Sjálfsskapar eru vítin verst.

Mig langar svolítið til að segja mína skoðun á þessu máli og tilbúnaðinum kring um hann.  Ég er satt að segja búin að spá mikið í bæði hvernig þetta hefur atvikast og síðan viðbrögð þeirra sem eiga hlut að máli.

Mitt mat á stöðunni er svona, og þetta er eingöngu mín upplifun af þessu.

Lögreglustjóri suðurnesja á fund með innanríkisráðherra um málefni Tonys Osmos, vegna þess að fyrirhugaður er mótmælafundur vegna brottvísunar hans.  Þar eru þessi málefni rædd og fundinn situr Gísli Freyr aðstoðarmaður.  Eftir fundinn eru mál rædd eins  og gengur, og þá segir Sigríður söguna sem er í umræðunni, hún segir hana í trausti þess að hér sé fólk að ræða saman um málefni sem ekki á að koma fyrir augu almennings.  

Aðstoðarmaðurinn fer svo heim í afslöppun, en hann er að hugsa um málið og finnst að eitthvað þurfi að gera til að koma "réttlætinu" til skila.  Að hans mati.  Svo hann sendir skjalið á tvo vini sína, annar er blaðamaður á mbl, hinn á fréttablaðinu, og bætir við gróusögunni sem höfð er eftir lögreglustjóranum.  

Það má því rétt hugsa sér viðbrögð lögreglustjórans þegar hún les blöðin daginn eftir.  Og sér að orð sem sögð voru í hálfkæringi en fyrir eyru tveggja viðmælenda eru komin í Morgunblaðið og Fréttablaðið.

Það má síðan einnig gera sér grein fyrir viðbrögðum innanríkisráðherrans, þegar hún sér það sama.  Það sem allir myndu gera í hennar sporum væri að fara og ræða við sinn undirmann um málið, því hún veit strax hvaðan það kemur.  

Ég get ímyndað mér að aðstoðarmaðurinn brotni niður og viðurkenni að honum hafi orðið allsvakalega á.  

Og einmitt þar gerast mistökin.  Í stað þess að strax þar og þá geri ráðherran út um málið og upplýsi það, ákveður hún og vonast til að komast upp með það að hylma yfir með undirmanninum.

Þetta er skiljanlegt þegar hugsað er á mannlegum nótum um viðbrögð.  En ekki það sem mátti gerast.

Og nú er allt í uppnámi, lögreglustjórinn gerir sér grein fyrir að hún getur ekkert gert í málinu, því það sem hún sagði í trúnaði er allt í einu orðið fyrirsagnir í allavega tveimur af mest lesnu blöðum landsins.

Ráðherrann sömuleiðis.  

Það útskýrir líka af hverju Gísli Freyr fær úthaldið til að halda lyginni áfram, því nú er það ekki bara hann einn sem hefur brugðist, heldur verður hann að verja yfirmann sinn líka, sem hefur lagt sitt orð að veði fyrir hann.  

Öll vonast þau auðvitað eftir að þetta bara gleymist og fjari út.

En svo gerist eitthvað óvænt.  DV blaðamenn fara að skrifa um málið.  Og þeir láta sér útskýringarnar ekki nægja,og þeir halda málinu við endalaust.

Einmitt ef þetta er svona útskýrir af hverju ráðherran bregst við með því að reyna að þagga niður í blaðamönnunum, fyrst með því að ræða við yfirmenn um að hætta við að skrifa um málið og svo að reyna að láta reka blaðamennina.  En sem betur fer gerist það ekki.  

Þá er líka skiljanlegt af hverju hún svo fer að skipta sér af, þegar lögreglurannsókninn byrjar.  Og gengur þar of langt að margra mati.  Og það útskýrir líka af hverju hún lagðist mest gegn því að tölva aðstoðarmannsins yrði rannsökuð, því hún veit nákvæmlega hvað er þar að finna.  Að vísu ekki fyrr en eftir að leitað hafði verið til FBI um málið.

Það útskýrir líka af hverju hún er svona reið: "ég gerði ekkert rangt".  Og það að segja ósatt á þingi, bendir einnig til að þarna sé svakaleg vörn í gangi.

Lögreglustjórinn er líka í vörn, því hún veit að ef uppruni málsins er rakinn til hennar, þá er hún í vondum málum.  Hún kýs því að ræða ekkert um málið, ekki fyrr en farið er fram á útskýringar frá henni

Svona gekk þetta fyrir sig að mínu mati, og þegar púslið leggst svona púsl fyrir púsl, má sjá hvernig málið liggur.

Ég held að þessu fólki, þeim öllum þremur hafi liðið afar illa þennan tíma sem liðinn er, og sennilega hefur þeim liðið verr en Tony og konunum, því sjálfsskapar eru vítinn verst.  Þau hafa þurft að lifa með lyginni allann tímann.  Og þetta var eiginlega ekki ætlunin, heldur gerðist þetta bara, og ef Gísli Freyr hefði ekki gert það sem hann gerði, hefði þetta bara orðið smá spjallstund lögreglustjóra, ráðherra og aðstoðarmanns, og alveg saklaust þannig séð. 

En því miður varð það ekki svo.  Heldur komst málið fyrir almenningssjónir, fólkið sem hafði ætlað að standa að baki hælisleitandans Tony Osmos hætti við mótmælin í ljósi þessara upplýsinga, sem raunar voru óstaðfestar algjörlega.  

Ráðherra og lögreglustjóri sátu uppi með skömm sem þeim hafði ekki dottið í hug að gæti gerst á þessum tímapunkti  

Það má því segja að sök Gísla Freys sé mikil.  En dómgreindarleysi og ef til vill kæruleysi hinna tveggja er heldur ekki hægt að leiða hjá sér.  Fólk í ábyrgðarstöðum verður að hafa dómgreind og nægilega virðingu fyrir stöðu sinni til þess að gera ekki svona.  

Nú þekki ég Sigríði að góðu einu þegar hún var sýslumaður á Ísafirði og reyndist mínum syni afskaplega vel.  Það er því með sorg í hjarta að horfa upp á þau vandræði sem hún hlýtur að verða fyrir þegar málið útskýrist, sem ég hef grun um að gerist.  Það er búið að ganga allt of langt til þess að það hætti nú.  

En ef við viljum halda uppi lögum og reglu í okkar þjóðfélagi og að hér geti ríkt trúnaður og traust milli ráðamanna og almennings, þá má bara ekki líða svona.  

Við verðum að fara að veita stjórnendum meira aðhald, við erum öll mannleg og breysk og þess vegna þarf að veita því fólki sem er í forsvari það mikið aðhald að þau hugsa sig tvisvar um áður en þau gera eitthvað sem getur haft svona mikil áhrif.  Það er einfaldlega okkar að gera það.  Og þess vegna er sorglegt að horfa upp á sumt fólk, sem veit betur hylma yfir með sínum yfirmönnum, jafnvel í von um einhverja bitlinga, og algjörlega á kostnað okkar hinna.  Og það er líka sorglegt að horfa upp á fólk treysta í blindni fólki, af því að það aðhyllist sömu stjórnmálafræði og það sjálft.  

Við þurfum nefnilega alltaf að hugsa um hag heildarinnar, og reyna eins og við getum og erum megnug til að veita aðhald.  

Ég veit að ég hef verið dómhörð í garð Hönnu Birnu og alls málatilbúnaðarins í þessu, en það þýðir ekki að ég hafi ekki haft að vissu leyti samúð með henni og hinum tveimur.  En ég er ekki kóari, ég vil ekki vera meðvirk í að láta svona mál bara danka.  Þau eru einfaldlega of alvarleg til þess. 

Þess vegna vona ég Hönnu Birnu vegna að hún segi sig frá ráðherradómi sjálfviljug, og ég er viss um að henni mun líða miklu betur þannig.  Einnig held ég að Sigríður hljóti að segja af sér sem lögreglustjóri ríkisins, því það er svo augljóst hvers vegna það starf er tilkomið.

En við hin skulum fyrirgefa þeim og láta þau finna að með því að þau sjái að sér og axli ábyrgð séu þau einmitt að leggja sitt af mörkum til réttlátara samfélags, sem við öll þráum innst inni.

Eða viljum við réttlátt samfélag, eða viljum við bara vera meðvirk og halda með þessum eða hinum af því bara? 

 

 

 


mbl.is Bað Sigríði um upplýsingar um Omos
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 18. nóvember 2014

Um bloggið

Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Höfundur

Ásthildur Cesil Þórðardóttir
Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Tónlistarspilari

Ásthildur Cesil - Dagdraumar
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • 2f19c636fb68b249555c5fa250d3e103--russian-image-jellyfish
  • engill-angel
  • jolatre
  • 20171002 121526
  • gasometers-vienna-7[5]

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 34
  • Frá upphafi: 2020815

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 33
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband