú ýtir á hnapp, ef það kemur grænt þá ferðu í gegn óáreitt, ef það kemur rautt, ferðu í skoðun.  Við fengum rautt í þetta sinn.  Tollarinn bara brosti og spurði hvaðan við kæmum meðan hann grautaði smávegis í handtöskunni minni.  AHA Íslendingar, ég dáist svo mikið að víkingunum sagði hann og benti okkur á að fara bara í gegn. 

 

Á flugvellinum er það svo í Mexícó að þú pantar leigubíl inn á vellinum og segir hvert þú ætlar og greiðir fyrir hann þar.  Þetta er öryggisráðstöfun, vegna þess hve tíð rán höfðu verið á túristum, þar áður.  Við ætluðum niður á Holliday inn við Zocalotorg.  Það fyrsta sem maður tekur eftir í Mexócó á flugvöllum og rútubílatöðum er að þar er engin klukka. Þeim gengur illa að aðaga sig að Gregoriska tímatalinu. Enda lítið stressaðir.  Þar sem klukkann eltir þá, en ekki þeir klukkuna eins og á Vesturlöndum.

Við fengum staðfest að taskan okkar yrði send á hótelið þegar hún kæmi í leitirnar.  Mágkona mín kom frá Mazatlán hún ætlaði eð vera með okkur í þessari ferð. 

 

Þegar við komum upp á Zocalotorgið iðaði það allt af lífi, börn með blöðrur og lúðrasveitir og söngur.  ‘I dag er 9. janúar dagur Guadalupe.  Maríu Mey indíána í Mexícó og víðar.  Zocaló er stórt torg í miðri Mexícóborg, við það stendur forsetahöllin og hæstiréttur, og dómkirkjan.   Þar safnast fólk saman til allskonar hátíðabrigða, og þar dansa Aztekarnir í sínum glæsilegu búningum.  Stór fáni er á miðju torginu, um 30 metra há stöng, og fáninn stór eftir því. Mexicócity var upphaflega höfuðborg Azteka.

 

Zocalo torg, forsetahöllinn sést þarna og fáninn stóri.  Tekið ofan af Holliday inn.

 

Við byrjuðum á að fara og versla inn það nauðsynlegasta til skiptanna, vegna töskuhvarfsins, og fórum svo og fengum okkur góðan Brunch. Vorum 3 daga í borginni og svo var lagt af stað með rútu til Chapas.  Taskan kom í leitirnar síðasta daginn í borginni, og vorum við harla feginn.

 

Áður en við fórum suðureftir, fórum við og skoðuðum pýramídana í Teothihuacan,  þarna eru margar stórkostlegar byggingar.  Sól og mána pýramídar sitt við hvorn enda dauðagötunnar og byggingarnar meðfram henni, og þar eru margar byggingar ennþá huldar gróðri og jarðvegi.En þarna má sjá bæði tilhöggnar og málaðara myndir og þeir hafa skreytt náttúrulegu steinanna sem þeir hlóðu úr með mynstri úr minni steinum.  Svo hafa þeir múrað yfir og málað.  Vatnsleiðslur og skolp, og þarna mátti sjá leifar af saunabaði og klósetti.  Menningin hefur svo sannarlega risið hátt á þessum tímum.  Þarna var sagt að hefðu búið ættbálkur um 94.000 manns og þau hurfu skyndilega og enginn vissi hvað af þeim varð.

 

Mánapýramídinn.  Þar sem fólkið gengur er dauðagatan.

 

Hér sést vel hvernig þeir skeyttu steinanna.  Og inni sést hvernig þeir múrhúðuðu steinana.  Þarna sést líka útskurður mynd af dreka.

 

Við skoðuðum líka Azteca hof í borginnin rétt hjá torginu. Svolítið óhugnanlegt var að skoða fórnaraltarið og hvernig þeir hafa lagt frárennsli fyrir blóðið.

 

Síðasta kvöldið fengum við okkur að borða á veitingastaðnum á Holliday inn.  Veitingastaðurinn er upp á 6. hæð þar er hægt að sitja úti og horfa yfir Zocalotorg, en í ár er frekar kallt í borginni, svo við sátum inni,  en það var notalegt að sitja með góðan mat, Mexícóst Irish coffee og Tequila og hlusta á taktfastar trommur Aztekana, þar sem þeir dansa og nota fámennið til að æfa unglingana í dansinum, úti á torginu.

 

Flugvöllur Mexícóborgar er mjög nálægt borginni, yfirvöld vilja færa hann lengra burtu en bændur og umhvefissinnar berjast gegn því.  Þeir segja að allt of stórt ræktarland fari undir völlinn og akveg að honum.  Þeir segja að lifibrauð þeirra sé í hættu verði flugvöllurinn færður. 

 

Daginn eftir lögðum við af stað til Tuxtla.  Það er um 13 tíma akstur, en rúturnar eru þægilegar og á leiðinni eru sýndar kvikmyndir.  Vorum fyrr á ferðinn en við ætluðum vorum í Tuxtla um 6 leytið um morguninn, en rútan til Bendingo fer ekki fyrri en kl. 9.00  Settumst niður á litla kaffistofu og fengum okkur kaffi. Á kaffistofunni hittum við tvær ísraelskar stúlkur, þær sögðu okkur að upp í fjöllunum væri gljúfur sem væri mjög frægt.  Við ákváðum að taka leigubíl og skoða það.  Gljúfrið gengur þvert í gegnum fjall sem er 1200 metra hátt, það er hægt að sigla í gegn um skarðið, eða aka upp fjöllinn og skoða að ofan frá.  Það er hægt að stoppa á nokkrum stöðum, en við höfðum bara tíma fyrir tvo fyrstu 600 metra hæð og 900 metra.  Það var ótrúlegt að horfa niður þráðbeinan klettavegginn og sjá 900 metrum neðar silfurband árinnar, að vísu var dálítið móða og úði vegna þess hve snemma við vorum, og sólin ekki búin að bræða sig gegnum dögg næturinnar, en við því var ekkert að gera, því rútan fór kl. 9.00.  Í bænum Tuxtla búa um 850 þúsund manns og er hann með stærri bæjum í Shapas.  Gegnum bæinn rennur áin Rio Sabinal, fyrri nokkrum vikum hafði hún flotið yfir bakka sína og umflotið stóran hluta bæjarins.  Við sáum sumstaðar stóra reykjastróka líða upp úr jarðveginum, við spurðum hvað þetta væri, bílstjórinn sagði að þetta væru ofnar, sem grafnir eru í jörðina, þéttir innan með jarðsteinum og leir, til að baka brauð. 

 

Bílstjórinn ráðlagði okkur að stoppa í San Kristobel, þar sem er hellir einn mikill með allskonar náttúrumyndnum. Grutas Del Pancho nueve.  Hann sagði líka að við skyldum passa okkur á leigubílstjórum.  Lagði á við okkur að skrifa niður merki sem alltaf er á hlið bílanna og skrá líka niður nafn bílstjóranna, þeir gæru verið varasamir. 

 

Sab Kristobel er bær, það búa um 27.000 manns bærin er í 2667 metra hæð.  Við fórum yfir 3000 metra hæð á leiðinni, og vorum skýjum ofar.  Þarna er landslagið hæðótt og hrikalegt en mjög fallegt, hæðirnar eru  þaktar með frekar lágvöxnum gróðri og  mikið var um að menn höfðu rutt gróðri burtu og þarna var ræktaður maís í stórum stíl. Enda maís aðalútflutningsvara Chapasbúa. 

 

Horft yfir Tuxtla.

 

Hér sést inn í hellinn góða.

 

Við tókum leigubíl í San Kristobel upp í fjöllinn til að skoða Hellinn.  Hann var stórkostlegur.  Lítil indíjánastúlka leiðbeindi okkur um hellinn með vasaljós og sýndi okkur hellamyndirnar.  Sem höfðu myndast í mjúku berginu við ágang vatns.  Á þessum slóðum hafði brotist út stríð fyrir fjórum árum milli ensku rétttrúnaðarkirkjunnar og kaþólikka og 45 manns indíjánar voru drepnir þar sem þeir sátu og báðust fyrir í einni kirkjunni.

 

Í skólanum er það svo að börnin eru aðgreind eftir því hvor trú þeirra er.  Svo eru mormónar einnig að hasla sér völl.  Trúmál þarna eru mikið vandamál, vegna þessa stríðs á milli trúarbragða. 

 

Indíjánarnir upp í fjöllunum eru með sína siði og reglur enn þann dag í dag.  Þarna í Chapas eru kindur friðhelgar, það má ekki drepa þær eða skaða á neinn hátt, það eina sem menn mega hafa not af þeim er ullin. Enda vefa konurnar mikið og sauma út.  Þær vinna en karlarnir hafa það náðugt.  Algengt er að menn fastni sér stúlkubörn þegar þær eru fimm til sex ára.  Þá koma þeir með geitur asna og heimabrugg og velja sér telpu.  Hún elst svo upp á heimili foreldra sinna, uns hún er gjafvaxta fimmtán sextán ára, þá kemur brúðguminn, kvænist henni og tekur hana inn á sitt heimil, hann á gjarnan fjórar til sex eiginkonur, sem vinna fyrir heimilinu.  Börnin eru líka mörg.  Aðal fæða þeirra eru tortillur búnar til úr maís, og svo ávextir sem eru ræktaðir heima.  Einnig eru flest heimili með hænur, geitur og kalkúna.  Stærri býli eru svo með hesta og asna. Tvennskonar kýr eru ræktaðar önnur tegundin vegna kjötsins og hin til að mjólka.  Í San Kristobel De la Casas fór bílstjórinn með okkur í heimsókn til fjölskyldu, eiginkonurnar voru fjórar, en einnig systir einnar eiginkonunnar og ein frænka, þær fimm áttu með manninum 15 börn. þrjár kvennanna voru heima, ein að baka tortíllur og önnur að vefa sú þriðja var með ungabarn í sjali á bakinu.  Við vorum látin máta okkur í hátíðabúning ættbálkins og Elli minn var svolítið broslegur í skrautlegri treyju með stóran hatt með mörgum skrautborðum.  Við vorum líka flottar ég og mágkona mín, í vaðmálspilsum skrautlegum mussum með borða og fallega ofið sjal.  Allt heimagert og fallega unnið.  Svo var tekin mynd að herlegheitunum.  Við þáðum líka tortillur sem voru bakaðar við frumstæðustu aðstæður og heimabrugg.  Mjög skemmtilegt.  Framhlið hússins var mjög flott múruð og máluð, en bakhliðinn nokkurs konar patíó sem er reist úr timbri, og hlaðið með efni sem þeir gera úr taði, síðan er torf og leir sett í rifurnar, Við komumst svo að því að framliðin er byggð eins bara múrað yfir með leir og svo málað yfir.  Patíóið var aðeins einföld grind með plasti yfir sem var vinnustaður hannyrðakvennanna, og svo var óþéttur timburkofi sem var eldhúsið.  Engin borð eða stólar, utan nokkrir tréstólar sem eru eins og smábarnastólar, en einu sætinn, hinir sitja bara á gólfinu.  Þetta var samt fjölskylda sem átti nóg, og var í fínu hverfi.

 

 

 

 

 

Eldhúsið og tortillagerð.

 

Hér er ein eiginkonan að vefa. Og verk hennar hanga uppi allt í kring.

 

 

Týpiskur búningur fyrir indíána konur í Chapas.  Pilsin eru með mismundandi mynstri eftir því hvaða ættbálkur á í hlut. Þær vefa pilsin sjálfar, og sauma búningana. Teppið er algengt höfuðfat og er líka notað sem brúðarslör.

 

 

 

Í þessum bæ var katólsk kirkja á miðju torginu.  Þar var dýrðlingunum raðað með fram öllum veggjum kirkjunnar. Gólfið var þakið með furunálun, það gera indíjánar þessa héraðs, þegar þeir halda veislur, svo sem giftingar eða fermingar.  Víða á kirkjugólfinu sátu manneskjur með kerti fyrir framan sig og sumir voru með hænur, flestir voru með kókflöskur og brauðkollu sér við hlið.  Þetta voru heilarar, sem læknuðu fólk sem til þeirra leitaði.  Ég lét tilleiðast og fékk einn indíjánan til að lækna mig.  Með kertum ekki hænum.  Því þegar sjúkdómurinn hefur verið yfirfærður í hænugreyið þá er hún snúinn úr... Þau voru treg til að taka mig að sér, feiminn við þessa hvítu kerlingu, og hafa sennilega fundið af henni nornalyktina.  En loks var einn sem þorði.  Hann sagði okkur að sjúkdómar byrja allir í vitundinni, og ef maður gerir ekkert í því, þá fer sjúkdómurinn úr í líkamann.  En svei mér þá mér snarbatnaði sár verkur sem ég hafði verið með í bakinu. 

Í kirkjunni er messað einusinni í viku og presturinn kemur frá næsta þorpi. Okkur var sagt seinna að Páfinn hefði komið þarna í heimsókn  og hefði fengið svipaða meðhöndlun og ég.  Hann hefði verið spurður afhverju þetta væri látið viðgangast, og hann svaraði; Við megum ekki taka allt frá indíjánunum.

Kirkjan í baksýn og markaður á aðaltorgi San Kristobel.

 

 

Þarna sést ein kona að vinna tóg.  Handavinna hennar hangir þarna uppi.

 

 

 

Það sem vakti athygli sértsaklega er hvað hvítu fötin eru hvít þarna, þar sem aðstaðan til þvotta er afskaplega bágborin.  Indíjánakonurnar þvo mikið, þær byrja daginn á að þvo, og svo er þvotturinn hengdur til þessir á girðingar, limgerði, eða bara hvað sem er.  Aðal tækið sem er notað til að þvo þvotta fyrir utan lækjarsprænur, polla eða móbrúnar ár er .... já það eru nefnilega HJÓLBÖRUR. Á einum stað sáum við um 7 konur allr í röð að þvo í hjólbörunum sínum  hlið við hlið, sumar gamlar ryðgaðar, og aðrar flúnku nýjar.   Hugisð ykkur hjólbörur eru kostagripur, svo er hægt að fara með þvottinn í þeim til að hengja upp, skreppa í bæinn og kaupa inn, hafa barnið í þeim og svo getur maður lánað bóndanum þær er hann þarf að fara í gegningar.  Annars ganga allar konur í Mexóco með börn sín í fanginu eða í teppi á bakinu.  Enginn er með kerru eða vagn.   

Frá San Kristobel fórum við svo áleiðis til Palengue, en þar ætlum við að skoða Pýramída Maja.  Meira um það seinna.

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Jamm ég var að leita í gömlum færslum og óvart kom þetta inn. En ég skal finna myndirnar og setja þær inn. Kemst ekki í það í dag, en ef til vill á morgun. Biðst afsökunar á þessu.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 22.10.2014 kl. 17:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Höfundur

Ásthildur Cesil Þórðardóttir
Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Tónlistarspilari

Ásthildur Cesil - Dagdraumar
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • 2f19c636fb68b249555c5fa250d3e103--russian-image-jellyfish
  • engill-angel
  • jolatre
  • 20171002 121526
  • gasometers-vienna-7[5]

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.4.): 6
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 46
  • Frá upphafi: 2020780

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 41
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband